Morgunblaðið - 13.10.2006, Side 51
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. OKTÓBER 2006 51
menning
Sheer Driving Pleasure
BMW X5
www.bmw.is
Guðjón Guðmundsson
gugu@mbl.is
ÞAÐ er jafnan einn af hápunktunum
á næstum hverri djasshátíð hér-
lendis þegar Útlendingahersveitin
kemur saman og fremur list sína.
Tónleikar með sveitinni á Nasa nk.
laugardagskvöld eru lokahnykk-
urinn á Jazzhátíð Reykjavíkur og
um leið verður kynntur nýr diskur
þeirra félaga, Time after time, sem
tekinn var upp á tónleikum þegar
sveitin kom síðast saman í apríl sl.
Diskurinn er tekinn upp á tónleikum
víða um landið í apríl og eru því upp-
tökurnar allar „live“.
Útlendingahersveitin var stofnuð
árið 1992 fyrir atbeina stjórnar Rú-
rek-djasshátíðarinnar, sem var sam-
starf Ríkisútvarpsins og Reykjavík-
urborgar og undanfari Jazzhátíðar
Reykjavíkur. Sveitin hefur verið
eins skipuð frá upphafi og koma fé-
lagarnir hver úr sinni áttinni og
dregur hún nafn sitt af því. Árni
Scheving er víbrafónleikari Útlend-
ingahersveitarinnar, Þórarinn Ólafs-
son er píanóleikari, Jón Páll Bjarna-
son gítarleikari, Árni Egilsson
bassaleikari og Pétur Östlund
trommuleikari.
Tónleikarnir að mestu
leyti helgaðir tónlist af
nýjasta disknum
Árni Egilsson og Jón Páll komu
jafnan alla leið frá Kaliforníu til þess
að leika með sveitinni en nú hefur sá
síðarnefndi flust til Íslands á ný.
Pétur kemur frá Stokkhólmi í Sví-
þjóð og Þórarinn frá Englandi. Árni
Scheving hefur á hinn bóginn að
mestu haldið sig á Íslandi.
Tónleikarnir nk. laugardagskvöld
verða að mestu leyti helgaðir tónlist
af nýja disknum sem hefur að geyma
12 lög, þar af 8 frumsamin, en það
hefur ávallt verið vörumerki sveit-
arinnar að flytja frumsamda tónlist.
Meginhluti laganna á disknum eru
eftir Árna Egilsson, sem býr og
starfar í Los Angeles. Lögin eru Me-
mory of Andrés, Song of the Garde-
ners, NHÖP og We Try to go on.
Árni kveðst vera að mestu hættur í
stúdíóvinnu, sem hefur verið hans
lifibrauð áratugum saman í Banda-
ríkjunum. Nú vilji hann rækta garð-
inn heima fyrir og njóta lífsins uppi í
kalifornískri sveitinni.
Ótrúleg gerjun í menning-
arlífinu hér á Íslandi
„Það er ótrúleg gerjun hérna. Það
voru 255.000 manns sem fóru á leik-
sýningar á síðasta ári í Reykjavík.
Þetta jafngildir því ef 255 milljónir
manns sæktu leiksýningar í Banda-
ríkjunum. Þetta er hreint ótrúlegt
og þekkist hvergi annars staðar á
byggðu bóli,“ segir Árni Egilsson.
Hann segir líka að það komi sér
alltaf jafnmikið á óvart þegar hann
kemur í heimsókn til föðurlandsins
hve hár gæðastaðall sé á íslenskum
djasstónlistarmönnum. Hér sé fjöldi
af mjög frambærilegum bassaleik-
urum og saxófónleikarar og gít-
arleikarar í hrönnum. Hann þakkar
þetta ekki síst starfi FÍH-skólans og
þeirri víðsýni sem ríkir til tónlistar-
menntunar þar. Það sé ómetanlegt
fyrir upprennandi tónlistarmenn að
fá innsýn inn í sem flestar tónlist-
arstefnur og tækifæri til þess að
spreyta sig á ólíkum vettvangi.
Þeir félagar segja að það sé alltaf
jafngaman að koma saman í Útlend-
ingahersveitinni. „Við erum að spila
saman tónlist sem við myndum ann-
ars aldrei spila. Þetta er bara það
sem kemur frá okkur öllum, hvort
sem það er í formi tónsmíða eða út-
setninga. Tónlistin er ekki öll eftir
okkur og hluti af þessu eru stand-
ardar.“
Árni Scheving á tvö lög á Time af-
ter Time og útsetur eitt lag ásamt
Þórarni, og Árni Egilsson á fimm
lög, Pétur útsetur tvö lög og Jón Páll
Bjarnason á eitt lag.
Þrátt fyrir að heilu höfin aðskilji
þá félaga hafa leiðir þeirra þó einatt
legið saman í gegnum tónlistina.
Þess má t.d. til gamans geta að Þór-
arinn og Scheving voru samtíða í
Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem
sá fyrrnefndi lék á flautu.
„Þegar við vorum ungir og vörpu-
legir vorum við að stelast í það að
spila svona músík. Scheving var
náttúrulega stórstjarna á þessum
árum og lék með KK-sextettinum,
sem er líklega besta hljómsveit sem
við höfum átt á Íslandi og með bestu
hljóðfæraleikurunum,“ segir Árni
Egilsson. „Við vorum fullir aðdáunar
allir hinir og alltaf tilbúnir að hlaupa
í skarðið ef einhver forfallaðist.“
„Þetta er aðeins í fjórða skipti
sem við komum allir saman, og það
síðasta,“ segir Árni Scheving. Þegar
blaðamaður innir hann eftir þessum
tíðindum upplýsir hann að menn hafi
komist að þeirri niðurstöðu að láta
staðar numið. Þetta verða sem sagt
síðustu tónleikarnir sem haldnir
verða með Útlendingahersveitinni
og þeir verða að hausti til. Það er
spurning hvort Autumn Leaves
verði á efnisskránni.
„Það er ómögulegt að segja. Við
erum ekki farnir að velja lögin
ennþá,“ segir Árni Egilsson og Árni
Scheving bætir við að líklegast verði
uppistaðan lög af nýja diskinum.
Hann segir að þeir renni blint í sjó-
inn með aðsókn enda hafi sjaldan
verið jafnmikið um að vera í Reykja-
vík og einmitt um þessar mundir.
Vopnin kvödd
Útlendingahersveitin heldur loka-
tónleika á Nasa á laugardagskvöld
Morgunblaðið/Sverrir
Málaliðar Nafnarnir Árni Egilsson og Árni Scheving spila annað kvöld frumsamin lög og standarda á Nasa ásamt
félögum í Útlendingahersveitinni. Tónleikarnir eru lokahnykkurinn á Jazzhátíð Reykjavíkur