Tíminn - 16.02.1990, Blaðsíða 10

Tíminn - 16.02.1990, Blaðsíða 10
10 Tíminn Föstudagur 16. febrúar 1990 DAGBÓK Þjóðieikhúsið: Sérstök hátíðarsýning á Endurbyggingunni í kvöld verður frumsýnt í Þjóðleikhús- inu leikritið Endurbyggingin eftir Václav Havel, en á morgun kl. 16.45 verður hins vegar sérstök hátíðarsýning í tilefni af komu höfundarins hingað til lands. Á sunnudaginn verður svo sýndur gam- anlcikurinn Lítið fjölskyldufyrirtæki og fer sýningum á því leikriti senn að fækka. Hótel ísland: Jazzkvöld Laugardaginn 17. febrúar verður Jazz- kvöld í Café Island á Hótel íslandi og hefjast þeir kl. 23.30. Það eru Tómas R. Einarsson og félagar sem leika. Kvöldvókufélagið Ijóð og saga hcldur kvöldvöku laugardaginn 17. febr- úar í Skeifunni 17 kl. 20.30. Á kvöldvök- unni verða m.a. sýndar myndir frá ferða- lögum fyrri ára. Ferðastyrkir Letterstedtska sjóðsins Islandsnefnd Letterstedtska sjóðsins hefur ákveðið að veita ferðastyrki á árinu 1990 til íslenskra fræði- og vísindamanna, sem ferðast vilja til Norðurlanda á árinu í rannsóknarskyni. Tekið skal fram, að ekki er um eiginlega námsferðastyrki að ræða, heldur koma þeir einir til greina, sem lokið hafa námi en hyggja á frekari rannsóknir eða þekkingarleit á sínu sviði. Umsóknir skal senda til Íslandsnefndar Letterstedtska sjóðsins, cö Þór Magnús- son, Pósthólf 1489, 121 Reykjavík, fyrir 28. febrúar 1990. Veitir hann einnig nánari upplýsingar. Fríkirkjan í Reykjavík: Skemmtikvöld í Templarahöllinni Að kvöldi konudagsins, sunnudaginn 18. febrúar kl. 19:30, verður skemmti- kvöld á vegum Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík í Templarahöllinni við Eiríks- götu. Skemmtikvöld á vcgum safnaðarins eiga sér vissa hefð í starfsemi hans. Þótt þau hafi fallið niður nú í nokkur ár þykir fólki full ástæða til að hefjast handa að nýju. Á skemmtikvöldinu þetta árið verð- ur víða lcitað fanga. Byrjað verður með sameiginlegu borðhaldi og fjölbreyttum skemmtiatriðum, söng og danssýningu. Að lokum verður dansað. Það er kvenfé- lag safnaðarins, sem ber hitann og þung- ann af þessum þætti starfsins eins og áður var. Aðgangur er heimill öllum meðan hús- rúm leyfir og er fríkirkjufólk hvatt til að fjölmenna og taka með sér gesti. MÍR: Brautarstöð ffyrir tvo Nk. sunnudag, 18. febrúar kl. 16, verður fræg kvikmynd sovéska kvik- myndaleikstjórans Eldars Rjazanov, „Brautarstöð fyrir tvo“, sýnd í bíósal MÍR, Vatnsstíg 10. í myndinni segir frá Platon Gronov, kunnum píanóleikara, sem er á leið í fangabúðir til að afplána refsidóm. Á járnbrautarstöð einni á leið- inni verður frammistöðustúlkan Vera á vegi hans, kunningsskapur tekst með þeim og þau fella að lokum hugi saman. Vera slæst í för með Platon og sitthvað kemur fyrir þau á leið þeirra til fangelsis- ins. Aðgangur að kvikmyndasýningum MÍR er ókcypis og öllum heimill. Laugardagsganga Hana nú Vikuleg Laugardagsganga Hana nú í Kópavogi verður á morgun. Lagt af stað frá Digranesvegi 12 kl. 10.00. Fólk hefur komist að ýmsum leyndar- dómum í Laugardagsgöngunum. Ef fólk er til dæmis vel búið til fótanna og í hlýjum fatnaði er alltaf gott veður á Islandi. Og það eru tvær hliðar á göng- unni. Fólk hittist. Fólk hittir kunningja sína. Og fólk kynnist stöðugt nýju fólki. Það er ekki til betra upphaf á góðri helgi en bæjarröltið. Og gangan er fyrir alla. Ekkert kynslóðabil. Við mælum með að setja vekjaraklukkuna. Norræna húsið: Rýmingarsala á bókum! Laugardaginn 17. febrúar verður hald- in „rýmingarsala" í Norræna húsinu. Þar verða fyrst og fremst seldar bækur - einkum skáldsögur - úr bókasafni hússins, bækur sem hafa verið til útláns en þurfa nú að víkja fyrir nýjum bókum. Einnig er nokkuð um ónotaðar bækur, sem hafa borist safninu í áranna rás en ekki samrýmst markmiðum safnsins. Þá verða til sölu sýningarskrár frá sýningum sem haldnar hafa verið í sýningarsölum og anddyri hússins undanfarin ár, svo og nokkur veggspjöld og eftirprentanir. Salan verður frá kl. 10 til kl. 18 í anddyri hússins og jafnframt verða sýndar norrænar kvikmyndir af myndbandi í samkomusal hússins, bæði myndir fyrir börn og fullorðna. Kaffistofan verður að venju opin kl. 9-19, bókasafnið verður opið þennan dag kl. 10-19 og sýningarsalir kl. 14-19. Safnaðarfélag Ásprestakalls Aðalfundur félagsins verður fimmtu- daginn 22. febrúar kl. 20.30. Leikfélag Reykjavíkur: Síðustu sýningar á Höll sumarlandsins Fjórar leiksýningar verða í Borgar- leikhúsinu um helgina, þrjár álitla sviðinu og fimm á því stóra. KJÖT eftir Ólaf Hauk Símonarson verður sýnt á stóra sviðinu í kvöld. HÖLL SUMARLANDSINS verður á stóra sviðinu á laugardagskvöld en sýn- ingum á því leikriti fer senn að fækka. LJÖS HEIMSINS verður svo sýnt á litla sviðinu í kvöld og annað kvöld. Akurevri: Jón Eiríksson í Islandsbanka Menningarsamtök Norðlendinga og ís- landsbanki kynna myndir Jóns Eiríksson- ar. Jón erfæddur 1955 oger búfræðikand- idat. Hann býr að Búrfelli í V.-Húna- vatnssýslu og hefur sótt 2 stutt myndlist- anámskeið á Hvammstanga. Hann er í hópi nokkurra áhugamanna um myndlist sem kalla sig Litberarnir. Kynningin er í útibúi íslandsbanka við Skipagötu 14 á Akureyri, og eru 12 verk sýnd, öll unnin með pastellitum. Kynn- ingunni lýkur 2. apríl 1990. FÍM: Síðasta sýningarhelgi Hafsteins Nú fer í hönd seinasta sýningarhelgi á vatnslitamyndum Hafsteins Austmanns í sýningarsal FlM, að Garðastræti 6. Þetta er 11. einkasýning Hafsteins, en hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Hann hefur um árabil verið kennari við Myndlista- og handíðaskóla Islands og er formaður Félags íslenskra myndlistamanna og í safnráði Listasafns Islands. Útivist um helgina Vetrarferð á Þingvöll sunnudaginn 18. febrúar Genginn góður hringur um svæðið í fylgd með fararstjórum, litið í gjárnar og Öxarárfoss í vetrarbúningi skoðaður. Þá verður gengið á Spöngina og síðan út með vatninu eins og tími leyfir. Auðveld ganga sem allir geta tekið þátt í. Brottför frá Umferðarmiðstöð-bensín- sölu kl. 13. Verð kr. 1000,-Létt skíða- ganga sunnudaginn 18. febrúar Genginn léttur hringur á Mosfellsheiði, kaffi í Skálafelli. Skfðagangan miðast við getu þeirra sem tóku þátt í skíðagöngu- námskeiðinu og eru þeir hvattir til að mæta. Byrjendur geta bæst í hópinn og verður tekið sérstakt tillit til þeirra. frá Umferðarmiðstöð- bensínsölu kl. 13. Verð kr. 700,- Ferðafélag íslands: Dagsferðir sunnudaginn 18. febrúar: Kl. 13.00 1. Skíðagöngunámskeið í Blá- Ijöllum. Undirstöðuatriði verða kennd. Farið í skíðagöngu um nágrennið. Tilval- ið fyrir byrjendur og eins þá sem vilja hressa upp á tæknina. Leiðbeinandi: Halldór Matthíasson. Kl. 13.00 2. Bláfjöll-Grindaskörð skíða- ganga. Þægileg gönguleið en ekki fyrir byrjendur. Kl. 13.00 3. Stóri Bolli - Grindaskörð. Fjall mánaðarins. Gengið frá Bláfjall- avegi vestari. Verið með í göngu á fjall mánaðarins. Brottför frá Umferðarmiðstöðinni, austanmegin. Farmiðar við bíl. Frítt fyrir börn í fylgd með fullorðnum. Verð í ferðirnar er kr. 800,- Munið vetrarfagnað Ferðafélagsins í Borgartúni 32, laugardaginn 17. mars. Við hvetjum ungt fólk á öllum aldri til að fjölmenna. Ferðafélag íslands Sigmar Jósep Jónasson Fæddur 9. okóber 1910 Dáinn 8. febrúar 1990 Það er erfitt að mæla eftir fallna öðlinga, ekki síst hafi þeir verið taldir á tíðum nokkuð lausir á skeið- inu. En minnumst þess að gæðingur- inn aldni hefur eitt sinn verið ungur foli, stundum baldinn, meira að segja er það oft einkenni snilling- anna. Mér kemur þetta í hug er Sigmar frændi minn hefur runnið æviskeiðið á áttugasta aldursári. Ég man hann ungan, glaðan og þróttmikinn. Full- orðna fólkið sagði að hann væri dálítið laus í rásinni, kynni ekkert með peninga að fara, svona hálf- gerður óráðsgemlingur, en þó besti drengur, greiðugur, hjálpfús og allt léki í höndunum á honum. Það var vissulega Ijóður á ungum manni á þessum tíma, milli 1930 og 1940, að bruðla með fengið fé. Kynslóðin sem hafði mátt herða sultarólina var ekki öll til grafar gengin. Enn var sparsemi og ráð- deild í heiðri höfð á íslandi. Sigmar heitinn var aldrei sínkur. Hann var löngum gefandinn en ekki þiggjandinn, einbirni foreldra sem þurftu ekki til annarra að sækja, fjölhæfur með afbrigðum og því liðtækur hvar sem var. Það var auðvelt fyrir mann sem hann að afla fjár, jafnvel á þeim tíma. Simmi frændi var heldur aldrei að fást um neina smámuni. Til þess var hann of stór í sniðum. Sigmar Jósep Jónasson var fæddur í Miðfirði á Langanesströnd 9. októ- ber 1910. Foreldrar hans voru Jónas Pálsson og Hólmfrt'ður Sigvaldadótt- ir, búandi á Kverkártungu sömu sveit frá 1909 til 1935 en síðar í Miðfirði. Jónas var fæddur að Krák- árbakka í Mývatnssveit 29. október 1874 en fluttist á fyrsta ári í Ljóts- staði í Laxárdal til Guðjóns Jónsson- ar og ólst þar upp. Páll, faðir Jónas- ar, var Guðmundsson, fæddur að Litluströnd við Mývatn, af Brúna- gerðisætt. Var hann bróðir Sigur- jóns, síðast bónda á Grímsstöðum við Mývatn, föður Fjalla-Bensa og þeirra mörgu systkina, og Sigurðar (síðast bónda að Skörðum í Reykja- hverfi) föður þeirra Knútsstaða- bræðra, Karls og Sigurðar. Móðir Jónasar var Guðrún Soffía Jónas- dóttir frá Hólum í Laxárdal og var Einar sterki eða Árni Grímsson, útlaginn eða sakamaðurinn nafntog- aði og fjölvísi, langafi hennar í móðurætt. Guðrún Soffía var dóttir Maríu Bergþórsdóttur, dóttur Guð- rúnar eldri Einarsdóttur, sterka. Um Jónas Pálsson segir Indriði Indriðason í Ættum Þingeyinga að hann hafi verið mikið hraustmenni og eldri Mývetningar munu vart telja Pál Guðmundsson, föður hans, loppinn. Hólmfríður, móðir Sigmars, var dóttir Sigvalda Þor- steinssonar, bónda á Þorsteinsstöð- um, Langanesi, Miðfjarðarnesi á Langanesströnd en síðast og lengst að Grund á Langanesi. Hann var af ætt Styrbjarnar sterka Þorsteinsson- ar úr Jökulsárhlíð. Faðir Sigvalda var Þorsteinn Eiríksson, bóndi að Heiði á Langanesi, Smyrlafelli á Langanesströnd og síðast Þorsteins- stöðum, nýbýli sem hann reisti í landi Tungusels á Langanesi, sem var eignarjörð hans. Eiríkur, faðir hans, Þorsteinsson Styrbjarnarsonar bjó að Gunnars- stöðum í Þistilfirði og Heiði á Langa- nesi, varð ungur hreppstjóri, fyrst í Svalbarðshreppi og síðar í Sauða- neshreppi, þótti mesti merkismaður og var járnsmiður góður. Sigur- björg, kona Sigvalda, var dóttir Sigurðar Jónssonar, bónda á Hró- aldsstöðum í Vopnafirði, þess er drukknaði í Nípslónum 4. desember 1865 á leið í Vopnafjarðarkaupstað. Telur Einar á Hofi hann hafa verið mætan mann og getur sérstaklega að hann hafi sjálfur stjórnað björgunar- aðgerðum úr vökinni - en hann féll niður um ótryggan ís - gætt þess að ferðafélagar hættu sér ekki um of við björgunartilraunir, að síðustu kvatt þá með æðruleysi og sokkið. Að baki Sigmari í móðurætt stóðu margir nýtir menn hins gamla bændasamfélags, smiðir á tré og járn, vegghleðslu- og húsagerðar- menn sem gerðu lífvænlegt í okkar kalda einangraða landi, ólærðu meistararnir sem skópu mikið úr litlu. Sigmar Jónasson var af góðu al- þýðufólki kominn í báðar ættir, sterkustu stofnunum sem aldrei bognuðu, kraftamönnum sem stóðu keikir í veðrunum hörðu eða þrauk- uðu eins og Bjartur í Sumarhúsum, sauðþráir, ódrepandi. Sigmar var heldur enginn kalkvistur. Það sýndi hann er á reyndi. Ég kynntist Sigmari heitnum strax smástrákur á Ásseli, en fyrst að ráði er við unnum saman í Síldarverk- smiðjum ríkisins á Raufarhöfn sumarið 1947. Það var sumarið sem ég varð 16 ára. Við vorum herbergis- félagar og unnum stundum saman þegar engin síld var en fengist við hitt og þetta. Hann var annars, að mig minnir, þá vélstjóri í „gömlu verksmiðj unni“ og vélarnar þar voru nú ekki upp á það besta! Sigmar var þá eins og ætíð góður frændi og félagi, glaðvær, sagði sög- ur og lék löngum á als oddi, yngis- sveinn í efra kanti og langt frá piparsveininum. Sögurnar voru e.t.v. ekki alltaf nákvæmlega sannar enda kunni Sigmar að krydda þegar hann vildi það við hafa og er það ekki aðall góðra sögumanna að láta ekki slá í söguna? Hann átti líka gott skopskyn og oft orðheppinn. Eitt sinn í síldarleysi man ég að verið var að baksa við að mylja niður harða klöpp og notaður þar til gamall bor með bensínmótor, hið mesta skrapatól, og gerði nú verkfall, rétt einu sinni, fór alls ekki í gang til hverra ráða sem gripið var. Þá kom Sigmar, rak puttana í mótor- inn og sá gamli gekk sem nýr væri. Þá sagði Guðmundur Eiríksson, skólastjóri, sem var verkstjóri við verksmiðjurnar á sumrin og hafði fylgst með gangi mála, við mig: „Ja, það er nú svona að af öllum ykkur frændum tel ég Sigmar fjölhæfast- an.“ Guðmundur mátti trútt um tala, hafði lengi verið skólastjóri, var greindur og þekkti vel frændlið Sigmars sem var margt á Raufarhöfn og í nágrenni. Ég get þessa litla atviks hér máli mínu til stuðnings því að ég taldi Sigmar heitinn alltaf með afbrigðum fjölhæfan enda lagði hann víða hönd á plóginn og mundi jafnvel léttara að geta þess sem hann fékkst aldrei við en hins sem hann hafði einhvern tíma á lífsleiðinni fengist við. Árið 1949 verða þáttaskil í lífi Sigmars. Þá gengur hann, hinn 13. mars, að eiga eftirlifandi konu sína, Jakobínu Halldóru Þorvaldsdóttur úr Reykjavík. Voru foreldrar henn- ar Þorvaldur Eyjólfsson, stýrimað- iB t! ur, þá látinn, og kona hans, Jakob- ína Guðlaug Guðmundsdóttir, ey- firskrar og þingeyskrar ættar. Ungu hjónin bjuggu fyrst að Grettisgötu 4 í íbúð sem Jakobína og systkini hennar áttu en hófu fljótlega að byggja sér einbýlishús við Fífu- hvammsveg í Kópavogi. Þá kom sér vel hve fjölhæfur Sigmar var og höndin hög. Þau byggðu húsið að mestu sjálf með aðstoð vina og kunningja. Var það íbúðarhæft 1953 og fluttu þau þá þangað. Mörg voru þó handtökin eftir og sífellt var Sigmar að laga, bæta og prýða. Hann hafði mikið yndi af garðin- um sínum enda var hann fallegur og gróskumikill. Munu fleiri en ég hafa fengið úr honum jarðarber, rifsber, rabarbara og blóm því að Sigmar var alltaf samur við sig. Hans yndi var að veita og gefa öðrum. Einnig ræktaði hann löngum kartöflur og rófur. Kom þá bóndinn upp í honum. Annars lagði hann hönd á margt. Hóf þegar heima í Kverkár- tungu skógerð, bjó til gúmmískó úr bílslöngum. Þá var hann sjómaður, oft matsveinn, vélstjóri, leigubíl- stjóri, ökukennari, sölumaður, vann í Últíma við fatagerð og lengi tré- smiður. Síðustu árin, þegar heilsan var þrotin og þrekið bugað, vann hann að innheimtustörfum fyrir Kópavogskaupstað og miðasölu í bíóinu þar. Hann bjargaði sér alltaf einhvern veginn, sneið sér stakk eftir vexti og gekk uppréttur í spennubeltinu þegar bakið var bilað. Sigmar Jónasson var gæfumaður. Hann eignaðist góða, greinda konu sem var honum samhent. Heimili þeirra var hlýtt og gestrisni mikil. Þau eignuðust tvö myndar- og efnis- börn: Þorvald Jakob, fæddan 6. ágúst 1950, og Hólmfríði Kolbrúnu, fædda 4. júní 1956. Þorvaldur er lögregluþjónn í Kópavogi, en blikk- smiður að mennt, giftur Elínu Ric- hardsdóttur, kennara, Björgvins- sonar, viðskiptafræðings, og Jónínu Júlíusdóttur, konu hans. Elín og Þorvaldur eiga tvö börn: Agnesi Ösp, 12 ára, og Hlyn Stein, 9 ára í þessum mánuði. Hólmfríður Kolbrún er fóstra að mennt, gift Eðvald Geirssyni sem er með innflutningsfyrirtæki. Foreldrar hans eru: Geir Christensen, rafv. og Guðrún Eðvaldsdóttir. Hólmfríður og Eðvald eiga þrjú börn: Hilmar, 12 ára, Ævar Frey, 7 ára, og Guðrúnu Ýr, eins árs. Sigmar og Jakobína bjuggu að Fífuhvammsvegi 43 til 1983 en fluttu þá að Hamraborg 26 í Kópavogi, þar sem heimili þeirra hefur verið síðan. Fyrir jólin fór Sigmar svo að Sunnu- hlíð, hjúkrunarheimili aldraðra í Kópavogi, þar sem hann andaðist að kvöldi 8. þessa mánaðar. Já, Simmi frændi er allur. Hann var ekki bara venjulegur frændi, heldur stórfrændi og stóð undir nafni. Arndís, föðuramma mín, og Hólmfríður, móðir hans, voru systur. Helgi, föðurafi minn, og Jónas bræður. Á Kverkártungu, af- skekktu heiðarbýli á Langanes- strönd, lágu fyrstu sporin hans. Þar lærði hann að bjarga sér, vera sjálf- um sér nógur og greiða götu grannans. Hann átti góða foreldra sem áttu hjá honum skjól í ellinni. Sjálfur var hann frábær heimilis- faðir og faðir. Hann lifði mestu umbrotatíma íslandssögunnar vélaöldina - og náði þar snemma tökum. Gæti Sigmar ekki látið vél ganga gerðu það ekki aðrir. Greið- vikni og hjálpsemi skipuðu ætíð hjá honum öndvegi. Það skipti engu máli þótt hann borgaði brúsann, ánægja hans var að miðla öðrum. Hann hélt fast við skoðanir sínar, þegar svo bar undir, en ætlaðist þó ekki alltaf til að vera tekinn alvar- lega. Það gat verið gaman að ganga stundum fram af fólki. Þá var hann ekki allur þar sem hann var séður, en löngum þó hollráður og hrein- skiptinn. Ég votta eftirlifandi eigin- konu hans, börnum, barnabörnum og fóstursystur, Sigríði Sigurðar- dóttur, fyrrum húsfreyju á Melavöll- um á Langanesströnd, og öðrum nánustu dýpstu samúð. Konu minni, útlendri, reyndist hann allra frænda best. Hún þakkar honum fyrir allt, sérstaklega öll blómin. Ég óska Simma frænda blessunar. Hann var mætur maður og drengur góður. Hjörtur Jónasson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.