Tíminn - 15.12.1990, Blaðsíða 4

Tíminn - 15.12.1990, Blaðsíða 4
14 HELGIN Laugardagur 15. desember 1990 Nýlega kom út bókin Haltu mér — slepptu mér, eftir Eð- varð Ingólfsson. Þetta er átt- unda unglingabók Eðvarðs, en bækur hans eru orðnar þrett- án. Hann hlaut verðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur fyrir bestu frumsömdu barna- bókina sem út kom 1988, Meiriháttar stefnumót. Ung- lingabækur hans hafa selst mest allra bóka af því tagi und- anfarin ár. Af þeim má nefna Fimmtán ára á föstu og Sex- tán ára í sambúð. Aðalsöguhetjur í bókinni, Haltu mér — slepptu mér, heita Edda og Hemmi. Hún er sextán, hann sautján. Frá fyrstu kynnum þeirra er sagt í 2. kafla bókarinnar og fer hluti hans hér á eftir. Síðan gerist margt, hratt og óvænt... 2. kafla bókarinnar og fer hluti hans hér á eftir. Síðan gerist margt, hratt og óvænt... Löng röð ungmenna bíður eftir að fá keypta miða í Laugarásbíói. Miða- sölugatið er eins og hausingavél í fiskvinnsluhúsi. Strákarnir mjakast reglubundið áfram í röðinni. Það tekur stuttan tíma að afgreiða hvern haus — og svo næsti, gerið svo vel! Tveim mínútum áður en myrkrið hvolfist yfir bíógesti eru strákarnir búnir að hreiðra vel um sig í góðum sætum fyrir miðjum sal með kók og poppkorn. Þeim er ekkert að van- búnaði að byrja að horfa á myndina. Hlé er gert í myndinni miðri venju samkvæmt. Sýningarstjórinn klipp- ir á spennandi augnablik og skellir ljósaflóði á óviðbúin augu. Ekki beinlínis heppilegt að hafa hléið þarna. Engu líkara en nú eigi að fara að sýna auglýsingar á amerískri sjónvarpsrás. Strákarnir standa upp til að verða sér úti um meira poppkorn. Þeir fljóta með straumnum niður í for- salinn og taka sér stöðu í þvögu fyr- ir framan sælgætissöluna. Það tekur ekki langan tíma að fá afgreiðslu. Af- greiðslustelpurnar eru snarar í snúningum enda vanar að fást við óþolinmóða bíógesti. Þegar strákarnir eru á leið inn í kvikmyndasalinn aftur undir lok hlésins rekst Helgi á stelpu sem vinnur með honum. Vinkona henn- ar er með henni. Hemmi minnist þess ekki að hafa séð þær áður. Þær eru kynntar fyrir honum. Agnes er sú sem vinnur með Helga en hin heitir Edda. Hjartað í Hemma tekur kipp þegar hann virðir Eddu fyrir sér. Hún er ekki aðeins falleg heldur miklu meira. Það er eitthvað við svip henn- ar, einhver leyndardómur sem bíður þess að verða upplýstur. Það er sjald- an sem stelpur hafa haft slík áhrif á hann við fyrstu sýn. Hemmi er samstundis viss um að hann gleymir ekki nafni Eddu hér eftir. Hann ætlar að sofna með það á vörunum í kvöld. Hann á þá ósk heitasta að fá tækifæri til að kynnast henni betur síðar. Hin stelpan er ágæt líka — fyrir Helga. Eftir að Helgi hefur kynnt stelp- urnar kynnir hann Hemma fyrir þeim. — Þetta er greifinn af Grafarbraut 23 í Grafarvogi, Hermann Hannes- son, segir hann og hneigir sig um leið með útréttan arminn líkt og hann sé að kynna konungborinn mann. Hemmi kinkar kolli. Hann tekur eftir að þær mæla hann frá hvirfli til ilja á sekúndubroti. Þá stuttu stund sem þau standa þarna ræða þau um myndina. Hemmi reynir að koma með einhver sniðug innskot tl að hann þurrkist ekki jafnfljótt út úr lífi Eddu og sek- úndurnar sem þau standa hvort gegnt öðru. Honum tekst að fá hana til að brosa tvisvar. Það er góður ár- angur á stuttum tíma. Kannski veit það á gott. Aðvörunarbjalla sýningarstjórans hringir í síðasta sinn. Þau kveðjast. Seinni hálfleikur er að hefjast inni í sal. — Ég hringi fljótlega og býð í partí, stelpur, kallar Helgi á eftir þeim og blimskakkar augunum. Þær tísta og veifa en svara engu. — Svona eru stelpur, hvíslar Helgi að Hemma. Þær vilja láta ganga eft- ir sér. — Láttu mig þekkja það, segir Hemmi og gefur honum olnboga- skot. Strákarnir eru rétt mátulega búnir að finna sætin sín aftur þegar myrkrið skellur á. Hemmi er djúpt hugsi. Allt í einu er myndin ekki spennandi lengur. Allt þessari Eddu að kenna! Hún er ljóslifandi fyrir hugskotssjónum hans. Hún hefur gersamlega heillað hann upp úr skónum. Hann gerir sér samt ekki grein fyrir hvað orkaði svona sterkt á hann. Það voru kannski þessi fallegu, brúnu augu hennar. Hann skynjaði svo mikla dýpt og fegurð í þeim. Edda kom honum alls ekki fyrir sjónir sem einhver glanspía, langt í frá. Hún var öðruvísi falleg, ein- hvern veginn sem ekki er gott að lýsa; leyndardómur sem hann yrði að reyna að ráða í. En kannski var þetta allt saman einhver fluga sem hafði stungið sér niður í kollinn á honum og flogið burtu jafnskjótt og hún kom. Æ, af hverju þurfti þessi Edda að skemma myndina fyrir honum? Innst inni finnst honum það þó ekki gera neitt til. Það er létt yfir borgarbragnum á heitum dögum. Veðurfræðingarnir segja þetta sólríkasta júnímánuð í áratugi. Áhrif veðursins koma fram í betra mannlífi. Margir ganga um götur í stuttermabolum og stutt- buxum. Glaðværð er yfir fólki og það talar hærra og meira en venjulega. Alls staðar óma raddir, á öllum strætum og í öllum húsasundum. Margir með ís og gosdrykki. Gamalt fólk tyllir sér á bekki hér og þar í bænum, flýtir sér hægt, ekkert liggur á; spáir í mannlífið. Stundum leiðir það lítil börn; ömmur og afar að viðra rótarskot sín. Sumir eru kappklæddir, treysta líklega ekki veðrinu; hafa lært af reynslunni. Þessi dagur er ekki ólíkur öðrum góðviðrisdögum. Blámi á himni svo langt sem augað eygir. Sólin svo sterk að erfitt er að horfa beint í hana. Hemmi er að aka út vörum fyrir heildsöluna. Hann silast niður Laugaveginn. Margir eru á ferð og umferðin gengur því hægt. Honum er alveg sama. Hann nýtur þess að horfa á fólksflóðið streyma upp og niður gangstéttarnar. Útvarpið er hátt stillt. Rúðan er niðri hans meg- in og olnboginn situr á henni. Hann er með ný speglasólgleraugu á nefinu og á því auðvelt með að gjóa augunum á léttklæddar Reykja- víkurdætur án þess að það verði áberandi. Stundum kemur hann auga á krakka sem hann þekkir. Þá flautar hann og veifar. Loksins kemst Hemmi niður á Lækjargötuna. Hann leggur bílnum upp á gangstétt við hliðina á sæl- gætissölunni Skalla og hendir tveim stórum lakkrískössum af hinum vinsæla hamingju-Iakkrís þangað inn. Flýtir sér svo út aftur svo að lögreglan sekti hann ekki. Þá er hann búinn að koma öllu af sér — eða hvað? Lítur inn um aftur- gluggann og sér þá að þar liggur einn kassi enn á gó u bak við bíl- stjórasætið. Snarast inn í bílinn og les á nótuna sem er límd við kass- ann: Steingrímssjoppa, Álfhólsvegi, Kópavogi. Hann kannast ekki við þessa sjoppu. Minnist þess ekki að hafa komið þangað með pantanir áður. Kannski er þetta nýtt nafn á gamalli sjoppu? Eigendaskipti eru algeng í seinni tíð. Hann ekur af stað. Stefnan er tekin á Kópavog. Hann er svo sem feginn því að þurfa ekki að fara í heildsöl- una strax í þessu góða veðri. Aldrei að vita nema hann verði látinn sinna einhverju innanhúss. Hemmi finnur sjoppuna auðveld- lega. Ekur alveg upp að dyrum. Eins og hann hafði grunað var þetta gam- alkunn sjoppa með nýtt nafn. Hann fer í hendingsstökki inn í hana með lakkrísinn eftirsótta. Hann hálfblindast þegar inn kemur eftir að hafa verið í sterku sólskini. Hann verður að taka af sér gleraug- un til að sjá eitthvað. — Steingrímssjoppa! Tíu tonn af hamingju-lakkrís, hálfgalar hann. Tilvalinn til að auka hamingju Kópavogsbúa. Hann leggur sendinguna á af- greiðsluborðið. Afgreiðslustúlkan er ein í sjopp- unni. Hún snýr baki í hann. Hann mælir hana út í hvelli. Fallegar lín- ur. Gæti verið á aldur við hann. Það er eins og stelpan skynji star- andi augnaráð hans og snýr sér snöggt við. — Hvað var það? spyr hún og bros- ir til hans. Augun ætla út úr höfðinu á hon- um. — Höfum við ekki sést áður? Þetta var þá hún, þessi sæta og dul- arfulla sem hann sá fýrir viku í Laugarásbíói. Hvílík tilviljun, hvílík heppni! Hún verður vandræðaleg; brosið stirðnar. — Getur það verið? Spurningin veldur honum von- brigðum. Hann hefur þá ekki verið minnisstæðari en þetta? — Jú, sáumst við ekki í Laugarás- bíói, manstu? Þú varst þar með vin- konu þinni og ég með Helga, vini mínum. Hún hugsar sig um andartak en kveikir svo á perunni. — Alveg rétt, nú man ég. Brosir aftur fallega brosinu sínu og verður svolítið rjóð í vöngum. — Þetta var betra, hugsar hann. En svo kemur þögn eins og hvor- ugt þeirra viti hvað eigi að segja. Orðin standa föst í honum. Hann átti ekki von á að hitta hana þarna. Til að bjarga sér út úr þessu vand- ræðalega andrúmslofti ýtir hann hamingju-lakkrísnum í átt að henni. — Kvitta, takk! segir hann og rétt- ir henni nótuna. Hún teygir sig í penna sem liggur við hliðina á peningakassanum. Hann virðir hana vel fyrir sér þegar hún skrifar stórum fallegum stöf- um: Móttekið, Edda. Hann langar tii að biðja hana um að skrifa símanúmerið sitt líka — en þorir það ekki. Hann veit ekki hvernig hún brygðist við. Tekur enga áhættu. — Hvernig fannst þér myndin? spyr hann þegar hún réttir honum afritið af nótunni. — Hún var alveg frábær. Hún var svo spennandi að ég kleip Agnesi nokkrum sinnum í handlegginn. Hún er með marbletti undan mér. En hvernig fannst þér hún? — Frábær — eins og þér. Ég gæti hugsað mér að sjá hana aftur. — Ég líka. Hann brýtur saman afritið í róleg- heitunum. Er ekkert að flýta sér. — Hefurðu unnið hérna lengi? spyr hann. — Ég byrjaði strax og skóla lauk í vor. Hann ákveður að ganga á lagið. — í hvaða skóla varstu? — Hjallaskóla. En þú? Það gleður hann að hún skuli sýna honum áhuga á móti. — Ég var ekki í neinum skóla. Ákvað að hvíla mig einn vetur og hugsa málið. Ég vinn í heildsölu pabba míns. Það er ágætt. En hvað ætlar þú að gera næsta vetur? — Ég er óákveðin. Sótti samt um í Menntaskólanum í Kópavogi til að hafa eitthvað í bakhöndinni ef mér dytti ekki neitt betra í hug. Ég veit ekki hvað verður. Skyndilega kemur hópur af krökk- um inn í sjoppuna. Friðurinn er úti. Hemmi blótar þeim í huganum. Hann veltir fyrir sér að bíða á meðan hún afgreiðir þá til að geta spjallað meira við hana — en kann ekki við það. Það yrði svo asnalega vand- ræðalegt; hann gæti orkað uppá- þrengjandi. — Jæja, segir hann og lítur stress- aður á úrið eins og allur heimurinn bíði eftir því að hann færi honum meiri lakkrís. Ég verð að þjóta. Allt vitlaust að gera! — Tákk fyrir sendinguna, segir hún og brosir enn þessu dularfulla og fallega brosi sem greyptist í huga hans fyrir viku. Hann setur upp sólgleraugun, snýr sér við í dyrunum og segir: — Við eigum kannski eftir að sjást aftur. Hann langar til að bæta við: í partíi eða bíói — til að halda henni volgri — en kann ekki við að vera of framhleypinn. Ekki í fýrstu lotu! — Við eigum áreiðanlega eftir að gera það. Lakkrísinn er mjög vin- sæll. Ég á eftir að panta meira af honum. Svo snýr hún sér að krökkunum en hann tekur undir sig stökk að bíln- um. Hann strengir með sjálfum sér það heit að hann skuli hitta hana aftur! Jafnvel þó að hann verði að skríða á fjórum fótum inn í Kópavog með næstu sendingu af hamingjulakkr- ísnum.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.