Tíminn - 15.11.1990, Blaðsíða 12

Tíminn - 15.11.1990, Blaðsíða 12
12 Tíminn Fimmtudagur 15. nóvember 1990 Guðný Sigurbjörg Guðjónsdóttir Fædd 7. janúar 1892 Dáin 4. nóvember 1990 í dag, 15. nóvember, fer fram útför Guðnýjar Guðjónsdóttur frá kirkju Fíladelfíusafnaðar, en hún andaðist á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund 4. þ.m., en heimili sitt átti hún að Njálsgötu 25. Áður hafði hún búið á Akureyri og var þar virkur félagi í Sjónarhæðar- söfnuði, er Arthur Gook stofnaði og veitti forstöðu um árabil. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur var hún í tengslum við söfnuð Einars Gísla- sonar, Fíladelfíu, og síðasta ósk hennar var að verða kvödd frá þeirri kirkju. Síðustu tvö ár dvaldi hún á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund við þol- anlega heilsu, hafði fótavist, gat les- ið lítið eitt, hlustaði á útvarp og reyndi að fylgjast sem best með því sem var að gerast og framförum í þjóðfélaginu. Guðný var fædd að Böðvarshólum í Vesturhópi 7. janúar 1892 og því nær 99 ára er kallið kom. Foréldrar hennar voru hjónin Kristín Árnadóttir frá Hörgshóli í Vesturhópi og Guðjón Helgason, síðast fiskmatsmaður á Akureyri. Guðný ólst upp með foreldrum sí- um í Vesturhópi fram að átján ára aldri, en þá flutti fjölskyldan til ísa- fjarðar og síðan til Bolungarvíkur. í Bolungarvík kynntist hún eigin- manni sínum, Jóhanni Þorgeiri Hjaltasyni, vélstjóra, frá Brekku í Nauteyrarhreppi. Fyrstu árin bjuggu þau í Bolungar- vík og þar voru elstu dætur þeirra, Guðríður Marta og Guðjónína Krist- ín, fæddar. Þá var flust til ísafjarðar og þar fæddust þrjú barnanna, Gunnar, Jó- hanna Ólöf (Nanna) og Árni Garðar. Foreldrar Guðnýjar höfðu flutt til Akureyrar 1912 og eftir að Garðar fæddist, sem var 1920, ákvað fjöl- skyldan að flytja til Akureyrar og keypti sér lítið hús í Fjörunni er nefnt var Smiðjan. Jóhann stundaði sjó og var lengst af vélstjóri á skip- um föður míns. Hann lést á Hrafn- istu í Reykjavík fýrir rúmlega 30 ár- um. Á Akureyri ræktaði Guðný fallegan blóma- og matjurtagarð við Smiðj- una, er vakti athygli og aðdáun þeirra er þar áttu leið um og voru þó margir fallegir garðar í Fjörunni og vel hirtir. Matjurtirnar voru góð búbót fyrir heimilið sem oft var mannmargt. Elsta dóttir þeirra, Marta, hjúkrun- arkona, giftist norskum manni, Freidar Johansen, og áttu þau tvo drengi, Hans og Gunnar, en þau slitu samvistum og tók Guðný þá drengina, er voru kornungir, og ól þá upp til fullorðinsára. Marta fór til hjúkrunarnáms til Kaupmanna- hafnar, giftist dönskum tollverði og bjó þar til æviloka. Kristín giftist Þorgeiri Lúðvíkssyni, bónda og sjómanni, frá Vopnafirði. Bjuggu þau þar, á Akureyri og í Reykjavík, en hann er látinn fyrir mörgum árum. Börn þeirra voru sex. Kristín er nú á sjúkrahúsi, en hún hefur átt við vanheilsu að stríða undanfarin ár. Gunnar var stýrimaður, kvæntur Ingu Fjeldsted. Áttu þau tvö syni. Gunnar lést 1974. Jóhanna Ólöf (Nanna) giftist amer- ískum landgönguliða, er hér var á stríðsárunum, Burr Daniel, og er hún búsett í Frankfurt í Kentucky í Bandaríkjunum. Börn þeirra voru þrjú. Nanna hefur verið sjúklingur und- anfarin ár, dvalið mikið á spítölum, er ekki ferðafær og getur því ekki verið við útför móður sinnar. Meðan hún hafði heilsu, heimsótti hún oft móður sína. Yngstur var Garðar, stýrimaður. Hann fórst með amerísku skipi á Kyrrahafi 1952. Hann átti ameríska konu, en hún fórst í flugslysi og voru þau barnlaus. Auk þess að ala upp tvo dóttursyni sína, Hans og Gunnar, ól Guðný upp þriðja drenginn, Ib Henrik Peder- sen, er hún tók sem kornabarn af danskri stúlku á Akureyri, er hafði átt hann með dönskum farmanni á skipi D.F.D.S., er sigldu þá til ís- lands. Stúlkan, er var á Akureyrarspítala og hafði kynnst Mörtu dóttur Guð- nýjar er þar starfaði, bað nú Guð- nýju fyrir barnið á meðan hún færi snögga ferð til Danmerkur. Svo fór að Guðný heyrði aldrei frá stúlkunni framar, né heldur föðurnum. Hún lét drenginn ekki frá sér en gerði hann að kjörsyni sínum. Ib lærði framreiðslustörf og starfaði við það, en hann er nú látinn. Ekkja hans er Guðlaug Jónsdóttir og áttu þau einn son. Guðlaug reyndist Guðnýju vel. Hans dóttursonur Guðnýjar reynd- ist ömmu sinni frábærlega, leit ætíð til með henni og aðstoðaði hana á allan hátt og það sama gerði kona hans, Hrafnhildur Tómasdóttir, enda bar Guðný mikið traust og hlý- hug til þeirra. Hans lést á besta aldri, en Hrafnhildur hélt áfram að hugsa um Guðnýju og annast mál hennar og heimsótti hana reglulega tvisvar í viku, þann tíma sem hún dvaldi á Grund. Gunnar, dóttursonur hennar er hún og ól upp, er búsettur í Ósló. Hann hefur einnig sýnt ömmu sinni mikla tryggð og hjálpsemi, og hún hafði á orði að þeir hefðu vissulega launað sér uppeldið. Gunnar hefur undanfarin jól heim- sótt ömmu sína ásamt konu sinni og gladdi það gömlu konuna mjög. Systkini Guðnýjar á lífi eru: Hólm- fríður, Ásta Zoéga og Friðrik Guð- jónsson, útgerðarmaður, nú á Hrafnistu í Hafnarfirði. Guðný bjó í fjölda mörg ár ein í ris- íbúð sinni að Njálsgötu 25, eða allt til þess að hún 95 ára þurfti að fara á augndeild Landakotsspítala og gekkst þar undir uppskurð á auga og við það fékk hún nokkra sjón. Aldrei fékk hún heimilisaðstoð meðan hún bjó ein í óhentugri ris- íbúð sinni, en innkaup önnuðust hennar nánustu fyrir hana og kaup- maðurinn á horninu sendi henni matvörur eftir beiðni hennar. Guðný var harðgerð kona, skap- mikil en raungóð, lróð og hjálpsöm. Henni var gefinn mikill trúarstyrkur og hjálpaði það henni, því að margt misjafnt mátti hún reyna á langri æfi. Nú hefur hún fengið kærkomna hvfld, en oft hafði hún á orði hvað þetta líf entist og ekki bar hún kvíða fyrir umskiptunum. Gengin er merk kona. Hún hvfli í friði. Björn Ingvarsson. BÓKMENNTIR Edmund Burke Stanley Ayling: Edmund Burke. His Life and Opinions. John Murray 1988. Burke var einn meðal stofnenda „Bókmenntaklúbbsins", sem kennd- ur er við dr. Johnson, stofnaður 1764. Meðal annarra stofnenda var Johnson, Joshua Reynolds og tengdafaðir Burkes, Nugent læknir. í „Boswell’s Life of Johnson" er nokkrum sinnum minnst á Burke og svo virðist sem Johnson hafi met- ið hann framar öðrum mönnum. „Burke er einstakur maður. Andríki hans er óþrjótandi ...“ Samtíðar- menn Burkes voru sama sinnis. Burke vakti á sér athygli með riti sínu „Origin of Our Ideas of the Su- blime and the Beautiful" 1757. Þetta rit var víðlesið, m.a. varð þýski heimspekingurinn Kant hrifinn. Ayling segir ævisögu Burkes og þar með sögu hans sem stjórnmála- manns, ræðusnillings og höfundar rita sem höfðu mikil mótunaráhrif á stjórnmálastefnur þá og síðar og hafa enn. Burke fæddist 1729 í Dyfl- inni á írlandi. Faðir hans var lög- fræðingur, mótmælendatrúar, en móðir hans kaþólsk. Hann gekk í kvekara-skóla og þar hlaut hann ágæta menntun, og síðar í Trinity College. Hann stundaði lögfræði en gaf sig aldrei að störfum sem lög- fræðingur. Áhugi hans á pólitík og heimspeki varð til þess að hann helgaði sig ritstörfúm og stjórn- málastarfsemi. Hann var ritstjóri „The Annual Register", sem tók að koma út 1758 og var ársannáll um helstu viöburði og athafnir. Þekking hans og áhugi á stjórnmálum og heimspeki komu sér vel í því starfi og 1765 varð hann þingmaður. Hann var stuðningsmaður Rocking- hams markgreifa og þar með Whiggi, andstæðingur Torýanna. Whiggarnir töldu sig arftaka Bylt- ingarinnar 1689, en með þeirri bylt- ingu mótaðist „réttarríkið" í vestur- evrópskri merkingu hugtaksins nú á dögum. Jafnvægi milli konungs- valds og þings og almenn mannrétt- indi unnust án blóðbaðs. „Réttar- ríki, mannréttindi og andlegt og efnalegt frelsi, samkomulag hinna ýmsu hagsmunahópa samfélagsins," þetta var pólitísk stefna Burkes. Þau deilumál, sem bar hæst á síðari hluta 18. aldar á Englandi, voru réttindi kaþólskra manna á írlandi, frelsisstríð ensku nýlendumann- anna í Norður-Ameríku, deilurnar út af nýlendukúgun Breta á Indlandi og afstaðan til frönsku stjórnarbylt- ingarinnar 1789. Burke tók skelegga afstöðu í öllum þessum málum. Hann krafðist mannréttinda fyrir írska kaþólikka, taldi stríðsrekstur Englendinga í nýlendunum vestan hafs ranga og varð fyrsti talsmaður þeirra, sem átöldu nýlendukúgun Englendinga á Indlandi. Hann barð- ist einnig gegn þrælahaldinu í ný- lendum Breta og annarra. Indlands- málin urðu dómsmál og rannsókn aðgerða Hastings stóð í mörg ár. Þegar „Wealth of Nations", eftir Ad- am Smith, kom út, varð fjaðrafok ekki síst meðal þeirra sem aðhyllt- ust stigveldið. Þótt Burke skildi manna best nauðsynina á helgi erfðavenja, sem var grundvöllur stigveldisins, þá kunni hann að meta kenningar Adams Smiths fyllilega, enda taldi Smith að hann væri einn meðal þeirra örfáu, sem skildu kenningar hans. Burke varð snjallasti ræðuskör- ungur enska Parlamentsins á síðari hluta 18. aldar. Ræður hans voru svo vel uppbyggðar að andstæðingar hans gátu oftast ekki svarað honum, hann talaði þá í kaf, ef svo mætti segja. Þegar mest gekk á vegna Ind- landsmálanna, tók ræða hans gegn umsvifum enska verslunarfélagsins á Indlandi níu daga. Og það var hlustað, ræðusnilld hans var ein- stök, þekking hans á málefnunum gjörtæk og tungutakið og mál- menntun hans bar af. Þó fór því fjarri að andstæðingar hans gætu ekki komið fyrir sig orði. Málsmeð- ferð og ræðusnið enskra þingmanna á þessum tímum markaðist af rök- festu og menntun. En Burke bar af þeim öllum. Sem rithöfundur skaraði Burke fram úr öðrum. Bréf hans, sem gefin hafa verið út í 10 bindum, eru náma glæstrar ensku. Burke mótaði framar öðrum grundvallarstefnu varðveislusinna í breskum stjórnmálum allt fram á okkar tíma. Stefna breskra íhalds- manna (conservatives) er formuð af Burke, beint og óbeint. Einstakling- urinn og heilagur réttur hans til mannréttinda og frelsis, réttarríkið og skipting ríkisvaldsins og fyrst og fremst ábyrgð hvers einstaklings gagnvart samtíðinni og ekki síður fortíðinni og framtíðinni var inntak skoðana Burkes. Þessar skoðanir birtast skýrast í frægasta riti hans „Reflections on the Revolution in France" sem kom út 1790. Það furðulega við þá bók er glögg- skyggni Burkes á framhald bylting- arinnar, sem hófst 1789. Hann sá fyrir hvert framhaldið yrði, ef gjörræðisvaldið næði undir- tökunum í samfélaginu, vald án lagalegra takmarkana, vald sem gæti á hverjum tíma réttlætt gerðir sínar með „almannanauðsyn", óljósu slagorði, sem gjörlegt er að nota við hvaða tækifæri sem gefst. Hann sá fram á, að þegar grundvall- arreglurnar um almennt samkomu- lag stétta og hópa (eins og hann sá þær fyrir sér í enskum stjórnmál- um) koðnuðu niður, þá kæmi upp hið algjöra ríkisvald, gjörræðisvald óvandaðra pólitíkusa. Hann sá fýrir þá tíma, þegar göturennulýður Par- ísar, þ.e. skrfllinn, væri notaður til að styrkja harðstjórana í sessi og verstu einkenni mennsks eðlis myndu móta samfélagið. Ritsnilldin einkennir þessa bók, hann fer á kostum gegn sýndarmennskunni, hræsninni og sérhagsmunapoti „þessa safnaðar meðalmennskunn- ar“ sem sat á Stéttaþinginu fyrir hönd Þriðju stéttar. Kveikjan að þessu riti Burkes voru þau áhrif sem Franska stjórnarbylt- ingin virtist hafa á ýmsa samtíðar- menn Burkes á Englandi. Ekki síst urðu ræður prests nokkurs, Ri- chards Price, til þess að upp úr sauð. Prestur þessi hélt ræðu á fundi nokkurskonar „vináttufélags frönsku byltingarinnar", þar sem prestur þessi „hrærði saman sið- ferðilegum áminningum undir kenningum kristninnar og pólitísku blaðri, tilvísunum til atburðanna á Frakklandi". Þetta sullumbull krist- indóms og félagshyggju fór svo mjög fyrir brjóstið á Burke að hann sá skýrar en e.t.v. áður hversu slepjulegt mannúðarvæl gæti villt um fyrir almenningi, væri það sett undir kristileg forteikn. „Reflections on the Revolution in France" varð opinberun fjölda manna, sem hingað til höfðu ekki uggað að sér, bókin seldist og seldist og var þýdd á aðrar tungur. Það eru fimmtíu ár síðan síðasta ævisaga Burkes kom út og nú eru mun ítarlegri heimildir til staðar, sem er útgefið 10 binda Bréfasafn Burkes. Höfundur notar prentaðar heimildir og honum hefur tekist að skrifa skilmerkilega ævisögu þessa mesta áhrifamanns um enska pólitík frá 18. öld og fram á okkar daga. Burke lést 1798. Siglaugur Brynleifsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.