Tíminn - 04.05.1990, Blaðsíða 9

Tíminn - 04.05.1990, Blaðsíða 9
8 Tíminn Föstudagur4. maí 1990 Föstudagur4. maí 1990 Tímii Ræða Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra við eldhúsdagsumræður á Alþingi í gær: „Sundu irlynd ríl kisstjó rn“ hefur staðið að þjóðarsátt og framförum í landinu Tíminn birtir hér ræðu forsætisráðherra við eldhúsdagsumræðu á Alþingi í gær. Ræðan er unnin af segulbandi. Heiðraði þingforseti, þingmenn og góðir íslendingar. Ég sé ástæðu til að þakka Þorsteini Pálssyni fyrir það hól sem fólst í ræðu hans hér áðan um núverandi stjórnar- samstarf. Hann endurtók gamla plötu um sundurlyndi í stjórnarsamstarfinu en þessi sundurlynda ríkisstjórn hefur lyft hverju grettistakinu á eftir öðru. Þessi sundurlynda ríkisstjórn hefur fengið hvert stórmálið eftir annað afgreitt og mörg eru á leiðinni í gegnum Alþingi. Ég bendi á það að þessi sundurlynda ríkis- stjórn er að fá markaða hér stefnu til lengri tíma í stjórn fiskveiða og hún er að fá samþykkt hér á Alþingi eitthvert mesta framfaramál á.þessu sviði, hag- ræðingarsjóða fiskveiða, sem ég leyfi mér að fullyrða að eigi eftir að breyta gjörsamlega rekstarstöðunni í þessum mikilvæga atvinnuvegi. Og þessari sund- urlyndu ríkisstjórn hefur, þrátt fyrir að aðrir hafa reynt í mjög mörg ár, tekist að koma hér á fót umhverfisráðuneyti, að vísu hefur Sjálfstæðisflokknum, þess- um stærsta flokki, tekist að koma í veg fyrir það að sjálfsögð verkefni verði flutt til þessa ráðuneytis. Og vekur það satt að segja nokkra undrun á sama tíma og við sjáum myndir í sjónvarpi af óhrein- indum í fjörum og að gróður landsms blæs á sjó út. Og þó hef ég ekki nefnt langsamlega stærsta afrek þessarar sund- urlyndu ríkisstjórnar, að reisa íslenskt efnahagslíf úr þeirri rúst sem það var þegar Þorsteinn Pálsson skildi við í september 1988. Jú, það er hárrétt að það eru gífurlega miklar breytingar í heiminum og aldrei hafa þær verið svo miklar áður. Múrinn hrynur, girðingar eru fjarlægðar og fólk tekst í hendur yfir landamærin og kemst að því að það er í raun og veru hvert öðru líkt. Tortryggnin hverfur, traust skapast og kalda stríðið er horfið. Ekki minntist háttvirtur þingmaður á það. Og sannarlega hafa gífurlega miklar breyt- ingar átt sér stað, jafnvel í okkar næsta umhverfi í Evrópu. Bandalög sem voru mynduð fyrir nokkrum árum um frjálsa verslun springa nú út eins og blóm að vori. Efnahagsbandalag Evrópu stefnir nú óðfluga í að verða öflugasta efnahags- bandalag eða efnahagsheild sem til er í heiminum. Og flestir spá því að þar myndist stjórnmálasamtök sem muni nálgast Bandaríki Norður-Ameríku. Svo sannarlega höfum við íslendingar tengst þessari þróun og við erum raunar í miðri hringiðunni. Við getum ekki dregið okkur út úr þessari þróun, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Okkar við- skipti við Efnahagsbandalagið hafa auk- ist hröðum skrefum. Þangað flytjum við nú um það bil sextíu af hundraði af okkar útflutningi og lífskjör okkar eru í stöðugt ríkari mæli háð útflutningi og innflutningi. Það má segja að um fjörutíu af hundraði af okkar lífskjörum séu þangað sótt. Þetta nefni ég til að undir- strika að vitanlega þurfum við að taka ábyrgan þátt í þeirri þróun sem er að eiga sér stað, og gæta okkar hagsmuna. Ég fagna því að íslenska þjóðin virðist sammála um að full aðild að Evrópu- bandalaginu komi ekki til greina, enda yrðum við þá ekkert annað en útkjálki, eins konar annexía að þessum bandaríkj- um Evrópu. Hins vegar vil ég leggja áherslu á það að til þess að við getum tekið þátt í þeim viðræðum og samningum sem eru fram- undan verður íslenskt atvinnulíf að vera öflugt. Það var það ekki haustið 1988. Þá lýstu atvinnurekendur því yfir, m.a. fjölmargir fylgismenn Sjáifstæðisflokks- ins, að íslensk fiskvinnsla mundi ekki opna á ný eftir þau áramót. Nú um þessi áramót lýstu þessir sömu menn því yfir að nú væri loksins borð fyrir báru til ganga til heilbrigðra og skynsamlegra samninga við verkalýðshreyfinguna. Þetta er mikil breyting. Enda eru öll merki sem staðfesta þessa breytingu. Sú ríkisstjórn sem var mynduð í september 1988 hafnaði gengisfellingakollsteypum Sjálfstæðisflokksins. Hún ákvað að taka höndum saman við þjóðina og freista þess að vinna okkur íslendinga út úr þeim erfiðleikum sem þá voru orðnir og það hefur tekist. Gengið hefur verið leiðrétt svo það má teljast nokkurn veginn rétt. Á sama tíma, sem er tiltölu- lega óvenjulegt, hefur tekist að koma í veg fyrir það að verðbólgualda skapað- ist. Og það sem er ennþá mikilvægara er að á sama tíma tókst að snúa við þeim vöruskiptajöfnuði sem hafði verið okkur afar óhagstæður og vöruskiptaafgangur varð hvorki meira né minna en um átta milljarðar króna. Staða peningakerfisins batnaði, innlán urðu meiri heldur en útlán og, samkvæmt mati Seðlabankans sjálfs, þá lækkuðu vextir að meðaltali, raunvextir fóru úr u.þ.b. tíu af hundraði niður fyrir átta af hundraði. Þeir hefðu mátt lækka meira. Því ég er algjörlega ósammála því sem kom fram hjá háttvirt- um þingmanni Þorsteini Pálssyni að of lágir vextir árin ’86 og ’87 hafi ráðið úrslitum í þeirri verðbólguöldu sem þá hófst. Þvert á móti hafa vextirnir legið með ofurþunga á skuldugum íslenskum atvinnuvegum. Þannig er að ástandið nú nálgast það að vera það heilbrigðasta sem við höfum búið við og svo sannarlega erum við nú í þeirri aðstöðu að geta gengið með höfuðið hátt til þeirra viðræðna sem eru framundan við Efnahagsbandalag Evr- ópu. Þetta er kannski það mikilvægasta sem þessi sundurlynda ríkisstjórn hefur áorkað á sínum tiltölulega stutta ferli. En að sjálfsögðu er björninn ekki unninn þegar til lengri tíma er litið. Vitanlega verður nú að gæta þess mjög vandlega að ekki hefjist ný verðbólgualda og á vegum þessarar ríkisstjórnar er fylgst með því frá degi til d^gs. Ég hef fengið þær fréttir í dag að allt bendi til þess að verðbólguhækkunin nú í maí verði innan þeirra marka sem verkalýðshreyfingin hefur sett sem rautt strik. Þar er út af fyrir sig miklum áfanga náð og það bendir allt til þess að á þessu ári verði verðbólga frá upphafi til loka ársins um sjö af hundraði og fari lækk- andi þegar líður á árið. Það boðar svo sannarlega nýja tíma í þessu þjóðfélagi. Einnig er fylgst vandlega með því að ekki hefjist sú þensla sem varð okkur svo hættuleg á árunum frá 86 til 88. Þar eru vissulega nokkur merki sem ber að varast, t.d. þau ánægjulegu tíðindi að atvinnuleysi er hverfandi og bendir margt til þess að hér sé að skapast nokkur umfram eftirspurn eftir vinnu- afli. Ég sagði þau ánægjulegu tíðindi að atvinnuleysið er að hverfa, en vitanlega þurfum við þá að gæta okkar á því að fjárfesting og innflutningur vaxi ekki. Ég vil taka undir það með forystum- önnum í sjávarútvegi að gengishækkun í þessari stöðu er ekki rétt. Gengishækkun kemur mjög ójafnt við atvinnuvegi landsins. Ég get hins vegar alls ekki tekið undir það að vaxtahækkun sé rétta ieiðin til að sporna gegn hugsanlegri þenslu. Vaxtahækkun mundi hvíla sem ofur- þungi enn á ný á skuldugum íslenskum atvinnuvegum. Því hef ég lagt áherslu á og við í ríkisstjórninni að Verðjöfnunar- sjóður sjávarútvegsins verði afgreiddur frá Alþingi. Vera má að stjórnarandstöð- unni takist að koma í veg fyrir það, en þó er það von mín að svo verði ekki. En umfram allt vil ég leggja áherslu á að atvinnurekendur sjálfir, sem búa við betri hag, gæti þess að ráðstafa þeim peningum ekki til óskynsamlegra fjár- festinga eða eyðslu. Þetta fjármagn á að nota til að lækka skuldir bæði atvinnufyr- irtækjanna og íslenska þjóðarbúsins í heild. Þá erum við svo sannarlega á réttum vegi. Og ég ber það traust til íslensks atvinnulífs að svo muni sannar- lega verða. Það sem er hvað alvarlegast í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, sem háttvirtur þingmaður minntist á hér áðan, er spá þeirrar stofnunar um lítinn hagvöxt hér á landi á næstu árum. Það er mjög umhugsunarvert. Þessi spá er í fullu samræmi við það sem Þjóðhags- stofnun hefur sjálf spáð. Þess vegna er aldrei nauðsynlegra heldur en nú að rennt verði fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf. Jú, þetta hefur oft verið sagt, en það er sannara nú en nokkru sinni fyrr. Það er þess vegna sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að auka nokkuð við orkufrekan iðnað í þessu landi og nýta ónotaðar orkulindir í því skyni. Það er enn eitt sem þessi sundurlynda ríkisstjórn er að knýja í gegn. En ég hef þó ekki síður trú á því að aðrir vaxtarmöguleikar séu miklir, jafnvel ennþá mikilvægari. Ég hef óbilandi trú á því að við getum stórlega aukið hér þjónustu, t.d. við ferðamenn. Og þó hef ég mesta trú á því að sú þekking sem unga fólkið í þessu landi er að afla sér á fjölmörgum nýjum sviðum, hátækni og vísinda svo eitthvað sé nefnt, muni þegar til lengri tíma er litið reynast þessari þjóð happadrýgst. En allt mun það verða til einskis ef við glötum því sem hefur áunnist. Þessi sundurlynda ríkisstjórn mun sitja út kjörtímabilið og þessi ríkisstjórn mun ekki glata neinu af því sem áunnist hefur með hörðum höndum, ekki síst fólksins sjálfs, þann tíma sem hún hefur setið. Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra flytur ræðu sína á þingi í gær. Tímamynd Pjetur 'i l i i

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.