Tíminn - 04.07.1992, Blaðsíða 5

Tíminn - 04.07.1992, Blaðsíða 5
Laugardagur 4. júlí 1992 Tíminn 5 Ný Evrópa - nýr heimur Steingrímur Hermannsson skrifar Dagana 10.-14. júní s.l. sat ég ráðstefnu sam- taka, sem nefna mætti „Vinnuhóp um Atl- antshafsbandalag" (Nato Workshop). Þau eru þó ekki á vegum Atlantshafsbandalagsins, heldur eru þetta frjáls samtök áhugaaðila sem vilja stuðla að skoðanaskiptum um stjómmálalegar og hemaðarlegar ákvarðanir Atlantshafsríkjanna. Samtökin njóta stuðn- ings rfkisstjórna og fyrirtækja. Til fundanna, sem em árlegir, er einstaklingum boðið. Það, sem m.a. vakti áhuga minn á þessum fundi, var umræðuefnið sem nefna mætti: Samstarfið í nýrri Evrópu og nýjum heimi. Ekki síst þótti mér áhugavert að til fundarins var nú boðið fulltrúum frá löndum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. Baltnesku löndunum og Rússlandi, og einnig frá Japan. Þátttakendum má skipta í femt: starfsmenn Atlantshafsbandalagsins, ekki síst yfirmenn úr herjum þess; stjómmálamenn, sendiherra og sérfræðinga. Á fundinum voru flutt mörg fróðleg erindi. Eftir hvert þeirra voru frjálsar umræður. Mér þótti koma framýmislegt fróðlegt, sem eigi erindi til okkar Islendinga. Því hef ég orðið við beiðni Tímans að greina frá því sem mér þótti áhugaverðast. Það skal tekið fram að á þessum fundum eru engar ályktanir gerðar og öll sjónarmið, sem fram koma, em skoðanir þeirra einstaklinga, sem þeim lýsa. Ný Evrópa — nýr heimur Hinar miklu og róttæku breytingar, sem orðið hafa í Evrópu, settu svip sinn á alla umræðu á fundinum. Á það bæði við um hrun kommúnismans og Sovétríkjanna og samruna Vestur-Evrópu. Allt alþjóðlegt sam- starf, ekki síst í Evrópu, að sjálfsögðu, en þó víðar, þarf að endurskoða í því ljósi. Allar þjóðir álfunnar og Norður-Ameríku endur- meta sína stöðu og stefnu í alþjóðamálum. Það gera reyndar fleiri þjóðir, m.a. Japanir. Við íslendingar hljótum einnig að endur- skoða stöðu okkar og stefnu. Við erum ekki fremur en aðrir óháðir alþjóðlegum straum- um. Smáþjóð getur hinsvegar auðveldar en þær, sem stærri eru, flotið sofandi að feigð- arósi, ef ekki er róið af krafti á bæði borð. í erindi, sem ég flutti, og í umræðum kaus ég að útvíkka nokkuð umræðuefriið. Ræddi ég um vaxandi efnahagssamkeppni Japans, Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu og um umhverfismálin. Hér á eftir mun ég gera grein fyrir því sem mér þótti einna athyglisverðast. Hin nýju og miklu tækifæri Á fundinum flutti Jeane Kirkpatrick, fyrr- verandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sam- einuðu þjóðunum, mjög fróðlegt erindi. Hún taldi að nú væri komin stund hinna miklu tækifæra, sem grípa yrði án tafar, ann- ars kynnu þau að renna mönnum úr greip- um. Hún vakti athygli á því að fasisminn og kommúnisminn komu mönnum á óvart í kjölfar síðustu heimsstyrjaldar við svipaðar aðstæður og nú eru víða í Austur-Evrópu og Rússlandi. Svo gæti auðveldlega farið aftur. Frú Kirkpatrick hvatti mjög þjóðir Norður- Ameríku og Vestur-Evrópu til að taka nú þegar höndum saman við hin nýju lýðveldi í Mið- og Austur-Evrópu, þar með talið Rúss- land, og gera róttækt og markvisst átak til þess að koma á nánu sam- starfi á sviði stjórnmála, efnahagsmála og varnarmála. Það yrði að vera af heilindum gert og mætti ekki skapa tortryggni hjá hinum nýju lýð- veldum. „Við upplifum stórkostlega tíma og tækifærin krefjast áræðni," sagði frúin. Um þessi mál urðu miklar umræður og sjálfur fékk ég gott tækifæri til að ræða við frú Kirkpatrick. Ég er sannfærður um að aldrei hafa þjóðir á norðurhveli jarðar átt þess kost sem nú að koma á friði og sæmilegri velmegun í sínum heimshluta. Einnig er ég sammála frú Kirkpatrick um að ekkert er mikilvægara nú en að snúa sér að þessu verkefni af full- um kraftí með því að koma löndum Mið- og Austur-Evrópu á fæturna efnahagslega og tryggja þeim öryggi. Umræður á fundinum staðfestu hinsvegar þann ótta minn að skammsýn sjónarmið kunni að ráða of miklu. Menn virðast hafa meiri áhyggjur af framtíð Atlantshafsbanda- lagsins og af því hver sigrar í efnahagskapp- hlaupi Japans, Þýskalands og Bandaríkjanna en velmegun allra og friði. Baltnesku löndin Málflutningur forsætisráðherra Eistlands, Tiit Váhi, og utanríkisráðherra Lettlands, Janis Jurkans, vakti mikla athygli. Allir tóku undir það að óþolandi væri fyrir sjálfstæðar þjóðir að þola rússneska hersetu gegn sín- um vilja og hafa fýrir því enga vissu að her- inn fari nokkru sinni. Háttsettur Rússi á fundinum, Yuri Nazark- in sendiherra, fyrrverandi aðalsamninga- maður Rússa í viðræðum um fækkun lang- drægra flugskeyta, kvað erfiðleikana þá að ekkert húsnæði væri í Rússlandi fyrir her- menn frá baltnesku löndunum. Slíkt mætti að sjálfsögðu leysa, sýndist mér, t.d. ef efna- hagsaðstoð við Rússa væri nýtt í því skyni að byggja yfir herinn. Það mál ætti að afgreiða á fundum leiðtoganna. Ég óttast þó að slík vandamál smáþjóða nái ekki upp á borð Bush og Jeltsíns. Hvers vegna? NATO eða her EB? Allir viðurkenna, að því er virðist, að mik- ilvægast sé fyrir framtíð og frið að koma í veg fyrir að nýr Lenin, Hitler eða Mussolini hrifsi völdin. Einnig virðast menn sammála um að til þess að lýð- ræðið lifi, verði efnahagsþróun kommúnistaríkj- anna fyrrverandi, ekki síst Rúss- lands, að takast. En þrátt fyrir að óvinurinn sé týndur, virðist ansi mörgum efst í huga framtíð Atlantshafsbandalagsins eða hers Evrópubandalagsins. Þjóðverjar og Frakkar hafa þegar stofnað sameiginlegan her. Þeir fara ekki leynt með það að hann á að vera her hinnar sarnein- uðu Vestur-Evrópu og tryggja sameiginlega utanríkisstefnu hennar. Öllum ríkjum EB er boðin aðild og EFTA-ríkjunum mun verða boðin aukaaðild, m.a. íslandi. Fáir virðast telja að Öryggissáttmáli Evr- ópu (CSCE) verði mikið meira en umræðu- vettvangur. Margir gruna Frakka um að vilja Banda- ríkjamenn burtu úr Evrópu. Það yrðu að sjálfsögðu endalok Atlantshafsbandalagsins. Aðrir telja að það gæti helst orðið einskonar friðarsveit Evrópu með aðild Mið- og Aust- ur-Evrópuríkjanna. Þegar tímar líða. Margir telja að þannig verði áhrif Þjóðverja minni. Tvær heimsstyrjaldir eru ekki gleymdar. Eflaust þarf Evrópa sínar öryggissveitir. Líklegt er þó að um þessi mál verði vaxandi deilur. Þær deilur eigum við íslendingar að leiða hjá okkur. Aukaaðild að Evrópuhern- um kemur ekki til greina, að mínu mati. Efnahagskapphlaupið og umhverfið Það kom í minn hlut, eins og fyrr segir, að vekja athygli á því, að þótt kalda stríðinu sé lokið, er átökum á milli þjóða heims síður en svo lokið. Þjóðirnar hafa ætíð keppt um það að verða mestar. Nítjánda öldin var öld Stóra-Bretlands og sú tuttugasta öld Banda- ríkjanna. Að því veldi sækja Japanir og Þjóð- verjar. Þeir hafa reyndar gert það um nokk- urt skeið og orðið mikið ágengt. Það er kaldhæðni örlaganna að þær þjóðir, sem biðu lægri hlut fyrir hernaðarmætti Banda- ríkjanna, ógna nú efnahagsveldi þeirra. Á sama tíma og þetta gerist blasa við mannkyni öllu gífurleg vandamál. Maður- inn er á góðri leið með að eyða sínu lífs- nauðsynlega umhverfi og tortíma um leið sjálfum sér. Stærsta iðnríki heims telur sig þó ekki hafa efni á að draga úr útblæstri koltvísýrlings svo að um muni, hvað þá að gera hinum fá- tæku löndum efnahagslega kleift að gera slíkt eða að draga úr eyðingu regnskóganna, sem eru nauðsynlegir til að hreinsa and- rúmsloftið. Ef bíða á eftir óyggjandi sönnun fyrir upphitun jarðar, getur það orðið of seint. Koltvísýrlingur, sem fer út í andrúms- loftið í ár, hefur áhrif eftir 50 ár. Þá verður orðið of seint að stöðva útblásturinn eða endurnýja regnskógana. Og þannig er ástatt á flestum sviðum umhverfismála. Græðgin ræður ferðinni. Eitt sinn sagði Sókrates: „Hvað gæti ég verið án margs af því sem ég hef?“ Við mætt- um fleiri hugsa þannig. Staða íslands Að sjálfsögðu er ekki síður mikilvægt fyrir okkur íslendinga en aðrar þjóðir að kalda stríðinu er lokið. Við hljótum einnig að vona að við taki samvinna og friður í Evr- ópu. Það er okkur svo sannarlega ekki óvið- komandi. Að því ber okkur að stuðla eins og við frekast megum og það getum við gert með ýmsu móti. Það vekur ugg hve margir virðast sjá þann kostinn helstan að skríða undir pilsfald Evr- ópubandalagsins. Slíkt er að sjálfsögðu ekk- ert annað en uppgjöf. Það er ef til vill skilj- anlegt í því vonleysi, sem alið er á í dag. Ein- hverjir munu þeir og vera sem láta sig dreyma um að verða miklir menn í Evrópu. Við íslendingar erum og verðum ætíð peð á taflborði stórveldanna. Ef við göngum ein- hverju þeirra á vald, mun peðinu verða fórnað í efnahagskapphlaupinu. Aðeins sem sjálfstæð og fullvalda þjóð get- um við beitt okkur fyrir bættum heimi. Því aðeins að við ráðum okkar málum sjálfir getum við átt góð og jafnvel öfundsverð lífs- kjör og, sem mikilvægast er, notið mikilla lífsgæða. En það var ekki umræðuefnið í Grikklandi. Um það þurfum við íslendingar að ræða sér- staklega. Menn og málefni

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.