Tíminn - 13.01.1990, Blaðsíða 4

Tíminn - 13.01.1990, Blaðsíða 4
12 Tíminn , Laugardagur 13. janúar 1990 Magnús Karel Hannesson oddviti á Eyrarbakka: „I»að hefur verið talað um að þessi svalabreyting í Þjóðleikhúsinu kosti 100 milljónir. Það væri mjög gott ef þessum 100 milljónum yrði skipt upp milli þorpanna tveggja; Eyrarbakka og Stokkseyrar. Það er svo merkilegt og raunar algengt eins og dæmin sanna að það virðast alltaf vera til nægir peningar í einhverja vitleysu. Þá eru jafnvel ráðherrar tilbúnir að berjast fyrir slíku en síður fyrir því sem manni finnst að standi þeim nær." Þetta eru orð Magnúsar Karels Hannessonar oddvita á Eyrarbakka. Verulegar skemmdir urðu á Eyrar- bakka í stormflóðinu Aðfaranótt s.l. þriðjudags og er það líklegast það mesta sem orðið hefur á öldinni. Á Eyrarbakka og raunar með allri suður- strönd landsins sígur land að því er talið um 4-5 mm á ári. Ef kenningarum gróðurhúsaáhrifin standast þá á sjór eftir að hitna og þenjast út og yfirborð hans þar með hækka. Við spyrjum Magnús Karel því fyrst hvort Eyrar- bakki og Stokkseyri verði ekki senn óbyggilegir staðir? „Ekki vil ég nú taka undir það. Hér hefur verið byggð afar lengi og flóð nú er ekkert einsdæmi. Hér kom stórflóð 1799 og engar sjóvarnir voru þá. Þó gáfust menn ekki upp heldur tóku sig til og hlóðu sjóvarnargarða með hönd- unum einum. Það er heldur engin ástæða til að gefast upp eftir flóðið nú. Það sem skiptir máli er að verjast þessu. Eyrarbakki byggir á gömlum merg og á sér langa og merkilega sögu og ég sé ekki ástæðu til annars en að horfa björtum augum til framtíðarinnar þótt að við hugsanlega getum átt von á einhverjum gusum í framtíðinni." Sjóvarnargarðar sem duga -Ef byggð á að vera sæmilega örugg, hlýtur þá ekki að þurfa að reisa sæmi- lega örugga varnargarða. „Það er rétt. Við höfum þurft að senda bænarskrár á hverju ári til fjár- veitingarnefndar og niðurstaðan er sú að við fáum t.d. nú í ár 2,5 milljónir á fjárlögum til framkvæmda við sjóvarn- argarða. Á sama tíma er verið að halda fundi suður í Reykjavík þar sem ráðherra í ríkisstjórninni er að reyna að magna upp stemmningu um fjárveitingar í, einhverjar ónauðsynlegar breytingar á Þjóðleikhúsinu. Ég er ekkert að hafa á móti því að húsinu sé haldið við, en eftir því sem maður heyrir af deilum um þessi mál þá telur allavega hluti starfsfólks Þjóðleik- hússins, húsafriðunarmenn og fleiri að það sé alger óþarfi að breyta þarna sætaskipan, brjóta niður svalir og byggja upp aðrar í þeirra stað." -En geta sjóvarnargarðar varið byggðina fyrir hamförum storma og sjávargangs? „Jú, vissulega. Það er deginum ljós- ara eftir þau ósköp sem dundu yfir aðfaranótt þriðjudagsins. Við höfum undanfarin ár fengið fjárveitingar til að reisa sjóvarnargarða og endurbæta. Það var þó ekki fyrr en á síðasta hausti sem unnið var að þessu verki af ein- hverju viti og einhverri skynsemi. Fyrir nokkru gerði verkfræðistofan Fjarhitun úttekt á þessum málum að tilhlutan Vita- og hafnamálaskrifstof- unnar. í skýrslu sem þá var gerð eru settar fram tillögur og hugmyndir um hvernig réttast sé að gera garðana og eftir því var farið í fyrrahaust. Sá stutti garður sem þá var gerður stóðst full- komlega - haggaðist ekki." -Hvernig eru garðar kostaðir? „Til sjóvarnargarða er veitt fé á fjárlögum. Ákveðinni upphæð er út- hlutað fyrir allt landið og fastákveðið í fjárlögum hvernig hún skiptist milli staða. Þannig eru okkur hér ætlaðar 2,5 milljónir á þessu ári." -Það er ekki há upphæð. Nei, það er rétt. Lengdarmetrinn í svona garði eins og þeim sem ekki haggaðist hér, kostar milli 45 og 50 þúsund krónur. Ef við ætlum að verja þetta þorp allt erum við að tala um svona tvö þúsund metra, eða nálægt 100 milljónum króna. Ef við eigum hins vegar að ljúka verkinu með 2,5 milljónum króna á ári þá er ekki séð fyrir endann á verkinu í bráð og önnur flóð gætu komið á meðan. Það er því alveg augljóst að við verðum núna að berja á því að fá fjárveitingar í þetta verk. Því miður þá er sveitarfélagið þannig statt að það getur ekki sjálft sett neina afgerandi fjármuni í þetta verk. Staða sveitarfélaga hringinn í kring um landið er raunar þannig og þar sem helst er hætta á einhverjum náttúru- hamförum að ekkert fé er afgangs. Því verða hinir sameiginlegu sjóðir lands- manna að koma til. Þá er oft spurt sem svo hvort það svari kostnaði að reyna að verja þessa staði. Hvað borgar sig? Ég tel hiklaust að það borgi sig. Þetta er spurningin um það hvort halda eigi byggð í landinu eða ekki. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að peningar þjóðarinnar verða til að stórum hluta á landsbyggðinni í undirstöðu fram- leiðslugreinunum." -Ráðherrar hafa komið hér og litið á verksummerki auk starfsmanna Vita- og hafnamálaskrifstofunnar. Býstu við að framkvæmdum verði hraðað við gerð sjóvarnargarða eftir hamfarirnar? „Við munum reyna að standa saman hér á Eyrarbakka og Stokkseyri við að þrýsta á að fá fjárveitingar í þessi mál. Brunabótamat þeirra eigna sem eru fyrir innan sjávarkambinn hér á Eyrar- bakka er tveir milljarðar króna. Sé reynt að slá tölu á framleiðsluverðmæti í frystihúsinu, fiskvinnslustöðvum og pönnuverksmiðju til viðbótar þá erum við farin að tala um tvo og hálfan til þrjá milljarða fyrir utan land og lóðir. Þó að einhverjir hafi kannski skotið því að hvort ekki væri rétt að leggja þetta allt af og flytja fólk í burtu, þá sýnist mér að þau verðmæti sem verið er að reyna að verja séu það mikil að slíkt sé út í hött og í sjálfu sér dónaskapur við íbúa hér. Mér sýnist að það þurfi mjög fljót- lega að reisa um eitt þúsund metra af sjóvarnargörðum hér en ef við ætlum að verja allt þorpið þurfa þeir að verða um tvö þúsund metrar. í síðara tilvik- inu erum við að tala um 100 milljónir en í því fyrra um 40-50 milljónir." -Hefur verið slegið tölum á tjónið sem varð í flóðunum? „Fulltrúar Viðlagatryggingar íslands byrja sín matsstörf í næstu viku og niðurstaða okkar hefur orðið sú að láta þeim það eftir að meta tjónið, enda eru þeir sérfræðingar í þeim efnum. Sjálfir höfum við haft nóg að gera við að hreinsa og laga til og hreinlega enginn tími til að setjast niður með pappír og blýant og slá fram einhverri ómarktækri tölu. Það er þó ljóst að tjón er mikið og skiptir efalaust einhverjum tugum milljóna. Ég þori hins vegar ekkert að segja um hversu mikið. Tjónið verður bætt -Fæst það bætt? „Já, Viðlagatryggingamenn fullyrða að tjón verði bætt eftir reglum Viðlaga- tryggingarinnar. Samkvæmt þeim er það frumskilyrði að eignir manna, húseignir og tæki séu brunatryggð og fara bætur eftir tryggingafjárhæð. Lóðir manna og lendur eru hins vegar bættar samkvæmt fasteignamati og geta aldrei orðið hærri en matið segir til um. Fasteignamat fer eftir stærð lóðar og er ákveðin krónutala á fermetra. Þannig hækka bætur ekkert til fólks sem lagt hefur ómælda vinnu og fé í að rækta og fegra garða sína. Þá dregst sjálfsábyrgð, sem hjá einstakl- ingum er 25.500 krónur, frá bótum. Stærsta og mesta tjónið hér á Eyrar- bakka varð hjá fyrirtækinu Bakkafiski hf., en hluti af húsum þess hrundi. Ljóst er að fyrirsjáanleg rekstrarstöðv- un þar mun hafa slæm áhrif á afkomu fyrirtækisins og þeirra sem þar stunda atvinnu. Þá eyðilagðist íbúðarhús þar sem sjórinn braust inn. Að öðru leyti varð eignatjón þar sem sjór komst í geymslukjallara húsa og frystikistur, innihald þeirra, þvottavélar og þvílíkt skemmdist eða eyðilagðist. Auk þess skemmdust lóðir og lendur manna verulega og ég býst við að skemmdir utanvert á húsum eigi eftir að koma betur í ljós. Við erum nú að undirbúa að senda eyðublað inn í hvert hús í þorpinu þar sem fólk getur tilkynnt allt tjón af völdum flóðsins. Síðan munu matsmenn Viðlagatryggingar fara á staðinn og kanna málið. -Hvernig gengur að hreinsa til eftir lætin? „Þokkalega. Við lentum þó í því að það tók að frysta á miðvikudag og það hefur tafið okkur. Hins vegar er spáð hlýnandi veðri aftur svo vonast er til að það takist að ljúka miklu um helgina. Við höfum svo sem ekki verið að setja allt á annan endann heldur reynt að halda rónni og láta skynsemi og aðstæð- ur ráða. Við reynum að hreinsa sem mest af sandi sem barst á land til að forðast sandfok sem eyðileggur rúðu- gler auk annars. Það skal tekið fram að Viðlagatrygging mun styrkja hreinsun- arstarfið að talsverðum hluta. Gott atvinnuástand. Hörgull á húsnæði -Hér á Eyrarbakka lifa menn ekki eingöngu af sjósókn og fiskvinnslu heldur er hér talsverður iðnaður og meðal annars framleiddar pönnur og pottar, - Alpan. Hvert er hlutfall milli þeirra sem vinna annars vegar við undirstöðugreinarnar og hins vegar við iðnað? „Ég hef ekki nákvæmlega tölur yfir það. Hins vegar er Alpan að verða nokkuð stórt fyrirtæki á atvinnumark- aði hérna og fer að skipta verulegu máli. Það hefur verið að byggjast upp á undanförnum árum og er farið að hossa töluvert upp í frystihúsið. Hjá Alpan voru á launaskrá á seinni hluta síðasta árs um fimmtíu manns þegar allir eru taldir, einnig þeir sem vinna hlutastarf. S.l. sumar unnu hjá fyrirtækinu um 40 manns en um helm- ingur þess var fólk sem býr utan sveitarfélagsins. Þannig styrkir fyrir- tækið líka nágrannabyggðirnar, enda er Árborgarsvæðið svonefnda ein at- vinnuleg heild." -Óseyrarbrúin hefur ýmsu breytt? „Það hefur hún gert. Það var nú fjörutíu ára barátta að fá brúna en menn voru hins vegar úthaldsgóðir og gáfust ekki upp. Hún hefur auðvitað sannað gildi sitt. Hér á Eyrarbakka skipti slæm hafnaraðstaða sköpum og hve dýrt yrði að gera höfn út í opið Atlantshafið þótt framkvæmanlegt sé. Á sínum tíma var valinn sá kostur að gera höfn í Þorlákshöfn. Hún var stækkuð eftir Vestmannaeyjagosið og þar með ákveðið að höfnin í Þorláks- höfn skyldi þjóna Suðurlandi. Þá var tengingin við höfnina -Óseyr- arbrú - ekki komin og við hér þurftum t.d. að aka 50 km leið til að komast til Þorlákshafnar. Nú eru hins vegar aðe- ins 16 km í milli. Um leið og þessi brú kom hefur ekki komið bátur í höfnina hér á Eyrarbakka." -Hvernig hafa íbúar þrifist hér undanfarin ár? íbúatalan hefur verið nokkuð stöðug undanfarin ár í kring um 540 manns og jafnvægi milli brottfluttra og aðfluttra. Atvinna hefur verið næg og stöðug og afkoma allgóð síðan 1985. Vandamál okkar eru ekki atvinnumálin heldur húsnæðisekla - það vantar fyrst og fremst leiguhúsnæði. Nú er verið að byggja fjórar kaupleiguíbúðir og þegar byrjað var á þeim fyrir um ári bárust tíu umsóknir um þær strax. Atvinnuástand hefur verið ágætt og við höfum sloppið nokkuð vel við gjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga. Eg vona að flóðið hafi opnað augu stjórnvalda fyrir nauðsyn þess að verja byggðina fyrir áföllum af þessu tagi sem varð hér og raunar geri ég mér vonir um það. Félagsmálaráðherra hef- ur litið afleiðingar flóðsins augum og sýnt málinu skilning. Ég hef ástæðu á þessari stundu til að ætla að stjórnvöld séu að hugleiða leiðir til að koma í veg fyrir frekari áföll í framtíðinni." -Stefán Ásgrúnsson Magnús Karel Hannesson oddvirí á Eyrarbakka. í baksýn eru rústir frystÍllÚSSÍnS. Tímamynd; Árni Bjama

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.