Lesbók Morgunblaðsins - 01.07.2006, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 01.07.2006, Blaðsíða 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 1. júlí 2006 S amkvæmt frétt sem birtist í Morgunblaðinu fyrir fáeinum vikum hafa umsóknir um nám við Háskóla Íslands aldrei verið fleiri en fyrir skólaárið 2006– 2007, eða alls um 3700. Af þeim voru 500 frá erlendum umsækjendum og alls sóttu 800 einstaklingar um leyfi til að hefja meistara- og doktorsnám við skólann, auk við- bótarnáms til starfsréttinda.1 Þessar tölur eru með ólíkindum og flestum starfsmönnum Há- skóla Íslands hefði líklega (og kannski rétti- lega) þótt slík spá lýsa tilefnislausri bjartsýni fyrir aðeins tíu árum. Meðal starfsmanna er ótvíræður baráttuhugur sem kristallast hvað skýrast í nýlegu erindi Kristínar Ingólfsdóttur rektors, „Menntun í fremstu röð“, en erindið hélt hún á málþingi Vísinda- og tækniráðs í mars síðastliðnum, þar sem Halldór Ásgríms- son, þáverandi forsætisráðherra, og Þorgerð- ur Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra voru meðal gesta.2 Hugmynd Kristínar er einföld en djörf: „Háskóli Íslands hefur sett sér að vera leið- andi afl í uppbyggingu íslenska þekkingarsam- félagsins. Háskólinn hefur sett sér það að skipa sér í röð 100 bestu háskóla í heiminum innan 10–12 ára.“ Eins og Kristín bendir á í er- indi sínu hefur orðið bylting í háskólamenntun meðal stærstu Asíuþjóðanna, landa eins og Indlandi og Kína, og „Suður-Kórea byggir nú hraðar upp menntun með opinberum fjár- framlögum en nokkurt annað land í heim- inum“. Við þessari þróun hafa Vesturlönd reynt að bregðast með því að stórauka fjár- framlög til vísindastarfs, en Kristín nefnir sem dæmi að Finnar „hafa tvöfaldað framlag til vís- inda- og rannsóknastarfa á einu ári, frá 2005 til 2006“. Samkvæmt Shanghai-listanum svokall- aða, en hann birtir nöfn 500 bestu háskóla í heiminum, eru 7 háskólar á Norðurlöndum í hópi 100 bestu, en enginn norrænn háskóli nær ofar en í 45. sæti. Þess má svo til gamans geta að 17 af 20 bestu háskólum í heimi eru samkvæmt Shanghai-listanum bandarískir, einu háskólarnir utan Norður-Ameríku eru Cambridge-, Oxford- og Tókýóháskóli. Til eru aðrir listar sem meta gæði háskólastofnana og þar vegnar skandínavískum háskólum yfirleitt ekki eins vel. Á lista „The Times Higher Education Supplement“ (THES) frá 2004 kemst Kaupmannahafnarháskóli einn á blað yfir þá 100 fremstu, en enn sem fyrr eru bandarískir háskólar ráðandi, eða í 11 af 20 efstu sætunum og þar af eru 7 bandarískir skólar í 10 efstu sætum. Háskóli Íslands er ekki á lista yfir 500 fremstu háskóla í heiminum svo að mikið og metnaðarfullt starf þarf að fara fram til þess að koma honum upp fyrir þá 400 sem skipa sæti 101 til 500, en ætla má að flestir þessara skóla hafi ekki í hyggju að gefa eftir sæti sitt nema þá til þess að komast ofar á listann. Að sama skapi munu þeir skólar sem skipa 100 efstu sætin kosta öllu til að halda sínum hlut. Shanghai-listinn skiptir skólunum niður eftir ýmsum þáttum, s.s. fjölda birtra vísindagreina í viðurkenndum alþjóðlegum tímaritum, vís- indastarfi og alþjóðlegum verðlaunum og við- urkenningum. Eins og Kristín segir er fleiri mikilvægum mælikvörðum beitt, þeirra á með- al eru „fjöldi erlendra nemenda, fjöldi er- lendra vísindamanna, niðurstöður úttekta, hlutfall kennara/nemenda, árangur nemenda eftir brautskráningu o.fl.“ Til þess að koma Háskóla Íslands í hóp hundrað bestu háskólanna telur Kristín eink- um tvennt þurfa að koma til. Annars vegar verði að efla rannsóknastarfið, einkum fjölga birtingum í viðurkenndum alþjóðlegum vís- indatímaritum, en hins vegar þurfi að styrkja framhaldsnám við skólann, einkum þó dokt- orsnámið. Eina helstu ástæðu þess að Háskóli Íslands er ekki í hópi 500 fremstu háskóla í heimi telur Kristín einmitt vera „hversu ungt framhaldsnám hjá okkur er“ en til þess að bæta stöðu HÍ skiptir að hennar mati mestu að efla doktorsnám við skólann og hefur yf- irstjórn HÍ sett sér það markmið að „fimm- falda fjölda útskrifaðra doktorsnema á fimm árum“, frá 13 doktorum á síðasta ári í 60–65 á ári eftir fimm ár. „Þá fyrst getum við borið okkur saman við háskóla af sömu stærð í ná- grannalöndunum,“ segir Kristín. Til þess að markmið HÍ verði að veruleika telur Kristín að rauntekjur skólans verði að aukast um „65– 70% á næstu 5 árum“ og að auki þarf að „tryggja doktorsnemum laun þannig að þeir geti stundað rannsóknir sínar sem fulla vinnu“. Þetta er glæsilegt og eftirsóknarvert markmið. En er þetta allt sem þarf?3 Ég er hræddur um ekki. Til þess að hægt sé að breyta Háskóla Ís- lands í frambærilegan rannsóknaháskóla þar sem boðið er upp á samkeppnisfært fram- haldsnám í mörgum vísindagreinum þarf fyrst að gjörbylta bókasafnsmálunum því að ekki er hægt að stunda rannsóknir af neinu viti á há- skólastigi án þess að auðvelda aðgang að helstu verkum, tímaritum, skýrslum og grein- argerðum innan hinna ólíku fræði- og vís- indagreina sem kenndar eru við skólann. (Í umræðu minni einskorða ég mig við bóka- safnsvanda Háskóla Íslands, þó að líklega séu bókasafnsmál annarra íslenskra háskóla jafn- vel enn verri.)4 Hér fylgir lítil samanburð- ardæmisaga sem varpar óþægilegu ljósi á raunverulega stöðu Háskóla Íslands í þessum efnum. Harvard-háskóli og héraðsbókasafnið á Kúlu Kentucky-fylki í Bandaríkjunum er á stærð við Ísland eins og oft hefur verið bent á. Ken- tucky er eitt af fátækari fylkjum Bandaríkj- anna, en meginatvinnuvegirnir eru landbún- aður og iðnaður, auk ýmiss konar þjónustu við ferðamenn. Í fylkinu, sem er deilt upp í 120 sýslur, búa 4 milljónir íbúa og þó að fylkið tengist kannski fyrst og fremst skyndibita- keðjunni Kentucky Fried Chicken í hugum flestra er það líka fæðingarstaður Abrahams Lincoln og Jeffersons Davis. Heiti fylkisins er sótt í indjánamál og merkir einfaldlega „Framtíðarlandið“. Bullitt-sýsla er ein af smærri sýslum Ken- tucky-fylkis, en í henni allri búa aðeins um 68 þúsund íbúar. Íbúarnir í Bullitt myndu eflaust seint halda því fram að Kúla, svo að stað- arheitið sé íslenskað, væri helsta menning- arsetur Kentucky eða að þeir væru sér- staklega metnaðarfullir í menntamálum. Meirihluti Bullitt-búa starfar í verslun og iðn- aði og aðeins 9,2% íbúanna eru með háskóla- próf.5 Hvað segir þessi tala okkur um áhersl- urnar í Bullitt-sýslu? Til samanburðar má nefna að í fylkinu öllu hafa 17,1% íbúanna lokið háskólaprófi og í höfuðborginni Frankfort, þar sem stjórnsýslan hefur aðsetur, eru 24,9% íbú- anna háskólamenntaðir. Kentucky-fylki má svo bera saman við Massachusetts þar sem meiri áhersla er lögð á starfsmenntun og sér- fræðiþekkingu, en þar hafa 33,2% íbúa lokið háskólaprófi. Íbúarnir í Massachusetts eru þó aðeins hálfdrættingar í samanburði við há- stökkvara fylkisins, bæjarbúana í Cambridge, en þar hefur hvorki meira né minna en 65,1% íbúanna lokið háskólaprófi eða sjö sinnum fleiri en á Kúlu.6 Nú er ég enginn sérstakur talsmaður þess að binda menntunar- eða menningarstig þjóð- ar við þau hausatölufræði sem ég hef beitt hér að framan. Vart verður þó lengur hjá slíkri hugsun komist þar sem þróunin í nútíma- samfélögum er sú að víkka út áhrifasvið há- skólanna og búa til prófgráður úr þekkingu sem áður lá utan formlegs háskólanáms. Nem- endur útskrifast nú með háskólapróf í leiklist, myndlist, hljóðfæraleik, blaðamennsku, lýð- heilsufræðum, rekstri félagsstofnana, við- burðastjórnun, opinberri stjórnsýslu, íþrótt- um, hönnun og svo mætti lengi telja. Í hugvísindadeild HÍ hefst t.a.m. næsta haust nám í ritstjórnar- og útgáfufræðum en þess má geta að enginn kennaranna hefur lokið námi á því sviði af þeirri einföldu ástæðu að fræðasviðið hefur fram að þessu ekki verið til. Það segir okkur sem sagt eitthvað um sam- félagið á Kúlu að þar hafa sjö sinnum færri lokið háskólaprófi en í Cambridge í Massachu- setts, þar sem Harvard-háskóli er reyndar staðsettur. Ég efast um að víða í heiminum sé jafnmarga sérfræðimenntaða einstaklinga að finna og í Cambridge í Massachusetts. Hvernig skyldi innkaupamálum bókasafn- anna vera háttað á þessum tveimur mjög svo ólíku stöðum? Hversu miklu máli skipta bæk- ur í Bullitt-sýslu og hversu miklu máli í Cam- bridge? Á Shanghai-listanum, sem ég gat um hér að framan, hefur Harvard-háskóli um ára- bil verið í efsta sæti, en hann skipar einnig fyrsta sætið á THES-listanum. Eitt helsta ein- kenni háskólanna í efstu sætum listanna er að þeir eyða gríðarlegum upphæðum í uppbygg- ingu akademískra bókasafna og hér eins og í öðru er Harvard ávallt í fyrsta sæti. Stjórn- endur Harvard-háskóla virðast telja að eina leiðin til að halda yfirburðarstöðu sinni sé að slaka hvergi á í uppbyggingu safnkostsins og það þó svo að safnið sé þegar besta háskóla- bókasafn í heiminum, en þar er að finna ná- lægt 16 milljónir binda. Hvað þarf svo til þess að halda slíkri yfirburðarstöðu? Á árinu 2004 eyddi Harvard-háskóli í fyrsta sinn í sögu sinni yfir 100 milljónum dala í bókasafnið, eða u.þ.b. 7,5 milljörðum íslenskra króna. Fyrir þessa 7,5 milljarða keypti skólinn m.a. aðgang að ýms- um rafrænum gagnasöfnum, þúsundir net- tímarita og alls yfir 300 þúsund bókatitla. Há- skólabókasafnið í Harvard er sambærilegt við helstu þjóðbókasöfn í heiminum, t.d. The Brit- ish Library og Bibliothèque Nationale de France.7 Við héraðsbókasafnið á Kúlu í Kentucky láta menn sig ekki dreyma um að byggja upp eitt af 100 mestu héraðsbókasöfnum í heiminum og fjárhagurinn ber því glöggt vitni, en á Kúlu eyða menn um 430 sinnum lægri upphæð í bókasafnið en kollegar þeirra í Harvard gera. Héraðsbókasafnið á Kúlu er það ellefta stærsta í Kentucky-fylki og er í þrettánda sæti þegar kemur að útgjöldum til bókakaupa. Hvað þurftu svo safnverðirnir á Kúlu að eyða miklu til að ná þrettánda sætinu? Á árunum 2003 til 2004 var heildarupphæðin sem notuð Blind er bóklaus Háskóli Íslands stefnir að því að komast í tölu hundrað bestu háskóla í heimi. Hvernig ætlar hann að gera það? Í þessari grein er því hald- ið fram að það þurfi fyrst að gjörbylta bóka- safnsmálunum því að ekki sé hægt að stunda rannsóknir af neinu viti á háskólastigi án þess að auðvelda aðgang að helstu verkum. Í greininni er birtur samanburður á þeim upp- hæðum sem Háskóli Íslands ver til ritakaupa og erlendir úrvalsháskólar og er hann Há- skólanum auðvitað ekki hagstæður. En skól- inn stenst heldur ekki samanburð við héraðs- bókasafnið í Bullitt-sýslu í Kentucky-fylki í Bandaríkjunum! Eftir Guðna Elísson gudnieli@hi.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.