Tíminn - 03.09.1988, Blaðsíða 8

Tíminn - 03.09.1988, Blaðsíða 8
Laugardagur 3. september 1988 8 Tíminn Tiinitin MÁLSVARIFRJÁLSLYNDIS, SAMVINNU OG FÉLAGSHYGGJU Otgefandi: Framsóknarflokkurinn og Framsóknarfélögin í Reykjavík Framkvæmdastjóri Kristinn Finnbogason Ritstjórar: Indriði G. Þorsteinsson ábm. IngvarGíslason Aðstoðarritstjóri: Oddur Ólaf sson Fréttastjórar: BirgirGuðmundsson Eggert Skúlason Auglýsingastjóri: Steingrímur G íslason Skrifstofur: Lyngháls 9, Reykjavlk. Sími: 686300. Auglýsingasími: 680001. Kvöldsímar: Áskrift og dreifing 686300, ritstjórn, fréttastjórar 686306, íþróttir 686332, tæknideild 686387. Setning og umbrot: Tæknideild Tímans. Prentun: Blaðaprent h.f. Auglýsingaverð kr. 465,- pr. dálksentimetri. Verð í lausasölu 60,- kr. og 70,- kr. um helgar. Áskrift 700.- Efnahagsmál og fjármál Þótt vinna til undirbúnings efnahagsaðgerðum og fjárlagagerð sé án efa á réttri leið, er þó ljóst að þessi mál eru seint á ferðinni, svo að allur frekari dráttur er af hinu verra. Ríkisstjórnin verður að vinna markvisst að því að hraða efnahagsaðgerðum og koma sér saman um fjárlagafrumvarpið. Ekki er vafamál að hinar almennu efnahagsað- gerðir hafa forgang í sambandi við það tvennt, að forma heildstæðar ráðstafanir í efnahags- og fjár- málum og að setja saman fjárlagafrumvarp. Aug- ljóst er að heildarráðstafanir í efnahagsmálum eru á allan hátt yfirgripsmeiri, því að þær varða allt efnahagskerfið, rekstur atvinnuveganna, umsvif hins opinbera, neyslustigið í landinu, þensluna, banka- og peningamál o.s.frv. Fjárlagagerðin er aðeins hluti af heildstæðum efnahagsaðgerðum. Sú vinna, sem þeim fylgir, tengist því beint niðurstöðu almennra efnahagsað- gerða. í því viðamikla heildardæmi er ríkisbú- skapurinn aðeins ein stærðin, en hvorki upphaf né endir efnahagskerfisins og þjóðarumsvifanna. Sannleikurinn er sá, að af hinum mörgu þáttum þjóðarbúskapar, þá bendir flest til þess að viðleitni til aðhalds hafi verið mest í ríkisbúskapnum, þvert ofan í almennar fullyrðingar í fjölmiðlum og manna á milli um það efni. Fað er alkunna, sem Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. fjármálaráðherra, rifjaði rétti- lega upp í blaðagrein nýlega, að framkvæmdir á vegum ríkissjóðs hafa sífellt verið að dragast saman. Er óhætt að segja að ríkissjóður stendur ekki fyrir þeirri vitlausu fjárfestingarþenslu sem viðgengst í þessu landi, heldur þvert á móti. Að svo miklu leyti sem fjárfestingarþenslan er verðbólguvaldur - sem hún er - og upphaf að fölskum neyslukjörum og innflutningsflóði, þá er það síst af öllu ríkissjóður, sem stendur fyrir slíku. Fjárfesting og bruðl með byggingafé er mest á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg á ómældan hlut í fjárfestingabrjálæðinu, og fær ríkisvaldið þar engum vörnum við komið. En ekki er minni hlutur alls kyns „einkavæðing- ar“, þ.e. fjárfestingaframkvæmda á vegum fyrir- tækja og einstaklinga, sem virðist vera orðin nánast sjálfvirk byggingamaskína, þar sem markmiðið er að búa til hús án tillits til þess hvort þau verða nýtt eða ekki. Þess vegna eru m.a. 40 þús. fermetrar af nýbyggðu verslunar- og skrifstofuhúsnæði til sölu í Reykjavík, sem engin þörf er fyrir og enginn vill kaupa. Á sama tíma blöskrast braskarar yfir því að ríkið er að lúsast áfram, áratug eftir áratug, með byggingu yfir menningarstofnanir þjóðarinnar, í einn tíma Ríkisútvarpið og til eilífðar Þjóðarbók- hlöðu, og einn og einn áfanga í barnaskóla hér og þar, og halda því fram að í þessu liggi fjáraustur og óraunhæf framkvæmdagleði. í sambandi við efnahagsaðgerðir nú verður að draga úr fjárfestingaþenslunni. En ráðamenn þjóð- arinnar verða þá að vita, hvar þenslunnar er að leita. Þrátt fyrir þjóðtrúna þá er framkvæmdagleði ríkisvaldsins ekki orsakavaldur í þessu tilfelli. S dag gerist sá merkisviö- burður í samgöngumálum á Suðurlandi að vígð verður til notkunar eitt mesta brúarmann- virki sem gert hefur verið hér á landi, Ölfusárbrú hjá Óseyrar- nesi. Ný brú á Ölfusá Svo augljóst sem það er, að hér er um stórvirki að ræða, sem vissulega er fjárfrek fram- kvæmd, þá er hitt jafnvíst að þessi brú er tímabært mannvirki, sem lengi hefur verið beðið eftir. Staðhættir við suður- ströndina hafa beinlínis kallað á þessa brúargerð, enda hefur hugmyndin um Óseyrarnes- brúna lengi lifað með Sunnlend- ingum, þótt ærinn tíma hafi tekið að hrinda henni í framkvæmd. Þess er að minnast að þegar hafist var handa um hafnargerð og grundvöll kauptúns í Þorláks- höfn fyrir meira en 40 árum, var það framsýnum mönnum aug- ljóst að Þorlákshöfn ætti eftir að verða lífhöfn Suðurlands og gat gagnast byggð og bæjum á stóru svæði, m.a. Eyrarbakka og Stokkseyri, þar sem hafnarskil- yrði eru afar erfið. En höfnin í Þorlákshöfn gat þó ekki komið að gagni í þessu tilliti nema þessar byggðir tengd- ust henni með vega- og brúar- gerð hina skemmstu leið, þ.e. yfir Ölfusá niðri við sjó. Þess vegna varð sú hugmynd til, sem sennilega hefur þótt nokkuð djarfleg, að gera yrði hið bráð- asta brú yfir fljótið á þessum stað, enda flest sem mælti bein- línis með því að brúin væri fremur skoðuð sem einskonar framlenging hafnargerðarinnar í Þorlákshöfn en venjulegt sam- göngumannvirki á landi. Frumvarp Jörundar1951 Á þessum merku tímamótum, þegar Óseyrarbrúin er tekin formlega í notkun er vert að rifja það upp að Jörundur Brynj- þlfsson, sem lengi var þingmað- ur Árnesinga, flutti árið 1951 frumvarp til laga um að ákveðin skyldi ný brú á Ölfusá hjá Óseyr- arnesi. í greinargerð tengir Jörundur þetta þingmál sitt hafnargerð- inni í Þorlákshöfn, sem þá var fyrir nokkru hafin og bendir á hversu slík brú væri mikilvæg fyrir hafnleysustaðina á Eyrar- bakka og Stokkseyri, þar sem margir dugandi menn sóttu sjó, en urðu oft fyrir töfum og Iand- legum, þótt sjóveður væri gott, vegna ófærðar út úr brimgarðin- um heima eða þess að þar var ekki leggjandi að landi, þótt á sjó hefði verið farið. Ýmis fleiri rök færir Jörundur fyrir þingmáli sínu, þótt ekki verði þau frekar rakin hér. Hann sér það m.a. fyrir sér að Þorláks- höfn eigi eftir að verða mikill tengiliður milli Vestmannaeyja og meginlandsins, sem vissulega hefur komið í ljós, þótt ekki tengist það brúargerðinni nema óbeint. Hitt er svo önnur saga að brúargerðin við Ölfusárósa dróst meira en Jörund og aðra Jörundur Brynjólfsson. framsýna Sunnlendinga dreymdi um. Til þess gátu ýmsar ástæður legið, enda hefur verið í mörg horn að líta síðustu áratugi í samgöngubótum og hvers kyns verklegum framkvæmdum hér á landi. Framfarahugur Ef til vill má nú segja að frumvarp Jörundar, sem flutt var fyrir 37 árum, heyri forsögu málsins til. En það er eigi að síður vitni um þann mikla fram- farahug sem þá ríkti í landinu. Vafalaust var hugur framfara- sinnaðra manna oft á undan raunverulegri getu þjóðfélagsins til þess að gera hugmyndir að veruleika. Þannig verður það á öllum tímum. En á tímamótum eins og þeim, sem nú eru í samgöngum á Suðurlandi, er vert að minnast frumkvæðis- manna. Frumvarp Jörundar Brynjólfssonar frá 1951 er merkileg söguleg heimild um vakandi áhuga Sunnlendinga á framtíðarmálefnum sínum. Einkavæðing Morgunblaðið gerir svo- nefnda einkavæðingu að umtals- efni í forystugrein nú í vikunni. Tilefnið virðist einkum vera sala borgaryfirvalda á hlutabréfum Reykjavíkurborgar í Hlutafé- laginu Granda, sem til varð fyrir fáum árum við sameiningu Bæjarútgerðar Reykjavíkur og ísbjarnarins h/f. Hér verður engin afgerandi afstaða tekin til þess, hvort brýnt var að selja þessa hluti eða hvort kaupverðið sé sanngjarnt og af- borgunarskilmálar eðlilegir. Það vekur að vísu athygli að sölu hlutabréfanna ber nokkuð brátt að og salan fer fram eftir eigin vali seljenda á kaupendum án nokkurra útboða. Slíkt er í meira lagi hæpin aðferð í þessu tilfelli. Hins vegar má sitt hvað finna að hugleiðingum Morgunblaðs- ins um „einkavæðingu“ almennt, því bæði er hugtakið sjálft ekki nákvæmlega skil- greint og svo hitt að einkavæðing í almennum skilningi þess orðs getur aldrei orðið nein allsherj- arlausn varðandi þjóðfélagsleg verkefni eða starfsemi á hinum ýmsu sviðum efnahagslífs og þjónustu. Einkavæðing er ekki algild úrlausn, en á að sjálf- sögðu fullan rétt á sér með öðrum hugmyndum um eignar- hald fyrirtækja eða rekstur þjón- ustustofnana. Reyndar hefur ekki borið á öðru en að Sjálf- stæðisflokkurinn hafi stuðlað að opinberum rekstri, jafnt í at- vinnumálum sem þjónustustarf- semi, og í því efni látið aðstæður og málefni ráða. Bæjarútgerðin og Sj álfstæðisforystan Þess er m.a. sérstaklega að minnast að Bæjarútgerð Reykja- víkur var stofnuð á borgarstjóra- árum Bjarna Benediktssonar og var fylgt fast eftir af hálfu Gunnars Thoroddsens auk þess sem Geir Hallgrímsson lét sig hafa það alla sína borgarstjóra- tíð að hrófla ekki við Bæjarút- gerðinni, enda mun það fyrir- tæki oftast hafa skilað sínu hlut- verki með sóma meðan það var og hét og andi Bjarna Bene- diktssonar og Gunnars Thor- oddsens sveif þar yfir vötnunum. Slík var hrifning sjálfstæðis- manna í borgarstjórn á Bæjarút- gerðinni og öllu sem henni fylgdi, að togarar útgerðarinnar voru látnir heita eftir föllnum forystumönnum einkavæðingar- innar, Jóni Þorlákssyni og Pétri Halldórssyni, ef ekki fleirum, og jafngilti því að reisa þeim minnismerki á almannafæri. Borgarstjóri fagnar Bæjarútgerð Bæjarútgerð Reykjavíkur varð til í sambandi við marg- fræga nýsköpun, þegar m.a. voru keyptir til landsins þrjátíu togarar á einu bretti og einkaað- ilár fengust ekki til að kaupa þá, svo að félagsrekstur í einhverju formi var óhjákvæmilegur. Þá- verandi borgarstjóri í Reykja- vík, Gunnar Thoroddsen, fagn- aði því sérstaklega við hátíðlegt tækifæri, að „nýr þáttur“ væri að hefjast í sögu Reykjavíkur með stofnun Bæjarútgerðarinnar, og þótt einhverjir andæfðu slíku rekstrarformi og eignarhaldi á atvinnufyrirtækjum, þá sagði borgarstjórinn það sína skoðun, að meginsjónarmiðið hljóti að vera það að fá atvinnutækin og halda þeim úti, enda muni óskir allra flokka sameinast í því að árna hinni nýju Bæjarútgerð Reykjavíkur heilla og gengis. Postular afturhvarfsins Þessi upprifjun úr pólitískri hugmyndasögu Sjálfstæðisflokks- ins bendir ekki til þess að þessi flokkur afneiti opinberum at- vinnurekstri og telji „einkavæð- ingu“ ófrávíkjanlegt stefnu- skráratriði. Öðru nær. Þetta sannar, sem allir vita nema afturhvarfspostular nýkapítal- ismans, að um rekstrarform og eignarhald atvinnufyrirtækja ráða engar algildar reglur í sið- uðum nútímaþjóðfélögum, heldur velja menn slíkt fyrir- komulag sem praktískar ástæður krefjast.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.