Tíminn - 20.02.1990, Blaðsíða 5

Tíminn - 20.02.1990, Blaðsíða 5
Þriðjudagur 20. febrúar 1990 Tíminn 5 Guðmundur J. Guðmundsson spurður í Rúmeníu árið 1971: Hefurðu lesið Lenín? „Ég ætla að gera hreint fyrir mínum dyrum og ætla að vona að ég verði ekki dreginn fyrir einhvern dómstól fyrir svik við föðurlandið og þjónustu við Ceausescu. Upp á síðkastið hefur borið nokkuð á því í fjölmiðlum að Alþýðubandalagsmenn hafí heimsótt Ceausescu, verið í náðinni hjá honum og þegið af honum kost og lósí. Ég hef verið nefndur til þeirrar sögu og svo vill til að þetta er alveg satt. Ég held ég verði því að gera játningu í austan- tjaldsstfl á brotum mínum gagnvart Rúmeníu,“ sagði Guðmundur J. Guðmundsson formaður Dagsbrúnar og fyrrum Alþýðubandalagsmaður í gær. Guðmundur heimsótti Rúmeníu árið 1971 ásamt nokkrum forystu- mönnum í Alþýðubandalaginu. Hann fékk boð frá stjórnvöldum um að koma í heimsókn sem miðstjórn- armaður í Alþýðubandalaginu. „En er ekki allt slíkt hætt,“ varð Guð- mundi að orði þegar boðið barst. - Jú, en Rúmenar hafa boðið sendinefnd frá Alþýðubandalaginu til viðræðu og kynningar. Rúmenar tóku ekki þátt í innrásinni í Tékkósl- óvakíu þannig að bann flokksins við samskiptum við þátttökuríki í þeim galdri nær ekki til þeirra, - sagði forysta Alþýðubandalagsins. Lagt í hann Ég sagði nú sem svo að mér kæmu boð og bönn flokka ekkert við. Ég vildi þiggja boðið,“ sagði Guðmund- ur J. Það varð því úr að sendinefnd lagði af stað. Höfuðmarskálkurinn í ferðinni var að sögn Guðmundar Svavar Gestsson, þá ungur sveinn. Aðrir sem fóru þessa ferð voru, auk Guðmundar og Svavars, Ásdís Skúladóttir, Ingi R. Helgason og Hulda Sigurbjörnsdóttir. Þegar til Búkarest kom ráku ís- lendingarnir upp stór augu því að önnur aðalfrétt sjónvarpsins í Búk- arest var koma þeirra félaganna til landsins. Sendinefndarmennirnir ís- lensku voru nafngreindir í fréttinni og í miðið gekk stór og sver maður - Gúdmúndsen að sögn fréttam- anna. Allur viðurgerningur var afar góð- ur að sögn Guðmundar. Hann sagð- ist jafnan hafa haft þann hátt á í ferðum um austantjaldslönd að strjúka úr hópnum, þræða hliðargöt- ur og torg, setjast inn á knæpur og blanda geði við fólkið. „Ég hélt þessum hætti í Rúmeníu og týndist títt. Ekki gat ég talað við marga þar sem fáir töluðu ensku, heldur þýsku. Ég get þó fullyrt að þótt ekki hafi verið auður eða vel- sæld í landinu þá var þarna ekki neyð, hungur eða nístandi fátækt, fjarri því. Efnahagur virtist mér þó ekki í neinu samræmi við gæði og náttúrulega auðlegð landsins sem er eitt besta landbúnaðarland Evrópu. Þar er auk þess olía og þar vex í ríkum mæli hin eftirsótta trjátegund brenni. Ég var óspar á að láta þýða fyrir mig og talaði við trúnaðarmenn á vinnustöðum en lærði reyndar fljótt að forðast þá þar sem þeir virtust margir vera kommissarar flokksins. Með okkur voru tveir túlkar, qnnar var ungur maður sem túlkaði á ensku og var óspar á að túlka fyrir mig. Hann átti eftir að gagnast mér vel. Hin lenínísku prinsípp Eftir ferðalög um landið rann loks upp sú stóra stund að við ættum að eiga viðræður við sjálfan flokkinn, hinn rúmenska kommúnistaflokk. Okkur var ekið í glæsivögnum að mikilli hvítri höll og ég hef séð í fréttum að var sama höllin sem mest var barist í og nú er öll brunnin. Þar var marmari á gólfum og menn með vélbyssur stóðu vörð í anddyri og við allar höfuðdyr. í hliðargöngum voru svo menn með skammbyssur. Við vorum leidd inn í aflangan fundarsal þar sem sat fyrir sendi- nefnd frá flokknum sem bauð okkur velkomin og bauð okkur límonaði að drekka. Samkvæmt dagskrá átt- um við að eiga klukkutíma fund með talsmönnum flokksins en sú áætlun átti eftir að fara úr skorðum. í öndvegi við grændúkað borð sat maður sem greinilega var höfðingi staðarins. Hann var dökkhærður, vel klæddur og glæsilegur á góðum aldri, ungur maður. Eftir að skipst hafði verið á venjulegum kurteisis- orðum þá hóf þessi maður mál sitt og spurði: „Hvernig er það með ykkar flokk, viðurkennir hann hin lenínísku prinsípp?" Þeir Ingi R. og Svavar sem kunnu nokkurn veginn austrænar kurteisis- reglur ætluðu að svara samkvæmt þeim en áður en þeir náðu að taka til máls í klassískum stíl tók ég orðið og sagði: „Stundum við suma.“ Rúmenarnir störðu á mig. Foring- inn fékk fyrst málið og bað um nánari útlistun. Svavar Gestsson tók þá til máls og mælti á þýsku sem annar túlkurinn, ung stúlka, túlkaði á rúmensku. Svavar lýsti því yfir að Alþýðubandalagið væri engum háð nema sínum félagsmönnum og lyti engum erlendum flokki, vildi hafa vinsamleg samskipti við aðra sósí- alska flokka án þess að lúta neinum þeirra. Hann gat þess einnig að Alþýðubandalagið vildi gjarnan hafa samband við sósíaldemókratíska flokka í Evrópu. Svavari mæltist vel og ég sá á leiðtoganum að honum fannst Svavar ekki lenínískur heldur. Engin verkföll hér Nú fór heldur að hitna í kolunum. Svavar hafði lokið sinni skýru og góðu ræðu fór ég að spyrja um verkalýðsmál. Þá fór nú glansinn að fara af þessu samkvæmi. Ég vildi fyrst fá að vita hvernig menn gætu gert verkfall: Ja, trúnaðarmaður gat kært til forstjórans, forstjórinn gat kveðið upp úrskurð sem trúnaðarmaðurinn gat áfrýjað. Eftir eitthvað átta app- aröt gat síðan gerðardómur ríkisins kveðið upp endanlegan úrskurð. Ég taldi að menn þyrftu að verða langlífir til að ganga gegn um þetta apparat allt saman og taldi að þetta væri varla í samræmi við hin lenín- ísku prinsípp. Maðurinn gerðist nú mjög þungur á brún og nú varð hörkurimma um þetta mál. Ég taldi að verkfallsréttur væri með öllu sniðgenginn í landinu og ég gæfi lítið fyrir nefndir og ráð og hefði af þeim slæma reynslu og hvað þá þegar þau væru nú orðin átta dómstigin. Mað- urinn útskýrði fyrir mér málið nokk- uð en fataðist nokkuð vörnin því að framíköll mín og athugasemdir voru bæði kaldranaleg og ólenínísk. Eftir að harkaleg rimma hafði staðið lengi um verkalýðsmál varð mér litið á aðra fulltrúa flokksins. Þeir voru gráfölir og störðu á mig með angistar- og skelfingarsvip. Ég vil heldur ekki sverja fyrir að félagar mínir hafi talið mig full óstýrilátan. Þeir létu þó kyrrt liggja enda ýmsu vanir frá minni hendi. Hefurðu lesið Lenín? Þegar ég sagði að mér fyndust kjör landsmanna mun bágari en landkostir gæfu tilefni til sagði höfð- inginn að þeir sigldu hraðbyri í átt til velsældar. Ég dró það mjög í efa og sveigði talið að landbúnaðinum og spurði um hvers vegna landinu hefði ekki fremur verið skipt upp milli bænda í stað þess að stofna sam- yrkjubú. Þá sagði hann: „Þetta var vilji bænda.“ Þú lýgur því, sagði ég, þá eru rúmenskir bændur ólíkir. öllum öðrum bændum í heiminum sem vilja eiga sitt land. Þá sagði maðurinn: „Hefurðu ekki lesið Lenín? Manstu ekki eftir því að Lenín segir um bændur að þeir séu með annan fótinn í framtíðinni en hinn í fortíðinni." Ég sagðist þá kannast við þessa setningu frá Lenín og neðanmáls- grein í íslensku þýðingunni þar sem segir að fóturinn sem sé í fortíðinni sé sokkinn upp fyrir hné í mýri og þeir megi sig þvf vart hræra til framtíðar. Þetta taldi okkar maður slæma þýðingu og þar með hófust illvíg átök okkar um bændur og ég bar honum beinlínis á brýn að samyrkju- bú væru vitleysa og ég þyrfti að hitta bændur að máli áður en ég sannfærð- ist um að þeir hefðu sjálfir krafist samyrkjubúa og jafnvel boðist til þess að láta land undir samyrkjubú, enda skildist mér að ekki væri of mikið framleitt af landbúnaðaraf- urðum. „Ég efast um að þú hafir lesið Lenín" sagði höfðinginn. Áætlunin úr skorðum Þegar þarna var komið hafði fund- urinn staðið miklu lengur en ráðgert hafði verið en nú var fundi slitið og annar, sem ekki var á upphaflegri dagskrá, boðaður daginn eftir því að hin lenínísku prinsipp varð að ræða í botn. Þetta skilst mér að hafi ekki verið algengt. Næsti dagur rann síðan upp og um tíuleytið var enn byrjað að ræða málin og hófst nú hálfu harðari rimma en daginn áður. Áður en fundurinn hófst kom annar túlkurinn til mín og sagði mér að stúlkan sem túlkaði milli okkar flokksfulltrúans daginn áður hefði heldur dregið úr orðum mínum við hann þar sem henni hefði fundist nóg um hve orðhvatur og virðingarlítill ég var. Nú vildi hann túlka fyrir mig. Hann kvaðst endilega vilja að viðræður yrðu hressilegar og að hvergi yrði af dregið af minni hálfu. Hann sagðist vera orðinn hundleiður á stöðluðu kurteisishjali sem alltaf lauk með því að menn skáluðu fyrir sameigin- legri vináttu í límonaði. Mér er heldur ekki grunlaust um að hann hafi jafnvel heldur aukið við orð mín enda var það svo að leiðtoginn komst oft í talsverða geðshræringu seinni daginn. Umræðuefni voru þau sömu og daginn áður. Ég fullyrti að verkföll væru bönnuð, bændur hefðu verið kúgaðir inní samyrkjubú og Rúmen- ar væru hnípin þjóð í vanda og fólk fátækara en efni stæðu til og stjórn- völd á rangri braut. Ég lét þá ósk í ljósi Rúmenum mætti auðnast að byggja upp réttlátt þjóðfélag í hinu ríka og góða landi sínu. Þegar rimman hafði staðið lengi morguns vildi ég fara að ljúka þessu enda sýndist mér að félagar mínir væru orðnir þreyttir á mér. Það var hins vegar enginn bilbugur á rúm- enska fyrirmanninum. Meðreiðar- sveinar hans lögðu hins vegar aldrei orð í belg. Auk þess var Ingi R. Helgason farinn að ókyrrast. Hann var á þeim tíma fulltrúi Alþýðu- bandalagsins í bankaráði Seðlabank- ans og hafði í höndum bevís frá Jóhannesi Nordal um það. Þetta plagg gaf honum aðgang að seðla- banka þeirra Rúmena og þar sýndi það sig að áhrif Jóhannesar Nordal ná langt og víða. Ég reyndi því að slíta talinu með gamansemi við þennan mann sem bæði var víðlesinn skjótur til svara og snjall í tilsvörum. Ég sagði eitt- hvað á þá leið að Rúmenar virtust vera undir talsverðum vestrænum áhrifum; ungir karlmenn væru síð- hærðir og stúlkur í mjög stuttum pilsum eins og þá var tíska. Þetta henti hann á lofti og sagði að gestir tækju gleggst eftir því sem þeir hefðu mestan áhuga á. Flokkurinn skipti sér ekkert af hárvexti pilta. Meira skipti hvað gerðist inni í höfðum þeirra en utaná. Þá væri óskandi að stutt pils stúlkna væru mér yndisauki. Gæti það verið að okkar flokkur væri uppteknari af hinu ytra en því innra? Mér varð nokkuð fátt um svör við þessu og þá bar svo við að hinir rúmensku mið- stjórnarmenn tóku nú aftur gleði sína þegar þeim fannst ég fara hall- oka í orðræðunni. Þarna lauk rimmunni, við skipt- umst á hlýlegum orðum, skáluðum í ávaxtasafa og síðan kvöddumst við og Ingi R. Helgason fékk nú að fara í rúmenska seðlabankann sem var honum mikið hjartans mál. Seðlabankaráðsmenn eru nefni- lega mjög upphafnir og á fundum þeirra fara fram miklir leyndardóm- ar sem jafnvel enn þéttari hula hvílir yfir en því sem fram fer hjá frímúrur- um. Þar gerist eitthvað það sem fær jafnvel óhátíðlegustu menn eins og Þröst Ólafsson til að klæðast dökk- um jakkafötum og bursta skó sína áður en hann fer á fundi bankaráðs- ins. Ég hef reyndar heyrt að á bankaráðsfundum fari stundum fram einhverskonar kjötkveðjuhátíð og þá standi sjálfur Jóhannes Nordal skrýddur svuntu og skeri steikur ofaní ráðsmenn. Þetta hef ég þó aldrei fengið staðfest. Hvort eitthvað slíkt hefur farið fram hjá Rúmenum veit ég ekki en hinn ljúfi vinur minn Ingi R. Helga- son kom hugfanginn úr seðlabank- anum með reikninga bankans sem ekki voru síður skrautlegir en reikn- ingar íslenska seðlabankans. Dúmm dúmm og lífshamingjan Þegar hinni opinberu heimsókn var lokið varð ég eftir og fór til Brassov og lagðist þar á sjúkrahús til rannsóknar á ákveðinni meinsemd. Þar kynntist ég gömlum manni, fyrrverandi ofursta og við töluðum saman með aðstoð hjúkrunar- kvenna. Þetta var alúðlegur og góður mað- ur sem sagði að íslendingar og raunar allar þjóðir yrðu að skilja það að mannleg hamingja fælist ekki í dúmm dúmm. Ég komst að því fljótt að þetta dúmm dúmm var styrjöld. Ég kvaddi þennan ljúfa gamla mann þegar ég fór og hann bað mig að skila því til íslensku þjóðarinnar að hamingja heimsins fælist ekki í dúmm dúmm. Síðan kom ég heim og ári eftir þessa heimsókn okkar kom í seinni tíð frægur þjóðhöfðingi til íslands, Ceausescu á leið á þing Sameinuðu þjóðanna. Sýnt var í sjónvarpinu þegar Ceausescu heimsótti forseta f slands og var þá með í för einkafull- trúi hans. Var ekki nema kominn þar leiðtoginn úr Búkarest sem spurði hvort ég hefði lesið Lenín. Þá brá mér og sá hvers konar stórmenni ég hafði att kappi við. Ég gleymdi strax eftir fund okkar í Búkarest um árið nafni þessa manns en veit nú að þetta var Dmitri Poscuesku, hægri hönd hins fallna einræðisherra og helsti ráðgjafi í utanríkismálum og fulltrúi hjá Sam- einuðu þjóðunum. Ég hef talsvert reynt að komast að því hvorum megin hryggjar þessi snjalli viðmæl- andi minn frá forðum liggur nú og hef komist að því að hann sé nú í fangelsi. -sá

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.