Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 13.01.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 13. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Einar Má Guðmundsson 1809@simnet.is Á Þorláksmessu spjölluðum við Páll Baldvin saman í Frétta- blaðinu. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, nema að nú hefur Ástráður Eysteinsson blandað sér í samræðurnar. Við því er ekkert að segja. Í viðtalinu ber skoðanir hans á góma. Ástráður ræðir hins vegar ekki þær hug- myndir sem ég set fram í viðtalinu. Þess í stað reynir hann að sálgreina mig, mótlætisþörf mína. Mótlætið er mér nauðsyn en samt þoli ég það ekki, samkvæmt Ástráði. Grein hans heitir Meðbyr og mótlæti með undirfyrirsögninni Brugðist við kveinstöfum. Það er strax gefið til kynna hvert ferðinni er heitið, um hvað málið snýst. Höfundurinn Einar Már Guðmundsson er bara bitur náungi, sem þolir ekki gagnrýni. Ástráður veit að þetta er bara vasabókarsálfræði af ódýrari gerðinni. Af hverju beitir prófessorinn ekki þeim fræð- um sem hann er lærður í? Það er í rauninni það sem ég er að gera í viðtalinu, að lesa á milli lín- anna, kafa undir yfirborð textans. Ég er að benda á samhengi á milli ódýrustu sleggjudóm- anna um mín verk og viðhorfa sem málsmetandi fræðimenn hafa sett fram. Auðvitað eru hinir miklu fleiri sem fjallað hafa með vitibornum hætti um verk mín og þá er ég ekkert að fetta fingur út í að þau séu gagnrýnd. Í viðtalinu við Pál Baldvin er ég ekki að kvarta yfir viðtökum við verkum mínum, enda væri það út í hött. Ég hef átt miklu láni að fagna í þeim efnum. Ég var að ræða um hugarástand sem að mínu mati er andbókmenntalegt, til dæmis að það sé röksemd gegn sögu hvar hún gerist og ef því er að skipta um hvað hún fjallar. Sem bókmenntafræðingur á Ástráður að vera fær um að lesa í línur og á milli þeirra. Ég var ekki að lýsa fræðilegum hæfileikum hans eða Helgu Kress, heldur voru einungis rifjuð upp gömul viðhorf þeirra sem flestir eru sammála um að eru úrelt og beinlínis röng. Það kemur þó ekki í veg fyrir að þessi viðhorf skjóti aftur og aftur upp kollinum, nú síðast við útkomu Bítlaá- varpsins fyrir tveimur árum. Málið snýst ekki um „viðtökusögu Einars Más á Íslandi“ eða eitthvað viðlíka bull. Spurn- ingin er þessi: Hvernig stendur á því að þessi viðhorf um bernskusögur, strákasögur, Voga- sögur og svo framvegis skjóta aftur og aftur upp kollinum og þá oftast sem hálfgerð hys- tería? Tökum bara dæmi: Hvaða sjónarmið eru það sem leiða menn út í að skrifa grein einsog „Hinsta andvarp ’68-kynslóðarinnar“ sem birt- ist í Morgunblaðinu 27. nóvember 2004 og fjallar um Bítlaávarpið og hvað gerir það að verkum að sá ritdómur verður uppspretta alls- herjar fagnaðarláta, á vef bókaforlagsins Bjarts, síðum Fréttablaðsins, síðum DV og þar fram eftir götum? Þó þurfa menn ekki annað en að lesa bókina til að sjá að þar er nánast í öllum atriðum farið rangt með og dómurinn því hreinn sleggjudómur. Hvert er síðan samhengið á milli viðhorfanna sem þar birtast og viðhorfanna sem Ástráður setur fram í grein sinni í Skírni tuttugu árum fyrr? Jú, þau eru í grundvallaratriðum þau sömu þó ég hafi ekki hugmynd um hvort Björn Þór, höfundur dómsins um Bítlaávarpið, hafi lesið skrif Ástráðs. Það er heldur ekki aðal- atriðið, því þetta snýst um hugarástand, sem prófessorinn ætti frekar að rísa gegn en verða því samdauna. Smá upprifjun: Svar mitt við spurningu Páls Baldvins Nú er rétt að rifja upp það sem í viðtalinu segir eða réttara sagt þann hluta þess sem Ástráði er hugleikinn, því margt fleira var sagt í viðtalinu. Eftir að við Páll Baldvin höfum rætt um fyrstu ljóðin mín og hvernig ég finn rödd bernskunnar í þeim og tjái hana síðan í sögum, þá spyr Páll: „Nú var bernskusögum þínum ekki vel tekið af sumum í bókmenntastofn- uninni: Helga Kress kallaði þær strákabækur?“ Ég svara: „Nei, það þótti ekki fínt í þeirri ver- öld, að vera strákur og skrifa bækur, það var baneitraður kokteill. Prófessor Ástráður Ey- steinsson var líka gerður út af örkinni, það má segja að þau séu andlegir arkitektar þeirrar múgsefjunar sem stundum er kallað tossa- bandalagið. Ég er ekkert að vanvirða fræði- mennsku þessa fólks, hvorki fyrr né síðar, en tónninn hjá Ástráði var, þarna er kominn náungi sem skorar bókmenntirnar á hólm, við skulum taka hann niður. Þetta er einhver mis- heppnaðasta aftaka sem farið hefur fram, enda er ég sprelllifandi og enn í fæting við vindmyllur orðanna. Síðan hefur þetta færst yfir á eitthvað svona síðdegisblaðamentalítet, um Vogasögur, stráka- sögur, ég meina, hvers eiga Vogarnir að gjalda? Menn búa til staðfræði sem segir, saga má ger- ast í sveit, saga má gerast í New York, en ekki í Vogunum. Hvað myndu menn segja ef ég léti sögu gerast á Vogi? Þetta hefur farið rosalega í taugarnar á sumu fólki og það breiðir úr ein- hverjum svona eldhúsborðapirringi yfir alla þjóðina, eiginlega mígur yfir hana einsog Thor sagði um Kristmann. Þessi viðhorf hafa verið al- geng hjá sorpblaðamönnum, en það þýðir ekk- ert að vera að æsa sig yfir þeim. Ég verð bara að búa við þetta, þetta kemur svona í gusum, en þarna kemur sér vel að bækur mínar eru þýdd- ar og lesnar af fólki sem er ekkert sérlega upp- sigað við Vogahverfið, nú eða stráka …“ Svo mörg voru þau orð. Smápollarnir koma Það má alveg setja út á groddalegt orðalag mitt, einsog að einhverjir hafi gert Ástráð út af örk- inni, og biðst ég velvirðingar á því. Ég hugsa að ekki hafi þurft að gera Ástráð út af örkinni, heldur hafi hann sjálfur viljað sanna sig. Og eft- ir á að hyggja hef ég ekkert við það að athuga. Hitt er síðan bara túlkun mín á texta Ástráðs, á greininni sem hann nefnir úr Skírni. Ég ætla ekki frekar en Ástráður að fjalla náið um hana, þó hægt væri að birta úr henni mörg gullkorn, ekki síst úr kaflanum um húmorinn. „Ég tek að sjálfsögðu þá áhættu að einhver sakni kímnigáfu hjá mér,“ segir Ástráður í greininni og virðast það vera orð að sönnu og bendir fátt til að hann hafi fundið hana á þeim tuttugu árum sem síðan eru liðin. Auðvitað segir Ástráður hvergi í greininni að hann sé mættur til að taka þennan hrokagikk niður. Þetta er bara mín túlkun á greininni. Hann mátar mig við minn metnað í sagna- listinni og segir mér mistakast, og það er bara hans skoðun og ekkert við því að segja. Ég get ekki útilokað að hann hafi skipt um skoðun, en þá þyrfti hann heldur ekkert að skammast sín fyrir það. Ég túlka hans dóm svona, þetta er það sem ég les á milli línanna, undir yfirborði textans, og snýst ekki bókmenntafræðin um það, að kafa undir yfirborð textans. Ástráður gerir í raun lít- ið úr sínum eigin fræðum. Í stað þess að hrekja þá heildarhugmynd mína að hugmynda- fræðilegan bakgrunn sleggjudómanna gagnvart strákabókmenntum, bernskusögum, Vogasög- um, eða hvað menn vilja kalla þessar bók- menntir, sé að finna hjá málsmetandi bók- menntafólki einsog honum og Helgu, þá grípur hann til getgátna um líðan mína, þörf mína fyrir að upplifa mótlæti. Í viðtalinu í Veru frá 1986 segir Helga Kress: „Annars er að koma upp mjög athyglisverð hefð í skáldsagnaritun ungra karlhöfunda, sem felst í því að skrifa um sig sem smápolla í ákveðnum borgarhverfum í Reykjavík. Þessir höfundar eru undir miklum áhrifum frá Jóni Oddi og Jóni Bjarna, án þess þó að þeir geri sér grein fyrir því. Ég minnist þess a.m.k. ekki að þeir nefni Guðrúnu þegar þeir eru spurðir um áhrifavalda. Þessar sögur skrifa sig einnig í hefð þroska- sagna, „the portrait of the artist as a young man“, en sá er munurinn á þeim og til að mynda Fjallkirkjunni eftir Gunnar Gunnarsson eða frægri sögu James Joyce, að í þeim gerist engin þróun.“ Ef Helga Kress les sögur einsog Riddara hringstigans með þessum gleraugum ætla ég ekki að reyna finna handa henni önnur gler- augu. Ég er bara ósammála henni í þessu atriði, ekki um áhrifin frá þeirri miklu sómakonu Guð- rúnu Helgadóttur heldur hinu „að í þeim gerist engin þróun“. Mér finnst líka hæpið að setja svona gæðastimpil á söguefni og að lesa þær inn í æskumyndarsögur listamanna. Það breytir engu um það að ég tel að Helga Kress sé frábær bókmenntarýnir og fræðimaður, djörf og skemmtileg. Í þessu efni er ég bara ósammála henni og ég get ekki séð glæpinn við að rifja það upp úr sögulegri fjarlægð þegar blaðamaður spyr. Tuttugu árum seinna eru þessi sömu viðhorf í gangi, og þá gagnvart Bítlaávarpinu. Þá lesum við eftirfarandi í DV, frá svokölluðum álits- gjöfum, en þar eru nefndir tólf til sögunnar, en enginn þeirra kemur fram undir nafni: „Æi, þarf þetta alltaf að vera svona fyrirsjáanlegt? Allir alltaf hressir í Heimunum nú eða MT eða eitthvað svoleiðis.“ Eða: „Hvað ætlar þessi ’68- kynslóðin eiginlega að endast til að einblína lengi á naflann á sjálfri sér áður en hún fattar að allir aðrir eru farnir að æla?“ Þarna er það sem menn kalla tossabandalag- ið að verki og þegar ég tala um Ástráð og Helgu sem andlega arkitekta „þeirrar múgsefjunar sem stundum er kallað tossabandalagið“ á ég nákvæmlega við þetta, hliðstæðuna á milli síð- degisblaðamentalítetsins og sorpblaðamennsk- unnar og þeirra viðhorfa sem þau setja fram sem virtir fræðimenn og leiðtogar bókmenn- ingar við háskólann. Því segi ég við prófessorinn: Haltu þig bara við staðreyndir. Frekar en að vera að fjargviðr- ast við mig ætti Ástráður að reyna að koma ein- hverjum mikilvægum skilaboðum á framfæri. Einangrun háskólans frá bókmenntalífinu í landinu er sláandi. Þá má auðvitað spyrja: Hvaða bókmenntalífi? En það er önnur saga. Skrifað fyrir krakka Af þessu má ljóst vera að hugmyndir Ástráðs Eysteinssonar eiga það sameiginlegt með kommúnismanum, að vofa þeirra gengur ljósum logum. Sem dæmi er áðurnefnd umsögn Björns Þórs Vilhjálmssonar um Bítlaávarpið í Morg- unblaðinu. „Hinsta andvarp ’68-kynslóðarinnar“ heitir umsögnin. Sá titill vísar vart til innihalds bók- arinnar, þar sem málefni þeirrar ágætu kyn- slóðar eru á engan hátt til umfjöllunar, nema auðvitað að því leyti að til þeirra tíðinda dró í samspili við ákveðna þætti sem fjallað er um í sögunni. „Hinsta andvarpið“ hlýtur því að vísa í höfundinn, og skoðast sem dánartilkynning og þá ekki bara höfundarins heldur heillar kyn- slóðar, sem hann, það er að segja höfundurinn, getur raunar borið afar takmarkaða ábyrgð á. Björn Þór finnur enga framvindu í sögunni en talar um „rangl um söguheima“. Hér er strax gefið til kynna með hvaða hugarfari er dæmt. Þá talar hann um að stíll sögunnar sé „lafandi sagnastíll“ og segir síðan að „raunverulegt um- fjöllunarefni sögunnar“ sé „strákalífið í Voga- hverfinu sem hér er í brennidepli en þar virðist fátt svo ómerkilegt hafa átt sér stað að sögu- manni finnist ekki í frásögur færandi“. Hvað sagði ég í viðtalinu? „Saga má gerast í sveit, saga má gerast í New York, en ekki í Vog- unum.“ Hér heyra menn óm af gömlum söng og sá ómur ágerist þegar Björn Þór fer að fjalla um kímnigáfu höfundar og sögunnar. Björn Þór segir að höfundur hafi kímnigáfu óstálpaðra stráka. Hann tekur tvö dæmi: „Vægt er til orða tekið þegar sagt er að sögur af Kidda sjómanni þegar hann meig utan í breska löggu, eða prökkurum sem fela kennarapúlt inn í kústaskáp, séu ekki ýkja áhugavekjandi þegar fram í dregur.“ Sagan af Kidda sjómanni, sem mér finnst að vísu mjög fyndin, er saga sem Jón, einn strák- anna, segir í sögunni, þar sem drengirnir sitja í mikilli veislu á Hótel Borg. Strákarnir hafa hitt Friðrik, dreng að norðan, í strætó. Hann er með fermingarpeningana sína og andvirði eins hests. Þeir sýna honum borgina en hann leiðir þá inn í veröld sem þeir hafa aldrei séð áður, inn á Hótel Borg. Þessa samhengis lætur Björn Þór að engu getið. Hitt atriðið með kennarapúltið sem prakkarar fela inn í kústaskáp gerist bara hreinlega ekki í sögunni. Það veit enginn hvern- ig púltið hvarf, en skýringin finnst í annarri sögu, sé það skýring. Kímnigáfa óstálpaðra stráka? Rímar þetta ekki við það sem Ástráður segir um húmor í grein sinni í Skírni? „Vissulega má hafa gaman af svona skopi – í krakkasögum sem maður nýt- ur meðal annars vegna þess að þær eru skrif- aðar fyrir krakka …“ Eða „Fantasíuna má ekki sækja í einhvern bernskuglaðan prakk- araskap …“ Þetta eru nákvæmlega sömu hugmyndirnar, og einsog segir í viðtalinu „þýðir ekkert að vera að æsa sig yfir þeim. Ég verð bara að búa við þetta, þetta kemur svona í gusum, en þarna kemur sér vel að bækur mínar eru þýddar og lesnar af fólki sem er ekkert sérlega uppsigað við Vogahverfið, nú eða stráka.“ Á vef bókaútgáfunnar Bjarts var umsögn Björns Þórs um Bítlaávarpið sérstaklega haldið á lofti. Þar fagna menn því að „sagnameistari Eddu“ Einar Már fái „vægast sagt falleinkunn í dómi Mbl. í morgun fyrir bók sína Bítlaávarpið. Björn segir að bók Einars eigi „ekkert erindi upp úr skúffunni“ á meðan okkar maður og maður framtíðarinnar, Steinar Bragi, fær úr- valseinkunnina „ein athyglisverðasta skáldsaga ársins“ fyrir bók sína Sólskinsfólkið.“ Bjartsmönnum var skemmt og planið hátt. Raunar svipað því og ef íþróttafréttaritari væri að fjalla um tvo hástökkvara og lýsti gjörvileika annars en fagnaði því að hinn væri fótbrotinn, eða réttara sagt, sagður fótbrotinn. Að heil bókaútgáfa detti niður á þetta plan er auðvitað saga til næsta bæjar. Nú hlýt ég að hafa útskýrt þetta andlega ástand, „þá múgsefjun sem stundum er kallað tossabandalag“ og vilji Ástráður Eysteinsson ekki heita „andlegur arkitekt“ þess á hann bara að taka afstöðu gegn því og sýna það í verki. Svo óska ég honum gleðilegs árs og lofa að velta nafni hans vandlega fyrir mér sé ég inntur eftir liðinni tíð, en nú þarf ég að snúa mér að þeim bardaga sem mestu máli skiptir, bardag- anum við „vindmyllur orðanna“. Smápollarnir koma Vofa gengur ljósum logum Einar Már segir að ljóst megi vera að hugmyndir Ástráðs Ey- steinssonar eigi það sameiginlegt með kommúnismanum, að vofa þeirra gengur ljósum logum. Einar Már Guðmundsson sakaði Ástráð Ey- steinsson prófessor um að hafa gert atlögu að sér sem rithöfundi í viðtali í Fréttablaðinu. Ástráður Eysteinsson svaraði í seinustu Les- bók og sagðist hafa sinnt öðru en að skrifa um verk Einars Más en rithöfundinum væri greinilega mótlætið hugstætt þótt hann hefði oftast fengið góðar viðtökur. Einar Már svar- ar nú og segir Ástráð hafa beitt vasabók- arsálfræði á sig af ódýrari gerðinni í stað þess að fjalla um efnisatriði málsins. Höfundur er rithöfundur. »Því segi ég við prófessorinn: Haltu þig bara við stað- reyndir. Frekar en að vera að fjargviðrast við mig ætti Ást- ráður að reyna að koma ein- hverjum mikilvægum skila- boðum á framfæri. Einangrun háskólans frá bókmenntalífinu í landinu er sláandi. Þá má auð- vitað spyrja: Hvaða bókmennta- lífi? En það er önnur saga.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.