Morgunblaðið - 05.12.2006, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 05.12.2006, Blaðsíða 34
34 ÞRIÐJUDAGUR 5. DESEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Þeir missa sem eiga! Mér koma í hug þessi orð sem móðir mín sagði gjarnan og svo sannarlega höfum við öll misst mikið með Erni. Mestur er þó missir foreldra hans og systra sem elskuðu hann og umvöfðu kærleika og væntumþykju. Örn var líka heppinn að eiga þau að, í blíðu og stríðu og í öllum hans veikindum stóðu þau við hlið hans eins og klettar. Held ég að á engan sé hallað þótt sagt sé að móðir hans hafi gefið allt sem hún átti og vel það. Undir það síðasta vék hún ekki frá sjúkrabeðnum nótt né dag og gerði hvað sem í hennar valdi stóð fyr- ir Örn. Glöð hefði ég gefið hvað sem var til að hafa hann svo miklu, miklu lengur meðal okkar. Þakklát er ég engu að síður fyrir að hafa átt hann fyrir frænda og vin, svo yndislegur sem hann var. Það eru held ég ekki til nógu mörg falleg lýsingarorð í orða- bókinni til að hafa um Örn Steinar, vandfundnir eru ungir menn með því- líka mannkosti. Hann var ákaflega prúður í fasi og framkomu, hógvær og hæglátur og gerði öllum gott, ég heyrði hann aldrei segja styggðaryrði um eða við nokkurn mann. Námið lá vel fyrir honum, hann var sérlega samviskusamur og iðinn. Örn sýndi alltaf áhuga á því sem meðlimir stór- fjölskyldunnar voru að gera og hugs- aði fyrst og síðast um annarra hag. Ég er svo heppin að vera yngst í systkinahópnum og átti þar af leiðandi kost á að umgangast og gæta systk- inabarna minna meira og minna. Finnst mér ég því eiga töluvert mikið í þeim öllum þótt ekki sé svo langt í ár- um milli mín og þeirra elstu. Ég varð líka þeirrar ánægju aðnjótandi að fá Örn og Guja frændur mína alloft í mat til mín þegar þeir voru við nám hér í höfuðborginni, þeirra stunda minnist ég nú með þakklæti og gleði. Í löngum og ströngum veikindum gaf Örn aldrei upp vonina, hann reyndi allt og barðist hetjulegri bar- áttu en varð að lokum undan að láta. Aldrei kvartaði hann þó – æðruleysið var algert. Ég kveð – og þó ekki; Örn verður alltaf með okkur í hug og hjarta – við fjölskyldan þökkum einlæglega fyrir samfylgdina þar til við hittumst á ný. Guðrún Guðjónsdóttir. Örn Steinar Ásbjarnarson hefur kvatt þennan heim og það er stórt skarð höggvið í okkar litla samfélag hérna á hæðinni á Höfðabraut 6. Sam- félagið okkar hefur misst mikilvægan hlekk í fjölbreyttum hópi starfsmanna og einstaklinga. Við þurfum á að halda fjölbreytni í skoðunum og hugsun til að ná sem bestum árangri og þar lagði Örn Steinar svo sannanlega sitt að mörkum. Örn Steinar var ráðinn til Forsvars ehf. sem sumarstarfsmaður árið 2001 og fékk síðan aðstöðu til að ljúka við lokaritgerð sína í Tölvunarfræði við Háskóla Íslands um sumarið 2002. Hann var síðan fastráðinn í október við hugbúnaðardeild fyrirtækisins, sem þá var sett á laggirnar. Honum var strax falið að vinna við mörg metn- aðarfull og krefjandi verkefni sem hann leysti af hendi með láði. Örn Steinar var mjög samviskusamur, þrautseigur og ósérhlífinn starfsmað- ur. Það er okkur mjög minnistætt sl. sumar þegar hann kom til okkar, til að leysa ákveðin mál, þrátt fyrir að vera helsjúkur. Þegar Arnar Steinars er minnst þá kemur fyrsta í hugann, góður dreng- ur, hann var dulur, flíkaði ekki tilfinn- Örn Steinar Ásbjarnarson ✝ Örn Steinar Ás-bjarnarson fæddist á Sjúkra- húsinu á Hvamms- tanga 6. september 1978. Hann lést á líknardeild Land- spítalans í Kópavogi 21. nóvember síð- astliðinn og var jarðsunginn frá Tjarnarkirkju í Vatnsnesi 2. desem- ber. ingum sínum og það kom blik í augun á hon- um þegar hans kímni kom í ljós sem særði engan. Hann var ekki einn af þeim sem þurfa að vera miðdepill at- hyglinnar og hafa hátt. Heldur sýndi hann með verkum sínum hvers hann var megnugur. Það voru margar dyggðir sem Örn Stein- ar kenndi okkur, m.a. hógværð og nægju- semi. Í mínum huga var hann fulltrúi gamalla og góðra gilda sem eru á und- anhaldi í þjóðfélagi okkar. Því þessi gildi eru ekki nógu „töff“, og fara í bága við það sem einkennir okkar nú- tíma-neyslusamfélag og hugmyndir þess um dyggðir. Ríkjandi viðhorf okkar í dag er neysla, einstaklings- hyggja, framhleypni, óhóf og oflæti. Í dag áttu að „selja þig“. Örn Steinar var andstæðan, hann var ekki marg- máll en hvert orð var gulls ígildi. Við kveðjum góðan dreng með söknuði. Fyrir hönd starfsfólks á 3. hæð Höfðabrautar 6. Gunnar Halldór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Forsvars ehf. Elsku frændi. Það eru ekki nema liðlega 28 ár síðan að foreldrar þínir komu með þig nýfæddan, hingað á heimilið til afa þíns og ömmu sem voru þá húsráðendur hér. Voruð þið svo hér að mestu til vorsins 1980 er þið fluttuð að Þorgrímsstöðum. Margt kemur upp í hugann frá þeim tíma þegar þið frændsystkinin voruð börn hér á bæjunum og lékuð ykkur saman sem ekki verður þó tíundað hér, eins líka þegar ég fór að taka ykkur með mér að smala. En nú ert þú horfinn héðan, eftir langa og erfiða baráttu við hið illvíga krabbamein sem þú greindist með þegar þú varst ekki nema 15 ára gam- all. Tókst þá að ná tökum á sjúkdómn- um og þú náðir að mennta þig eins og hugur þinn stóð til. Síðan kom reið- arslagið, sjúkdómurinn tók sig upp aftur fyrir um það bil tveimur árum og gekkst þú undir margar skurðaðgerð- ir en ekkert varð við ráðið. Mér er óskiljanleg sú hetjulund sem þú sýnd- ir allan tímann. Nú ríkir sorg í dalnum, mikill öð- lingsdrengur er fallinn langt fyrir ald- ur fram, en minningin lifir. Mín síð- asta ósk þér til handa kæri frændi er sú að almættið fari mildari höndum um þig þar sem þú ert nú á nýjum slóðum heldur en hér var gert. Hafðu kæra þökk fyrir samferðina sem varð þó allt of stutt elsku frændi. Hvíl í friði Loftur Sveinn Guðjónsson og fjölskylda. Það var síðsumars árið 1989 í Breiðabólstaðarkirkju í Vesturhópi, þeirri gömlu og fögru kirkju á þessum merka sögustað þar sem ritun hófst á Íslandi og fyrsta prentsmiðjan sem kom úr Svíaríki var sett upp. Kirkjan var þéttsetin því verið var að setja ný- kjörinn og nývígðan prestinn okkar, sr. Kristján Björnsson, inn í embætti. Við hjónin, nýflutt í sveitina, sátum í kirkjunni miðri og eftir athöfnina, sem var afar hátíðleg og falleg, heyrði ég hvíslað á næsta bekk fyrir aftan okk- ur: „Er þetta nýi skólastjórinn, mamma!“ Ég leit við og mætti tindr- andi brúnum augum lítils drengs sem brosti svo fallega til mín. Já, þetta var rétt til getið hjá honum, þarna var hann með móður sinni, brúneygðri og dökkhærðri konu og tveimur systrum sínum, gullfallegum tvíburum, sem ég komst síðar að að voru átta ára, en hann þremur árum betur. Við heils- uðumst, handtakið þétt, sem bar vott um festu og greind. Ég heillaðist af þeim og átti eftir að verða kennari þeirra um alllanga hríð, drengsins í þrjú ár og stúlknanna enn lengur. Í þeim kynntist ég viðhorfum sem fá- gæt eru í dag; en þessi börn voru upp- alin á fremur afskekktum bæ, umvafin kærleika og umhyggju foreldra sinna; börnin voru í fyrirrúmi; ekkert var mikilvægara en velferð þeirra. Þau komu öll fluglæs og vel skrifandi í skólann,7 ára gömul; þau skrifuðu eins og fullorðið fólk, en ekki eins og ung börn! Þau kvöddu alltaf með handabandi og þökkuðu fyrir daginn; þau voru vel að sér í hverju sem var, enda öll góðum gáfum gædd. Ég fylgdist með þeim eftir að þau yfirgáfu skólann minn. Þau luku öll framhalds- námi með glæsibrag. Drengurinn var fyrsti nemandi minn úr Vesturhóps- skóla sem lauk stúdentsprófi, og get ég vart lýst stolti mínu á þeirri stundu. Síðan lá leið hans í Háskóla Íslands þar sem hann lauk B.S. prófi í tölv- unarfræðum af sama metnaði og dugnaði og allt annað sem hann tók sér fyrir hendur. Við hjónin fengum alltaf að fylgjast með honum og systr- um hans; í foreldrum þeirra kynnt- umst við sérstæðum eiginleikum sem komu fram sem þakklæti fyrir þau ár sem við vorum samtíða í skólanum okkar. Og vináttan þróaðist, þótt ekki væru samvistir miklar, en gamli smíðakennarinn naut leiðsagnar hans og hjálpar í glímu sinni við tölvuna og þar var hógværðin og nærgætnin í fyrirrúmi sem fyrr. Þennan yndislega unga mann, Örn Steinar, kveðjum við í dag og er harm- ur okkar allra ólýsanlegur. Opinber- unarbókin 21. 1 og 4 segir: Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin... Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið. Við erum börn jarðar, en erum við ekki líka börn himins? Við elskum lífið, bæði hið jarð- neska og himneska. Ekkert líf er án dauða, og enginn dauði án lífs. „Til moldar oss vígði hið mikla vald, hvert mannslíf sem jörðin elur“ segir skáldjöfurinn Einar Bene- diktsson í sálmi sínum: „Hvað bindur vorn hug við heimsins glaum?“ Já, Guð vígir oss öll til moldar. Og síðar í sálminum: „því heiðloftið sjálft er huliðstjald, sem hæðanna dýrð oss felur“. Og maðurinn kemst upp í dýrð him- insins þrátt fyrir huliðstjaldið, vegna þess að Guð hefur gefið honum and- ann. Predikarinn segir í 12.7: Moldin hverfur aftur til jarðarinnar þar sem hún áður var, en andinn til Guðs sem gaf hann. Jesús segir í Jóhannesarguðspjalli, 14.1. Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Og síðar í guðspjallinu: 14.27: Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Og hann segir ennfremur (Jh.11.25): Ég er upprisan og lífið. Hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Ég veit að Örn Steinar trúði á Jesú Krist og hann mun lifa í dýrð himins- ins og í hjörtum okkar allra sem þekktu hann og unnu honum. Kennari minn í guðfræðideild Há- skóla Íslands hreif mig með eftirfar- andi bæn sem elskuð móðir hans kenndi honum sem barni og leyfði okkur, nemendunum, að njóta með sér. Ó Jesú, Jesú minn, á jörðu hér, ég aðeins friðinn finn í faðmi þér. Ó tak mig, tak mig að þér trúi kæri Jesús. Í faðmi þínum fel mig, ég flý til þín. (Hawks/Fr.Fr.) Ég bið Jesú Krist, Drottin vorn, um að fela Örn Steinar í faðmi sínum og umvefja hann kærleika sínum og friði. Megi Guð allrar huggunar vera for- eldrum hans, aldraðri ömmu, systrum og öllum öðrum sem elskuðu hann, ná- lægur. Við Einar og synir okkar þökkum elskuleg kynni. Veri Örn Steinar kært kvaddur í ei- lífri náðinni. Kristín Árnadóttir. Ferð þín er hafin. Fjarlægjast heimatún. Nú fylgir þú vötnum sem falla til nýrra staða. Og sjónhringar nýir sindra þér fyrir augum. (Hannes Pétursson.) Fyrir 28 árum fæddist á Hvamms- tanga drengur með falleg brún augu. Stína vinkona var orðin mamma. Drengurinn, Örn Steinar, var rólegt og yfirvegað barn. Hann þurfti líka á skapstyrk að halda í erfiðri sjúkdóms- baráttu, sem hófst á unglingsárum. Æðruleysið var einstakt hjá svo ung- um manni. Elsku Stína mín, Addi, Þorbjörg, Magga og fjölskyldur. Drottinn gaf og drottinn tók. Minn- ingarnar um Örn verða ekki frá ykkur teknar. Megi þær lýsa upp svartasta skammdegið sem fram undan er. Á himnum hefur vantað fallegan engil með brún augu. Hann mun vaka yfir ykkur. Þar sem englarnir syngja sefur þú sefur í djúpinu væra. Við hin sem lifum í trú á að ljósið bjarta skæra veki þig með sól að morgni veki þig með sól að morgni. Drottinn minn réttu sorgmæddri sál svala líknarhönd og slökk þú hjartans harmabál slít sundur dauðans bönd. Svo vaknar hann með sól að morgni. Svo vaknar hann með sól að morgni. (Bubbi Morthens.) Þið eigið okkar dýpstu samúð. Guðný Margrét og fjölskylda. Fallinn er nú frá einn öðlingsdreng- urinn enn – langt um aldur fram. Örn var einstakur drengur sem gott var að vinna með og eiga að. Svo lánsamur var ég að kynnast Erni, fyrst sem fulltrúi viðskiptavinar hugbúnaðar- deildar Forsvars, þar sem hann starf- aði, og síðar sem stjórnarformaður þess. Rík þjónustulund, hógværð, fag- mennska og samviskusemi einkenndi þennan góða dreng. Þrátt fyrir alvar- leg veikindi var starfsgleði hans aðdá- unarverð – hann starfaði ötullega þar til kraftinn þraut. Hann hafði trú á samfélaginu sem hann bjó í og á því fyrirtæki sem hann starfaði fyrir. Trú- in var gagnkvæm því honum voru fal- in stór og flókin verkefni sem fáir aðr- ir en Örn hefðu treyst sér til að leysa. Með sérfræðiþekkingu að vopni og hinum góðu eiginleikum sínum voru verkefnin unnin af mikilli kostgæfni allt til enda. Enn og aftur erum við vitni að því þegar einn af okkar bestu liðsmönnum samfélagsins er tekinn frá okkur. Frammi fyrir því stöndum við vanmáttug. Ég bið Guð að geyma vel þennan góða dreng. Garðar Jónsson. Þá hlýtur að hafa sárlega vantað góðan tölvunarfræðing á himnum – að taka hann Örn frá okkur, þennan ljúfa og góða dreng. Hvers á ég að gjalda að geta ekki lengur hringt upp á efri hæðina og sagt ,,Örn minn, það er eitt- hvað að hjá mér“. Alltaf kom sama svarið ,,Ég kem“ og kíminn á svip ýtti hann á nokkra takka og allt var komið í lag. Í eitt skiptið man ég hann hafa brosað meira en vanalega og sagt ,,Sigga mín, það getur verið ágætt að slökkva og kveikja á tölvunni“. Þetta ráð reynist mér hið ágætasta í mörg- um tilfellum. Ég er svo heppin að geta sagt að Örn Steinar hafi verið vinur minn þó að ég sé 30 árum eldri. Ósjaldan kom hann við á safninu hjá mér að spjalla, stundum kom hann til að ná sér í bók og stundum var sagt ,,Nú er Ásbjörn litli að koma og ég þarf að fá bækur fyrir hann. Ætli það sé ekki best að það séu þær sömu og síðast. Hann vill alltaf láta lesa það sama.“ Þetta lýsir honum Erni vel, alltaf að hugsa um þá sem honum þótti vænt um. Þegar hann og pabbi hans ákváðu að byggja sér hús á Þorgrímsstöðum fékk ég að fylgjast með hvernig gekk og í maí fór hann með okkur tvær vin- konur að sýna okkur húsið sem þá var langt komið. Ákveðið var að aftur ætti að fara í skoðunarleiðangur þegar allt væri tilbúið en ekki verður af því að við gerum það saman. Oft þegar við vorum að spjalla kom í ljós hvað hann bar mikla umhyggju fyrir fjölskyldunni og þá ekki síst mömmu sinni, sem hefur verið vakin og sofin undanfarin ár að fylgjast með honum í veikindum hans. Það sama á við um pabba hans, systur og fjöl- skyldur þeirra, öll hafa þau staðið saman við að gera fyrir hann allt hið besta. Af hverju sit ég hér með tárin í aug- unum, horfi á myndina af okkur sem tekin var í ferðinni góðu í vor og skrifa þetta? Það er af því að við áttum svo margar skemmtilegar stundir saman og ég nú sit ég hér og minnist þeirra stunda bæði hrygg og glöð. Sorgin er andstæða gleðinnar sem ég hef svo oft notið í nálægð Arnar. Nú tek ég ekki oftar utan um þig og knúsa en ég hugsa til þín um alla framtíð og það mun veita mér gleði. Minningin um Örn Steinar er mér dýrmæt. Ég vildi að ég gæti létt ein- hverju af allri þeirri sorg og söknuði sem þjakar nú foreldra hans Stínu og Adda, systur, mága og systrabörn sem sjá nú á eftir góðum dreng. En meðan við munum eftir Erni og hugs- um um hann er hann með okkur. Gyða Sigríður Tryggvadóttir. Örn Steinar er fallinn frá, langt um aldur fram. Ég hafði fylgst með þessum hóg- væra en einarða pilti um árabil, þar sem hann ólst upp í foreldrahúsum á Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi. Svo hagaði til að ég ásamt félaga mínum var um langt árabil með veiðidag í Tjarnará, sem m.a. rennur fyrir landi Þorgrímsstaða. Það varð að föstum sið að fá kaffi hjá fjölskyldunni, ræða heimspekilega við húsbændur og dreypa á viskí, enda fengum við víst nafnbótina „viskíkarlarnir“. Örn kom að þessum ferli okkar á seinni árum, hafði mikinn áhuga á veiðunum og þekkti ána og veiðistaðina. Á þessum árum kynntist ég Erni nokkuð, en kynnin áttu eftir að aukast. Hann hafði sem unglingur tekist á við alvarleg veikindi og fór í erfiða aðgerð sem virtist veita varan- legan bata. Hann lauk grunnskóla- prófi og framhaldsnámi, sem lauk með útskrift út tölvunardeild í Háskóla Ís- lands. Hann réðst árið 2002 til For- svars á Hvammstanga, sem þá var ný- stofnað. Vann hann þar í hugbúnaðardeild, þar sem tekist var á við metnaðarfull verkefni og þau leidd til lausna. Í hönd fór afar skemmti- legur tími í ungu en framsæknu fyr- irtæki, starfsandi einstakur og fram- tíðin björt. Það kom því okkur öllum í opna skjöldu síðla árs 2004 að hið gamla mein var aftur farið að hrjá Örn og tók þá við langur tími, vona og von- brigða. Örn gekkst undir margar að- gerðir og kom ávallt til starfa þegar hann hafði þrótt til. Þessum langa ferli lauk svo við andlát hans nú í nóvem- ber. Í huga mínum stendur einlægt þakklæti fyrir að hafa fengið að kynn- ast Erni Steinari, að starfa með hon- um, gleðjast með honum, bæði einum og í samheldnum samstarfshópi. Hann var ávallt hlédrægur, en stutt í kímni og keppnisskap. Hann bauð mér í tvígang að koma og tefla við sig, sem ég því miður sá mér ekki færi á að gera þá. Eins fór með heiðarferðina að Arnarvatni, sem aldrei var farin. Það er sorg í huga okkar, vinnu- félaganna á Höfðabrautinni, yfir því hafa ekki fengið að njóta lengri sam- vista við þennan góða félaga og að lífs- hlaupi hans skuli vera lokið. Hann verður lagður til hinstu hvílu í Tjarn- arkirkjugarði, við mynni dalsins síns, sem hann bast svo órjúfanlegum böndum. Þegar sorgin rénar munu standa eftir góðar minningar. Ég bið góðan Guð að styrkja foreldra og fjölskyldu Arnars Steinars og að blessa minn- ingu hans. Karl Sigurgeirsson. Horfinn úr heimi héðan ungur einstakur efnismaður. Hefur hug allra hjartnæmt vakið saknað nú sárlega. Víst ei vitað vel hvað ævi endist ýta kyni.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.