Morgunblaðið - 28.01.2006, Blaðsíða 46

Morgunblaðið - 28.01.2006, Blaðsíða 46
46 LAUGARDAGUR 28. JANÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Unnur Guðjóns-dóttir fæddist á Kýrunnarstöðum í Hvammssveit 22. september 1907. Hún lést á dvalar- heimilinu Silfurtúni 17. janúar síðastlið- inn. Foreldrar hennar voru Guðjón Ásgeirsson, bóndi þar, og kona hans Sigríður Jónsdóttir. Systkini Unnar voru: Svava Jónea, kennari og síðan húsfreyja á Kýrunnarstöðum til æviloka, Þuríður, ljósmóðir, sem einnig bjó á Kýrunnarstöðum alla ævi, Jón Emil, kennari og síðar forstjóri Ríkisútgáfu námsbóka, og Herdís, húsmóðir í Reykjavík. Unnur fór ung í Kvennaskólann á Blönduósi og stundaði eftir það vinnu í Reykjavík á vetrum um nokk- urra ára skeið, en vann að bústörfum heima á Kýrunnar- stöðum á sumrin. Vorið 1935 giftist hún Jóhannesi Stef- ánssyni, bónda á Kleifum, f. 1910, d. 1998. Unnur og Jó- hannes bjuggu á Kleifum í sex ára- tugi, eða allt þar til þau fluttu á dvalar- heimilið Silfurtún í Búðardal um miðjan síðasta tug aldarinnar. Þau eignuðust þrjá syni, Guðjón Sævar, f. 1936, d. 2005, Stefán f. 1937, og Hermann Kristin, f. 1942. Barnabörn þeirra eru 12 og barnabarnabörn 12. Útför Unnar verður gerð frá Garpsdalskirkju í dag kl. 14. Unnur Guðjónsdóttir, tengda- móðir mín, er fallin frá í hárri elli. Henni kynntist ég fyrst árið 1968 er ég kom að Kleifum til að heimsækja son hennar, Hermann. Unnur tók mér einstaklega vel og það streymdi frá henni hjartagæska og hlýhugur. Hún var fámál kona en það sem hún sagði var alltaf svo vel ígrundað og rétt. Okkur varð ein- staklega vel til vina og við höfðum svipuð áhugamál þó svo að aldurs- munurinn væri mikill. Hún fylgdist vel með samfélagsmálum, hafði mikinn áhuga á kvenréttindabar- áttu og öðrum þjóðþrifamálum. Hún hafði líka mikinn áhuga á hannyrðum hvers konar. Eitt af mörgu sem hún hefur gefið okkur er forláta veggteppi sem hún óf er hún var ung stúlka í Kvennaskól- anum á Blönduósi. Þegar Unnur var komin á áttræð- isaldurinn tók hún sig til og fór með systur sinni Svövu á vefnaðarnám- skeið í húsmæðraskólanum að Stað- arfelli. Það var með ólíkindum hvað hún hafði komist yfir að vefa á þess- um dögum sem hún var þarna. Samt var hún sem endurnærð eftir þetta námskeið og þarna kom það berlega í ljós hvað hún var alltaf tilbúin að læra. Unnur var einstaklega góð amma sem alltaf var tilbúin að kenna og leiðbeina á svo snjallan hátt að börnin sóttust mjög að vera í návist hennar. Hún kenndi þeim svo margt um þá búskaparhætti sem tíðkuðust í hennar ungdæmi en var samt vel heima í því sem var að ger- ast í lífi þeirra. Hún var full af fróð- leik og þær eru ófáar vísurnar sem hún kenndi börnunum mínum. Tím- unum saman undu þau sér við að kveðast á og „skanderast“. Unnur kom einstaka sinnum suður til okk- ar og dvaldi þá í nokkra daga. Börn- in mín höfðu gaman af að spila við hana. Þó svo þau væru nú sérstak- lega tapsár þá gaf hún sig ekki og þau þurftu þá bara að læra að spila betur úr því sem þau höfðu á hendi. Þau hafa oft skemmt sér við minn- ingarnar um spilamennskuna við ömmu. Ég vil á þessum tímamótum þakka allt það sem hún tengdamóð- ir mín hefur gert fyrir mig og mína. Minningin um hana er björt og hlý. Kolbrún Ingólfsdóttir. Mig langar að minnast í fáum orðum ömmu minnar. Hún var fædd árið 1907 og lifði því tíma mikilla breytinga en sannaði með lífi sínu og breytni fyrir mér og öðrum sam- ferðamönnum sínum það sem önnur gömul og vitur kona sagði: „Það sem raunverulega skiptir máli hef- ur ekkert breyst.“ Þeir eru ófáir sem eiga ömmu bæði smátt og stórt að þakka en við barnabörnin líklega mest. Hún fékk aldrei greitt í pen- ingum fyrir framlag sitt, í hennar samningum voru engin kaupréttar- ákvæði um hlutabréf í þeim verð- mætum sem hún skapaði enda var ríkidæmi hennar ekki mælt í pen- ingum. Hún á hins vegar ófá hluta- bréf í mér en það eru verðmæti sem ekki verða seld heldur bara gefin. Auk sérstakrar afstöðu til lífsins kenndi amma okkur barnabörnun- um ýmislegt sem aðeins ömmur í bókum hafa tíma til í dag. Hjá henni lærði maður að prjóna og sauma og ýmsa hugarleikfimi s.s. gátur og vísnaleiki. Hún hafði gaman af að spila við okkur barnabörnin sín en var þó ekkert að tapa til að blíðka okkur. Vissi enda að sigurinn er ekki sætur nema fyrir honum sé unnið. Hún var óþreytandi hlust- andi og gat ævinlega lagt eitthvað til málanna í samræðum, nánast sama hvert umræðuefnið var. Unn- ur amma var gædd mikilli greind og var áhugasöm um hina ýmsustu hluti. Það kom okkur frændum sí- fellt á óvart hvað hún vissi mikið um sérhæfð málefni. Dæmi um slíkt er þegar við komum vestur í páskafríi úr menntaskóla og vorum að vinna verkefni í lífefnafræði. Verkefnið fjallaði um virkni ensíma en þá kom í ljós að amma hafði mikinn áhuga á þessu efni, hafði lesið um það ýt- arlegar greinar og var stórhrifin af þeim möguleikum sem ensím gætu gefið í efnaiðnaði. Amma var kona fárra orða og hafði lag á að orða skoðanir sínar á hnitmiðaðan hátt. Ófáum samræð- um okkar frænda lauk með því að amma sagði eina setningu sem hitti naglann svo á hausinn að óþarft var að halda áfram. Ég þakka ömmu fyrir það sem hún hefur gefið mér og vona að mér lánist að skila þeim góðu gjöfum áfram til næstu kynslóðar. Dofri Hermannsson. Nú er amma mín dáin. Hún var 98 ára gömul. Ég rifjaði upp fyrir henni í haust hver aldur hennar var og hún þóttist vantrúuð á það. „Til hvers er maður að verða svona gamall?“ spurði hún. Amma var gömul þegar ég fæddist. Það fannst mér að minnsta kosti. Gráhærð, hlý, mjúk og róleg eins og uppskriftin segir til um. Alltaf að þrífa, elda, baka og lagði sig svo þegar hægðist um. Hlýjaði mér á höndunum þegar ég kom inn, las upp fyrir mig alla málshætti sem hún kunni og ég safnaði þeim í stílabók. Kenndi mér vísur svo ég gæti kveðist á við hana eða afa og spilaði stundum Marías við mig allan daginn. Af og til fórum við í göngutúr og gengum þá hægt. Ég kvartaði við hana þegar á mér var brotið og hún hlustaði og ráð- lagði án þess að taka afstöðu. Það angraði mig að hún skyldi ekki draga minn taum og hjálpa mér að leiðrétta óréttlæti en hún var stöð- ug í hlutleysi sínu og bifaðist ekki hvernig sem ég reyndi að útskýra fyrir henni mun á réttu og röngu. Eftir á að hyggja var hlutleysið oft mér í hag og mér þykir vænt um að hún hafi látið mig njóta þess. Ég á ótal minningar um ömmu og þær bestu eru stundirnar sem við sátum og töluðum um allt milli himins og jarðar. Hún hafði nærri 70 ár fram yfir mig í lífsreynslu en lét aldrei eins og hún vissi betur þess vegna. Það er langt síðan amma fluttist á dvalarheimilið í Búðardal vegna veikinda. Þangað höfum við heim- sótt hana og stundum kom hún með okkur inn að Kleifum eða suður. Hún fylgdist með hverjir voru á leið inneftir og hvenær þeir fóru til baka. Eftir því sem hún varð eldri fannst henni varhugaverðara að keyra inn Gilsfjörðinn. Einu sinni ætluðum við systkinin að firra hana áhyggjum með því að láta hana ekki vita þegar við færum inn eftir. Það voru mistök því að hún hafði frétt það eftir öðrum leiðum og beið þess að heyra frá okkur fram á nótt. Síð- ustu árin hefur hún lítið getað fylgst með og ég sakna þess að tala við hana um það sem er rétt eða rangt. Ég veit að ömmu fannst hún komin á leiðarenda fyrir nokkru síðan og ég hef óskað þess undan- farið að hún fengi að fara. Ég er þakklát fyrir að hún dó í svefni og þarf ekki að lifa fleiri ferðir í sjúkrabíl upp á Akranes. Ég er þakklát fyrir að hafa átt hana að svona lengi og mun alltaf sakna hennar. Eydís Hörn. Okkur frænkurnar langar að minnast ömmu í nokkrum orðum. Unnur amma lést á 99. aldursári og hafði því lifað tímana tvenna, hún bjó öll sín búskaparár á Kleifum í Gilsfirði og sinnti húsmóðurhlut- verkinu vel. Amma var myndarleg kona og varð enn fallegri með aldr- inum, hún var lágvaxin og mjúk, húðin slétt og frá því að við munum eftir okkur var hárið hvítt. Meðan við og aðrir eltust var eins amma væri alltaf eins. Það var eins og það væri ekki fyrr en allra síðustu árin að aldurinn færi að segja til sín. Í minningunni er eins og hún hafi verið á sama aldri í þrjá áratugi. Amma var skírð Kýrunnur, en var alltaf kölluð Unnur. Þó svo aðrir rækju upp stór augu þegar þeir heyrðu nafnið hennar þótti okkur það alltaf virðulegt og fallegt enda gat ekki annað verið þar sem amma bar það. Ýmis atvik koma upp í hug- ann þegar við hugsum til ömmu, til dæmis það að oft þegar maður var úti að leika sér og hafði bleytt vett- lingana eða var kalt á tánum þá rölti maður inn og fékk glænýja vett- linga eða sokka sem hún sótti inn í bakaraofn á gamalli gaseldavél. Einnig átti hún gjarnan kleinur að stinga upp í mann þegar maður hafði ekki tíma til að koma inn. Það var alltaf gott að borða hjá Unni ömmu, það var eins og allur matur yrði að kræsingum ef hún eldaði hann. Hún var með eindæmum gestrisin og gætti þess að eiga alltaf til kökur og fleira gott með kaffinu. Ekki má gleyma pönnukökunum sem hún bakaði oft þegar við kom- um og minnast barnabarnabörnin oft á það. Alltaf var sjóðandi vatn í potti á eldavélinni, tilbúið til að hella upp á kaffið. Amma talaði aldrei illa um annað fólk, hún var skemmtilega hrein- skilin og hafði lag á að segja það sem hún meinti án þess að vera meiðandi, hún hafði svo góða nær- veru og það var eins og fátt raskaði ró hennar. Hún gaf sér alltaf tíma til að sinna okkur barnabörnum, spilaði oft og mikið við okkur Marí- as, spjallaði, kenndi okkur vísur og fór í göngutúra út á Birgishól. Hún kom fram við börn jafnt sem full- orðna af virðingu og við munum ekki eftir því að hún hafi nokkurn tíma sett ofan í við okkur. Nú þegar Unnur amma er dáin er okkur efst í huga þakklæti fyrir að hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast henni. Sest í rökkurs silkihjúp sæll og klökkur dagur. Er að sökkva í sævardjúp Sólarnökkvi fagur. Vertu allra ljósa ljós, lýstu í glöðu og stríðu. Vertu allra rósa rós, reifaðu allt með blíðu. (Höf. ók.) Dagný Hermannsdóttir, Heiða Mjöll Stefánsdóttir. Ég átti því láni að fagna að vera nokkur sumur á Kleifum í Gilsfirði. Þetta var á fyrri hluta sjöunda ára- tugarins og margt um manninn þessi sumur. Það er eiginlega ekki hægt að tala um Kleifa nema að nefna Unni og Jóa í sömu hendingu. Pabbi hafði verið hjá þeim sex sum- ur á fyrstu búskaparárum þeirra. Þá bjó stórfjölskyldan í torfbænum; ungu hjónin, tengdafaðir Unnar og vinnuhjú og þar fæddust synirnir þrír. Það kom eiginlega ekki annað til greina en að ég fengi líka að upp- lifa sumrin á Kleifum og þó að nóg væri af sumarkrökkum fékk ég að fljóta með þótt ég væri varla mat- vinnungur. Á þessum árum var Kleifaá í Gils- firði virkjuð. Þá kom loksins raf- magn í bæinn og létti það húsmóð- urinni störfin, sem voru óendanleg. Þá komu rafmagnseldavél, ísskápur og þvottavél, en áður hafði þvotta- vélin verið tengd við dráttarvélina á þvottadögum og strákarnir fóru síð- an með þvottinn út í á til að skola hann. Það er ærið starf að vera hús- móðir á bæ þar sem gestagangur er mikill. Á þessum tíma var bærinn í alfaraleið og fólk sem átti leið um leit oft við og fékk þá kaffi og með- læti. Borið var fram hefðbundið bakkelsi eins og við þekkjum frá ís- lenskum heimilum á síðustu öld. Þrátt fyrir myndarskap húsmóður- innar á Kleifum veit ég að henni þótti margt annað skemmtilegra en heimilisstörf. Eitt sinn fórum við og Ásta, mágkona hennar, í ævintýra- lega glæfrarferð um Strandir og Steinadalsheiði og fengum skammir fyrir. Við rifjuðum oft upp þessa skemmtilegu ferð síðar. Hugur Unnar var hjá afkomend- um sínum. Í hvert sinn sem ég heimsótti hana voru teknar fram myndir af barnabörnunum og spjallað um þau og nöfn þeirra, því þau gátu verið skondin. Einnig fylgdist Unnur með þeim sumar- börnum sem höfðu verið á Kleifum. Allir sem urðu á vegi hennar skiptu hana máli. Ég leit við hjá Unni í sumar og rifjuðum við upp gamla daga. Það var gott vegarnesti að fá að dvelja hjá Unni á Kleifum og kveð ég hana með söknuði því hún á stór- an sess í hjarta mínu. Ég votta vandamönnum samúð mína. Kristín Benediktsdóttir (Krissa). UNNUR GUÐJÓNSDÓTTIR ✝ Sigurjón Bær-ingsson, Tún- götu 16 á Patreks- firði fæddist í Tungu í Örlygshöfn 1. nóvember 1923. Hann lést á sjúkra- húsinu á Patreks- firði 23. janúar síð- astliðinn. Foreldrar hans voru Jóhanna Guðbjörg Árnadótt- ir, f. í Kollsvík 20. janúar 1885, og Bæring Bjarnason, f. á Hvallátrum 7. september 1875. Systkini Sigur- jóns, sem nú eru öll látin, voru Guðmundur Óskar, f. í Kollsvík 25. júní 1905, Bjarni, f. í Kollsvík 12. september 1906, Hermann, f. í Keflavík í Rauðasandshr. 2. des- ember 1908, Hjörtur, f. í Kefla- vík 7. janúar 1911, Árni Jóhannes, f. í Keflavík 26. janúar 1913, Ástbjörg Dómhildur, f. í Keflavík 26. júlí 1917, Árný Anna Jóhanna, f. í Tungu 21. maí 1921, og Ólafur Kristinn, f. í Tungu 2. maí 1927. Sigurjón var ókvæntur og barn- laus. Hann vann alla tíð hörðum höndum, bæði til lands og sjávar, á Vatneyri við Patreksfjörð. Var síðast starfs- maður Patrekshrepps til 1992. Útför Sigurjóns verður gerð frá Félagsheimili Patreksfjarðar í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Sigurjón Bæringsson föðurbróðir minn er látinn. Nonni eins og hann alltaf nefndi sjálfan sig er kominn þangað sem hann svo lengi hefur viljað vera, til mömmu sinnar og annarra skyldmenna sem hann hef- ur verið í daglegum samtölum og samskiptum við mörg undanfarin árin, blessaður karlinn. Þar líður honum vel núna er ég viss um, hjá sínu fólki. Fyrir þá sem þekktu Nonna koma þessi orð ekki á óvart, því hann talaði alltaf um mömmu sína, hana Jóku ömmu, eins og hún væri lifandi á meðal vor. Í hans huga var hún það og Nonni rakti samtöl sín við hana þannig að fyrir ókunnuga var útilokað að átta sig á að um löngu látna manneskju var að ræða. Ég var alinn upp í sama húsi og Nonni bjó í á Bjarkargötunni á Patreksfirði. Þá bjó hann þar á hæð- inni fyrir neðan okkur bræður hjá ömmu þar til hún lést. Eftir það bjó hann um nokkurra ára skeið á sama stað hjá Önnu systur sinni, eða þar til hann keypti hús á Kambinum og síðar á Túngötunni þar sem hann bjó til síðasta dags. Nonni frændi var ekki hár maður í lofti, en samanrekinn bolti, ann- álaður fyrir krafta sína sem hann hafði gaman af að reyna við ýmis tækifæri alla sína ævi. Á dánarbeði spurðu þeir frændur Daði og Dóri hann hvort þeir gætu tekið hann í sjómann. Þá hló Nonni og kvað nei við því, söng síðan „Og hún er svo sæt“ og hló á milli, kannski við til- hugsunina um að þeir létu sér detta í hug að taka Nonna í sjómann. Svona var Nonni frændi, alveg fram á síðasta dag. Á sínum yngri árum vann Nonni ýmis verkamannastörf á eyrinni eins og gengur í sjávarplássi og þótti góður verkmaður. Síðustu áratugina vann Nonni hjá áhalda- húsi bæjarins, lengst af undir stjórn Bjarna Þorsteinssonar. Bjarni var ákaflega góður við Nonna og félaga hans til margra ára Gísla Gíslason. Óhætt er að segja að vinnustaðurinn hafi verið líf og yndi Nonna, enda oft mikið fjör og mikið hlegið og gantast við fjölbreytta vinnu hjá bænum. Nonni var mikill húmoristi og léttur í lund, en einnig stundum kjaftfor og lá ekki á skoðunum sín- um á mönnum og málefnum ef svo bar undir. Nonni var barngóður með afbrigðum, en vegna fötlunar sinnar og útlits voru sum sem hræddust hann, en önnur hændust að honum eins og dóttir mín Sunna sem kyssti hann og klappaði í hvert sinn sem hún sá Nonna. Við okkur bræðurna, frændur sína á Bjarkar- götunni, var hann alltaf góður og tilbúinn að gantast við okkur og tuskast þegar við vorum strákar. Nonni leyfði okkur að nota sig sem boxpúða þegar við vorum strákar, bara til að sýna okkur hvað vöðv- arnir væru harðir, þá stóð annar fyrir framan og boxaði bumbuna, hinn fyrir aftan og boxaði þjóinn, alltaf urðum við að gefast upp, orðn- ir aumir í höndunum. Svona var Nonni, alltaf til í að fíflast við okkur strákana. Nonni er síðasta systkinið af börnum afa míns og ömmu, þeirra Bærings Bjarnasonar og Jóhönnu Árnadóttur, sem fer yfir móðuna miklu og þar verður hann í góðum félagsskap. Guð blessi þig, Nonni minn. Kveðja, Gísli Ólafsson. SIGURJÓN BÆRINGSSON
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72
Blaðsíða 73
Blaðsíða 74
Blaðsíða 75
Blaðsíða 76

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.