Tíminn - 13.10.1988, Blaðsíða 8

Tíminn - 13.10.1988, Blaðsíða 8
8 Tíminn Fimmtudagur 13. október 1988 Tímiim MÁLSVARIFRJÁLSLYNDIS, SAMVINNU OG FÉLAGSHYGGJU Útgefandi: Framsóknarflokkurinn og Framsóknarfélögin i Reykjavík Framkvæmdastjóri Ritstjórar: Aðstoöarritstjóri: Fréttastjórar: Auglýsingastjóri: Kristinn Finnbogason Indriði G. Þorsteinsson ábm. IngvarGíslason OddurÓlafsson Birgir Guðmundsson EggertSkúlason SteingrímurGíslason Skrifstofur: Lyngháls 9, Reykjavík. Sími: 686300. Auglýsingasími: 680001. Kvöldsímar: Áskrift og dreifing 686300, ritstjórn, fréttastjórar 686306, íþróttir 686332, tæknideild 686387. Setning og umbrot: Tæknideild Tímans. Prentun: Blaðaprent h.f. Auglýsingaverð kr. 465,- pr. dálksentimetri. Verð í lausasölu 60,- kr. og 70,- kr. um helgar. Áskrift 700.- Verslunarástandið Skipulag verslunar og vörudreifingar er vafalaust eitt mikilsverðasta hagsmunamál almennings og þjóðfélagsins í heild. Þannig hefur það verið á öllum tímum, enda hefur hver þjóðfélagsgerð gegnum mannkynssöguna leitast við að móta sér verslunar- og viðskiptaskipulag, sem hentaði tímanum eða þekking, samgöngur og siðleg afstaða gátu yfirleitt komið til leiðar. Saga verslunar og viðskipta í aldanna rás geymir að sjálfsögðu margar furðusögur af verslunarhátt- um og siðfræði kaupmannastéttarinnar, svo að varla yrðu margir til þess að taka sér það til fyrirmyndar nú á dögum. Eins er það ljóst að margt af því sem yfirvöld og stjórnmálamenn fyrr á tímum tóku til bragðs til þess að tryggja sanngjarna og skynsamlega verslun, snerist í andhverfu sína sem bölvaldur þjóðanna og einokun. Allir ættu að geta orðið sammála um að nútímaþjóðfélagi hentar ekki frumstæður áhættu- rekstur og braskkennd fífldirfska í verslunarmálum að hætti eyðimerkurkaupmanna úr Þúsund og einni nótt eða vopnaðra sæfara, sem sigldu um heimshöfin sem sjóræningjar og kaupmenn, hvort tveggja í senn. Það er heldur ekki eftirsóknarvert að ríkisvaldið fari að hlutast til um verslunarrekstur með einokunaraðferðum og óumbreytanlegum verðákvörðunum og löggildingu verslunarstaða eftir einhverri þumalputtareglu. Nútíminn hefur áreiðanlega yfir að ráða betri aðferðum til skynsamlegs verslunarskipulags en frumstæða og illvíga samkeppni á annan kantinn og opinbera íhlutun á hinn. Það er í hæsta máta óheppilegt fyrir skynsamlegt skipulag á verslunar- sviði, ekki síst í smásöluverslun, sem stendur almenningi næst, að þar sé efnt til styrjaldarástands undir kjörorðinu að „þeir hæfustu lifi af“, enda engin sönnun fyrir því að slík fullyrðing standist. Þessum hugsunarhætti fylgir gífurleg sóun eins og dæmin sanna í okkar litla þjóðfélagi. Samkeppnis- andinn rekur verslunina m.a. út í fjárfestingaræði, sem þjóðfélagið rís ekki undir og er banabiti arðbærrar verslunar. Nú er tímabært að ábyrgir forystumenn einka- verslunar og samvinnufélaga efni til samráða sín á milli um verslunarástandið í landinu. Slík samráð þurfa ekki að ganga út á neins konar kvótaskipt- ingu eða helmingaskipti milli þessara verslunar- forma. Hins vegar ættu þeir, sem þessum málum ráða, að viðurkenna tilveru hvors annars og ræða þær skyldur, sem milliliðirnir í þjóðfélaginu hafa, umfram það eitt að græða peninga eða verja stöðu sína. Ástand verslunarmálanna er ekki heilbrigt eins og sakir standa. Forráðamenn verslunar hafa ekki sýnt fram á með sennilegum rökum hvers vegna tap á smásöluverslun er jafnalgengt og reynslan sannar. Frá almennu sjónarmiði er það illskilj an- legt að ekki skuli vera hægt að halda uppi sæmilega arðbærri verslun í velsældarþjóðfélagi, þar sem kaupgeta er mikil og obbinn af launum fólks streymir í gegnum í smásölukerfið. garri Tannlæknarnir enn Það virðist ekki eiga af íslensk- um tannlæknum að ganga nú í seinni tíð. Á föstudaginn birti Pressan, Helgarpóstsútgáfa Al- þýðublaðsins, heilsíðugrein þar sem þeir eru bornir þvílíkum vömmum og skömmum að langt þarf að leita til að finna nokkuð sambærilegt. í stuttu máli er þarna reiknað út að um 200 starfandi tannlæknar í landinu hafi nú um 2.200 miljónir króna í brúttótekjur á ári. Aftur á móti telji þeir ekki fram tii skatts nema um 1.000 miljónir af þessari upphæð. Með öðrum orðum að hver þeirra telji að meðaltali ekki fram nema rúmlega 5 miljóna króna árstekjur, á sama tíma og raunverulegar brúttótekjur þeirra séu nær 11 miljónum. Þarna séu með öðrum orðum á ferðinni skatt- svik upp á 6 miljónir króna á ári á hvern tannlækni. Ekki treystir Garri sér til að segja til um hvort meira sé að marka þetta en annað sem svona dags daglega stendur í Alþýðublað- inu. En hinu verður ekki neitað að Ijótur er áburðurinn. Inn í tryggingakerfið? Hér er blaðið með öðrum orðum að bera það upp á þessa tvö hundruð tannlækna að þeir fremji árlega stór og alvarlega afbrot, að þeir stingi í eigin vasa meira en helmingi þeirra peninga sem þeim ber samkvæmt landslögum að greiða til samneyslunnar í þjóðfé- laginu. Svona rétt eins og aðrir borgarar þessa lands sem reyna að greiða skatta sína og skyldur nokk- urn veginn með skilum. Þetta er svo stóralvarlegur áburöur að þess verður að vænta að hafi tannlæknar allt sitt á hreinu þá gefi þeir nú út snöfurmannlega yfirlýsingu og leggi gögnin á borðið. Það ætti að vera auðunnið verk ef þeir geta á annað borð hrakið þennan áburð, og verður nú fróðlegt að sjá hvað samtök tann- lækna gera á næstu dögum. En hitt er annað mál að sé fótur fyrir stórfelldum skattsvikum tann- lækna þá er einföld leið til að komast fyrir þau. Man Garri raun- ar ekki bctur en að á þá leið hafi verið bent fyrir tæpum tveimur árum þegar Jóhanna Sigurðardótt- ir, núverandi félagsmálaráðherra, gerði hvað mestan hávaðann út af skattskilum tannlækna á Alþingi og vakti þá töluverða athygli. Þessi leið er að rcikna það út hvað full skattskil tannlækna myndu skila miklum viðbótartekj- um inn í ríkissjóð. Taka svo þá upphæð og leggja hana til Trygg- ingastofnunar ríkisins, sem síðan yrði falið að endurgreiða öllum landsmönnum vissa prósentu af útlögðum kostnaði við tannvið- gerðir, sem samtals næmi þessari sömu fjárhæð. Með því móti yrði allur kostnaður við tannviðgerðir skráður á einum stað hjá Trygg- ingastofnun, aðgengilegur fyrir skattayfirvöld, og allur áburður á tannlækna um skattsvik væri þar með úr sögunni. Ofan í kaupið þyrfti þetta ekki að kosta ríkissjóð krónu. Til léttis fyrir tannlækna Ekki er heldur að efa að slík fyrirkomulagsbreyting yrði til léttis fyrir tannlækna. Þeir gætu þá aftur farið að ganga nokkurn veginn uppréttir innan um aðra, og líka er að því að gæta að hér yrði um framför að ræða að því er varðar almenna tannvemd þjóðarinnar. I umfjöllun Pressunnar kemur nefnilega líka fram að láglaunafólk fer mun síður í reglubundið eftirlit til tannlækna en þeir sem betur komast af, og þarf ekki að efa að þar ræður kostnaðurinn mestu. Með þátttöku almannatrygginga í þessum kostnaði mætti vænta þess að fólk sækti fremur til tann- læknanna en það gerir kannski núna. Að ekki sé talað um ósköpin ef þar með væri lokið einhliða ákvörðun tannlækna um gjaldtöku sína, og í staðinn yrðu þeir að fara að semja um laun sín líkt og aðrar stéttir þjóðfélagsins. Sannleikurinn er vitaskuld sá að almennt launafólk munar talsvert um þær háu fjárhæðir sem reglu- bundið eftirlit með tönnum meðal- fjölskyldu kostar í dag. Þess vegna er það líka að frétt Pressunnar um 6 miljóna skattsvik hvers tann- læknis að meðaltali hlýtur að vekja mikla athygli. Tannlækningar eru nú einu sinni ekki annað en hluti af almennri heilbrigðisþjónustu þjóðarinnar. Þær eru engar töfra- lækningar. Þær eru einungis verk, unnin af fólki sem aflað hefur sér tii starfa sinna menntunar sem á flestan hátt er sambærileg við það sem stór hluti þjóðarinnar í öðrum starfsgreinum býr yflr. Þess vegna verður heldur ekki séð að þessi tiltekna stétt geti með nokkurri sanngirni gert launakröfur sem ganga langt út yfir það sem aðrir búa við. Hvað þá að hún geti leyft sér að svikja undan skatti. Garri. III VÍTT OG BREITT lllllllllllllll Ófarir góðærisins Það virðist vera lögmál veiði- mannaþjóðarinnar sem byggir ísland, að þegar aflabrögð glæðast og árgæska eykst til lands og sjávar er öllu efnahagslífi stefnt í voða með óhófseyðslu og lántökum, sem síst ætti að vera þörf á þegar vel veiðist og markaðirnir blómstra. Á eftir góðæri fylgja efnahags- ráðstafanir sem þrengja hag þjóð- arbús, fyrirtækja og heimila, og auka stjórnmálamönnum vinsældir eða óvinsældir eftir ástæðum. Seint ætlar að lærast að safna til mögru áranna þegar betur árar, en þvert á móti safnað skuldum og verð- bólga mögnuð upp einmitt þegar best lætur. Steingrímur Hermannsson, for- sætisráðherra, vék að þessu fyrir- bæri á beinni línu DV, sem tíunduð var í blaðinu í gær. Hann var að svara spumingu um hvers vegna verðbólga væri meiri á íslandi en í nágrannalöndunum og dró Stein- grímur í efa að nokkur gæti svarað þeirri spumingu, svo viðhlítandi væri. Vitund og viðurkenning En forsætisráðherra sýndi fram á að samhengi er milli afla, þjóðar- tekna og verðbólgu. Þegar afli eykst byrjar ávallt verðbólga skömmu á eftir, því þá byrjar þensla og virðist sem hér verði kreppa á 14-15 ára fresti. Hún er brúuð með því að fella gengið, sem aftur leiðir til verðhækkana. Þá er gerð tilraun til að lækka launin, sem ekki hefur tekist. Ekki tókst að slá á þensluna í góðærinu 1986-7 og síðara árið komu fjórir milljarðar kr. inn í landið umfram áætlun. Sparifé jókst og upp úr því fer peningamarkaðurinn að fara úr jafnvægi og fer að leita í spekúla- sjónir og gróðabrall og frá undir- stöðuatvinnuvegunum. Grái mark- aðurinn varð til áður en nokkur löggjöf náði yfir hann og engin löggjöf var til um kaupleigur þegar þær spmttu upp alskapaðar og urðu bráðlega umsvifamiklar í pen- inga- og athafnalífi. Steingrímur Hermannsson dreg- ur enga dul á að hann er meðal þeirra sem sök eiga á þenslu góð- ærisins og að sínu viti hafi allt litið vel út 1986, þegar vextir og verð- bólga fór lækkandi og sparnaður jókst. En svo fór að halla undan. Peningahyggjuna úr óndvegi Óþarfi er að rekja þá sögu lengra því ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk á limminu þegar ekki náðist samkomulag um að stöðva þenslu og verðbólguþróun þegar mest reið á. En alltof lengi hélt frjálshyggjan í þá tálsýn að markaðurinn háheilagi mundi jafna út þenslur og verðbólgu, viðskiptahalla og lánsfjárhungur og jafnvel koma í veg fyrir gjald- þrotin og atvinnuleysi í ótal byggð- arlögum. Ótakmarkað frelsi markaðarins virkar einfaldlega ekki þannig á íslandi. Þjóðhættulegur viðskipta- halli og meira en lítið varhijgaverð skutdasöfnun í útlöndum og sí- hækkandi vaxtaokur innanlands var það sem markaðs- og peninga- hyggjan var að leiða yfir þjóðina þegar stungið var við fótum og sagt hingað og ekki lengra. Stjórnarskiptin em út af fyrir sig engin trygging fyrir að hægt verði að rétta stefnuna og komast á lygnari sjó, því margt eða næstum allt er ógert til að bægja ófömm góðærisins frá. Hitt er annað mál að hálfnað er verk þá hafið er og það er mikils- vert að vitneskja og viðurkenning liggur fyrir um hvemig svokallað góðæri leikur atvinnuvegina og af- komu ríkis og fyrirtækja. Efna- hagsástandið er vel hægt að lagfæra með samstilltu átaki og góðum vilja, en þá verða stjómmálamenn og aðrir að láta af öllum flottræfils- hætti og sníða ríkissjóði og sjálfum sér stakk eftir vexti. Ráðamenn ættu að varast öll stóryrði um kostnaðarsama minn- isvarða sem þá langar að reisa yfir sig og fara nú að spara í alvöru, bæði í orði og verki og einbeita sér að viðreisn efnahagslífsins eftir dýrkeypt góðæri. OÓ

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.