Lesbók Morgunblaðsins - 27.05.2006, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 27.05.2006, Blaðsíða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 27. maí 2006 | 5 H alldór Guðmundsson er nýr ritstjóri Skírnis og mun gegna því embætti einn en síðustu ár hafa ritstjórarnir verið tveir. Fyrsta heftið undir stjórn Halldórs kom út í vikunni og komst reyndar strax í fréttirnar, grein Vals Ingimundarsonar um orðræðuna um orrustu- þotur Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli árin 1961 til 2006 hafði að geyma nýjar upplýsingar. Í heftinu eru reyndar fleiri fréttnæmar greinar, svo sem frábær greining Guðna Elíssonar á þeirri heimsmynd sem DV hefur miðlað landsmönnum síðustu ár og Guðni kennir við gotnesku, það er hrylling og ótta. Í heft- inu eru líka birt bréf Halldórs Laxness til Gunnars Gunn- arssonar sem fjalla um þýðingar Halldórs á verkum Gunnars. Margrét Jónsdóttir fjallar um tungumálakennslu þar sem meðal annars kemur fram að þriðja tungumálið í íslensku skólakerfi fer oft forgörðum og margra ára kennsla nýtist illa. Einnig mætti nefna grein Ármanns Jak- obssonar um raunveruleikasjónvarp. Síðan er nóg af bókmenntaefni, annar fráfarandi ritstjóra Skírnis, Sveinn Yngvi Egilsson, skrifar um kvæðið Illan læk eftir Jónas Hallgrímsson, Alda Björk Valdimarsdóttir birtir ítarlega athug- un á ástinni, dauðanum og lesandanum í þremur skáldsögum Steinunnar Sigurðardóttur, Einar Már Jónsson skrifar um sögulegar skáldsögur Gunnars Gunnarssonar, Jón Kalman Stef- ánsson skrifar um Gyrði Elíasson, Árni Bergmann skrifar um Jón Kalman Stefánsson, Guðmundur Andri Thorsson um nýja Kjarvalsbók og Einar Kárason um Borges en í tengslum við þá grein birtir Matthías Johannessen þýðingu sína á kvæðinu Snorra eftir Borges. Og svo skrifar Viðar Þorsteinsson um starf og sjálfsmynd Nýhil-hópsins sem hefur staðið fyrir talsverðri bókmenntaútgáfu undanfarin ár. Halldór hefur ákveðið að leggja niður þáttinn „skáld Skírnis“ og dreifa þess í stað bók- menntaefni um hvert hefti. Einnig verður hætt að birta útdrátt á ensku sem fylgdi ritgerðum en þátturinn „myndlistarmaður Skírnis“ heldur sér og núna kynnir Auður Ólafsdóttir Hildi Bjarnadóttur. Skírnir er nú 180 ára gamall og vert að spyrja nýjan ritstjóra um áherslur: Verður einhver grundvallarbreyting á ritstjórnar- stefnu Skírnis með tilkomu þinni? Ég man að þegar Sveinn Yngvi Egilsson og Svavar Hrafn Svavarsson tóku við fyrir um það bil fimm árum síðan settu þeir glansáferð á kápu tímaritsins, kannski tóku fáir eftir því en mér fannst þetta vera talsvert mikil breyting. Síðan kom reyndar í ljós að þeir fylgdu henni ekki mjög fast eftir í efnistökum. „Það stendur ekki til að umbylta Skírni, ég held það liggi ein- hvern veginn í hlutarins eðli með 179 ára gamalt menningar- tímarit. Og brotið er heilagt, enda Skírnisbrot orðið að sjálf- stæðu hugtaki í bókagerð. En áherslur færast auðvitað til með nýjum ritstjóra. Skírnir á áfram að vera vettvangur fyrir vand- aðar fræðilegar ritgerðir, en ég sé líka fyrir mér fleiri ritgerðir sem ekki eru akademískar, mig langar að fá skáld til að skrifa um skáld, svo dæmi sé tekið. Í þessu hefti skrifar t.d. Einar Kárason um Borges. Og ég sé líka fyrir mér ný viðfangsefni úr samtímamenningunni, þannig skrifar Ármann Jakobsson um Róbínsonsögur 21. aldarinnar, þ.e. raunveruleikasjónvarpið, og Guðni Elísson skrifar um DV og gotneska heimssýn, þetta eru greinar um veruleikasýn í nútímafjölmiðlun.“ Aldrei neitt pólitískt trúboðsrit Hvernig viltu skilgreina Skírni? Er hann menningartímarit eða bókmenntatímarit? Er hann fagtímarit? Er hann íhaldssamur? Er hann pólitískur? „Skírnir er menningartímarit og mér sýnist að undanfarið hafi verið sérstök áhersla á bókmenntir, sögu og heimspeki. Svo verður áfram og því er auðvitað ekki að leyna að bókmenntir eru mitt sérstaka áhugasvið. En hann á ekki að vera hreinræktað bókmenntatímarit og heldur ekki þröngt fagrit og punktasöfn- unarvettvangur háskólamanna. Tímarit skilgreinast af efni sínu og ekki yfirlýsingum ritstjóra, svo ég vil sem dæmi um aktúelt efni í vorheftinu nefna grein eftir Val Ingimundarson um orð- ræðuna um orrustuþoturnar í Keflavík undanfarin fjörutíu ár, og grein eftir Margréti Jónsdóttur um tungumálakennslu á Ís- landi. Þetta eru ólík efni, en hafa bæði verið mikið til umræðu að undanförnu. Skírnir er hvorki íhaldssamur né róttækur, heldur fyrst og fremst krítískur og vonandi vandaður og vekjandi. Hann verður aldrei neitt pólitískt trúboðsrit.“ Það þykist enginn lengur höndla stórasannleik Ég og sjálfsagt fleiri hafa haft á tilfinningunni að Skírnir hafi síð- ustu ár orðið svolítið íhaldssamur og jafnvel gamaldags í efn- istökum. Tímariti eins og Ritinu, sem Hugvísindastofnun Há- skóla Íslands gefur út, hefur tekist betur upp við að endurspegla það ferskasta sem er að gerast í íslenskum (og að vissu leyti er- lendum) hugvísindum nú um stundir. Þar hefur aðferðafræðileg fjölhyggja ráðið ríkjum. Mér heyrist þú ætla að breyta þessu. „Ég get ekki tekið undir þetta að því leyti að það kann aldrei góðri lukku að stýra hjá ritstjóra að byrja feril sinn á því að setja út á forvera sína sem hafa unnið gott starf. En ég er sammála þér um Ritið sem hefur boðið upp á spennandi og fjölbreytta lesningu og sömuleiðis finnst mér Tímarit Máls og menningar hafa gengið í endurnýjun hjá Silju sem bókmenntatímarit. Og er ekki aðferðafræðileg fjölhyggja ráðandi um þessar mundir? Mér sýnist að bæði í bókmenntafræði og sagnfræði séu menn að reyna að losa sig úr viðjum alltof stífra hugtakaskilgreininga og sækja sér innblástur til dæmis til aðferða skáldskaparins eða persónulegrar nálgunar bréfa og dagbóka. Það þykist enginn lengur höndla stórasannleik í einhverju fræðakerfi. Annars er þetta með ritstjórn eins og að velja jólagjafir: Best er að hafa eitthvað í heftinu sem mann langar til að lesa sjálfan.“ Meira andrými Þú talar um ný viðfangsefni úr samtímamenningunni og nefnir greinar Vals og Guðna. Upphaflega var Skírnir fréttatímarit. Megum við eiga von á að þú munir taka upp mál sem eru ofar- lega á baugi hverju sinni og rýna í þau? Hefur Skírnir tilgangi að gegna í þeim efnum? Eða hvaða tilgang hefur slík tímaritaútgáfa yfirleitt, að þínu mati? „Tímarit sem kemur tvisvar á ári verður víst seint frétta- tímarit. Það tilheyrir meira þessum ágæta tíma þegar fréttir voru hægfara, eins og þegar Íslendingar fréttu ekki lát Jóns Sig- urðssonar, hetju sinnar, fyrr en nokkrum mánuðum eftir að það bar að. En ég mun taka fagnandi greinum þar sem mikilvæg mál líðandi stundar eru sett í nýtt ljós eða stærra samhengi, eins og grein Vals gerir. En fréttablað getur Skírnir ekki orðið, þá yrði hann úreltur við útkomu. Kostur tímarita umfram dagblöð við að fjalla um nýja strauma og stefnur í menningarmálum er öðru fremur sá að þau hafa meira rými, og lesandinn fær þá líka meira andrými, og meira rými fyrir andann. Ég er sannfærður um að slík tímaritaútgáfa þjónar tilgangi, þótt hún tengist eðli- lega líka annars konar miðlun – við þurfum til dæmis að end- urnýja heimasíðu Skírnis.“ Þú virðist hafa lagt niður þátt í blaðinu sem hét Skírnismál en þar fóru fram rökræður um bæði samfélagsmál og málefni fræð- anna, oft ansi beittar. Hvers vegna leggurðu niður þennan þátt? Muntu leggja minni áherslu á fræðilegar deilur um heima og geima? „Nei, síður en svo eins og vonandi kemur fram í heftinu. En mér fannst einfaldlega ekkert af efni þessa heftis beinlínis geta flokkast undir þennan þátt. Komi hins vegar viðbrögð við því, og vonandi bæði beitt og skemmtileg, eða önnur innlegg í þeim anda sem þú nefnir, mun ég aftur flokka þau undir þann fína titil, Skírnismál. Mér hefur virst að það sé aukin eftirspurn eftir al- vöru greinum um samfélagsmál og fræði í þjóðlífinu, eins og sést af viðbrögðum við bók Andra Snæs, Draumalandinu. Aldrei fyrr hefur debattbók selst jafn mikið á jafn skömmum tíma hér- lendis. Skírnir á að vera hluti af slíkri umræðu um leið og hann er vettvangur fræðigreina. Hann á að vera einsog hljómsveitin í Stuðmannamyndinni, hæfilega væld en snyrtimennskan ávallt þó í fyrirrúmi.“ Það stendur ekki til að umbylta Skírni Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is Morgunblaðið/Kristinn Halldór Guðmundsson „Annars er þetta með ritstjórn einsog að velja jólagjafir: Best er að hafa eitthvað í heftinu sem mann langar til að lesa sjálfan.“ Fyrsta hefti Skírnis undir ritstjórn Halldórs Guðmundssonar kom út í vikunni. Halldór segist ekki ætla að umbylta þessu aldna og virðulega tímariti en áherslubreytingar verða nokkrar, til dæmis verður lögð aukin áhersla á að rýna í sam- tímamenningu en gert hefur verið.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.