Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2007, Page 5

Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2007, Page 5
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. JANÚAR 2007 5 hafa séð Wall Street vita að það var Gordon Gekko sem sagði: „Græðgin er góð“. Frægð sína á Gekko því að þakka að hann hefur orðið tákngervingur þeirrar hugarfars- breytingar sem átt hefur sér stað í BNA varðandi auð og hlutverk hans í samfélaginu. Frá byrjun var því almennt trúað að verkefni auðmanna væri ekki það eitt að auðgast held- ur líka að láta gott af sér leiða. Hið gyð- inglega/kristna siðaboð „Þú skalt gæta bróð- ur þíns“ var í heiðri haft þrátt fyrir þrælahald og fjöldamorð á frumbyggjum og þeir ekki vel séðir sem reyndu að hliðra sér hjá því. Fjármagn var ekki gott í sjálfu sér. En um og upp úr 1970 varð breyting á og sér ekki fyrir endann á henni enn. Réttlætingu hennar er að finna í nýfrjálshyggjunni sem tekur eindregna afstöðu gegn klassískri frjálshyggju (líberalisma) og íhaldssemi af siðferðilegum toga, leggur ofuráherslu á mik- ilvægi einkaeignaréttar og hatast við hvers- kyns ríkisvald. Fjármagn er gott í sjálfu sér því það er eðli þess á alfrjálsum markaði (sem er hvergi til nema í huga þeirra sem trúa kenningunni) að dreifa sér. Allir munu því njóta góðs af og almenn velsæld og ham- ingja undir því komin að auðmenn hagnist sem mest. Og það gera þeir ekki með gömul siðaboð á bakinu og beittir „ofbeldi“ af rík- isvaldi sem leggur á þá skatta og skyldur. Þeir bera enga samfélagslega ábyrgð aðra en að auðgast. Og komi upp einhver vandkvæði býr markaðurinn yfir því innra sigurverki sem gerir honum kleift að leysa úr þeim sjálf- ur. Græðgi er því enginn löstur. Hún getur þvert á móti verið „heilbrigð“ og „góð“, nauð- synlegur drifkraftur öllum til heilla. Sem útópísk nauðhyggja gefur þessi róm- antík kommúnismanum ekkert eftir. Og þótt margir hafi gengið af trúnni (enda löngu ljóst að postularnir meina ekki alltaf það sem þeir segja, ekki frekar en kommarnir sem tönn- luðust á alþjóðahyggju en reyndust svo þjóð- ernissinnar þegar á reyndi), þá hefur ný- frjálshyggjan samt haft töluverð áhrif í BNA þar sem nýkommarnir svokölluðu aðhyllast hana í einhverri mynd þegar þeim svo hentar. En er græðgi slæm? Aristótelesi fannst fráleitt að telja hana til dyggða; hún væri ávallt á skjön við meðalhófið. Lúkas hefur eftir Jesú: ,,Gætið yðar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auð- ugur sé.“ Og Gregoríus mikli sagði að hún væri ekki til hreinræktuð heldur fylgdu henni m.a. sviksemi, blekkingar, yfirgangur, mis- kunnarleysi og forherðing hjartans. Allt þetta mætti heimfæra upp á tóbaksfyr- irtækin. En er það réttlætanlegt? Eru tím- arnir ekki breyttir og Aristóteles og Jesús úr takti við tíðarandann? Er ekki nýfrjáls- hyggjan nær því að vera „up to date“? Ég eftirlæt lesandanum að svara þessu og einni spurningu enn: Getur verið að græðgi og miskunnarleysi þurfi til að koma svo hægt sé að sækja sér hagnað í heilsubrest og dauða hundraða milljóna? Úr einu tóbakinu í annað Það er ástæðulaust að hrökkva í kuðung þótt einn eða tveir vísindamenn birti óvæntar nið- urstöður. En þegar yfirgnæfandi meirihluti þeirra á einhverju sviði er í aðalatriðum sam- mála þarf annaðhvort áhugaleysi eða kreddu til að skella skollaeyrum við. Eða forherðingu sé um að ræða eitthvað sem snertir líf og heilsu fólks. Þótt reykingar séu alvarlegur heilsufars- vandi ógna þær hvorki samfélögum né lífríki. Og þótt tóbaksiðnaðurinn sé fjárhagslega öfl- ugur er hann mjög lítil stærð í viðskiptalífi heimsins. Miklu meiri hagsmunir eru í húfi þegar kemur að hnattrænni hlýnun og lofts- lagsbreytingunum sem fylgja henni. Ef stemma á stigu við þeim verður á brattann að sækja, ekki síst ef dregst að taka þær ákvarðanir sem við blasa. Hagsmunaaðilar eru margir og voldugir, bæði stórfyrirtæki og þjóðríki. Það má því geta nærri að miklu hef- ur verið og er kostað til svo kasta megi rýrð á þessi „óþægilegu sannindi“. Og einsog fyrri daginn vantar ekki vísindamenn, tilbúna að selja starfsheiður sinn og þekkingu. Við samanburð kemur í ljós að við höfum ratað úr einu tóbakinu í annað. Fyrstu viðbrögð tóbaksfyrirtækjanna voru að afgreiða tengslin milli reykinga og heilsu- fars sem bull; það væru engar sannanir fyrir þessu. Þegar þetta gekk ekki lengur var grip- ið til þess að drepa málinu á dreif með til- gátum um ýmislegt sem gæti haft áhrif á téð tengsl; breytta lífshætti, mengun í borgum, mengandi byggingarefni o.fl. Þegar allt um þraut voru læknavísindin gerð tortryggileg; þeim hefði oft skjátlast og ekkert sem segði að sú væri ekki raunin í þetta sinn; einstakir læknar hefðu ekki hreinan skjöld og almennt væri stéttin hagsmunaaðili því hún græddi á hræðslu fólks við meintar afleiðingar reyk- inga. Mengunarfyrirtækin hafa lengstum af- greitt tengslin milli loftslagsbreytinga og los- unar gróðurhúsalofts sem uppspuna og sefa- sýki. Þetta er enn gert en ekki í sama mæli og áður. Jafnvel núverandi Bandaríkjaforseti, sem segja má að sé líka í forsvari fyrir þá sem vilja fá að menga í friði, náði því í júlí 2005 að viðurkenna að einhver tengsl væru á milli mengunar og hlýnunar (sér þó ekki ástæðu til að aðhafast neitt í málinu og finnst sjálfsagt að alríkisstofnanir ritskoði vís- indamenn sem komast að „röngum“ nið- urstöðum). Undanfarið hefur mest borið á til- gátum um ýmislegt annað sem geti skýrt hlýnunina, einsog eldvirkni á sólinni og þá staðreynd að hitastig hefur áður sveiflast í jarðsögunni; hlýnunin nú sé því bara eðlileg. En þegar fáir láta sannfærast er gripið til þess að tortryggja raunvísindamenn almennt; þeir séu hégómlegir og sæki sér athygli fjöl- miðla með hrakspám, einnig gírungir í frama sem þeir hafi von um makki þeir rétt innan vísindasamfélagsins þar sem loftslagbreyt- ingar af mannavöldum séu í tísku. En einsog í tóbakinu stoða ekki svona heimskulegar dylgjur. Uppgjöfin er hafin. John Hofmeister, stjórnarformaður í Shell, sagði nýlega: „Þegar 98% vísindamanna eru á einu máli er engin leið fyrir Shell að efna til umræðu um vísindin.“ Duke Energy, General Electric, BP o.fl. taka í svipaða strengi. Kaliforníuríki hefur þegar sett sér meng- unarlöggjöf og fleiri munu fara að dæmi þess. Því eru framsýn orkufyrirtæki tekin að kalla á alríkislöggjöf sem þau vilja heldur en 50 mismunandi regluverk. En þótt slík löggjöf yrði samþykkt er allt sem bendir til að hún yrði veik málamiðlun (og þar að auki ólíklegt að núverandi forseti samþykkti hana). Það gildir jafnt um BNA og Ísland: þótt þing- mönnum sé ekkert keppikefli að mengað sé sem mest, skortir flesta þeirra þor til að ganga gegn vilja umbjóðenda sinna sem vilja ódýrt bensín eða álver í kjördæmið hvað sem það kostar. En þó að þetta gerðist skipti það samt ekki sköpum þegar á heildina er litið. Til þurfa að koma alþjóðlegar samþykktir og skuldbind- ingar á heimsvísu. Og meðan Hvíta húsið blæs á allt slíkt er ekkert af því taginu í aug- sýn. Kína, Indland og þróunarlöndin almennt verða ekki til viðræðu um skerðingu á losun gróðurhúsalofts svo lengi sem meng- unarstórveldin BNA og Ástralía eru hvorki tilbúin að kosta neinu til né hafa forystu í málinu. Á hvert mannsbarn menga BNA tíu sinnum meira en Kína og 27 sinnum meira en Indland. Hver ætlar nú að segja þessum ríkj- um að fara sér hægt og menga minna? Virkar græðgin? Með hliðsjón af sögu 20stu aldar þegar BNA töldu ekki eftir sér að færa talsverðar fórnir fyrir stríðshrjáða Evrópu, þá er vert að spyrja hvað hafi gerst. Því stendur eina heimsveldið, sem telur sig hafa efni á að eyða meira til hermála en restin af heiminum til samans, einsog nirfill frammi fyrir mestu hættu sem nokkurn tíma hefur steðjað að mannkyninu? Núverandi forseti sagði 2001 að ekki kæmi til greina að undirrita Kyoto- bókunina eða neitt í þá áttina því bandarískt efnahagslíf þyldi það ekki. Og hann hefur ekki skipt um skoðun síðan. Skammsýni, kann einhver að segja, áhuga- leysi og fáfræði stjórnvalda jafnt sem al- mennings, blind trú á nýja tækni sem leysi málið, mótstaða gegn því að viðurkenna að markaðurinn sé ráðalaus og ríkið verði að hafa vit fyrir honum. Það er trúlega eitthvað til í þessu öllu. En hvað um Gordon Gekko? Getur verið að þessi gamli tákngervingur sé nú hættur að vera tákn um breytt hugarfar og orðinn að tákni um AFLEIÐINGAR þessa sama hugarfars? „Græðgin er góð“ er úr langri ræðu þar sem segir: „Málið er, herrar mínir og frúr, að Græðgin – í skorti á betra orði – er GÓÐ. Græðgin er réttmæt. Græðgin virkar. Græðgin skýrir, gegnumlýsir og fangar kjarnann í anda þróunarinnar. Græðgi í öllum sínum myndum – lífsgræðgi, græðgi í peninga, ást, þekkingu – hefur sett svip sinn á allar framfarir mannkynsins. Og græðgin – gefið þessu gaum – mun ekki að- eins bjarga fyrirtæki okkar heldur líka því illa rekna hlutafélagi sem við köllum BNA.“ Hefur græðgin þá bjargað „hlutafélaginu“ BNA? Hér andvarpa ég með vinsælasta bloggara Íslands: Þegar stórt er spurt … ! En í loftslagsmálum eru skilaboð BNA til umheimsins skýr: Við erum ekki tilbúin að axla ábyrgð á lofthjúpnum þar sem það yrði okkur of dýrt. Eru þetta sömu Bandaríkin og í seinni heimsstyrjöldinni? Aftur: Þegar stórt er spurt … Franklin Roosevelt sagði: „Prófsteinn á framfarir er ekki hvort við bætum meira við gnægð þeirra sem mikið eiga heldur hvort við búum nægilega vel í haginn fyrir þá sem eiga of lítið.“ Skyldi núverandi forysta vera sam- mála? Aftur: Þegar stórt er spurt … Aristóteles sagði að græðgi væri að gefa of lítið og taka of mikið. Fylgir því forherðing að gefa of lítið og taka of mikið? Enn einu sinni: Þegar stórt er spurt … Hvað er í húfi? James Lovelock heitir Breti sem m.a. starfaði fyrir NASA og áttaði sig fyrstur manna á ásigkomulagi ósonlagsins. Þá komu flestir af fjöllum. En að lokum var farið að ráðum hans – það kostaði lítið – og þess njótum við nú þótt málinu sé alls ekki lokið. Margir grænir eiga í vandræðum með þennan karl í dag því hann segir ábyrgð- arleysi að fallast ekki bæði á kjarnorkuver og erfðabreytt matvæli í stórum stíl. Þetta bygg- ir hann á eigin rökstuddu sýn á framhaldið. Verði ekki allt gert til að draga úr gróður- húsaáhrifum telur hann gott að mannkynið nái 500 milljónum um næstu aldamót. Það er nú um 6,5 milljarðar. Semsé afföll upp á 6.000 milljónir (og miklu meira sé fyrirsjáanleg fjölgun meðtalin). Allar náttúruhamfarir síð- ustu 55 milljónir ára, að viðbættum styrj- öldum, hungursneyðum, farsóttum og fjölda- morðum, blikna í samanburði. Lífríkið allt yrði ekki svipur hjá sjón. „En ég sé ekki fyrir mér að allar lífverur deyi út.“ Ef við nú segjum að Lovelock sé ekki ann- að en svartsýnn ruglukollur getum við tekið mið af Stern-skýrslunni sem breska stjórnin kynnti á dögunum. Þar ríkir bjartsýni, m.a.s. er gert ráð fyrir óskertum hagvexti og spenn- andi viðskiptatækifærum; kostnaðurinn þyrfti ekki að vera nema eitt prósent af heimsfram- leiðslu. En jafnvel þessi skýrsla gerir ráð fyr- ir að illa fari verði ekkert að gert. Hversu illa? var einn höfundanna spurður á BBC. Hann svaraði: „Enginn getur spáð fyrir um það af neinni nákvæmni. En segjum að lík- urnar séu mjög litlar. Hver tæki sér far með flugvél þó að ekki væru nema eins prósents líkur á að vængirnir dyttu af henni í 35.000 feta hæð?“ Þau 98% vísindasamfélagsins sem J. Hof- meister talaði um eru sammála: Þetta þolir ekki bið; það kynni að vera stutt í keðjuverk- un sem þýddi að ekki yrði við neitt ráðið. Hvernig hugsar þá fólk sem er tilbúið að taka þessa áhættu? Er því, einsog eigendum tóbaksfyrirtækjanna, sama um allt nema eig- in stundarhag? Er því sama þótt stór hluti jarðarinnar verði óbyggilegur? Hér endar samlíkingin við tóbakið. Eig- endur tóbaksfyrirtækjanna eru áreiðanlega framsýnni en Hvíta húsið enda ekki vitað til að gerðir þeirra stjórnist af pólitískum hug- myndum sérstaklega. Bush og félagar hafa hinsvegar hugmyndafræðilegar og pólitískar ástæður fyrir afstöðu sinni. Þeir vilja þjóna fyrirtækjum sem styrkja flokkinn þeirra og kjósa óbreytt ástand. Þeir vilja hvorki kyngja því að markaðurinn sé vanmáttugur né heyra minnst á mengunarskatta sem fælu í sér að þeir greiddu mest sem menguðu mest. Og þeir vilja engar alþjóðlegar skuldbindingar sem kæmu þeim illa (einsog Genfar- sáttmálinn undanfarin misseri). Ekki heldur láta þeir af þeirri einstefnu í alþjóðamálum sem fylgt hefur verið. Sagan greinir ekki frá neinu heimsveldi lausu við hroka, ekki heldur þjóðríki sem lagt hefur hagsmuni allra hinna að jöfnu við sína eigin. Þjóðernishyggja og heimsremba eru því í för með nýfrjálshyggjunni hjá þeim sem í dag stjórna „hlutafélaginu“ BNA. En það er sú síðastnefnda sem gerir menn blinda. Það sést best á samanburði við þá ógn sem BNA stóð af Sovétríkjunum. Voru líkur á kjarn- orkuárás hálft prósent eða hundrað? Hvernig sem þetta var metið var engin áhætta tekin heldur bjuggu BNA sig undir hið versta með ærnum tilkostnaði. Nú er hinsvegar óhætt að tefla djarft. Það er mikill misskilningur að nýfrjáls- hyggjan hafi rænt okkur frelsinu. Það er að- eins frelsishugtak hennar sem er í frumstæð- ari kantinum: Á grundvelli einkaeignaréttar höfum við frelsi til að ráðstafa því sem við eigum einsog okkur sýnist, svo framarlega sem við níðumst ekki á einkaeignarétti ann- arra; og á grundvelli sama réttar og lögmála markaðarins höfum við frelsi til að elska náungann en líka að gefa skít í hann ef okkur sýnist svo. Milton heitinn Friedman sagði að hádeg- isverður væri aldrei ókeypis; að lokum borg- aði einhver reikninginn. Laukrétt. En hann hliðraði sér hjá siðferðilegum álitamálum sem brotið gátu í bága við átrúnaðinn, þ.ám. spurningunni: Hver ber kostnaðinn af spell- virkjum manna á því sem enginn er skrifaður fyrir? Eða hver á lofthjúpinn? Vonandi ekki Gordon Gekko. Hann myndi væntanlega hvorki eiga fyrir svo dýrum há- degisverði né kannast við að hafa boðið vinum sínum til hans. Gordon Gekko Höfundur er rithöfundur. » Á grundvelli einkaeigna- réttar höfum við frelsi til að ráðstafa því sem við eigum einsog okkur sýnist, svo framarlega sem við níðumst ekki á einkaeignarétti ann- arra; og á grundvelli sama réttar og lögmála markaðar- ins höfum við frelsi til að elska náungann en líka að gefa skít í hann ef okkur sýn- ist svo. Franklin Roosevelt „Prófsteinn á framfarir er ekki hvort við bætum meira við gnægð þeirra sem mikið eiga heldur hvort við búum nægilega vel í haginn fyrir þá sem eiga of lítið.“ Skyldi núverandi forysta vera sammála?

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.