Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2007, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 06.01.2007, Blaðsíða 7
hugmyndin sem liggur til grundvallar. En þannig er það auðvitað ekki í raunveruleik- anum og hér er líka tekið á erfiðum hlutum sem tengjast viðhorfum okkar ófatlaðra til hinna fötluðu. Nú eru líklegast flestir sam- mála um það að fatlaðir eigi að standa jafn- fætis ófötluðum í samfélaginu en hins vegar getum við nú með hjálp tækninnar greint ýmsa þætti fötlunar þegar barn er ennþá í móðurkviði og þannig má eyða fóstrinu vegna fötlunarinnar ef svo ber undir. Þannig gefur tæknin möguleika sem tengja má hug- myndum um mannakynbætur. Hér er því farið inn á afar viðkvæmt svið sem er þó mik- il þörf á að ræða, því hér er verið að tala um það hvernig við metum fólk og hvað gerir einstakling fullgildan í samfélaginu. Hér horfast hinir fötluðu bókstaflega í augu við áhorfendur og spyrja þessara spurninga en það verður býsna áhrifamikið og kallar óneit- anlega á mikla sjálfskoðun hjá áhorfendum.“ Þátttakandi í sýningunni, Berglind Nanna Ólínudóttir, birti grein í Morgunblaðinu 15. október 2006 með athugasemdum við dóm Maríu Kristjánsdóttur: „Hitt þykir mér verra að María skuli falla í þá gryfju, eins og allt of margir í íslensku þjóðfélagi, að telja fatlaða vera vanvita, viljalaus verkfæri og jafnvel ekki þola nokkra vatnsdropa.“ Berg- lind sagði í greininni að sér misbyði stórlega að vera kölluð sýningargripur, og kemur inn á punkt sem var hafður að leiðarljósi í sýn- ingunni: „… það er kominn tími til að taka okkur alvarlega sem þjóðfélagsþegna í stað þess að líta á okkur sem aumingja og vanvita, vegna þess að við sitjum í hjólastól eða erum spastísk eða eitthvað annað.“ María svaraði með grein sem hún nefndi „Sannleikurinn er sagna bestur“ og birtist í Morgunblaðinu 18. október 2006. Það er með ólíkindum að María skuli beita þessum titli fyrir sig því hún endurtekur uppskáldun sína úr fyrri grein þar sem hún lýsir áhættuatriði með fötluðum. „Sannleikur“ Maríu felst í því að leiðrétta þá rangfærslu Berglindar að hún hafi kallað fatlaða „sýningargripi“. Henni er mjög í mun að „sannleikurinn“ komi fram. Hún kallaði fatlaða „sýningaratriði“, ekki „sýningargripi“. Í sinni stuttu grein tókst Maríu einnig að koma að fjórum stað- reyndavillum. Í fyrsta og öðru lagi kallar hún Berglindi tvívegis röngu nafni, fyrst Berg- lindi Nönnu Guðmundsdóttur, svo Berglindi Önnu, í þriðja lagi kallar hún Einleikhúsið „Einleikshúsið“ og í fjórða lagi segir hún: „Umfjöllun mín um sýninguna var í formi sex spurninga um leikhús og beindist til ábyrgð- armanna sýningarinnar …“ Eins og sjá má í fyrri grein Maríu voru spurningarnar sjö en ekki sex. Eru þetta vönduð vinnubrögð og fagleg? Síðan „upplýsir“ María lesendur: „… rétt að upplýsa að Þjóðarsálin er byggð upp af fjölda laustengdra og sjálf- stæðra sýningaratriða líkt og sirkus. Spurn- ing mín snýst um þær aðferðir sem notaðar eru í sýningunni. En tilfinningin að baki var vissulega að mér féll ekki að sitja í leikhúsi, þessum griðastað ímyndunaraflsins, og þurfa að óttast raunverulega um varnarlausar manneskjur í hjólastólum og á hjólaborðum á sviðinu. Orðin „aumingi“ og „vanviti“ er ekki fremur en „fatlaðir sýningargripir“ að finna í umsögn minni, né annað það sem Berglind Anna fullyrðir að ég hafi sagt og hugsað.“ Svo klykkir María út með: „Ég tel að affara- sælast sé í baráttunni gegn fordómum líkt og í umræðu um íslenskt leikhús að reyna að halda sig við sannleikann.“ Já! Takk! Þar er ég svo hjartanlega sam- mála. En það þýðir líka að María Kristjáns- dóttir á að taka pokann sinn! Freyja Haraldsdóttir skrifaði athuga- semdagrein við þessi skrif Maríu í Morg- unblaðið 24. október 2006. Þar sýnir hún fram á rangfærslur og fordóma Maríu og skrifar svo: „Ætli hún (María) telji að við séum fólk án skoðana og vilja? Ætli hún haldi að við séum fólk sem kann ekki að segja nei eða já? Eða er þetta einungis felustaður eigin fordóma? Er þetta varnarbragð til þess að koma í veg fyrir að segja að henni hafi fund- ist við óþægileg? Átti hún erfitt með að horf- ast í augu við þjóðarsálina? Telur hún fólk með fötlun kannski ekki falla inn í hana? Mér er spurn!“ Svo heldur hún áfram: „Mér finnst þessi gagnrýni endurspegla það að við viljum loka augum okkar fyrir því óþægilega. Við viljum staðsetja það einhvers staðar þar sem það sést ekki, svo við getum haft það huggu- legt á meðan.“ Þess má geta að María Krist- jánsdóttir sá ekki ástæðu til að svara grein Freyju, eða koma með afsökunarbeiðni, þótt þarna í annað skipti væri sýnt fram á að hún hefði uppskáldað atriði sem var ekki í sýn- ingunni okkar. María fjallaði ekkert um sýninguna okkar í umfjöllun sinni. Því síður að hún hafi eitt- hvað talað um aðferðirnar. Hún setti sig ekk- ert inn í hvað liggur að baki vinnu leikaranna eða leikstjórans. Hún virðist ekki hafa unnið neina heimavinnu eða aflað sér upplýsinga um þær leikhúsaðferðir sem lágu til grund- vallar hugmyndavinnu og persónusköpun. Hún minntist ekkert á leikmynd, lýsingu, búninga eða tónlist, sem öll var frumsamin. Það situr óneitanlega eftir að eitthvað hafi gengið úr lagi í sálarlífi Maríu Kristjáns- dóttur við að koma inn í leikhúsið okkar. Varð hún fyrir svo sterkri upplifun að hún gat ekki höndlað hana? Leikhúsið brást henni. Það var ekki griðastaður. Henni var dembt inn í að horfast í augu við raunveru- lega erfiðar lífsspurningar. Horfast í augu við fötlun. Horfast í augu við að fatlaðir eru fullgildir sterkir einstaklingar sem eiga fullt erindi inn í þjóðfélagið okkar, hvar sem er. Fordómarnir leynast víða. Vinkona Maríu, Elísabet Brekkan, sem kom samferða henni í leikhúsið, skrifaði örstutta gagnrýni í DV sem birtist helgina eftir frumsýningu. Yf- irskriftin var: „Elísabet Brekkan sá verkið á heldur undarlegum stað, Reiðhöll Gusts í Kópavogi.“ Hennar niðurlag var: „Fulltrúum allra tegunda fötlunar var stillt upp í fremstu víglínu þannig að áhorfendur hálftitruðu af hræðslu við að eitthvað kæmi fyrir þetta elskulega fólk. Í leikskrá segir meðal annars: Markmið sýningarinnar er að fletta ofan af þeirri mynd sem persónurnar vilja sýna af sér. Er þá kannski svarið að í línudansflokki vilja íslenskar kerlingar helst af öllu endilega glenna sig?“ Elísabet virðist þarna í liði með Maríu Kristjánsdóttur að bera „umhyggju“ fyrir fötluðu fólki sem kunni ekki fótum sínum for- ráð og síðan kýs hún að ráðast á kvennakór- inn sem kemur fram í sýningunni í nokkrum atriðum og tala niður til þessa hóps á mjög grófan máta. Hvað hefur þessi athugasemd með leikhúsgagnrýni að gera? Elísabet minnist ekki frekar en María á nokkuð í um- gerð sýningarinnar, nema „sýningin er furðuverk“. Fimmtudaginn 12. október 2006 birtist dómur eftir Súsönnu Svavarsdóttur í Frétta- blaðinu. Þar rekur hún söguna í verkinu út frá mjög yfirborðskenndri mynd og finnst sýningin einkennileg. Lítið um það að segja, álit Súsönnu lýsir einna helst því að hún set- ur sig ekkert inn í hugarheim sýningarinnar heldur er föst í því að reyna að sjá hefð- bundna uppbyggingu skáldverks. Súsanna heldur sig innan kurteisismarka en athygl- isvert er hvernig hún kemst að orði þegar hún lýsir hinu umtalaða atriði þar sem fatl- aðir listamenn koma fram: „Seinni hluti sýn- ingarinnar hefst á gríðarmikilli ádeilu á eyð- ingu gallaðra fóstra og í kjölfarið mætir flokkur af fötluðu liði á sviðið – svo heldur karnivalið áfram. Þetta atriði var, vægast sagt, tilfinningasamt, eiginlega væmið.“ Þessi athugasemd fór fyrir brjóstið á mörg- um sem komu fram í viðkomandi atriði. Því Súsanna opinberar fordóma sína með því að nota orðið „gölluð“ um spurningar þær sem varpað er fram um eyðingu á fóstrum með fötlun. Eru fatlaðir einstaklingar „gallaðir“ einstaklingar? Fyrir hverja er leikhúsið? Leikhúsið er í stöðugri framþróun, en hér á landi stundum fast í því að allt eigi að vinnast innan ákveðins ramma, sem þó er ekki skil- greindur. Örlar jafnvel á pirringi innan leik- húsheimsins og stutt í vandlætingu ef leik- húslistamenn leyfa sér að fara í ferðalög út fyrir þennan óskilgreinda ramma: „Þetta er ekki leikhús.“ „Þetta er enginn Shake- speare.“ Það væri áhugavert að fá fram ná- kvæmar skilgreiningar hjá leikhúsgagnrýn- endum um hver ramminn er að þeirra mati. Rúmast ólíkar stefnur og straumar í leikhús- inu líkt og í tónlistinni eða myndlistinni? Á leikhús að fylgja eftir bókmenntalegum reglum við uppbyggingu leiksýningar, á að fjalla um það út frá bókmenntum og hversu lélegt eða gott „verkið“ sé? Eða eigum við að reyna að slíta okkur frá mýtunni um bók- menntaþjóðina og meta leikhúsið út frá því sem lagt er upp með í hverri sýningu? Ég tel að innan leikhúsformsins rúmist margar stefnur og ég gleðst yfir því þegar fólk tekur áhættu, gerir tilraunir hvort sem þær heppn- ast að mínu mati eða ekki. Þannig dafnar list- in. Þannig þjónum við áhorfendum. Leikhús er ekki texti heldur listform sem byggist stundum á texta, sem kveikju eða viðfangsefni, en stundum út frá allt öðru. Hvort sem textinn er í forgrunni eða ekki þá er leikhúsið alltaf lifandi list, þar sem túlkun listamannanna sem skapa sýninguna gerir hana að þessu lifandi afli. Í okkar tilfelli var byggt á hugmynd, unnið með andstæður í fantasíuheimi leikhússins á móti veru- leikanum, sem var kippt inn á svið, en fólkið sem stóð fyrir það element var á sviðinu á sínum eigin forsendum. Þetta var tilraun sem gaf fjölda áhorfenda sterka upplifun, öðrum ekki, kom mörgum á óvart, sumum ekki, þetta var tilraun með leikhúsið sem miðil. Við fengum fjölda tölvubréfa frá áhorf- endum sem vildu deila upplifun sinni með okkur. Margir töluðu um hvað sýningin hefði verið mikið sjónarspil. Fleiri töluðu um fal- legan og áhrifaríkan boðskap og hina miklu þjóðfélagsádeilu. Dæmi um ummæli: „Há- pólitískt verk sem er mannbætandi hverjum sem sér það. Komið er inn á margbreytileika samfélagsins sem er okkur mörgum hulinn. Af hverju margbreytileikinn er okkur hulinn er vert að skoða eftir að hafa horft á leiksýn- inguna Þjóðarsálina. Truflar margbreytileik- inn normin hjá okkur, erum við sjálflægari en við þorum að viðurkenna, vantar víðsýni eða er það einfaldlega svo að þekking okkar er takmörkuð? Sýningin hafði þau áhrif á mig að hún rótaði í sálarfylgsnum mínum og vonandi gerir mig að betri einstaklingi í sam- félaginu. Húrra fyrir þátttakendum leiksýn- ingarinnar og til hamingju, sýningin veitti mér bæði orku og bjartsýni til framtíð- arinnar og enginn ætti að láta hana fram hjá sér fara.“ (Birna Bergsdóttir, varaformaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.) „Sýningin er galdur, maður brosir og tár- ast. Það er köld sál sem ekki hrífst af þessu verki.“ (Magnús Einarsson útvarps- og tón- listarmaður.) „Mér fannst sýningin frábær, vekur fólk til umhugsunar um að ekki eru allir eins, sem er mjög þörf ábending í okkar hraða þjóð- félagi.“ (Helga Kristjánsdóttir, fram- kvæmdastjóri Einstakra barna.) „Þar sem þessi sýning býður upp á mjög persónulega upplifun er það án efa misjafnt hvað situr eftir í huga áhorfenda og þessi sýning situr ennþá töluvert fast í mér, þetta er ein af þessum sýningum sem vinna ein- hvern veginn á í huganum.“ (Þorgerður E. Sigurðardóttir, Víðsjá.) Ekkert er nýtt undir sólinni og margt af því sem við gerðum hefur verið gert innan ramma leikhússins eða myndlistarinnar víðs vegar um heiminn. Það þekkist víða að leik- stjórar kjósi að fá fólk úr samfélaginu en ekki leikara til að vinna með ákveðin element í bland við atvinnuleikara. Við fengum til dæmis hestakonur, sem njóta þess að koma saman og syngja, til liðs við okkur. Að mínu mati stóðu þær fyrir sterkt element í þjóð- arsálinni. Ég vildi ekki atvinnusöngvara eða leikara í þennan flokk. Hann var sannari eins og hann kom fyrir. Við fengum hóp af fötl- uðum einstaklingum til liðs við okkur. Ég vildi ekki fá leikara til að leika fatlaða af því þessi hópur var sterkari og sannari eins og hann kom fyrir í því samhengi sem þessi sýn- ing var gerð. Ég fékk kraftajötna og fim- leikafólk af því þau eru góð í því sem þau kunna. Ég fékk hesta í sýninguna því þeir eru sterkir í þjóðarvitundinni. Ég fékk fimm leikara til að leika. Af því þau eru góð í því sem þau kunna. Ég fékk fagfólk sem ég treysti til að vinna í útliti og tónlist sýning- arinnar af því þau eru góð í því. Orðspor sýningarinnar var mjög gott. En sumir komu til mín, sérstaklega leikhúsfólk með vorkunnarsvip sem spurði: „Hvernig gengur – skemmdi gagnrýnin mikið?“ „Þraukið þið …?“ Og fleira í þessum dúr. Leikhúsfólk er sjálft mjög upptekið af því að gagnrýni skemmi fyrir aðsókn. Það veit það af reynslu. Í okkar tilfelli fengum við margar afpantanir hjá stórum hópum eftir að gagn- rýnin kom. Það kom erfitt tímabil þar sem við héldum að við værum með seldar sýn- ingar en þurftum að sýna fyrir hálftómum sal, þannig að tap varð á rekstrinum. Þegar grennslast var fyrir um ástæður afpantana voru skýringar allar á þá leið að fólk hefði nú lesið svo neikvæðan dóm um sýninguna. Þetta hafði beinlínis stóralvarleg áhrif. Svo fór að seytlast inn meira og meira því orð- sporið var gott. Hópapantanir jukust og í lokin gekk mjög vel. En við leigðum húsið einungis í sex vikur til sýningarhalds, þannig að við gátum ekki verið með aukasýningar. Orðsporið getur haft góð áhrif. Með tím- anum. En það er við ramman reip að draga. Ekki getum við leigt reiðhöll, rafstöð, ljósa- og hljóðkerfi í marga mánuði meðan við bíð- um eftir að orðsporið breiðist út. Þroska- þjálfi sem sá sýninguna hafði samband og sagði að hann hefði orðið var við neikvæða umræðu um sýninguna á sínum vinnustað, þar sem fólk velti fyrir sér gagnrýninni og leiddi líkum að því að við stæðum fyrir ein- hvers konar „fríksjóvi“. Ekkert þeirra hafði séð sýninguna og ætlaði ekki á hana. Hann var miður sín yfir valdi gagnrýnenda sem hefðu skoðanamyndandi áhrif á lesendur. Önnur fagmanneskja í fötlunarfræðum sagði að því miður endurspeglaði þessi gagnrýni fordóma samfélagsins. Hún vill nota umfjöll- un um sýninguna sem kennsluefni. Leiða þá þessir fordómar sem komu þarna upp á yf- irborðið til jákvæðrar úrvinnslu? Þess að geta fest hönd á kraumandi fordómunum sem halda framþróun, þroska og jákvæðri uppbyggingu niðri. Það að greina þá gerir umræðuna lifandi, sýnir okkur hvað þarf að laga og nýtist þá vonandi til einhverrar framþróunar og losunar frá meðvirkni og bældu ástandi. Ég ætlast ekki til að öllum líki sýningin okkar. Enda snýst þetta ekki um vonda eða góða gagnrýni. Eða sýninguna okkar yfirhöf- uð. Þetta snýst um hvort gera eigi kröfu um fagmennsku í umfjöllun. Dæmin sem ég dró upp sýna með óyggjandi hætti mikla ófag- mennsku í gagnrýni. En gerir leikhús- listafólk kröfur um hvernig það vill láta meta verk sín? Að gagnrýni á verk þeirra sé unnin faglega? Eða líður það meðvirkt áfram, fullt ótta og vanlíðunar og heldur sér gangandi með afneitun á ríkjandi ástandi? Ég vona svo sannarlega að breyting verði á. Ég lýsi frati á fordómafulla gagnrýnendur og skammast mín sem leikhúsmanneskja fyrir að þeir skuli starfa og hafa áhrif á lesendur blað- anna sem þeir skrifa fyrir. Þeir standa fyrir forpokuð viðhorf, einsleitni og þröngsýni. Þeir eiga að taka pokann sinn og leyfa ham- ingjublómunum í leikhúsinu að vaxa, svo það fái að þroskast, þróast og opnast enn betur fyrir áhorfendum framtíðarinnar. ndur taki pokann sinn Morgunblaðið/Golli g með beitingu sjónrænna áhrifa, þar sem lagt var segir Sigrún Sól um sýninguna. Höfundur er leikstjóri. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 6. JANÚAR 2007 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.