Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2007, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2007, Blaðsíða 5
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 13. JANÚAR 2007 5 byggingu Þjóðleikhúss. Indriði Einarsson skrifaði grein í Óðin sama ár og Fjalla-Eyvindur var sýndur í Berlín, þar sem hann nýtti sér vinsældir Jóhanns Sig- urjónssonar og Guðmundar Kamb- an erlendis til rökstuðnings fyrir byggingu þjóðleikhúss: „Í nafni listarinnar, vegna íslensks þjóð- ernis, og vegna heiðurs þjóð- arinnar, krefst ég þess, að hjer verði reist sæmilegt leikhús, og það verði gert svo úr garði, að leikrit þessara manna verði leikin fyr hjer á landi en nokkurstaðar annarstaðar. Annars er sem við viljum ekki kannast við þá, og það gleymist að þeir séu íslenskir menn.“ Sex verur leita höfundar (1926) Í kjölfar „íslenska áratugarins“og fram yfir 1920 ríkti nokkurdeyfð yfir starfsemi Leik- félags Reykjavíkur og var því á tímabili spáð hægfara andláti. Viss endurreisn átti sér þó stað um miðjan þriðja áratuginn, m.a. undir formennsku Indriða Waage, sem nefndur hefur verið fyrsti íslenski leikstjórinn. Indriði hafði dvalist í Berlín veturinn 1922–23, þar sem hann kynntist öðrum aðferðum og annarri fagurfræði en hann þekkti áður. Hann sneri heim með nýjar hugmyndir um leikhús, auk þess sem hann kynnti til leiks höfunda sem ekki höfðu sést áður á ís- lensku leiksviði, s.s. Arthur Schnitzler og August Strindberg, að ógleymdum farsakóngunum Franz Arnold og Ernst Bach. Hinn 11. nóvember 1926 frum- sýndi LR leikritið Sex verur leita höfundar eftir Ítalann Luigi Pir- andello, í leikstjórn Indriða Waage. Leikritið hafði verið frum- sýnt aðeins fimm árum áður í Róm; frumsýningin vakti býsna öfgakennd viðbrögð, þar sem áhorfendur skiptust í tvær and- stæðar fylkingar, en því var hins vegar vel tekið annars staðar, s.s. í París. George Bernard Shaw sagði t.d. að verkið væri það frumlegasta sem hann hefði nokkurn tíma séð. Sex verur leita höfundar var því orðið þekkt um Evrópu, en engu að síður ákaflega nýstárlegt þegar LR tók það til sýninga 1926 og ljóst að val verkefnisins var djarft. Í verkinu er leikhópur að æfa sýn- ingu, þegar á sviðinu birtast per- sónur í leit að höfundi til að skrifa sig. Verkið braut því gegn hefð- bundinni persónusköpun, sem áhorfendur voru vanir, auk þess sem leikhúsið tók á annan hátt á móti áhorfendum en vant var. Brynjólfur Jóhannesson, sem lék í sýningunni, segir í endurminn- ingum sínum svo frá: „Þetta var svo gersamlega ólíkt öllu sem við áttum að venjast hér heima, bæði leikendur og áhorfendur. Þegar fólk kom í leikhúsið var fortjaldið uppi og full ljós í salnum, engin leiktjöld á sviðinu eða neitt sem benti til sýningar. Menn fóru að líta á klukkuna og furða sig á því hvort ekki ætti að fara að byrja. Þá var leikurinn reyndar byrjaður og leikararnir að tínast inn, sumir um sviðsdyrnar og sumir neðan úr sal.“ Leikhúsgestir í Iðnó voru flestir sennilega óvanir verkum af þessu tagi og gagnrýni um sýninguna var misjöfn. Gagnrýnandi Morg- unblaðsins sagði þarna í raun á ferðinni býsna hefðbundið leikrit, nema hvað því væri pakkað inn í óhefðbundnar umbúðir. Hann segir áhugavert að fylgjast með hvernig verkinu verði tekið: „Það er nokk- ur prófsteinn á smekk bæjarbúa, hvernig þeir sækja þetta leikrit. Verður fróðlegt að sjá hverju fram vindur í þeim efnum. Geti þeir tek- ið nýtt leikgerfi, nýtt form, fram yfir hinn eiginlega kjarna, þá er sennilegt, að þeir sæki leikinn vel. En sníði þeir í burtu hin nýju klæði – já, þá vil jeg engu spá um aðsóknina.“ Í Vísi kvað hins vegar við mjög afgerandi tón, þar sem sýningunni var hampað fyrir það að hrista upp í áhorfendum og bjóða þeim upp á annars konar leiklist en þeir voru vanir: „Hitt var í sjálfu sér engin furða, þó að menn áttuðu sig ekki á hinni einkennilegu umgjörð leiks- ins, svo vanir sem menn eru orðnir því að sjá tjaldið þeysast upp og ofan milli fimm þátta í leikritum, þar sem húsgögn og tré standa á sínum vanastöðum í herbergjum eða á víðavangi, og þar sem dygð og góðir siðir sigra djöfulinn og öll hans athæfi um síðir.“ Þó margir áhorfenda hafi eflaust setið undrandi á Sex verur leita höfundar er varla hægt að segja að íslenskt menningarlíf hafi verið al- gjörlega óundirbúið fyrir slíka sýn- ingu. Bæði hafði í upphafi þriðja áratugarins farið fram mikil um- ræða um framúrstefnu í listum í ís- lenskum blöðum, auk þess sem fleiri listamenn auðguðu íslenskt samfélag með framúrstefnulegum verkum sínum á þessum árum. Sex verur leita höfundar var t.a.m. frumsýnt ári eftir að Finnur Jóns- son opnaði alræmda sýningu sína á abstrakt- og expressjónískum verkum og um hálfu ári eftir frum- sýninguna kom skáldsaga Halldórs Laxness Vefarinn mikli frá Kasmír út. Í stað þess að tala um þessi verk sem ótímabærar tilraunir er nærri lagi að segja að þarna hafi íslensk menning náð í skottið á evrópskri framúrstefnu. Marmari (1950) Þegar loks tók að hilla undirvígslu Þjóðleikhússins, síðlaá fimmta áratugnum, vökn- uðu spurningar um framtíð Leik- félags Reykjavíkur. Sumir töldu víst að Leikfélagið myndi einfald- lega flytja starfsemi sína í Þjóð- leikhúsið og þannig fá viðurkenn- ingu á því starfi sem það hafði unnið á sviði leiklistar á Íslandi hálfa öldina á undan. En þegar nær dró opnun hússins varð ljóst að Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu myndi ekki verða ný heimkynni leikfélagsins. Lögð var áhersla á að Þjóðleikhúsið yrði ríkisstofnun og hvorki væri æskilegt né væn- legt að LR tæki einfaldlega yfir reksturinn á húsinu. Ráðinn var leikhússtjóri og auglýst eftir leik- urum. Opnun Þjóðleikhússins kom miklu róti á starfsemi Leikfélags Reykjavíkur, svo vægt sé til orða tekið. Margir leikara, leikstjóra og annarra listamanna leiksfélagsins réðu sig til Þjóðleikhússins, auk þess sem landslagið var auðvitað annað, þegar annað stórt leikhús var tekið til starfa. Sumir vildu meina að engar forsendur væru til að halda rekstri leikfélagsins áfram við svo breyttar aðstæður, að ekki væri rými fyrir tvö leikhús í Reykjavík. Gestur Pálsson, sem var einn þeirra leikara sem ráðinn hafði verið til Þjóðleikhússins, lagði fram tillögu á aðalfundi í ágúst 1950 að leikfélagið yrði lagt niður. Eftir heitar umræður var tillagan felld, en ljóst var engu að síður að leikfélagið yrði að end- urskilgreina stöðu sína. Á fyrsta leikari LR eftir opnun Þjóðleikhússins var teflt býsna djarft. Raunar hófst leikárið á gamanleiknum Elsku Rut eftir Norman Krasna, sem líklegur var til vinsælda, en jólasýning leik- félagsins þetta árið var Marmari eftir Guðmund Kamban, sem ekki hafði verið sett upp frá því það var sýnt eitt kvöld í Mainz í Þýska- landi árið 1933. Verkið er stórt og mannmargt og má telja áræðið af leikfélaginu að ráðast í svo viða- mikla sýningu á svo viðkvæmum tímum í starfi félagsins. En metn- aður og kraftur þess nýja hóps sem tekinn var við í leikfélaginu skilaði sýningu sem kom öllum á óvart. Fagnaðarlæti í frumsýning- arlok voru gríðarleg og gagnrýn- endur almennt á því að leikfélagið hefði hér unnið einn sinn stærsta sigur. Leikfélagið reis upp og það sýndi sig að vel var rými fyrir tvö leikhús í Reykjavík. Dagur vonar (1987) Á níutíu ára afmæli Leik-félags Reykjavíkur var hinsvegar stutt í það að að- stöðumunur „stóru“ leikhúsanna í borginni yrði jafnari og leikfélagið flytti sig úr þrengslunum í Iðnó, þar sem það hafði sýnt frá upphafi, í Borgarleikhúsið sem þá var í byggingu. Húsnæðismál leikfélags- ins höfðu verið lengi í deiglunni og 1972 var gert samkomulag um staðsetningu nýs leikhúss fyrir leikfélagið í Kringlumýrinni, þó margir hefðu viljað að það risi í miðbænum. Leikfélagið fagnaði 90 ára af- mæli sínu með frumsýningu á nýju verki eftir Birgi Sigurðsson, Degi vonar. Leikfélagið hafði frá sjö- unda áratugnum lagt nokkra áherslu á að efla nýja íslenska leik- ritun og fóstrað leikskáld á borð við Jökul Jakobsson og einmitt Birgi Sigurðsson, en Dagur vonar var fimmta verk Birgis sem LR sýndi frá því að Pétur og Rúna var frumsýnt 1973. Dagur vonar staðfesti að Birgir var eitt fremsta leikskáld sinnar kynslóðar. Í gagnrýni Morg- unblaðsins sagði Jóhann Hjálm- arsson: „Birgir Sigurðsson hefur með Degi vonar skipað sér í fremstu röð íslenskra leikritahöf- unda og ekki verður séð að neinn núlifandi leikritahöfundur standi jafnfætis honum.“ Og hann bætir við: „Fá dæmi eru um jafn stór- brotinn texta í íslenskum bók- menntum. Hann er í senn vand- aður og agaður, en hrjúfleiki hans vekur líka athygli.“ Margrét Helga Jóhannsdóttir var sögð vinna einn sinn eftirminnilegasta leiksigur í þessar sýningu og leikurum hrósað fyrir sterkan og áhrifamikinn leik. Sýningin var sýnd 50 sinnum á sviðinu í Iðnó fyrir tæplega 10 þús- und áhorfendur, sem verður að teljast mjög góð aðsókn fyrir nýtt íslenskt dramatískt verk. Dagur vonar er nú í annað sinn afmælissýning Leikfélags Reykja- víkur. Sú gagnrýni hefur heyrst að í því vali birtist metnaðarleysi leik- félagsins, að ekki skuli farið á nýj- ar slóðir. Á hinn bóginn má segja að þetta val endurspegli ákveðna meðvitund um söguna og hér fari fram visst endurmat á fortíðinni. Hvernig til tekst með það verður áhugavert að sjá. Til hamingju með afmælið. Dagur vonar „Sýningin var sýnd 50 sinnum á sviðinu í Iðnó fyrir tæplega 10 þúsund áhorfendur, sem verður að teljast mjög góð aðsókn fyrir nýtt íslenskt dramatískt verk.“ Valdimar Örn Flygenring og Margrét Helga Jóhannsdóttir í hlutverkum sínum en Margrét Helga þótti vinna mikinn leiksigur í verkinu. Marmari „Fagnaðarlæti í frumsýningarlok voru gríðarleg og gagnrýn- endur almennt á því að leikfélagið hefði hér unnið einn sinn stærsta sigur. “ Þorgrímur Einarsson og Þorsteinn Ö. Stephensen í hlutverkum leyni- lögreglumanns og Róberts Belfords. Höfundur er fagstjóri fræða & framkvæmdar við leiklistardeild Listaháskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.