Tíminn - 24.02.1990, Blaðsíða 6

Tíminn - 24.02.1990, Blaðsíða 6
14 Tíminn Laugardagur 24. febrúar 1990 Laugardagur 24. febrúar 1990 '.II -> i ■!V/>: .f'-1. j'v,1 Timinn 15 Petur Teitsson frettastjori Stöövarinnar '90 i helgarviðtali um ritstjornarstefnu fréttastofunnar: Við eltum slúður og órökstuddar fréttir Fréttastofa Stöðvarinnar ’90 er sú fréttastofa landsins sem vakið hefur hvað mesta athygli síðari misseri. Stöðin ’90 sendir einungis út úrvalsfréttir, einu sinni í viku og einskorðast þær fréttir við að fréttamenn Stöðvarinnar skilji fréttirnar. Pétur Teitsson fréttastjóri er prímus mótor Stöðvarinnar og maðurinn á bak við velgengni hennar. Pétur hefur ekki komið fram í öðrum fjölmiðlum, en féllst á að tjá sig um samkeppnina á fjölmiðlamarkaðnum í helgarviðtali Tímans. Við spurð- um Pétur spjörunum úr, en fyrst þetta.... Nú hefur því verið haldið leyndu hverjir eiga Stöðina* 90. Getur þú upplýst hverjir eru peningamennirnir á bak við stöðina? „Mér er illa við að upplýsa það nákvæmlega, en get þó sagt að með í spilinu er fólk úr öllum stéttum þjóðfé- lagsins. Nokkrir sjoppueigendur eiga drjúgan hlut í Stöðinni, þar sem þeir féllust á að breyta skuldum starfsmanna okkar í hlutafé. Einnig eiga þeir starfsmenn, sem koma reglulega fram lítinn hlut í fyrirtækinu, en það eru þeir sem eiga inni hjá okkur stóran hluta af launum sínum frá upphafi. Það er enginn aðili sem nálgast það að hafa meirihluta, þó við óttumst að einstaka heildsalar geti orðið sterkir þegar fram líða stundir, einkum þeir sem hafa selt okkur tæki og gengið illa að fá þau greidd.“ - Kemur þetta ekki niður á hlutleysi fréttastofunnar? „Nei. En hins vegar hef ég orðið var við að þetta hefur komið niður á hlutleysi matreiðsluþátta, þar sem mat- vælafyrirtæki sem mötuneytið okkar verslar við hafa getað beitt okkur þrýstingi. Fréttirnar sleppa algjörlega fyrir horn hvað þetta varðar, enn sem komið er að minnsta kosti.“ - Hafið þið ritstjórnarstefnu? Hver er ykkar stefna? „Okkar stefna er fyrst og fremst að vera með nýjar æsifréttir. Einnig leggj- um við okkur mikið eftir slúðri og óstaðfestum fréttum, en vöndum þó öll vinnubrögð í hvívetna. Okkar kjörorð er: Vandið slúður - rökstuddur róg- burður.“ - Samkeppnin er hörð á fjölmiðla- markaðnum, og nú er nýr samkeppnis- aðili í augsýn. Hverjir eru möguleikar Stöðvarinnar á að halda velli? „Stöðin er að kanna ýmsa mótleiki og þeir eru þó nokkuð margir og misjafnir. Þar á meðal eru tæknilegar lausnir á þessum málum. Við höfum t.a.m. kannað möguleika á því að kaupa sérstaka myndlykla til að læsa útsendingum annarra stöðva, en þetta er allt í athugun. Miðað við hvernig þessi samkeppni hefur þróast er ljóst að niðurstöðu þarf að fá í málið sem allra fyrst. Við viljum ekki hleypa samkeppnisaðilum of mikið inn á gafl hjá þjóðinni. Það er á hreinu.“ - Nú hafa fréttamenn Stöðvarinnar fjallað á óvæginn hátt um ýmsar lykil- persónur í þjóðfélaginu. Hefur þú eða þínir fréttamenn orðið fyrir einhverju aðkasti vegna þessa. Hefur verið þrýst á að einstaka menn verði látnir fjúka? „Já. Það er ekkert launungarmál að þrýst hefur verið á, úr ýmsum áttum, að einstaka menn verði látnir fjúka. Til að mynda hafa bifvélavirkjar í landinu bundist samtökum gegn okkur og vísað okkur trekk í trekk á sama manninn, Hrafn Hamar, þegar bílakostur okkar hefur þurft viðhalds við. Þetta hefur valdið okkur umtalsverðu tjóni þar sem aðferðir Hrafns eru vægast sagt óblíðar. Einnig hafa aðrir aðilar beitt okkur óbeinum, beinum, fjárhagsleg- um, félagslegum og líkamlegum þrýst- ingi en ég vil ekki fara út í að skilgreina nánar hverjir það eru að sinni. Sem dæmi um þetta get sagt frá því að fréttamenn Stöðvarinnar hafa orðið fyrir þrýstingi á ýmsum almennings- stöðum, svo sem á nuddstofum og víðar.“ - Fær Stöðin ríkisstyrki og hvað finnst ykkur Stöðvarmönnum um ríkis- fjölmiðla? „Nei, nei. Stöðin fær enga ríkis- styrki." Pétur hvessir augun, skýtur upp efri vörinni og setur upp fréttastjórasvip- inn. „Hér er um að ræða hreinræktað einkaframtak. Um ríkistjölmiðlana verð ég að segja að mér finnst skorta að mál séu tekin föstum tökum. Um- fjöllunin er máttleysisleg og lin gegn- umsneitt. Einnig finnst mér oft á það skorta að fréttirnar séu settar í rétt samhengi og réttar ástæður fyrir hlutunum raktar. - Nú eru fordæmi fyrir því að einkafyrirtæki hafi komist á rfkisjötuna eftir krókaleiðum, svokallaða sjóða- leið, gegnum atvinnutryggingasjóð, hlutafjársjóð og fleiri slíka. Þið hafið ekki hugleitt þennan möguleika til að auka eigið fé í Stöðinni? „Stöðin hefur að sjálfsögðu úti allar klær til þess að afla sér fjár. Við höfum ekki útilokað neina möguleika í því sambandi. Við höfum upp á síðkastið haft hóp manna í því að kanna með hvaða hætti við gætum hugsanlega farið á hausinn og látið ríkið taka við þeim skuldum sem hvíla á okkur. Enn sem komið er höfum við ekki fundið þessar leiðir og erum því algerlega á eigin vegum, og þangað til eitthvað breytist í þessum efnum trúum við statt og stöðugt á einkaframtakið." - Dregur Stöðin taum einhverra hagsmunahópa? „í rauninni ekki. En eins og fólk hefur orðið vart við erum við afskap- lega hliðhollir almenningi í landinu, neytendum, atvinnurekendum, verka- fólki, bændum, sjómönnum, útvegs- mönnum, stjórnmálamönnum, emb- ættismönnum, opinberum starfsmönn- um, börnum, unglingum, gamalmenn- um, öryrkjum, iðnaðarmönnum og fjölmiðlafólki. En að öðru leyti held ég að Stöðin dragi ekki taum neins nema sjálfrar sín.“ - Hefur horfun á fréttir Stöðvarinnar verið mæld? „Hún hefur verið mæld, en við viljum ekki taka mark á þeim mæling- um þar sem við teljum að ekki hafi verið notaðar réttar mælistikur. Það var reyndar gerð könnun í nokkrum húsum í fyrravetur og þá kom í ljós að Stöðin hafði horfun allt frá núll og upp í um tvö hundruð prósent. Það var ekki hægt að skýra með öðru móti en því að þar hefði verið haft óhóflegt áfengi um hönd og þess vegna hefði horfun verið tvöföld á tímabili. Við viljum helst mæla horfun hjá okkur sjálfum og okkar nánustu sva að við getum al- mennilega tekið mark á niðurstöðun- um, og í öllu falli viljum við velja vandlega það fólk sem horfun er mæld hjá. Horfun er flókið fyrirbæri sem ekki er hægt að treysta hverjum sem er fyrir.“ - Þegar fréttamenn eru ráðnir á Stöðina, hvaða kröfur eru gerðar til þeirra? Eða ræður klíka mestu þar um? „Ja, klíka er voðalega ljótt orð. Hinu er ekki að leyna að þegar þarf að fá trausta menn til starfa er nærtækast að leita til þeirra sem maður þekkir best og eru tengdir manni fjölskyldubönd- um. Það er ekkert launungarmál að ýmsir af traustustu starfsmönnum Stöðvarinnar eru náskyldir. Á hinn bóginn setjum við einnig þau skilyrði að viðkomandi hafi góð sambönd í saumaklúbbum og hliðstæðum samtök- um og sé því líklegur til að frétta af helstu viðburðum, helst áður en þeir gerast.“ - Nú eru fréttastjórar Stöðvar 2 og Ríkissjónvarpsins, helstu keppinautar þínir. Hverja telur þú helstu kosti og galla keppinautanna? „Ég hef frétt að eitthvað sé bogið við Boga, en ég sel það ekki dýrar en ég keypti. Páll hefur hins vegar einfaldan smekk og gengur smekklega til fara. Það er auðvitað hans styrkur.“ Stöðin sendir einungis út einn frétta- tíma í viku. Eru fréttamenn Stöðvar- innar í fullu starfi? „Þeir eru í ríflega fullu starfi. Við erum afskaplega kröfuharðir á okkar fréttir og því kemur til átaka á fundum á fréttastofunni. En þá kemur til minna kasta. Fréttastjórinn tekur af skarið og ákveður hvað fer í loftið hverju sinni. Ég skal ekkert fullyrða um hvort ég er hæfasti maðurinn á fréttastofunni, en ég geri þá kröfu að starfsmenn mínir fullyrði það, og einhverra hluta vegna gegni ég þessu starfi. Ég segi það í fullri hreinskilni að ég treysti sjálfum mér best til að vega og meta hvaða fréttir við sendum út. Við viljum ekki flytja nema valdar úrvalsfréttir og því teljum við ekki ástæðu til að senda oftar út.“ - Nú hefur Stöðin sneitt hjá hefð- bundnum fréttum, loðnutölum og öðru slíku. Á hverju byggið þið ykkar frétta- mat? „Við reynum helst að skilja fréttirnar sjálfir. Að vísu hafa orðið slys hjá okkur eins og öðrum fréttastofum og við sent út fréttir sem við höfum ekkert botnað í.“ - Þið áttuð besta lagið í Júróvision. Munið þið leita réttar ykkar fyrir dómstólunum varðandi þann úrskurð að lagið hefði borist of seint í keppnina og því ekki löglegt? „Við munum taka þessum málalok- um eins og sannir íþróttamenn. Og teljum það ekki höfuðatriði að sigra, heldur að vera með. Okkur er smám saman að renna reiðin vegna þessa máls.“ - Hver er frétt vikunnar að þessu sinni? „Ég held að það hljóti að vera tilmæli Alþýðuflokks um að ríkisstjórnin fari í útgjaldabindindi. Það er stórfrétt.“ - Á Pétur Teitsson einhvern upp- áhaldsfréttamann á hinum stöðvunum? „Já, svo sannarlega, en ég er ekki svo vitlaus að gefa það upp, ef ske kynni að ég gæti keypt þá fyrir slikk á næstunni. “ - Af hverju biðjið þið allir að heilsa Ebbu, er eitthvað á bakvið það? „Það er ekkert á bak við það. Hún er einfaldlega svo hlý og almennileg manneskja að fólk vill gjarnan koma kveðjum til hennar. Það er ekki af neinu öðru.“ - Þínir fréttamenn þakka jafnframt fyrir síðast? „Það virðist bara vera svo gaman að hitta hana Ebbu, að mönnum finnst full ástæða til að þakka fyrir þá indælu samveru. En auðvitað reynir fólk að mistúlka það. Það lýsir hins vegar einungis hugarfari þess fólks en ekki okkar.“ - Gerir þú upp á milli fréttamanna þinna? „Nei, ég met þá alla að verðleikum og þeir hafa allir sínar sterku hliðar og mér finnst engin ástæða til að gera upp á milli manna.“ - Hvenær vinnið þið fréttirnar? „Fréttirnar eru í vinnslu alla vikuna. Snarpasta törnin er þó síðustu tvo sólarhringana áður en við förum í loftið. Það er eins hjá okkur og á öðrum fréttastofum að stórviðburðir gerast á öllum tímum sólarhrings og þá þarf að sinna þeim strax. Þetta er lítil fréttastofa og því verða menn að vera viðbúnir útkalli með litlum eða engum fyrirvara, allan sólarhringinn. Við höf- um ekki efni á að setja upp margskiptar vaktir.“ - Þínir fréttamenn leggja mikið á sig, jafnvel stefna lífi sínu í voða við fréttaöflun. Hvað kemur til? „Eins og samkeppnin er orðin í fjölmiðlaheiminum þá þora menn ekki annað en að leggja sig alla fram. Menn eru hreinlega hræddir við að missa vinnuna og leggja því ýmislegt á sig til að halda í starfið, enda full ástæða til.“ - Menn eru þá ekki æviráðnir á Stöðinni? „Nei. Hér geta menn átt von á miklum breytingum fyrirvaralaust. Fréttamaður getur búist við að vera gerður að starfsmanni í eldhúsinu og veðurfræðingur gæti lent í því að sjá um íþróttir. Eitt dæmi um þetta er Snjólfur Tryggvason, sem nú sér um föndurþáttinn á Stöðinni en hann byrj- aði sem tæknistjóri og þolir ekki föndur eins og glögglega sést í þáttum hans. Þetta er mjög hvetjandi kerfi og tryggir að menn leggja sig alla fram.“ - Getið þið sofið fyrir hugmyndum? „Það er misjafnt. Stundum halda hugmyndirnar fyrir okkur vöku en stundum sofnum við út frá þeim. Því er ekki til neitt eitt svar við því. Það er jafnvel til í dæminu að menn sofna út frá hugmyndum í beinni útsendingu og áhorfendur hafa því miður orðið vitni að því.“ -ES Tímamynd Pjetur

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.