Tíminn - 16.02.1990, Blaðsíða 7

Tíminn - 16.02.1990, Blaðsíða 7
Föstudagur 16. febrúar 1990 Tíminn 7 Davíð Erlingsson: Aðför að samnorrænum rann- sóknum í mannlegum fræðum Gefum fyrst gaum að því með hverjum hætti og hvaðan niðurskurðartillögurnar eru komnar. Skrifstofa Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn birti 17. nóvember sl. tillögur eða ráðgjöf frá vinnuhópi með einum fulltrúa frá hverju landanna, sem embættismannanefndin um menningarsamvinnuna hafði sett fyrir ári til þess að gera tillögur um aðhald, endurskipan og endurskoðun á forgangsröð þeirra viðfangsefna sem kostuð eru af menn- ingarmálafé ráðsins - samkvæmt samkomulagi landanna um menningarmál - í þeim tilgangi að auka sveigjanleika og skapa færi á að standa fjárhagslega undir fleirum af þeim framkvæmdum, sem svonefnd menningarmálaáætlun (kulturhandlingsplan) kveður á um. Vinnuhópurinn skyldi sjálfur skilgreina nánar verkefni sitt, hvað honum hefði verið falið að gera. Að spara við rannsóknir Að loknu verki kom starfshópur- inn með tillögu sína um að leggja niður fjórar fastastofnanir (auk Pjóðfræðistofnunarinnar Nordiska institutet för Asienstudier (NIAS), Nordiska institutet för samhálls- planering (NordPlan) og Nordiska institutet för sjörátt), sem allar eru rannsóknastofnanir, og þar að auki verði afnuminn fastur styrkur til allmargra annarra norrænna sam- starfsverkefna í rannsóknum. Þetta er talið geta sparað 30 mill- jónir danskra króna á ári, í þeim tilgangi að nota féð annars staðar og á annan hátt í menningarsam- starfi. Vinnuhópurinn hefur gefið sér þá hugmynd að upphafi verka síns, að „til þess að geta fram- kvæmt ásetninginn í menningarm- álaáætluninni" skuli leiðin vera sú að hverfa frá því kerfi sem verið hefur, losa sig frá „föstum fjárveit- ingum til stofnana á afmörkuðum sviðum" (les í málið: rannsóknar- stofnana), en nota féð í staðinn til „tímabundinna átaka á öðrum forgangssviðum" (les hér í málið: ekki rannsóknum, nema þá ef til vill hér og þar eða stund og stund). Tilvitnuðu orðin eru þýdd úr frétta- tilkynningu Norðurlandaráðs, Nordisk ministerrád, 17. nóv. sl. í Kaupmannahöfn. Undir lokin seg- ir þar, að „embættismannanefnd menningarsviðsins lét í ljós stuðn- ing sinn við meginatriðin og stefn- una í áliti starfshópsins og ákvað að leggja það fyrir ráðherranefnd- ina“, sem myndi ræða hana á fundi sínum 27. nóv. (sl.) og senda hana síðan Norðurlandaráði til um- fjöllunar með þeirri fyrirætlun að ákvarðanir skyldu teknar nú á útmánuðum eða í vor. Af þessu má glöggt sjá, hvaðan alda sú er runnin undir, nefnilega frá embættismönnunum. Óstaðfest flýgur það fyrir, að einhver „leki“ muni hafa orðið, þannig að ekki hafi þótt fært annað en birta vinnu- hópsplaggið fyrr en til stóð, en það var nú gert 17. nóv. ásamt frétta- tilkynningunni. Það vekur athygli, að ekki er að því vikið fyrr en rétt síðast í fréttatilkynningu embætt- ismannanna að Norðurlandaráð þurfi einnig um að fjalla og ráð- herranefndin að taka síðast hina raunverulegu ákvörðun. Meðþess- um framsetningarhætti er lesanda gefið í skyn, að hér sé nú í rauninni búið að leggja línuna sem fylgt muni verða. Pað er vonandi ekki rétt, að minnsta kosti hefur engin ákvörðun verið tekin nema af emb- ættismönnum. Ráðherranefndin mun eiga síðasta orðið að lokinni meðferð á þingi Norðurlandaráðs. Gustur um málatilbúnaðinn íslenzki menntamálaráðherr- ann, Svavar Gestsson, kom fram fram í sjónvarpsfréttatíma eftir fundinn með samstarfsráðherrum sínum 27. nóv. Honum mæltist bjartsýnilega og af sjáanlegri ánægju um nýmælin sem á döfinni væru í menningarsamstarfinu, m.a. NordPlus-stúdentaskiptin, en ekki sízt kvikmyndasjóðinn góða. En að vísu kostaði þetta allt nokkuð, svo sem það að leggja niður nokkr- ar stofnanir. Ókunnugur hefði get- að ályktað af þeim ummælum, að ákvörðun hefði þegar verið tekin og ný stefna ákveðin. Enn er þó ekki svo, nema ef embættis- mennirnir hafa ráð ráðherranna í höndum sér. Um þetta mál hefur orðið talsverður gustur, ef ekki fjaðrafok nokkurra, og umræða um það er þegar orðin mikil í hinum löndunum. Svenska Dag- bladet 27.11.1989 greinir frá harka- legum viðbrögðum Karinar Söder, forseta Norðurlandaráðs, við fram- ferði embættismannanna og þeim vilja þeirra að gert yrði út um málið þegar á fundinum þennan dag, - enda varð það ekki. Hvernig ætli íslenzka menntamálaráðherr- anum þætti það, ef einhver ráðu- neytisfulltrúi hans eða -stjóri setti til þess nefnd að athuga t.d. hvern- ig spara mætti í skólakerfinu; nefndin kæmi síðan aftur með tillögu um að umbylta skólakerfinu öllu, og stjóri ráðherrans gæfi það plagg síðan út til fjölmiðla (sem nýja stefnu) áður en ráðherrann ætti þess kost að sjá sjálfur hvað þar væri í efni. Þetta væri einmitt hliðstætt því sem gerðist í Kaup- mannahöfn. Það væri meira en lítið að, ef ekki gustaði um annað eins og þetta. Fundir í Reykjavík mikilvægir Núna 31.1. er forsætisnefnd Norðurlandaráðs á fundi í Stokk- hólmi og undimefndir hennar allar um leið. Þann 7.2. verður ráðið um rannsóknarstefnumál, Forsknings- politiska Rádet, á fundi á Helsing- jaeyri. Þar munu verða á döfinni nýjar hugmyndir um samstarf um menntun rannsóknarmanna. Á fundi snemma í des. sl. ákvað þetta sama ráð að taka ekki undir emb- ættismannalínuna, að svo komnu, þar eð ekki væri komið fram, hvað koma skyldi í stað rannsóknanna sem leggja skyldi niður. 14.2. verð- ur embættismannanefndin í menn- ingarefnum enn á fundi í Kaup- mannahöfn. Sennilegt má manni þykja að þar verði nánar undirbú- ið, hvernig leggja skuli nýju línuna fyrir á Norðurlandaráðsþinginu hér í mánaðarlokin og á ráðherra- fundi menntamálaráðherranna sem hér verður um sama bil. Ætla má, að sá fundur ráði úrslit- um, og sjálfsagt stefna embættis- mennirnir að því að nýja stefnan verði ákveðin þar. Hér má ekki hrapa að neinu, og nauðsynlegt er að undirbúa þennan fund vel, líka af Islands hálfu. Þeir sem taka þátt í ákvörðunum verða að vita full deili á, um hvað er að tefla, og helzt þurfa þeir að eiga sér bakhjarl í almennari skoðanamyndun, ís- lenzkum vilja og stefnu, sem á sér umræðu að forsendu. í þeim til- gangi eru þessi orð sett á blað. Vitað er að sú skoðun hefur um skeið átt nokkru fylgi að fagna, að fastar stofnanir Norðurlandasam- vinnu ættu að færast yfir á hendur KLIHTBERC NORSTEDTS Kápa bókarinnar Folklorens betydelse. Stefnubreyting menningarmála- samvinnu Norðurlanda? 3. grein landanna þar sem þær hafa aðset- ur, einmitt í þeim tilgangi sem kemur fram í afnámstillögunni. í sumum tilvikum kann þetta að vera skynsamlegt, en alis ekki í öðrum. Um rannsóknarstofnanir, þar sem þjóðirnar hafa með sam- vinnu smíðað sér styrkleika úr veikleika hverrar einnar á alþjóða- vettvangi, og þar sem unnið hefur verið af alvöru og trú á gildi þessa sem líka á gildi vísinda- eða fræði- starfsins sjálfs, er þetta fjarstæða. Megum við helzt missa hin mannlegu fræði? Þannig er einmitt um þjóðfræða- stofnunina, sem ég hef hér gert að umtalsefni. Óhjákvæmilegt er að leggja mikla áherzlu á þetta og benda um leið á eftirfarandi: Afnámstillagan leggst harkalega gegn rannsóknum á tvennan veg: 1) Hún vill leggja niður stofnanir sem starfa á háu stigi, fræðilega séð, og eru miklu sjálfstæðari í atferli sínu en hreinar þjónustu- stofnanir eru - og setja að einhverju leyti í staðinn einmitt þjónustu- stofnanir á borð við NordPlus (sem á miklum parti er ferðaþjónusta fyrir námsfólk), sem auðvitað eru líka gagnlegar og góðar. 2) Hún vill afnema allar rann- sóknarstofnanir í mannlegum og félagslegum fræðum - rétt eins og þær stæðu veikustum fótum gagn- vart slíkri aðför, gætu ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Út úr þessu er að lesa helzti greinilegan boðskap, þann að Norðurlanda- samvinnan ætti aðeins að leggja stund á og styrk til rannsókna á sviðum efnahagsmála, tækni og náttúruvísinda, en ekki mannlegra fræða né félagslegra. Almennt séð er þetta tímavilla og hlýtur að teljast bera vott um alvarlegan skilningsskort á þörfum fólksins og mannfélaganna í löndum okkar. A tíma gegndarlauss alþjóðlegs fjöl- miðlayfirgangs (óþjóðlega pen- ingasjónvarpið yfir okkur öllum), þegar sífelld breyting á heiminum heimtar hraða aðlögun af mannin- um, verður honum hætt við að verða andlega firrtur og eiginlega staðlaus útlagi heima hjá sér. Hann þarf þá á meiri menningarlegum styrk að halda en nokkru sinni ella til þess að standast sem manneskja. Því sjá ráðamenn víða um lönd, að nú ríður á að efla hin mannlegu og félagslegu fræði. Til dæmis um þetta má nefna þá afstöðu Norm- anna sem fram kemur í bókinni Med viten og vilje (Norges offent- lige utredninger 1988, nr. 28), en einnig sitthvað sem fram var sett á fundi sem Hug- og félagsvísinda- deild hins íslenzka Vísindaráðs hélt 28. okt. 1989. Vilja menn ffarga trúverðugleika norræns vísindasamstarfs? Önnur alvarleg hlið á málinu er sú, að ef h.u.b. hálft hundrað starfsmenn rannsóknastofnananna verða bara látnir hætta og ganga út án þess að ná eyrum alþjóðar um málstað sinn, þá er fjarska hætt við að þar væri um að ræða harla sorglega útför samnorrænna rann- sókna yfirleitt. Með þessum hópi er nefnilega hætt við að út gengi dálítið meira: trúverðugleikinn, það er hætt við að það traust sem menn bera nú til norrænnar rann- sóknasamvinnu yrði þá líka rokið út í veður og vind. Því að hver myndi eftir slíkan atburð halda fast við að taka norrænan vettvang fram yfir annan til þess að reyna að koma frjóum rannsóknarhug- myndum í framkvæmd, á tíma alþjóðasamskiptanna þegar sam- vinnufúsir aðiljar, sem oft eru líka fésterkir og voldugir, bjóða sig fram annars staðar, í Evrópu, Am- eríku og víðar? Á „leikvelli skrifræðisins", hjá embættismönnunum geta orðið til stefnumarkandi ákvarðanir sem verða að lokum að veruleika fyrir okkur með undirskrift lýðkjörinna stjórnmálamanna, stundum án þess að þeir sjái út fyrir yzta enda þess, hvað ákvarðanirnar hafi í för með sér. Á undan ákvörðun emb- ættismannanna eiga þeirsem málið varðar einkum oft mjög ófullkom- inn kost á að koma viðbrögðum sínum og tillögum á framfæri, áður en skriðan er fallin; skrifræðið veit sínu viti. Það er viðmælandi án andlits, ákvarðanirnar geta líkt og orðið til í ferli, þar sem enginn hefur í rauninni tekið ákvörðun, álits málsaðilja stundum ekki leitað nema á ófullkominn hátt á „upplýs- inga“-fundum þar sem skrifherr- arnir „gera grein" fyrir viðhorfum sínum, og sjálf ábyrgðin líkt og gufar upp á leið málsins um langa röð af fundum. Á fundavegferð þess máls sem hér er til umræðu verður, auk ráðherrafundar, að binda mestar vonir um skynsamlega meðferð við þing Norðurlandaráðs og fund menningarmálanefndar þess (hér í mánaðarlokin), þar sem þjóð- kjörnir þingmenn taka á því; hver veit nema þeir hafi vit fyrir ráðherr- unum sem skrifa að lokum undir það sem skrifað verður undir, - ef skrifað verður undir eitthvað. Þess vegna er mjög aðkallandi núna að þeir, sem láta sig fræðilegt og menningarlegt samstarf Norðurlanda nokkru skipta, liggi ekki heima á áliti sínu, heldur láti lýðkjöma fulltrúa okkar vita hvar við stöndum. En ef ekki verður tekin afdrátt- arlaus ákvörðun á fundunum sem framundan eru, er hætt við að þörfin á úrskurði um einstök atriði leiði til úrlausna (skrifræðisins) um þau sömu einstöku atriði, en í þeim væri þá hætt við að farið yrði að framkvæma breytingar í anda tillöguplaggsins í litlum áföngum og smátt og smátt. Það er ekki tilhlökkunarefni fyrir þann sem hefur leyft sér að trúa á gildi norrænnar samvinnu í fræðilegum og menningarlegum efnum.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.