Tíminn - 30.08.1989, Blaðsíða 7

Tíminn - 30.08.1989, Blaðsíða 7
Miðvikudagur 30. ágúst 1989 Tíminn 7 Sigurður B. Stefánsson, forstjóri verðbréfamarkaðar Iðnaðarbankans: Ríkissjóður umsvifamikill lántakandi næstu árin Halli á rekstri ríkissjóðs á árinu 1988 nam um 8 milljörðum króna. í júlímánuði sl. gaf ný áætlun fjármálaráðuneytis til kynna að hallinn á árinu 1989 yrði um 4 milljarðar króna þótt með fjárlög- um þessa árs hafi verið stefnt að hallalausum rekstri. Við þessum nýju upplýsingum var brugðist með áformum um lækkun útgjalda um 800 milljónir króna og auknum lántökum á innlendum markaði fyrir því sem þá var eftir. Ein lítil nefnd um fjárhagsvanda Þjóðleik- hússins gerði sér síðan lítið fyrir og lagði til að ríkið tæki á sig 470 milljóna króna útgjöld vegna Þjóðleikhússins í haust. Sú fjárhæð nemur meira en helmingi af því sem stjórnvöld hugðust lækka út- gjöld um á síðari hluta ársins (um 800 milljónir). Þessi stutta saga er aðeins lítið dæmi um fjárskort ríkissjóðs nú. Þann fjárskort er ekki að rekja til ákvarðana núverandi ríkisstjórnar fremur en nokkurrar einnar ríkis- stjórnar á síðustu árum. Á síðustu tveimur áratugum hefur opinber þjónusta aukist til muna eftir því sem stjórnvöld á hverjum tíma hafa talið sig knúin til þess að fullnægja kröfum velferðarþjóðfé- lagsins. Enginn ágreiningur er meðal kjósenda um það að þeir vilja betri skóla, heilsugæslu, vegakerfi, húsnæðiskerfi, öruggari löggæslu, þyrlur til að aðstoða sjómenn á hafi úti þegar í nauðir rekur o.s.frv. Læknavísindum hefur fleygt fram og ný tækni hefur kallað á ný tæki á sjúkrahúsin til að unnt sé að gera flóknustu aðgerðir sem áður voru ómögulegar. Skólarerubúnirtækj- um sem áður voru ekki til, nútíma- samgöngutæki gera mun meiri kröfur til vega, flugvalla, hafnar- mannvirkja, flugturna, flughafna og flugumsjónar, o.s.frv. o.s.frv. Auk þess er þjóðin að eldast (fólki á eftirlaunaaldri fjölgar í hlutfalli við fólk á vinnualdri) og útgjöld vegna heilsugæslu og trygginga- bóta aukast af þeim sökum. Það er raunar talið að útgjöld hins opinbera aukist að raunvirði um 3-5% á hverju ári vegna ofan- greindra þátta. Ýmist er útgjalda- aukinn þegar ákveðinn í núgildandi lögum (t.d. um mennta- og fræðslumál, allir hafa jafnan að- gang að öllum skólum nánast án endurgjalds og sífellt fleiri fara í framhaldsnám) eða stjórnvöld verða að láta undan þrýstingi um frekari útgjöld (t.d. niðurgreiðslur og útflutningsbætur vegna land- búnaðar, styrkir til loðdýraræktar, yfirtaka á lánum orkufyrirtækja, ný flugstöð, endurbætur á Þjóð- leikhúsi og greiðsla á tapi síðustu, ára, ný Þjóðarbókhlaða, hitakerfi í Þjóðarbókhlöðu sem liggur undir skemmdum, nýtt stórhýsi fyrir Listaháskóla íslands sem ef til vill verður stofnaður o.s.frv.). Meðal nágrannaþjóða okkar eru ríkisútgjöld víða mun hærra hlut- fall af þjóðartekjum en á íslandi. í Danmörku, Bretlandi og Hollandi, svo að dæmi séu nefnd, hefur verið mikið rætt um það hve langt ríkið skuli ganga í þeirri þjónustu sem fjármögnuð er með almennum sköttum. Flestir eru á einu máli um að ríkið skuli sjá um grunnþætti fræðslu- og menntamála, heilbrigð- isþjónustu o.s.frv. þannig að allir hafi jafnan aðgang að þeim. Þegar einhvers konar sérhæfð þjónusta er veitt er hugsanlegt að notandinn greiði fyrir hana sjálfur að ein- hverju leyti. Opinbera þjónustu í nútímaþjóðfélagi er einfaldlega ekki hægt að fjármagna með al- Ríkissjóður mun verða að taka mikil lán á næstu árum þar sem útgjöld munu vaxa hraðar en skatttekjur. Lántaka á innlendum markaði leiðir að öðru jöfnu til hærri raun- vaxta en erlend lán leiða til þenslu, verð- bólgu og vaxandi er- lendra skulda. mennum skattekjum og veita síðan endurgjaldslaust; til þess er hún of dýr. Afleiðingin verður langvar- andi hallarekstur ríkissjóðs og við- varandi lántökur og skuldasöfnun. Stefnumótun um það hve langt ríkið skal ganga í þjónustu sinni sem veitt er án sérstaks endurgjalds er enn langt undan hér á íslandi. Raunar má segja að umræða um þau mál sé nánast ekki hafin. Það mun því taka mörg ár að komast að niðurstöðu. Á meðan mun ríkið með sjálfvirkum hætti halda áfram að hlaða á sig nýjum verkefnum og skuldum vegna hallareksturs og vaxtagreiðslum vegna skuldanna. Skatttekjur munu engan» veginn nægja fyrir þessum auknu útgjöld- um. Ríkissjóður íslands mun því verða umsvifamikill lántakandi innanlands sem erlendis á næstu árum. Það er afar mikilvægt að takast megi að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs á næstu árum með inn- lendu lánsfé. Sé umframeyðsla ríkisins fjármögnuð með erlendum lánum leiðir hún til verðbólgu og þenslu og skuldasöfnunar erlendis. Efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinn- ar yrði þannig stefnt í voða eins og fjármálaráðherra hefur minnt á með samanburði sínum á íslend- ingum, Færeyingum og Grænlend- ingum. Þótt fjármögnun á innlendum markaði sé á allan hátt æskilegri leiðir hún að öðru jöfnu til hárra vaxta. Lántökur ríkisins á innlend- um markaði leiða til þess að minni peningar eru eftir fyrir aðra lántak- endur. Að öðru jöfnu skapast þannig meiri eftirspurn eftir lánsfé en ella og hún leiðir síðan til hærri raunvaxta. Af ofangreindum ástæðum verð- ur að teljast líklegt að raunvextir á Islandi muni haldast háir næstu árin. Auðvitað verða sveiflur fram og aftur eftir árferði og aðstæðum á markaðnum en það virðist ólík- legt að vaxtastig hér á landi geti orðið lægra en það er hjá nágranna- þjóðum okkar. Á þessu ári er aldarfjórðungur síðan ríkissjóður hóf að gefa út verðtryggð spariskírteini á inn- lendum markaði. Meðalvextir af spariskírteinum þessi 25 ár hafa verið um eða yfir 7% yfir verð- bólgu. Hæstir hafa þeir orðið ná- lægt 9% (t.d. fyrstu árin eftir að útgáfa hófst 1964 en einnig árið 1986). Lægstir munu vextirnir hafa verið 3-3,5% á árunum rétt eftir 1980 en þau árin seldist raunar ekki mikið af spariskírteinum. Fjármagnsmarkáður á íslandi hef- ur stækkað mikið og þroskast á síðustu árum. Ef rétt er á málum haldið ætti hann að geta séð ríkis- sjóði fyrir mestum hluta þess lánsfjár sem hann þarf á ári hverju með u.þ.b. 5-7,5% vöxtum eftir lánstíma, efnahagsaðstæðum o.þ.h. Þeirri spurningu hefur oft verið varpað fram síðustu árin hvernig atvinnurekstur geti borið sig og greitt alla þessa háu vexti (t.d. 5-10% raunvexti). Ef fyrirtæki er fjármagnað þannig að eigið fé þess sé um 30-50% (og lánsfé þar með 70-50%) og lánum er eðlilega skipt milli langtímalána og skammtíma- skulda eiga fyrirtæki auðveldlega að geta greitt slíka vexti. 1 nálægum löndum er algengt að gerð sé um 15% arðsemiskrafa í rekstri fyrir- tækja. Slíka kröfu þarf einnig að gera í rekstri fyrirtækja á íslandi eigi okkar fyrirtæki að standast samkeppni á alþjóðlegum vett- vangi. Skrif þessi eru kafli úr grein sem birtist f fréttabréfi Ver&bréfamarkaðar l&na&ar- bankans og eru birt meö góðfúslegu leyfi höfundar. Illllllllllllllllll KVIKMYNDIR Hlýlega fyndin og notaleg mynd eftir Þráin Bertelsson, hans besta til þessa: Sóma- og ágætismaðurinn Magnús Magnús, kvikmynd Þráins Bert- elssonar, var frumsýnd í Stjörnu- bíói síðastliðinn föstudag við mjög góðar undirtektir frumsýningar- gesta sem fylltu bíóið. Viðtökumar voru að mínu mati að verðleikum því að hér er um ágætis mynd að ræða, hlýlega og gamansama. Magnús, aðalpersón- an, yfirmaður lögfræði- og stjórn- sýsludeildar borgarinnar, er svona grár og litlaus maður sem eins og hann segir sjálfur er maður sem aldrei tekur skjótar ákvarðanir. í myndinni er gefið í skyn að líf hans sé í föstum skorðum, hann fer í vinnuna á morgnana eftir að hafa setið við morgunverðarborðið með fjölskyldu sinni þar sem hver með- limur fjölskyldunnar er harðlokað- ur hver í sínum heimi og hefur ekki minnsta áhuga á hugrenningum hinna. Enda er það svo að þegar heimasætan birtist við morgun- verðarborðið með nýjan hjásvæfil sinn, guðfræðinema og skúringa- mann af Kleppi að það nægir varla til að aðrir fjölskyldumeðlimir depli auga. Þennan tiltekna dag sem myndin hefst er þó flest með óvenjulegum hætti hjá Magnúsi og ýmsir óvenju- legir atburðir gerast en þeirra dramatískastur er sá, þegar læknir- inn tilkynnir honum að hann sé í yfirvofandi lífsháska. Það verður til þess að Magnús verður að endurmeta ýmislegt í lífi sínu sem áður hefur verið honum sjálfsagt mál. Jafnframt lífsháskasögu Magn- úsar eru sagðar aðrar sögur, meðal annars af konu Magnúsar, lista- konunni stelsjúku og bróður hennar, leigubílstjóranum og föð- ur þeirra, bóndanum á Heimsenda sem Magnús verður óafvitandi til að siga á starfsmönnum sínum í lögfræði- og stjórnsýsludeildinni í þeim tilgangi að flæma hann af jörð sinni sem gera á að útivistar- svæði. Af þessum hliðarsögum við sjálfa aðalsöguna af lífsháska Magnúsar var fyndnust saga leigu- bílstjórans mágs Magnúsar sem brá sér í flugstjóraeinkennisbúning og uppskar mikla kvenhylli við tiltækið, svo mikla að hinni orð- hvötu konu hans varð nóg boðið og leigubílstjórinn varð að gerast úti- legumaður til að komast undan reiði hennar. Þetta atriði, eða kvennafarssaga mágs Magnúsar var sérlega fyndin og ekki er mér grunlaust um að Þráinn hafi haft í huga ákveðna fyrirmynd að þessari hliðarsögu í myndinni. Magnús má hiklaust telja bestu mynd Þráins Bertelssonar til þessa. Hún er heilsteypt og full af hlýlegri fyndni og hvorki alvaran né gam- ansemin fer nokkru sinni úr bönd- unum að undanteknu atriðinu þeg- ar þéir Magnús og mágur hans, leigubílstjórinn útlægi, laumast að næturþeli út af Borgarspítalanum. í því atriði bregður Laddi, sem leikur mág Manúsar, sér í líki Saxa læknis úr Heilsubælinu með viðeig- andi fettum og brettum. Því hefði mátt sleppa því að Laddi er alveg ágætis leikari og var mjög sannfær- andi í hlutverki sínu með þessari einu undantekningu. Leikaramir skiluðu undantekn- ingarlaust hlutverkum sínum með prýði og Egill Ólafsson var sann- færandi sem grámyglulegur lög- fræðingurinn sem allur margefldist við lífsháskann, hugsanlegt krabbamein. Helstu hlutverk önnur vom í höndum flestra helstu og bestu leikara landsins og má þar telja Guðrúnu Gísladóttur sem leikur listakonuna, eiginkonu Magnúsar, Jón Sigurbjörnsson sem leikur föð- ur hennar, bóndann á Heimsenda og Margrét Ákadóttir sem leikur hina tannhvössu eiginkonu Theó- dórs, hins útlæga leigubílstjóra en auk þeirra kemur fjöldi leikara fram í smærri hlutverkum. Tónlist við myndina gerði Sigurður Rúnar Jónsson. Stefán Ásgrímsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.