Tíminn - 20.01.1990, Blaðsíða 5

Tíminn - 20.01.1990, Blaðsíða 5
13 Tíminn 12 Tíminn Laugardagur 20. janúar 1989 Fyrirhuguð reglugerðarbreyting á læknisþjónustu. Guðjón Magnússon aðstoðarlandlæknir: 100 milljónir sparast „Það er mjög slæmt hvernig þessi þróun hefur orðið í heilsugæslunni í Reykjavík. Sérfræðingar hafa í raun stéttar- félög lækna algerlega á valdi sínu í krafti fjölda síns. Þeir eru að höfðatölu mun fleiri en heimilislæknar og stjórna lækna- samtökunum. Þeir eru feykilega öflugur hópur og það er ein aðalástæða þess að það hefur enginn heilbrigðisráðherra til þessa viljað eða þorað að taka á þessum augljósu vanköntum í heilsugæsl- unni sem nú er verið að takast á við. Fólk þarf að átta sig aðeins á því að þau langtímamarkmið sem stefnt er að í nýjum reglugerðardrögum fyrir heilbrigðisþjónustuna eru mikilvæg- ari en þeir stundarhagsmunir sem komið hafa upp á yfirborðið.“ Þetta eru orð Guðjóns Magnússonar aðstoðarlandlæknis en hann var formaður nefndar heilbrigðisráðuneytisins sem gerði tillögur um nýtt fyrirkomulag á samskiptum lækna sín í milli vegna sjúklinga sem til þeirra leita eða til þeirra er vísað. Heilbrigðisráðherra hyggst nú setja reglu- gerð sem felur í sér að beina á fólki sem kennir sér einhvers meins í auknum mæli til heimilis- og heilsugæslulækna og draga úr því að það fari beint til sérfræðinga í þeim mæli sem tíðkast hefur undanfarin ár. Við ræðum við Guðjón um þessi mál í helgarvið- talinu að þessu sinni og fyrst bar á góma vankanta á boð- og upplýsingaskiptum lækna: „Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að boðskiptum lækna í tengslum við meðferð sjúklinga sé mjög verulega ábótavant og þau verði að bæta. Sama er hvort um er að ræða boðskipti heimilislæknis og sérfræðings eða milli sérfræðinga innbyrðis. Athuganir hafa sýnt að á Stór-Reykjavíkursvæðinu sérstak- lega eru þessi boðskipti meira og minna í molum. Á þessu eru auðvitað heiðarlegar undantekningar og þeir sérfræðingar eru til sem ávallt senda svör og niðurstöður sínar til lækna sem vísað hafa til þeirra sjúklingum og senda jafnvel boð til heimilislækna þótt sjúklingur hafi farið af sjálfsdáðum til sér- fræðingsins. Boðskipti verða að vera í lagi. Ástæðurnar eru einfaldlega þær að það er öryggisatriði að þau séu það. Það er öryggisatriði fyrir sjúklinginn að hann sé t.d. ekki meðhöndl- aður af lækni sem ekki veit að hann hefur þegar fengið einhver lyf sem skapað gætu hættulega milliverkun eða samverkun við lyf frá síðari lækninum. Þá getur komið til þess að sömu rannsóknir eru endurteknar. Það er bæði kostnaðarsamt en auk þess getur viss áhætta verið fólgin í rannsóknum. Það er eitt af undirstöðuatriðum góðrar heilbrigðis- þjónustu að boðskipti lækna séu í lagi. Erlendis þar sem nákvæmlega sama sér- hæfing hefur orðið meðal lækna og orðið hefur hérlendis er þetta ekki vandamál með sama hætti og hjá okkur. Ég nefni sem dæmi að í Bandaríkjunum þykir það alveg sjálf- sagt að taki læknir við sjúklingi annars læknis, þá er síðarnefnda lækninum skýrt frá niðurstöðum rannsókna hins fyrrnefnda. Þetta atriði hefur alla tíð verið í siðareglum lækna þar sem læknastéttin hefur talið þetta nauðsynlegt sjúklinganna vegna. Auðvitað liggur ljóst fyrir að þetta er ákveðin viðbótarvinna hjá mönnum að hafa þessi mál í lagi á sama hátt og það er vinna að hafa bókhald, eða sjúkraskrár í lagi. Ekki hefur verið fylgst með því að boð- skipti lækna séu góð og aðhald hefur vantað bæði innan stéttarinnar og frá yfirvöldum. Smám saman hafa því sumir komist inn á þá braut að vanrækja þau eða sleppa alveg og dæmi eru um sérfræðinga sem aldrei skrifa nokkurn skapaðan hlut til annarra lækna.“ í reglugerðardrögunum er gert ráð fyrir að fólk leiti að jafnaði fyrst til heimilislæknis. Er verið að skerða frelsi fólks? „Það er í mörgum tilfellum óheppilegt að fólk fari beint til sérfræðings með hvaða vandamál sem er. Almenningur er ekki alltaf besti dómarinn um það hvaða sér- fræðingur sé best hæfur að líta á tiltekið vandamál. Þar eru heimilis- og heilsugæslu- læknar miklu betur búnir til að leggja fyrsta mat á ástandið. í mörgum tilvikum þarf ekki sérfræðiaðstoð. Heimilis- eða heilsugæslu- læknir leysir málið. f núverandi kerfi sem er galopið er viss tilhneiging til oflækninga og ofrannsókna auk kostnaðarins. Að vísu halda sérfræðing- ar því fram að þeirra stofukostnaður og þjónusta sé mjög ódýr. Ég dreg ekki í efa að það sé í sjálfu sér rétt. Hún er samt dýrari en heilsugæslan. Ef opið kerfi eykur hættu á oflækningum og ofrannsóknum og er auk þess dýrt miðað við að ríkið sé þegar búið að byggja upp og kosta heilsugæsluþjónustu, þá hlýtur það að vera óhjákvæmilegt að einhver stýring komi til. Hið opinbera hlýtur að vilja beina fólki fyrst til heilsugæslunnar. Tvenn sjónarmið - Reglugerðardrögunum hefur verið harð- lega mótmælt. Hvers vegna? „Það er djúp gjá innan læknastéttarinnar, því miður, og hefur verið til staðar í all langan tíma vegna deilna um tilvísanir. Flestir sérfræðingar telja að sjúklingar eigi að geta komið til sérfræðings án milligöngu heimilislæknis ef hann sjálfur vill. Margir heimilislæknar telja einnig að ekki eigi að leggja neinn stein í götu einstaklinga. Þeir eigi að geta farið til sérfræðinga ef þeir sjálfir vilji. Samtímis þessu eru læknar sammála um að það sé eðlilegt að samskipti sjúklinga og lækna heilbrigðiskerfinu hefjist að jafnaði hjá heimilislækni eða heilsugæslulækni, ekki hjá sérfræðingi. Frá þessari meginreglu geti þó verið undantekningar. Nefndin var algerlega sammála um þetta meginatriði. Spurningin er hins vegar hvern- ig þessu verði komið á: Hvernig er hægt að stýra því að samskiptin hefjist hjá heimilis- lækni? Um það eru skiptar skoðanir meðal lækna. Sérfræðingarnir telja að stýring í þessa veru skapist með góðri heilsugæslu. Þegar fólk finni það hjá heimilis- eða heilsugæslu- lækni sínum eða öðrum starfsmönnum heilsugæslustöðvar að þjónustan fullnægi að lang mestu leyti þörfum þess fyrir frum- heilsugæslu og fyrstu læknishjálp, þá verði því eðlilegt að leita fyrst ráða þar við veikindum sínum. Slíkt trúnaðartraust lækn- is og sjúklings skapist að fólk treysti lækni sínum til að ráleggja sérfræðiþjónustu sé hún nauðsynleg. Sérfræðingarnir telja raun- ar að þetta sé það eina sem muni að lokum koma boðskiptum milli lækna í lag og fólki verði jafnframt eðlilegt að leita fyrst til heimilislæknis. Heimilislæknar á hinn bóginn segja að nú hafi verið um langt skeið í gangi kerfi sem sé algerlega opið og sérhver maður geti farið beint til hvaða sérfræðings sem er. Þannig sé hreinlega búið að venja almenning á Stór- Reykjavíkursvæðinu af því að leita fyrst til heimilis- og heilsugæslulækna og að líta á það sem eðlilegt og sjálfsagt. Þess vegna þurfi að taka upp stýringu með peningum eða einhverjum öðrum hætti. Boðskiptanefndin tók ekki afstöðu til þess með hvaða hætti ætti að framkvæma þessa stýringu en benti á að peningaleg stýring væri ein af aðferðunum. Eining um grundvallarhugmynd Deilur um framkvæmd hennar Tillögurnar sem liggja fyrir í reglugerðar- drögunum eru á þá leið að ef einstaklingur kemur til sérfræðings án milligöngu heimilis- læknis, þá greiði hann hærra gjald sem er visst hlutfall af reikningi sérfræðingsins. Við vitum að auðvitað er hægt innan heilbrigðis- kerfisins ekki síður en annarsstaðar að stýra hegðun fólks með peningum. Að því leyti held ég að menn mótmæli ekki grundvallar- hugmyndinni sem slíkri, heldur aðferðinni sem notuð er - að beita þessari hlutfallstölu. Ég held að flestir sérfræðingar gætu betur sætt sig við að sjúklingar borguðu hærri upphæð í krónutölu, færu þeir beint til sérfræðings. Það er Ijóst að sérfræðingakostnaður á íbúa er mjög hár á höfuðborgarsvæðinu miðað við aðra landshluta. Tölur benda til þess að fyrir hverja eina krónu sem greidd er vegna sérfræðingakostnaðar í sýslum landsins eru greiddar þrjár krónur í Reykja- vík. Þetta er að mestu leyti auðvitað vegna þess að framboð sérfræðinga er mest í Reykjavík en ekki í sýslum landsins og mjög stór hluti samskipta við lækna í Reykjavík fer fram við sérfræðinga. Menn geta síðan velt því fyrir sér hvort þetta sé eðlilegt ástand. Ófullburða heilbrigðisþjónusta í Reykjavík Ég er þeirrar skoðunar að nú séum við að uppskera eins og til var sáð. Það hefur verið látið undir höfuð leggjast að byggja upp sams konar heilsugæslu í Reykjavík eins og er komin á um allt land. í Reykjavík er hún mjög vanefnum búin, heilsugæslustöðvar eru samtals fimm af þrettán eins og þær eiga að vera, heimilislæknaþjónustan er í gamla farinu og sinnir ákveðnum frumþörfum en tekur ekki til heilsugæslunnar í heild. Borgaryfirvöld hafa verið mjög tvístíg- andi um hver stefnan ætti að vera, hvort heilsugæsla ætti að vera með svipuðu sniði og annars staðar á landinu eða hvort eitt- hvert annað fyrirkomulag hentar betur. Skipaðar hafa verið a.m.k. þrjár nefndir til að fara ofan í málin. Allar hafa skilað vel rökstuddu áliti en engu þeirra verið framfylgt. Nú standa menn í nýjum sporum því nú á ríkið að standa undir rekstri heilsugæslu að öllu leyti og sveitarstjórnir því nánast úr leik. Mörgum finnst að nú sé tækifæri til að framkvæma lögin frá 1974 um að koma upp viðunandi heilsugæslu fyrir alla Reykvík- inga. Reykjavík er nú eina bæjarfélagið þar þessi mál eru ekki í lagi og ef lögunum yrði framfylgt myndi margt breytast. Á sama tíma og heilsugæslan í Reykjavík hefur verið vanbúin hefur sérfræðingum stöðugt fjölgað og hafa opnað stofur. Þeir reka mjög góða þjónustu og fólk hefur vanist á að fara beint til þeirra. Fólki verður þó ekki bannað að fara til sérfræðinga og það hefur sérfræðingunum yfirsést í umræðunni undanfarna daga. í lögunum sem breytt var skömmu fyrir jólin stóð að Almannatryggingum væri óheimilt að greiða reikninga sérfræðinga nema sam- kvæmt tilvísun heimilislækna. Nú er verið að opna möguleika á að Almannatryggingar greiði líka reikninga þegar fólk fer beint til sérfræðinga en sjúklingar taki sjálfir meiri þátt í heildar- kostnaðinum en ef hefðu þeir farið fyrst til heimilislæknisins. Deilan stendur raunveru- lega um það að sérfræðingarnir vilja hafa þetta algerlega opið eins og var en heilbrigð- isyfirvöld vilja fá meiri stýringu." - Er rétt að tala um sjúklingaskatt í þessu sambandi eins og einn talsmaður sérfræð- inga hefur gert? „Það er ekki rétt. Fólk mun hafa valkost eftir sem áður og læknar hafa orðið sammála um að það sé eðlilegt sjúklingar fari fyrst til heimilis- og heilsugæslulæknis fyrst. Geri sjúklingur það borgar hann mjög lágt gjald sem nú er 190 kr. og ráð fyrir gert að það verði óbreytt. Ef frekari aðgerða verður þörf fær sjúkl- ingur beiðni frá heimilislækni sínum til sérfræðings. Sá sérfræðingur getur líka sent sjúklinginn áfram til annars sérfræðings telji hann sig ekki ráða við vandann eða þurfi fá annað álit. Fólki verður ekki bannað að fara beint til sérfræðinga. Elli- og örorkulífeyrisþegar gera það gegn mjög lágu gjaldi og aðrir borga 50% af reikningnum, þó ekki lægri upphæð en sem nemur samanlögðu gjaldinu sem þeir hefðu borgað ef þeir hefðu farið til heimilislæknis og þaðan til sérfræðings. Einnig verður sett hámarksgjald sem ekki hefur enn verið ákveðið. í þessu sambandi er því vart hægt að tala um sjúklingaskatt. - Gæti tal um sjúklingaskatt verið komin frá mönnum sem sjá fram á að tapa 10% af umsvifum sínum að meðaltali sem þýðir 100 milljónir króna? „Þetta er efalaust hluti af ástæðunni og kannski meginástæða hjá þeim sem eru alfarið á móti málinu. Við skulum ekki fara í neinar grafgötur með að leikurinn er til þess gerður gagngert að fólk leiti í auknum mæli til heimilislækna. Ef að það er sér- fræðingum á móti skapi, þá þýðir auðvitað ekkert að deila um það. Um málið eru einfaldlega skiptar skoðanir. Spónn úr aski í ár á að lækka sérfræðikostnað almanna- trygginga um 100 milljónir sem er umtals- verð fjárupphæð. Við erum að tala um milljarð í útgjöld vegna sérfræðiþjónustu á þessu ári og í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 10% sparnaði á þeim lið auk sama sparnaðar í tannlæknaþjónustu og lyfja- kostnaði. 100 milljónir er ansi mikið ef tekið er til viðmiðunar að sérfræðingar eru milli 300 og 350 sem senda reikninga til Tryggingastofn- unar. Þetta eru um 300 þúsund krónur að meðaltali á hvern sérfræðing á ári. Hvaða stétt berst ekki gegn fyrirætlunum um að skerða tekjur hennar eða kjör? Það er því ekkert undarlega að sérfræðingar taki mál- inu fálega." - Hversu margir læknar eru á íbúa hér á landi? Þeir eru að verða einn á hverja 400 íbúa sem er með því hæsta sem gerist í heiminum. Ein skýringin er sú að læknar verða að vera tiltölulega margir miðað við íbúa fámennis og fjarlægða. Þá höfum við um marga áratugi verið með offramboð af læknum vegna þess hve við höfum menntað marga lækna. Á hverjum tíma hafa um 30% íslenskra lækna búið erlendis, margir að vísu í framhaldsnámi, en vaxandi fjöldi hefur sest að erlendis vegna þess að þá vantaði vinnu hér heima. Heilbrigðisþjónustunni hefur ekki verið miðstýrt með sama hætti og í nágranna- löndunum þar sem árlega er ákveðinn sá fjöldi lækna sem bætist við; fjöldi stöðugilda er meira og minna ákveðinn. Við búum við mjög sérstakt kerfi. Menn geta komið og opnað stofu í Reykjavík. Það eina sem þeir þurfa að gera er að fá sérfræðileyfi, leyfi Heilbrigðiseftirlits um að stofan uppfylli kröfur um búnað og aðstöðu. Síðan tilkynna menn Tryggingastofnun um starfsemina og geta síðan sent reikninga til stofnunarinnar. Mér vitanlega er leitun að löndum þar sem fyrirkomulag er jafn frjálst. Ég legg áherslu á að með tillögunum er ekki gert ráð fyrir að breyta þessu á neinn hátt. Auðvitað hefði það verið einn möguleikinn; að tak- marka fjölda sérfræðinga og ná þannig fram stýringu á þessu. Ég held persónulega að sú leið sem verið er að fara sé mun betri og vænlegri til árangurs." - sá /

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.