Morgunblaðið - 05.12.2006, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 05.12.2006, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 5. DESEMBER 2006 19 ÞEGAR ég settist í Mennta- skólann á Akureyri haustið 1965 voru þar enn kenn- arar sem mundu Matthías Jochumsson og höfðu haft af hon- um persónuleg kynni. Þegar vel lá á þeim sögðu þeir frá skáld- inu. Án þess að gera boð á undan sér hafði Matthías komið í heimsókn og þá var hringt á Sal. Þegar hér var komið sögu lá skáldinu lágt rómur, það tuldraði ofan í bringuna svo að erfitt var að greina orðaskil. En nemendur lögðu sig fram um að hlusta, vildu ekki missa af neinu orði og þessi stund varð síðan heil- ög í minningu þeirra. Ævinlega var gefið frí 11. nóvember á fæð- ingardegi Matthíasar. Ég rifja þetta upp til að bregða ofurlitlu ljósi á, hvílíkrar virð- ingar og vináttu Matthías naut á Ak- ureyri. Af honum voru sagðar sögur og þjóð- sögur sem sýndu ör- læti hans og spauguðu með galla hans. En tónninn var alltaf hlýr, lýsti væntumþykju og vináttu. Og svo er auð- vitað rétt að muna, að margir fundu til þakklætis við Matthías fyrir skáldskap hans, sálusorgun og huggun og vildu láta hann njóta þess. Svo er um fleiri listamenn og ekkert einsdæmi að vel sé til þeirra gert. Þórarni Björnssyni skólameist- ara varð tíðrætt um Matthías við nemendur sína: „ … Hann átti bæði norræna karlmennsku og kristinn kærleik: þrek og mildi. Faðmur hans var hinn víði faðmur og hlýja hjartans víkkar hugann,“ sagði hann á Sal. Og við annað tækifæri í spjalli um Victor Hugo sagði Þórarinn: „Ef ég ætti að nefna eitthvert íslenskt skáld, sem helst minnti á hann, þá myndi það vera Matthías Jochumsson. Það er sama andagiftin, sama flugið, sama orðgnóttin, sami flaumurinn sem manni getur stundum þótt nóg um en hlýtur þó að hrífa með sér allt og alla.“ Það er ekkert áhlaupaverk að lýsa þvílíkum manni. Líka vegna þess að hann varð fyrir þungum harmi og ríkri gleði í lífi sínu sem reyndi á sálarþrek hans. Upp á sigurhæðir er mikið rit- verk og hefur höfundurinn, Þórunn Erla Valdimarsdóttir, unnið þrek- virki með samningu þess. Ef ein- ungis er horft til hins ytra er les- málið 560 bls. Tilvísanir eru á 50 síðum og skrá um heimildir á 34 síðum. Í formála getur Þórunn Erla þess, að hún eigi mun efn- ismeira rafrænt safn til sögu Matthíasar en skilaði sér í ævisög- una, sem hún vilji gjarna láta ganga til þeirra sem skoða ýmsar hliðar skáldprestsins í framtíðinni. Þetta er vel boðið, um leið og það skýrir, að hún hefur átt erfitt um efnisvalið og varð mjög að gá að sér að ekki teygðist um of úr verk- inu. En hvað sem því líður er ævi- saga Matthíasar vel skrifuð bók, skemmtileg og oft spennandi. En það væri óhreinskilni ef ég léti það ekki fylgja með, að mér þótti hún of þung í hendi og spurði mig oft við lesturinn, hvers vegna hún væri ekki í tveimur bindum. Bókin skiptist í 13 kapítula, þar sem fylgt er lífsferli Matthíasar og dregin fram mörg eftirminnileg at- vik úr ævi hans eins og þegar Matthías kom með tóman pela til móður sinnar og hún kvað: Hefur rekkur hýrlegt fas, hjartaflekk ei ber hann, mikið drekkur Matthías, mömmu þekkur er hann. Svo að Matthías hefur drukkið skáld- skapinn í sig með móðurmjólkinni og kemur víða fram hversu náin þau voru eins og í Jólum 1891 eða í þessum línum: Hví skyldi ég yrkja um önnur fljóð, en ekkert um þig, ó, móðir góð. Frágangur bók- arinnar er góður og smekklegur og vel til alls vandað. Þó hefur misritast á bls. 105 séra Árni Þór- arinsson á Staðastað fyrir Stórahrauni. Enn fremur dautt fyrir autt á bls 224, sem raunar segir sig sjálft, eins og ég fyrir eg nokkru neðar. Rétt upp sett er nið- urlag dróttkvæðrar vísu á bls. 226 svona: …enn em’k hress þó að hryssur, hrákadalls und fjalli – gleðr oft vín Gunnlaðar grepp – ok eykir keppist. Þá er á bls. 468 mynd af langri fylk- ingu fólks á leið í kirkjugarðinn á Akureyri. Þetta er ekki líkfylgd eins og í bókinni stendur, heldur er hér verið að minnast 50 ára af- mælis Möðruvallaskóla hinn 1.júní árið 1930. Mikill fjöldi fólks gekk frá Menntaskólanum niður Kaup- angsstræti, inn Hafnarstræti, Að- alstræti og upp í kirkjugarð. Þar lagði Sigurður Guðmundsson skólameistari blómsveig á leiði skólameistaranna Jóns A. Hjaltalíns skólameistara og Stef- áns Stefánssonar. Höfundur beitir þeirri tækni að skjóta inn fróðleik um aldarhátt- inn, tíðarfar og einstök atvik til að færa lesanda nær Matthíasi, enda er slíkur fróðleikur til þess fallinn að skáldið skýrist betur fyrir manni. Ég hef nú haft Upp á sig- urhæðir í höndum um nokkurt skeið og flett bókinni aftur og fram og raunar líka upp í öðrum bókum. Þetta lýsir umfangi verks- ins og þeim ótal spurningum sem það kallar fram. Því að Matthías Jochumsson var ekki einhamur. Hann kemst ekki fyrir í einni bók. Matthías var sískrifandi og síyrkjandi þegar tilefni gafst til og raunar þó ekkert slíkt tilefni gæf- ist. Þetta nýtir Þórunn sér og skýtur inn ljóðum og vísum Matthíasar, eftir því sem sögunni vindur fram, eða vitnar í bréf hans. Það styrkir frásögnina um leið og það skýrir fyrir okkur skáldið Matthías, hið mikla vald sem hann hafði á tungu og brag- arháttum og þá djúpu tilfinningu eða geðshræringar sem ljóð hans lýsa þegar svo ber undir. Hann gerir að gamni sínu eða yrkir ljóðabréf fyrir börn sín lítil: Ég á að geyma bæ og bú, bæði slá og róa; hirða lambið, kálf og kú, kríu, hrafn og spóa. Samskipti Matthíasar við skáld og kirkjunnar menn eru flókin og margvísleg, bæði hér og erlendis. Þeim eru gerð góð skil og skemmtileg og þeim tvískinnungi og tvíræðni sem einatt kemur þar fram. Það verður ekki rakið hér nema sagt, að áhugavert er að lesa um samskipti þeirra Matthíasar og Steingríms Thorsteinssonar, frá því þeir hittust í Kaupmannahöfn árið 1856 og mæltust til ævilangr- ar vináttu sem síðan snerist upp í andhverfu sína eftir útgáfu Svan- hvítar en síðan náðu skáldin og gömlu vinirnir saman á ný. Þetta er merkileg saga. Hér áttust við tvö höfuðskáld okkar Íslendinga á ofanverðri 19. öld og brautryðj- endur í þýðingum á ýmsum af fremstu bókmenntaverkum erlend- um í bundnu og óbundnu máli. Hannes Pétursson skáld segir í bók sinni um Steingrím Thor- steinsson að þeir Matthías hafi með Svanhvíti stækkað „bók- menntasjónhring þjóðarinnar meira með einu og samræmdu átaki en dæmi voru til áður í ís- lenskri ljóðagerð“. Og báðir feng- ust þeir ungir menn við þýðingar á leikritum Shakespeares. Þegar litið er til þess hversu mikilsháttar þýðingar Matthíasar eru, kemur á óvart viðhorf hans til þeirra eins og þeim er lýst í bréfi til Hannesar Hafstein 1. maí 1883: „Forðastu þýðingar, ég hef haft verra af þeim, af því að ég hef þreytt sálina við það og svikið frá mér hina fersku krafta.“ Skáldið hefur látið þetta fjúka án þess að meina það endilega til fulls, enda hundleiður á erfiljóðagerð. Eftir sem áður er þessi tilvitnun ágætt dæmi um bréfaskriftir Matthíasar. Þar lætur hann allt fjúka, lýsir geðhrifum sínum og áhyggjum og fellir palladóma, ekki síst um önn- ur skáld eða trúarinnar menn. Og svo bullar hann líka í bréfunum, sem gerir hann mannlegan og svo- lítið kærulausan, svo að manni þykir vænna um hann á eftir. Afskipti Matthíasar af trúmálum og kirkju eru flókin og þó öll sömu ættar. Hann var ungur fullur af efasemdum, kynntist kvekurum og leist ekki á, hreifst af Únítörum en hafnaði réttrúnaði. Hann sneri kaþólskum sálmum á íslensku og sömuleiðis sálmum fyrir Gook á Akureyri og sagði í erfiljóði um kaþólskan trúboða, séra Baudoin: Einn er Guð allrar skepnu, lútherskrar, kaþólskrar, lítillar, stórrar … Þórunn gerir þessum þætti í ævi Matthíasar góð skil. Sömuleiðis ritstjórnarárum hans. Ungan dreymdi Matthías að eignast búð í Flatey með skiltinu Verslun M. Jochumssonar, en réðst síðan til mennta með aðstoð góðra vina og kvenna. Honum blunduðu ýmsar þrár í brjósti og vegna þess hversu duglegur og frjór bréfritari hann var er mikið vitað um langanir hans og metnað eins og rakið er í bókinni og bæst hefur við síðan. Hann kvæntist þrívegis. Tvær fyrri konur sínar missti hann með skömmu millibili, en eignaðist síðan barn með Guð- rúnu Runólfsdóttur í Saurbæ á Kjalarnesi, en hikaði við að kvæn- ast henni, þar sem hann hafði fellt hug til annarrar konu sem ekki endurgalt ást hans og nú hefur verið upplýst að var Jarþrúður Jónsdóttir. Þetta víxlspor átti síðan eftir að verða mikið giftuspor. Þau Guðrún áttust og eignuðust 9 börn, er upp komust. Guðrún var mikil búkona og rak heimilið af skörungsskap og leyfði skáldinu að njóta sín. Matthías var meðal þeirra Íslend- inga sem fyrstir börðust fyrir kvenréttindum og hélt Guðrún honum við efnið. Matthías lést í hárri elli á Akureyri 85 ára gamall og hún þremur árum síðar. Hér hefur verið stiklað á stóru en vitaskuld mætti nefna fleira til sögunnar. En ég slæ botninn í þessar sundurlausu hugleiðingar með því að segja að Upp á sig- urhæðir er þörf bók um mikinn mann. Upp á sigurhæðir BÆKUR Ævisaga Eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, JPV-útgáfa, 2006, 672 bls. Upp á Sigurhæðir Halldór Blöndal Matthías Jochumsson Þórunn Erla Valdimarsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.