Tíminn - 10.09.1988, Blaðsíða 6

Tíminn - 10.09.1988, Blaðsíða 6
6 Tíminn Laugardagur 10. september 1988 Magnús Jóhannesson, siglingamálastjóri, í helgarviðtali: Kennsla og áróður til að vinna á kæruleysi Skýrsla Rannsóknarnefndar sjóslysa kom nýverið út og segja má að hún sé ógnvekjandi aflestrar. Tíminn greindi frá innihaldi hennar í gær en helstu orsakir slysa eru þar taldar vera óaðgæsla, þekkingarleysi, vanbúnaður og kæruleysi. Fram kemur að fjöldi slysa á síðasta ári var litlu færri en fjöldi skipa í flotanum. Um tíundi hver sjómaður varð fyrir bótaskyldu slysi þetta eina ár. Myndin sem dregin er upp er vægast sagt dökk. Tíminn ræddi við Magnús Jóhannesson, siglingamála- stjóra, um slysin og manntjónið á hafi úti. Er raurtveruleikinn jafn ógnvekjandi og þessi skýrsla Rannsóknarnefndar sjóslysa gefur til kynna? „Hvert einasta slys sem veröur á sjó er auðvitað einu slysi of mikið þannig að mér finnst sjálfsagt að menn noti kröftug orð til þess að koma sínum skilaboðum á framfæri. Þegar um er að ræða líf og heilsu manna geta menn aldrei notað of sterk orð. Aðstæður hafa mikið breyst í sjávar-. útvegi undanfarin ár. Skipin hafa stækkað og tæknin hefur önnur skilyrði í för með sér. Það þarf þó að hafa fleira í huga en bara fjölda skipa, fjöldi sjómanna skiptir líka miklu máli, en því miður virðist það vera svo að fjölgun slysa hefur orðið meiri en fjölgun sjómanna." Nú segja sumir að aldrei vcrði hægt að koma í veg fyrir þessi slys, að sjómennskan sé í eðli sínu áhættusamt starf og að þannig verði hún alltaf. „Það eru að minni hyggju afar vara- söm viðbrögð vegna þess að við getum náð miklu betri árangri. Ég er sann- færður um það. Slysin eru alltof mörg og ég get tekið undir það sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinn- ar, að eðlileg aðgæsla og varkárni virðist ekki vera viðhöfð. En það þarf margt að koma til svo hægt verði að vinna á þessu. Það sem skiptir höfuð máli í þessu sambandi er það að engar kröfur eða reglur eru til um undirbúning undir- manna á skipum. Venjan er sú að skipstjórnendur sýni nýliðum skipið og virkni þess en ég tel að aukin fræðsla og leiðbeiningar um störf sé nauðsyn- leg. Þá er ég beinlínis að tala um námskeið þar sem kennt yrði á allar tegundir veiðafærabúnaðar, átakabún- að eins og vindur og spil, og hvernig best er að standa að vinnu. Ég tel að sú aukna varkárni sem er nauðsynleg komi ekki fram nema með aukinni fræðslu og áróðri." Vanþekking skipstjórnenda Það stingur mann hvað nefndin telur vanþekkingu, vítavert kæruleysi og ábyrgðarleysi skipstjóra oft vera orsak- ir þeirra slysa þar sem skip hafa farist, strandað og lent í árekstri. Eru þessir menn færir um að gegna sínum störfum? „Við höfum ýmislegt við þessa skýrslu að athuga og ég harma það að rannsóknarnefndin treysti sér ekki til að mæta á fund í Siglingamálaráði sl. fimmtudag þar sem stofnunin ætlaði að setja fram sínar athugasemdir. Fjöl- margar ábendingar nefndarinnar eiga þó fullan rétt á sér. Um menntun og þjálfun skipstjóra vil ég segja að ég tel að víða sé pottur brotinn að því er varðar minnstu skipin. Þetta kann að skýrast að einhverju leyti af því að ekki er gerð krafa um að menn séu lögskráðir á skip undir 12 tonnum. Það er hins vegar krafa um ákveðna menntun skipstjórnarmanna á bátum allt yfir 6 metrum en vegna þess að það er ekki lögskráð er nánast ekkert eftirlit með því að lögunum sé framfylgt. Ástandið er hins vegar annað á stærri skipunum. Þar þurfa menn að taka próf til þess að öðlast réttindi. Sú menntun sem þeir fá tekur á öllum þessum þáttum sem rannsóknarnefndin bendir á að vanti. Kerfið sem slíkt er því búið að gera ráð fyrir þessum þáttum öllum saman. Á þessum skipum tel ég að mál séu almennt í góðu íagi og þar hefur orðið verulega mikil breytingá undanförnum árum. Auðvitað er þessi menntun tekin á mismunandi tímum en sú þjálfun og reynsla sem menn hafa fengið í starfi er auðvitað ómetanleg. Ég held að allir þeir menn sem hafa farið í gegnum Stýrimannaskólann hafi þann grund- völl sem eðlilegur er til að þeir geti sinnt sínum störfum. Ég tel því að þessar ályktanir nefndarinnar um þekk- ingarleysi skipstjórnenda eigi ekki við á stærri skipunum." Vanbúnaður skipa Nefndin telur einnig að mörg slys- anna megi rekja til vanbúnaðar skipa og „óforsvaranlegs viðhalds". Hvers konar eftirlit er haft með útbúnaði skipa? „Hvað varðar eftirlit Siglingamála- stofnunar þá er lögskipað árlegt eftirlit og þá eiga skoðunarmenn að fara yfir öll skip og búnað þeirra og ganga úr skugga um það að ástand skipa sé í samræmi við gildandi reglur. Á milli skoðana er ástandið á ábyrgð skip- stjórnarmanna og þeim ber að sjá til þess að búnaður sé í lagi á millí skoðana." Er þessum kröfum almennt fram- fylgt? „Ég held að það sé útilokað að alhæfa um þetta. Það er auðvitað á sjó eins og í öðrum stéttum að þar finnast menn sem standa ekki nægilega vel að málum en meirihluti manna, vil ég fullyrða, hefur þetta í góðu lagi. Það finnast þó dæmi. Ef ég nefni sem dæmi öryggisloka við línu og netaspil, sem hefur á síðasta áratug valdið byltingu í öryggi við netadrátt á vertíðarskipum. Okkar menn hafa komið í skip þar sem þessi loki hefur alls ekki verið í lagi og menn trassa það að gera við." Stöðugleiki skipa langtímaverkefni „... flest dauðaslys hafa orsakast af skorti á stöðugleika skipa... eða van- þekkingar skipstjórnarmanna á því hvað stöðugleiki skips er," segir í skýrslunni? Tekur þú undir þetta? „Það er rétt að taka fram að reglurn- ar um stöðugleika skipa eru frá 1976 og fyrir þann tíma voru engar reglur til. Þegar þær voru settar þótti mönnum ekki fært að láta þær gilda um eldri skip. Nú er staðan þannig í dag að það eru til gögn fyrir um 460 skip í fiski- skipaflotanum af þeim 890 sem eru á skrá. Þessar reglur byggja hins vegar á reynslunni, þ.e.a.s. þær voru sniðnar upp eftir skipum sem voru búin að klára sig í alls konar veðrum áður. Þó að skipin uppfylli þessar reglur þá þýðir það alls ekki að skip geti ekki farist því að stöðugleikinn er ekki ein stærð sem bara fylgir hverju skipi um alla framtíð. Hleðsla á afla, áhrif veiðarfæra og ýmsir aðrir utanaðkom- andi þættir hafa þarna áhrif á. Þess vegna er það grundvallaratriði að það sé samspil á milli þekkingar skipstjórn- arrrianna og stöðugleika skipa. Þess vegna hefur stofnunin sl. 1-2 ár unnið að því að gerðar verði víðtækar endurbætur á þessu sviði, ekki bara í stöðugleikamælingum heldur aukinni fræðslu. Það ber að hafa í huga að kennsla skipstjórnarmanna í stöðug- leika fiskiskipa hófst ekki í Stýrimanna- skólanum fyrr en á síðasta áratug þannig að fjölmargir, allir þeir sem menntuðust fyrir þann tíma, fengu ekki þá grundvallarþekkingu í skólan- um sem æskileg er. Við höfum verið núna að undirbúa bækling sem er að koma út þessa dagana um stöðugleika fiskiskipa og jafnframt því hefur verið unnið að því að setja upp námskeið fyrir þá skips- stjórnarmenn sem áhuga hafa. í þriðja lagi gerðum við kröfur um mælingar á ákveðnum skipum. Það sem ber einna helst að varast þar er þegar gerðar eru breytingar á þessum skipum. Allar breytingar sem gerðar eru ber að tilkynna til stofnunarinnar og ef þær eru þess eðlis að þær hafi áhrif á stöðugleika gerum við kröfu um stöð- ugleikamælingar. Þetta er gert jafnvel þó þau séu smíðuð fyrir gildistöku reglnanna. Þá fara nú fram sérstakar mælinga á minni skipum sem stunda átakaveiðar og á öllum rækjubátum sem stunda veiðar í ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Núna á 2 ára tímabili þá hefur skipum sem ekki hefur stöðugleikapróf fækkað um 150. Þarna er verið að vinna að verkefni sem er að minni hyggju langtímaverkefni. Við leysum það ekki á einum degi, það er alveg ljóst." Óraunhæfar vonir bundnar við sjálfvirka sleppibúnaðinn Nú segir í skýrslunni að sjálfvirki sleppibúnaðurinn hafi engum manni bjargað. „Eg geri greinarmun á því hvort búnaðurinn virkar eða hvort að hann verði til þess að menn bjargist. Það er rétt að hafa í huga að það er tvenns konar útfærsla á þessum búnaði í flotanum. Á stærri skipunum er búnað- ur sem á að skjóta honum frá skipunum en á minni skipunum, undir 15 metrum, er ekki gerð krafa um slíkan búnað. Það eru einkum minnstu skipin sem ummæli nefndarinnar eiga við. Til eru dæmi um það að búnaðurinn hafi virkað eðlilega á stærri skipunum. Það voru miklar vonir bundnar við þennan búnað, kannski óraunhæfar vonir. Það er ekki nægilega rökstutt í skýrslunni, að mínu mati, að búnaður- inn hafi ekki virkað eins og gert var ráð fyrir í reglugerð. Það að bátar komi ekki upp getur átt sér ýmsar aðrar skýringar en að búnaðurinn hafi ekki virkað. Þeir geta hafa fests með einum eða öðrum hætti við skipið. Einmitt í framhaldi af þessum slysum sem orðið hafa á minnstu skipunum lögðum við til að það yrði gerð breyting á reglugerðinni og gerðar prófanir á búnaðinum sem Ieiddu í ljós hvers við gætum vænst af honum. Ég er að vona það að þessar prófanir sem nú fara fram hjá Iðntæknistofnun, í samráði við Siglingamálastofnun, megi leiða þetta í ljós. Það er mitt álit að búnaðurinn hafi verið lögleiddur áður en fram höfðu farið nægilega ítarlegar prófanir. Það tekur fleiri ár að þróa hliðstæðan búnað í skip í öðrum löndum og lögleiðing kemur ekki til greina fyrr en 5-10 árum eftir að búnaðurinn kemur fram. Ég vil þó leggja áherslu á það að þó að menn hafi orðið fyrir vonbrigðum hefur hann leitt af sér aukið öruggi, því í langflestum tilvikum hefur hann orðið til þess að staðsetning bátanna er orðin mun betri en áður var. Þessi búnaður getur aldrei dregið úr öryggi gúmmíbát- anna. Jafnvel þó sú staða kæmi fram að hann virkaði ekki, þá er hægt að losa hann eftir sem áður með handafli." Mikil fjölgun smábáta Siglingamálastofnun sér um eftirlit með smíði og búnaði skipa og árlegt eftirlit með útbúnaði skipa. Er stofnun- in vel í stakk búin til að sinna þessum skyldum? „Verkefnin hafa vaxið mjög mikið síðustu 2-4 árin. Þar kemur til mjög mikil fjölgun og vaxandi sjósókn á smábátum. Það var reyndar þannig að eigendur smábáta sinntu mjög illa þess- ari skoðunarskyldu sinni. Við höfum hins vegar lagt okkur fram um að ná til þessara manna og ég hef orðið var við það að sú óánægja sem er hjá sumum eigendum smábáta með þær kröfur sem við gerum, stafar að miklu leyti af því að menn þekkja hreinlega ekkí reglurnar. Þess vegna höfum við lagt okkur fram um að kynna þessar reglur með bæklingum og að ræða við eigend- ur og útskýra hvað liggur að baki. Þetta hefur skilað þeim árangri að í fyrra skoðuðum við um 1300 smábáta af 1550 en 1985, skoðuðum við aðeins 300-400 báta af 1300. Þarna hefur orðið veruleg breyting á en eins og þróunin hefur verið erum við á mörkunum með að ráða við þetta verkefni með þann mannafla sem við erum með." Hvernig heldur þú að samskonar skýrsla um sjóslys muni líta út eftir 5-10 ár? „Þó stöðugleiki skipa sé langtíma- verkefni eru vinnuslys sem hægt er að rekja til óaðgæslu og óvarkárni það ekki. Á þeim verðum við að taka og ég leyfi mér að vona það að slysaskýrslur framtíðarinnar verði ekki eins dökkar og þessi." JIH

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.