Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2007, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 13. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Al- íslenskt stríð Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur bab@mbl.is Síðastliðinn mánudag urðu sumir íNew York-borg dálítið áhyggjufullirrétt um níuleytið. Þær áhyggjurvoru ekki bundnar við borgina held- ur dreifðu sér hratt og ósýnilega um heims- byggðina, rétt eins og fyrirbærið sem áhyggjunum olli – talsvert megn gaslykt – dreifði sér um Manhattan. Það kom mér satt að segja ekkert á óvart að fyrstu fréttir af gasinu dularfulla sem læddi sér milli trjáa og háhýsa og þaðan inn um vitin á samborg- urum mínum skyldu berast mér frá annarri heimsálfu. „Hæ elskan, finnurðu gaslykt?“ heyrði ég úr símanum eftir að hafa náð að grafa hann upp úr úttroðinni töskunni á hlaupum niður níðþrönga stigaganginn. „Það sprakk einhver gasleiðsla í midtown, sá ég í fréttunum,“ hélt karl faðir minn áfram, „ekk- ert vera að þvælast þangað ef þú þarft þess ekki …“ Á þessu stigi málsins var ég komin út. Þefaði rækilega og fann bara þessa venjulegu janúarmorgunlykt; smá bleyta, nokkrir bílar, dáldið beikon: „Ég finn enga lykt.“ „Flott. Vertu samt ekkert að kveikja þér í sígarettu.“ „Ég reyki ekki!“ „Samt.“ Þar með lauk samtali okkar feðginanna og ég hélt mína leið, gangandi upp 6. breið- stræti og stefndi á kaffihús til að ná mér í morgunkaffi. Leit í kringum mig á leiðinni, sýndist ekkert panikástand á fólkinu, sprungin gasleiðsla, jú,jú, shit, en jæja, slíkt gerist. Þegar ég kom á kaffihúsið, sem er svo lítið að allir heyra hvað allir eru að tala um, var eitt umræðuefni á vörum fólks: hel- vítis gasið. Hafði einhver fundið þetta? Þokkalega! Tvær konur, pæjulegar frama- konur um fertugt, með Blackberry í annarri og Burberry-tösku í hinni (önnur með lítinn hund í sinni), voru miðpunktur athyglinnar. „Ógeð!“ sagði sú með hundinn, „ég vaknaði við þennan viðbjóð, hringdi strax niður í dyravörðinn og spurði hvað í andskotanum væri í gangi. En hann vissi ekkert.“ „Enginn veit neitt,“ greip hin fram í, „upplýsingar eru mjög misvísandi“. Eftir dálitlar vanga- veltur fólks um hvað þetta gæti verið, hversu víða lyktin hefði dreift sér, hversu mörg hús hefðu verið rýmd, og frásagnir af því hvað hver hefði heyrt frá hverjum, og hversu mörg símtöl þeim hefðu borist héðan og þaðan (einn sagðist hafa eytt korteri í að róa aldraða ættingja annars staðar í landinu sem voru sannfærðir um að verið væri að hefna fyrir henginguna á Saddam Hussein), barst einhverjum sms með upplýsingum sem hann deildi með viðstöddum. Gas í lofti var ekki yfir hættumörkum, lyktin í rénun, og þó að engin skýring fyndist á henni væru yf- irvöld sannfærð um að ekkert hættulegt væri á ferðinni. Við það yppti fólk öxlum og hélt sína leið, frauðplastmál í hönd. Og um ellefuleytið – þegar borgarstjórinn dáði, Michael Bloomberg, hafði tilkynnt að allt væri ókei – voru áhyggjur þeirra, sem höfðu þá haft þær til að byrja með, gufaðar upp, rétt eins og fyrirbærið sem olli þeim. Þetta atvik hefur orðið til að rifja upp annað sem varð í borginni í fyrra, sambæri- legt en þó með ólíkum keim. Þá fannst dul- arfull lykt víða á Manhattan sem hefur enn ekki fundist skýring á, en sú lykt þótti mun betri enda minnti hún á hlynsýróp en ekki bilaða gaseldavél. Viðmiðunarpunktur og undirtexti allrar umræðu og frétta sem skrifaðar eru um málið er að sjálfsögðu ell- efti september. Og við þetta sem gerðist nú í vikunni mátti sjá að þó að áhrifa atburðanna þann dag gæti vissulega enn – skrýtin lykt á Manhattan kemst í heimsfréttirnar áður en (morgunsvæft) fólk sem býr þar heyrir af henni og samkvæmt rannsóknum sem New York Times greinir frá eru borgarbúar orðn- ir mun varari um sig hvað lykt varðar – þá er almenna uppnámið sem fylgdi í kjölfarið á hryðjuverkunum á bak og burt. Fjölmiðlar reyna ekki einu sinni að magna upp ótta hjá fólki við atvik sem þetta – eins og þeir voru virkilega duglegir við fyrst um sinn – enda vita þeir að grundvöllur fyrir slíkum æfing- um er lítill núorðið ef nokkur. Og bandarísk stjórnvöld – sem hefðu aldeilis gert mat úr uppákomu sem þessari hér áður og reynt að nýta dagana fyrst á eftir til að koma í gegn einhverjum þéttum reglugerðarpakka þar sem skerðing persónufrelsis færi saman við massív aukafjárútlát til hernaðar – reyna ekkert heldur, sem er auðvitað líka vegna þess hversu verulega völd og áhrif þeirra hafa minnkað að undanförnu. Það er kannski heldur mikil bjartsýni að ætla að runninn sé upp nýr og skynsamlegri kafli í stríðinu gegn hryðjuverkum og að bandarísk stjórnvöld séu hætt að nýta sér ótta fólks og óöryggistilfinningu til að fá sínu framgengt. En, þegar Bush og co. eru ann- ars vegar, er samt ágætt, svona rétt einu sinni, að finna aðeins minni skítalykt en áð- ur. Reuters Gas í borginni Slökkviliðsbíll fyrir utan neðanjarðarlestarstöðina á Tímes Square í New York en útkall kom vegna megnrar gaslyktar í borg- inni 8. janúar sl. Hús voru rýmd og lestarferðir féllu niður vegna ástandsins sem varði þó ekki lengi. Hvað segir lyktin? » Það er kannski heldur mikil bjartsýni að ætla að runn- inn sé upp nýr og skynsam- legri kafli í stríðinu gegn hryðjuverkum og að bandarísk stjórnvöld séu hætt að nýta sér ótta fólks og óöryggistilfinn- ingu til að fá sínu framgengt. FJÖLMIÐLAR I Thomas Pynchon er einn af þessum heims-þekktu listamönnum sem engin þekkir. Hann er maður sem allir vita hver er en enginn hefur séð. Að minnsta kosti ekki nýlega. Nýj- asta myndin sem til er af honum var tekin í byrjun sjötta áratugar síðustu aldar. Hann hef- ur ekki veitt viðtal í áraraðir. Hann á aðeins samskipti við einn mann hjá útgefanda sínum. Ástæðan er sú að hann vill ekki vera þekktur, nema þá einna helst fyrir skáldsögurnar sem hann skrifar. Þær eru nú orðnar sex, sú nýjasta heitir Against the Day og hefur hlotið frábæra dóma. Hún gerist að hluta til á Íslandi eins og fjallað er um á síðu 11 í Lesbók í dag. Bókin bendir til þess að Pynchon hafi kynnt sér stað- hætti og sögu landsins vel. Kannski kom hann hingað. Sáuð þið hann nokkuð? II Nei, líklega hefur enginn komið auga áPynchon ef hann hefur þá lagt leið sína hingað. Það veit enginn hvernig hann lítur út! Það er ekkert að marka fimmtíu ára gamlar myndir. Íslandskaflinn gerist að hluta til á Ísa- firði en mest í Reykjavík. Pynchon hefur sjálf- sagt gengið um götur, skoðað fjöllin fyrir vest- an, fengið sér kaffi á Hressó eða kannski frekar Tíu dropum, komið við í Eymundsson til að kanna hvort hann væri seldur í Reykjavík, kannski spurt afgreiðslufólkið hvort það kann- aðist við Thomas Pynchon, sérkennilegan og að margra mati óskiljanlegan póstmódernista frá Bandaríkjunum sem skrifaði helst ekki færri en 600 síður í einu. Þá var Mason & Dixon nýj- asta bókin hans, fólkið hefur hrist hausinn og sagt: En við eigum Hallgrím Helgason, hann á líka erfitt með að hætta að skrifa en það er hægt að skilja hann. III Pynchon býr í New York-borg. Hann lifirfrekar hversdagslegu lífi, er sagt. Hittir vini sína úr rithöfundastétt á kaffihúsum, versl- ar við kaupmennina í hverfinu og eyðir helg- unum utan borgarmarkanna með fjölskyldunni. Það eina sem er óvenjulegt við manninn er að hann hefur skrifað skáldsögur sem markað hafa djúp spor í bókmenntasöguna. Það er í sjálfu sér ekkert skrýtið að maðurinn vilji ekki láta birta mynd af sér opinberlega. Flestum þykir hann þó eiga að vera í sviðsljósinu vegna þess að hann hefur skrifað skáldsögur sem skipta máli. Það segir sitt um samtímann. Ein- staklingurinn á bak við verkin skiptir miklu máli. Ekki endilega vegna þess að hann muni varpa ljósi á verkið – þar er reyndar ekki á vís- an að róa – heldur vegna þess að fólk vill geta séð framan í manninn á bak við verkið. Það vill geta þekkt hann úti á götu. Dáðst að honum. Dæmt hann. Eða hvað? Hvers vegna skiptir það máli að Pynchon er óþekktur? IV Sumir halda því reyndar fram að Pync-hon sé ekki til. Hann sé jafnvel dulnefni nokkurra manna sem skrifa bækurnar í sam- einingu. Það er fólki ekki aðeins ofviða að vita af manni sem ekki vill vera þekktur heldur einnig að trúa því að einn hugur standi á bak við verk eins og þau sem Pynchon er skrifaður fyrir. NEÐANMÁLS Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins Eftir Gunnar Theodór Eggertsson gunnaregg@gmail.com ! Það líða ekki áramót án þess að ég lesi um eitthvert vesalings hross sem tryllist og þýtur á rás út í rauðan dauðann. Gamlárs- kvöld er versta hryllingskvöld ársins fyrir dýrin, sem skynja langt út fyrir mannleg eyru. Hvað ætli margir fuglar drepist á hverju ári, eða hvernig ætli ástandið sé niðri á Tjörn um miðnætti? Sjálfur ólst ég upp með köttum og hef því upplifað ein- lægan ótta taka sér bólfestu í þeim um leið og sprengingarnar byrja. Lætin dreifa sí- fellt úr sér, ekki aðeins á áramótunum sjálfum heldur alla daga þar um kring. En gamlárskvöld er langsamlega verst og þegar nær dregur miðnætti þarf að róa niður kettina og sýna þeim samstöðu. Skríða undir borð til þeirra og veita þeim félagsskap. Í ár var óvenjumikið sprengt, sumir tala um mengunarmet (hvort sem átt er við reyk- eða hljóðmengun), en það fór nánast framhjá mér. Heima var dregið fyrir alla glugga og músík sett á fóninn til að mynda verndarskjöld, þótt veikbyggð- ur væri. Á miðnætti drógum við aðeins frá stofuglugganum til að sjá stærstu flugeld- ana, svona rétt til að halda í hefðina, en að því undanskildu sprengdi ég ekkert og var nokk sama. Þegar ég var strákur fannst mér gaml- árskvöld heillandi, líkt og flestum börnum. Mér finnst enn gaman að sjá flugelda, ég neita því ekki, en áhuginn og sjarminn er löngu horfinn. Gamlárskvöld hefur breyst í slíka ofgnótt af látum og brjálæði að það sem var eitt sinn heillandi er orðið yf- irgengilegt og pirrandi. Ég hef eytt ára- mótum erlendis þar sem fólk var sam- ankomið hér og þar um bæinn á miðnætti til að fylgjast með glæsilegum flug- eldasýningum. Þar voru allir afar kátir og nutu þess til fullnustu að sjá ljósadýrðina. Ég myndi miklu frekar vilja sjá skipulagð- ar flugeldasýningar á áramótum heldur en stríðslætin í borgarbúum sem vilja allir sprengja burt árið með betri og flottari tertum en nágrannarnir. Slíkar sýningar myndu vissulega hræða dýrin að ein- hverju leyti, hjá því verður ekki komist, en áfallið væri þeim mun minna. Lætin væru ekki jafnmikil í einu og ekki dreifð yfir jafnlangt tímabil. Þeir sem skilja hvað um er að ræða þeg- ar ég tala um dýrahræðslu geta varla haft í sér að sprengja mikið. Ég vildi óska að það væri nóg að þekkja dýr til að skilja óttann, en svo er ekki. Ég hef gengið upp í brjálæðið á Landakotstúni og komið að hundi læstum inni í bíl, geltandi eins og hann ætti lífið að leysa. Hvers lags hund- eiganda getur dottið í hug að taka dýrið með á flugeldasýningu? Margir vilja trúa því að þetta eldist af dýrum, að þau venjist látunum með árunum, en svo virðist ekki vera. Þetta er innbyggt í náttúrueðlið og alltaf jafntryllandi. Ég eyddi áramótunum með fullorðinni kisu og kettlingnum henn- ar, sem var að upplifa þetta í fyrsta skipti. Þau voru bæði jafnhrædd. Auk þess hitti ég fyrir gamlan hund sem hefur margoft upplifað gamlárskvöld, en hafði látið eins og hvolpur allt kvöldið og var við barm taugaáfalls. Næsta ár þarf líklega að gefa honum róandi. Svo virðist sem meirihluti borgarbúa íhugi ekki þessi mál, eða láti þau sem vind um eyru þjóta, líkt og er með dýr á stríðshrjáðum svæðum. Fáir hugsa út í þau, en á seinasta ári hefur til dæmis verið í gangi hjálparstarf í Líbanon og Ísr- ael til að bjarga og aðstoða dýrin sem upp- lifðu hörmungarnar, þótt sjaldan sé á það minnst í fréttum. Það er algengt að líkja íslenskum áramótafögnuði við stríð, með tilheyrandi skothríð, en það er sjaldgæft að fólk viðurkenni að þessu ímynd- unarstríði fylgja árlega raunveruleg fórn- arlömb, hvort sem það eru kettir, hundar, fuglar eða hestar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.