Tíminn - 18.10.1988, Blaðsíða 2

Tíminn - 18.10.1988, Blaðsíða 2
2 Tíminri _____ÞHö|uda^Fl8.;qÍ<t^:á9a8 Þrítugasta og fimmta þing BSRB hófst í gær. Kristján Thorlacius dregur sig í hlé: KRISTJAN HÆTTIR Þrítugasta og fimmta þing BSRB hófst í gærmorgun. Kristján Thorl- acius sem verið hefur formaður bandalagsins síðan 1960 lýsti því yfir að hann yrði ekki í kjöri til formannsembættisins. Sterklega hafði verið búist við því að Kristján gæfi þessa yfirlýs- ingu, enda hefur hann áður gefið í skyn að hann hyggðist ekki gefa kost á sér, t.d. með því að lýsa yfir stuðningi við einn þriggja fram- bjóðenda til formannskjörs; Guð- rúnu Árnadóttur. Kristján Thorlacius setti þingið. Hann sagðist hafa dregið að gefa afdráttarlausa yfirlýsingu um að hann hyggðist draga sig í hlé, þar sem hann teldi „skyldu formanns BSRB að gegna því starfi á mark- tækan hátt til loka kjörtímabils hans“. Kristján sagði í setningarræðu sinni að bandalaginu væri það höfuðnauðsyn að móta heildar- stefnu í kjaramálum og standa fast um hana síðan. Þinginu bæri að taka ákvörðun um til hvaða ráða yrði gripið ti! að koma í veg fyrir kjaraskerðingu. Þá minntist hann á lífeyris- sjóðsmál opinberra starfsmanna méð hliðsjón af frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um lífeyrismál allra landsmanna. Hann sagði að þetta þing BSRB yrði að taka skýra afstöðu um að opinberum starfsmönum yrði áfram tryggður sá réttur til lífeyris sem þeir hafa þegar náð. Fyrir þinginu liggur tillaga til breytinga á lögum bandalagsins um að kjörnir trúnaðarmenn sitji ekki lengur í stöðum en þrjú kjör- tímabil eða níu ár. Kristján sagði að samþykkt slíkr- ar tillögu yrði mikið óheillaspor fyrir BSRB meðal annars vegna þess að enginn taki að sér slík störf nema vegna áhuga á félagsmálum. Að loknum ávörpum gesta fluttu konur í BSRB leikþátt sem þær fluttu á norrænu kvennaráðstefn- unni í Osló, en síðan fór fram nafnakall þingfulltrúa og úrskurð- að var um kjörbréf. Til orðaskipta kom milli fulltrúa kjörbréfanefndar, Einars Ólafs- sonar og nokkurra þingfulltrúa vegna þingsetu fulltrúa Fóstrufé- lags íslands og Meinatæknafélags fslands. Þessi félög voru stofnuð á árinu en félagar þeirra voru áður innan vébanda annarra félaga innan BSRB. Stjórn og kjörbréfanefnd BSRB taldi rétt að veita fulltrúum þessara nýju félaga rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétti en án at- kvæðissréttar. -sá 212 fulltrúar sitja þrítugasta og fimmta þing BSRB. Lítið eitt til vinstri sést ögmundur Jónasson sem er einn þriggja frambjóðenda til formanns- kjörs. Honum á hægri hönd situr Sesselja Hauksdóttir, einn sex fulltrúa Fóstrufélags íslands en aðild Fóstrufélagsins að BSRB verður cndanlega afgrcidd á þessu þingi. Tímamynd: Gunnar Kristján Thorlacius fráfarandi formaður BSRB blaðar í þingskjölum á 35. þingi bandalagsins. Gegnt honum situr Albert Kristinsson fyrsti varaformaður sambandsins. Baráttan um formennsku í BSRB hafin milli frambjóðendanna þriggja: n VilHa vinstrið“ haft Ogmundar Flokkadrættir eru að hefjast fyrir formannskjör BSRB eftir að Kristján Thorlacius hefur lýst því yfir að hann dragi sig í hlé frá formennsku. Stuðningsmenn frambjóðendanna þriggja, þeirra Guðrúnar Árnadótt- ur, Ögmundar Jónassonar og Örlygs Geirssonar eru farnir að hugsa sér til hreyflngs og „plottin“ að komast í gang. Einna erfiðast þykir ganga að setja flokkspólitískan merkimiða á Guðrúnu Árnadóttur, en hún er framkvæmdastjóri BSRB og þykir hafa staðið sig með ágætum, eink- um í samstarfi við norræn verka- lýðsfélög um stefnumörkun þeirra varðandi afstöðu til Efnahags- bandalags Evrópu og í jafnréttis- málum. Menn telja líklegt að Guðrún njóti verulegs stuðnings kvenna og að framboð hennar verði tengt að einhverju leyti jafnréttis- og kvennabaráttu en 67% meðlima BSRB eru konur. Þó þykir mörgum að ótvíræður stuðningur Kristjáns Thorlaciusar gæti orðið henni til trafala fremur en til framdráttar. Ögmundur Jónasson er talinn njóta stuðnings Alþýðubanda- lagsmanna enda eigni þeir sér hann sem sinn mann. Þótt Ögmundur sé ekki flokks- bundinn allaballi þá þykja póli- tískar hugmyndir hans vera í vinstri kantinum og sverja sig í ættir við þær skoðanir sem menn þar í flokki flagga tíðum. BSRB fólk sem Tíminn ræddi við í gær sagði að slíkar vinstri skoðanir ættu tæplega meirihluta- fylgi að fagna hjá þingfulltrúum og því gæti stuðningur „villta vinstris- ins“ orðið Ögmundi til trafala og hann tapaði frekar á opinberum stuðningi yfirlýstra Allaballa. Viðmælendur Tímans töldu að Ögmundur ætti því minnsta mögu- leika frambjóðendanna þriggja á að ná kjöri þrátt fyrir að hann væri að öllu leyti hinn mætasti maður eins og hann hefði sýnt með starfi sínu í Sigtúnshópnum, eða mis- gengishópnum svokallaða og sem formaður Starfsmannafélags Sjón- varpsins. Eins og nú horfir er því líklegt að slagurinn um formennsku BSRB muni standa milli Guðrúnar og Örlygs Geirssonar. Örlygur er yfirlýstur Krati og talinn njóta stuðnings yfir á hægri væng hins flokkspólitíska mynsturs og Haraldur Hannesson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkur- borgar, er sagður mikilvægur stuðningsmaður hans. Örlygur er skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu og margir, einkum vinstri menn og þeir sem aðhyllast „kvennapólitík- ina“ telja hann dæmigerðan kerfis- karl og því fái hann ekki fulltingi þessara hópa. -sá y Auglýsing meö forstjóra Þjóðhagsstofnunar rædd viö fjárlagagerð: Utboð á utanlandsferðum Hún hefur vakið athygli margra, auglýsingin með Þórði Friðjónssyni forstjóra Þjóðhagsstofnunar í dagblöðunum fyrir helgi, þar sem hann auglýsir dýrasta farrými Flugleiða, Saga Class. Þetta þykir ekki hvað síst fréttnæmt fyrir þær sakir að auglýsingin birtist á sama tíma og hvatt er til sparnaðar í ríkisrekstri, auk þess sem þessa dagana er verið að koma saman fjárlagafrumvarpi. Lögð var fram tillaga á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku þess efnis að leitað yrði útboða, til að lækka kostnað við fargjöldin hjá ríkisstarf- smönnum í embættiserindum. Bent hefur verið á, hvort sem ferðir ríkisstarfsmanna á Saga Class leiði til sparnaðar fyrir ríkið eða ekki þegar upp er staðið, að þá sé auglýsingin án efa ranglega tímasett. Til umræðu kom við undirbúnings- vinnu fjárlaga fyrir helgi að hægt væri að skera af framlagi ríkisins til stofnunarinnar sem næmi þeim tekj- um sem fengjust fyrir auglýsinga- starfsemi starfsmanna stofnunarinn- ar. Bolli Þór Bollason skrifstofustjóri hagdeildar fjármálaráðuneytisins og formaður ferðakostnaðarnefndar sagði aðspurður í samtali við Tím- ann að ferðakostnaðarnefnd ákvæði eingöngu dagpeninga á ferðum ríkis- starfsmanna, þ.e. fyrir gistingu og fæði. „Okkar hlutverk er ekki að hafa afskipti af fargjöldum," sagði BoIIi. ^ Bolli sagðist ekki getað svarað : fyrir það, hvort almennara væri að ríkisstarfsmenn ferðuðust á Saga Class eða ekki. Hann sagði að reglan væri sú að hver ríkisstarfsmaður þyrfti að fylla út ákveðið umsókn- arblað um ferðaheimild sem skrif- stofustjóri viðkomandi ráðuneytis, eða yfirmaður stofnunar yrði að samþykkja. „Eftir sem áður hlýtur þetta alltaf að vera samt spurningin um það hvort menn séu úti sex daga til þess að vera á fundi sem tekur hálfan dag, til þess að spara fargjald," sagði Bolli. Almenna reglan á ódýrari far- gjöldum Flugleiða er sú að farþegi verður að vera erlendis aðfaranótt sunnudags. Bolli var spurður hver það væri sem ákveður hvort ríkis- starfsmaður fer á laugardegi, eða á mánudegi til útlanda á fund, sem er t.d. eftir hádegi á mánudegi. Bolli sagði að lokaorðið hefði vænt- anlega yfirmaður stofnunarinnar. Hann taldi að tilvik sem þessi væru oft nýtt, þ.e. að fara út á laugardegi, til að ná ódýrara fargjaldi, enda hefðu menn ekkert á móti því að fá einn aukadag. „Það sem ég þekki til af þessu, þá eru þetta yfirleitt það stuttir fundir að mönnum er hrein- lega ekki boðið upp á neitt annað en að eyða sem minnstum tíma erlend- is, þá er ég frekar að tala um þá sem eru í hærri stöðum," sagði Bolli. Aðspurður sagði Bolli að persónu- lega hefði honum þótt auglýsingin skjóta skökku við, í þeim efnahags- þrengingum sem þjóðfélagið á við að etja. Auk þess sem hún birtist á sama tíma og fjárlög eru rædd í ríkisstjórn. Lögð hefur verið fram tillaga í ríkisstjórn þess efnis að kannað verði hvort ekki megi ná betri far- gjöldum með því að ná góðum samningum með útboði. Við útboð sem þetta er erfitt um vik, þar sem nánast eitt flugfélag flýgur á um 90% þeirra staða sem ríkisstarfsmenn fljúga tii. Til að gefa lesendum nokkra hug- mynd um verðmun á lægsta fargjaldi og Saga Class fargjaldi, þá er lægst fargjald á flugleiðinni fsland-Kaup- mannahöfn 18.780 krónur, sam- kvæmt upplýsingum sem fengust á einni söluskrifstofu Flugleiða. Skilyrðin eru að farþegi verður að vera aðfaranótt sunnudags erlendis, (sunnudagareglan) auk þess sem far- ið verður að bókast og greiðast 14 dögum fyrir brottför. Þá er næsta fargjald á sömu flugleið á kr. 24.880, þar gildir sunnudagareglan, en ekki er krafist fyrirfram bókunar eða greiðslu. í þriðja lagi er um Saga Class að ræða, þar sem fargjaldið er kr. 53.640. Viðkomandi getur verið eins stutt og hann vill, og ekki þarf að bóka eða borga með fyrirvara. Sæti þurfa að vísu að vera fyrir hendi. -ABÓ

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.