Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 3. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Sigurð Ólafsson sigurdurolafsson@gmail.com Þ að varð uppi fótur og fit í bók- menntaheiminum haustið 2005 þegar það frestaðist um heila viku að Sænska akademían til- kynnti hvaða rithöfundur hlyti Nóbelsverðlaunin í bókmenntum það árið. Ýmsar skýringar voru viðraðar og kjaftasögur spruttu villt í kreðsum menning- arvita og spekúlanta. Ein þeirra var sú að leita hefði þurft samkomulags innan akademíunnar um það að veita verðlaunin í fyrsta skipti í ára- tugi rithöfundi sem ætti hróður sinn að þakka óskálduðum verkum. Að lokum féll þessi kenning þó eins og aðrar þær spilaborgir sem reistar höfðu verið meðan beðið var í óþreyju eftir salómonsdómi aka- demíunnar. Kenningin góða varð hins vegar til þess að nafn pólska blaðamannsins Ryszard Ka- puscinski blandaðist óvænt sterklega inn í um- ræðuna um hugsanlega Nóbelsverðlaunahafa. Margir hugsuðu nefnilega með sér: Ef einhver á skilin æðstu bókmenntaverðlaun heims fyrir óskálduð verk þá er það Kapuscinski . Nú er ljóst að ekkert verður af neinu slíku því að á þriðjudaginn í síðustu viku bárust fréttir af því frá Varsjá að Kapuscinski hefði látist úr hjartaáfalli, 74 ára gamall. Ryszard Kapuscinski er lítt kynntur Íslend- ingum, þó er hann einhver þekktasti alþjóðlegi fréttaritari síðustu áratuga og bækur hans eru oftar en ekki settar í flokk með bestu dæmum sem fyrirfinnast um það sem af sumum er kall- að bókmenntaleg blaðamennska (e. literary jo- urnalism) en af öðrum ný-blaðamennska (e. new journalism). Sárafátækt og stalínismi Kapuscinski fæddist 1932 í borginni Pinsk sem þá var í austurhluta Póllands. En hræringar styrjalda og skákir stórvelda sviptu landamær- um Póllands svo til og frá að borgin tilheyrir nú Hvíta-Rússlandi eftir áratugalanga veru innan Sovétríkjanna. Kapuscinski ólst upp við sömu kröppu kjör og einkenndu þennan landshluta og hefur á seinni árum minnst þess að hafa gengið um skólaus, jafnt að vetri til sumri, og að matur hafi oft verið af mjög skornum skammti. Heims- mynd Kapuscinskis og samborgara hans í Pinsk takmarkaðist við sjóndeildarhring heimabæj- arins og næsta nágrennis og öll uppfræðsla sem bauðst var í formi stalínísks heilaþvottar í anda tímanna á þessum slóðum þar sem stálgreipar Sovétsins í austri voru alltumlykjandi. Hann hóf feril sinn í blaðamennsku í heima- landi sínu aðeins 18 ára gamall. Þegar að hann fór að hljóta almennt hrós fyrir störf sín mann- aði hann sig upp í að banka upp á hjá ritstjóra sínum og spyrjast fyrir um verkefni utanlands. Hann langaði til að skoða heiminn en hafði svo sem ekkert meira í huga en að komast bara í eitt einasta skipti yfir landamærin, t.d. til Tékkó- slóvakíu. Í stað þess var hann sendur alla leið til Indlands í sína fyrstu ferð til útlanda. Kapuscinski hefur lýst því hvernig fjarlægar slóðir eins og Indland, Afríka og Kína orkuðu ekki á hann á þessum tíma eins og lönd af þess- um heimi heldur fremur sögusvið ævintýra og flökkusagna. Stökkið var því ansi stórt fyrir ungan Pólverja að fljúga yfir hálfan hnöttinn yf- ir í veruleika sem var eins ólíkur og unnt var því sem hann átti að venjast heima við. Í nýjustu bók Kapuscinski, Á ferð með Heródótusi (2004), eru frásagnir hans af þessari fyrstu ferð sinni og þeim sem fylgdu næstu misserin á eftir. Hann segir frá því hvernig honum leið eins og barni sem skilið er eftir á víðavangi þegar að komið var til Indlands. Hann hafði engan sér til halds og trausts, kunni ekki stakt orð í ensku og þurfti virkilega að taka á honum stóra sínum til þess að leysa úr einföldustu verkefnum, eins og að komast að því hvernig hann ætti að verða sér út um gistingu, fæði og, síðast en ekki síst, miða heim þegar að hann væri búinn að viða að sér nægu efni fyrir blaðið sitt heima í Póllandi. Lifað og hrærst í Suðrinu Bjargarlausi Pólverjinn ungi átti þó eftir að mannast fljótt og nokkrum áratugum síðar voru þeir vandfundnir í hans stétt sem voru orðnir jafn sjóaðir af volki við erfiðustu aðstæður á fjarlægum slóðum og í stríðshrjáðum löndum. Áður en yfir lauk á áratugalöngum ferli hans hafði hann upplifað 27 valdarán og stjórnarbylt- ingar, óteljandi borgarastríð og horft upp á mikla grimmd og eymd en einnig upplifað fagr- ar og fjölbreyttar hliðar daglegs líf í Suðrinu sem sjaldan er sagt frá í vestrænum fjölmiðlum. Kapuscinski gerði það að reglu sinni að reyna að haga lífi sínu eins og heimafólk til þess að öðl- ast sem bestan skilning á tilveru þess og heims- mynd. Hann nálgaðist fólk hægt og hljóðlátt, spurði ekki margra spurninga en hlustaði þess í stað og nam og skráði svo hjá sér eftir á það sem honum þótti markvert í hverju tilviki fyrir sig. Hæglætið kom þó ekki í veg fyrir að hann kast- aði sér hvað eftir annað óhindrað út í lífshættu- legar aðstæður. Hann var oftar en einu sinni handtekinn og dæmdur til dauða, lenti ósjaldan í hringiðu skotbardaga og annarra átaka og þar að auki var hann oft nær dauða en lífi vegna óblíðra aðstæðna, sjúkdóma eða hitabeltisdýra sem vildu hann feigan. Þrátt fyrir þessar svaðilfarir eru bækur Ka- puscinski engin „Indiana-Jones-ævintýri". Þær hafa frekar verið sagðar vera í ætt við fyrr- nefndar stefnur ný-blaðamennsku eða bók- menntalegrar blaðamennsku en segja má að báðar stefnur lýsi því hvernig fræðilegur texti er framsettur með stílbrögðum og svip skáld- aðra verka. Sviðsetningar fá mikið rými, smáat- riðum og hversdagslegum viðburðum er lýst til þess að varpa ljósi á stærri veruleika og höf- undur reynir að nálgast þær manneskjur sem hann dregur upp mynd af á svipaðan hátt og skáldsagnahöfundur gerir með söguhetjur sín- ar. Stundum verður textinn svo lýrískur að hann verður einna líkastur prósaljóði. Sjálfur tók Kapuscinski að hluta til undir þessa skil- greiningu á eigin verkum en bætti því við að hann hefði í bókum sínum verið nokkuð að reyna sig við stílbrögð ritgerðarinnar til þess að búa efni sínu sem hentugast form. Kapuscinski og Afríka 1958 kom Kapuscinski fyrst til Afríku. Eftir það má segja að sú álfa hafi orðið hans helsti vett- vangur þó að hann hafi fjarri því einangrað sig við ferðalög og fréttaskrif frá Afríku. Frétta- skýringar frá sjálfstæðisbylgjunni sem fór yfir álfuna um það leyti sem Kapuscinski kom þang- að fyrst og næstu áratugi á eftir urðu meginvið- fangsefni fréttaskrifa hans sem og bóka. Hann fylgir eftir þeirri bjartsýni og von sem leikur um Afríku á fyrstu árum sjálfstæðisbylgjunnar miklu og til þess tíma á sjöunda og áttunda ára- tugnum þegar gleðin og trúin á framtíðina hafði víða breyst í vítahring vonleysis eftir ótal borg- arastyrjaldir, valdarán og eymd sem hefur látið fá lönd í álfunni ósnert. Þessi þróun er vel greinanleg í tveimur söfn- um frásagna sem út hafa komið eftir hann, Fót- boltastríðinu (1978) og Svartviði (1998). Sögu- svið flestra frásagnanna í bókunum tveimur er Afríka. Það sveiflast frá lýsingum á miklum leið- togum á borð við Nkrumah og Lumumba til frá- sagna af lífi venjulegs fólks; lestarferðum með heimafólki í Senegal, kjörum flóttamanna í búð- um í Eþíópíu eða daglegu streði gullgrafara í Níger. Sé sagnaþáttum bókanna tveggja raðað í tímaröð má kannski segja að myndin líti ekki vel út með Ghana vonglaða 1958 í fyrstu frá- sögnum Kapuscinski en hryllileg þjóðarmorð í Rúanda og Búrúndí 1994 í þeim síðustu. Ekki verður heldur myndin fegurri við lestur bók- arinnar Enn einn dagur lífs (1976) þar sem Ka- puscinski beinir sjónum að upplifun sinni á upp- hafsmánuðum borgarastyrjaldarinnar í Angóla. Myndin er þó fjarri því að vera svo einsleit að hún byggist einungis á hinu versta sem hent hefur álfuna á síðustu áratugum. Í bókum Ka- puscinski eru einnig ótal dæmi um þau mörgu gæfuskref sem stigin hafa verið um alla Afríku frá fyrstu skrifum hans um álfuna. Mikilvæg- asta áminning Afríkusagna Kapuscinski er þar að auki sú að alhæfingar eiga ekki við þegar rætt er um jafn víðfeðman heimshluta og álfan er. Afríka er, þrátt fyrir allt, jafnfjölbreytt og ólík innbyrðis og aðrar álfur heimsins og því er það jafngróf einföldun að tala um alla hluta hennar í sömu andrá og það væri að leggja að- stæður á Íslandi og í Aserbaídsjan að öllu sam- an, bara af því að ríkin eru teiknuð inn í sömu heimsálfu í kortabókum. Snilldarbrögð allegóríunnar Kapuscinski er ekki einungis frægur fyrir frá- sagnir sínar af lífinu og tilverunni í Afríku og víðar í Suðrinu. Nafn hans er einnig oft nefnt þegar talað er um allegórískar bókmenntir síð- ari ára. Um svipaðar mundir og mikil umbrot áttu sér stað í Póllandi og félagar í Samstöðu undir forystu Lechs Walesa kröfðust lýðræð- isumbóta af moskvuíhaldinu í Varsjá þá beitti Kapuscinski sínum eigin aðferðum til þess að hæðast og ráðast að einvöldunum í landi sínu. Í stað þess að fara í beina baráttu gegn yfirvöld- um heimalandsins skrifaði hann sögur af fárán- leika og grimmd einræðisherranna Múham- meðs Reza Pahlavi Íranskeisara (Keisari keisaranna, 1982) og Haile Selassie Eþíóp- íukeisara (Keisarinn, 1978). Pólverjar voru eftir áratugaundirokun ein- ræðisafla auðvitað orðnir þrautþjálfaðir í að lesa á milli línanna í skrifum landa sinna og greina það sem ekki síst var við átt og áttu ekki í nokkrum erfiðleikum með að sjá þá sneið sem Kapuscinski sendi stjórnvöldum í bókunum tveimur. Stjórnvöld í Póllandi áttu hins vegar erfitt með að athafna sig þó að þeim hefði verið tilgangurinn að fullu ljós enda vafasamt fyrir þau að setja sig upp á móti bókum þar sem harðstjórnir úti í heimi voru fordæmdar, sér- staklega í tilviki hins bandarísk-studda Írans- keisara. Raunar ætlaði Kapuscinski að fullkomna þrí- leik sinn með portrettum af einræðisherrum með bók um úganska harðstjórann Idi Amin en önnur meira aðkallandi verkefni voru farin að toga hann til sín undir lok níunda áratugarins. Þegar þarna var komið sögu var austurblokkin farin að sýna á sér veikleikamerki og allegór- ískar árásir gegn henni ef til vill ekki jafn að- kallandi og áður. Þess í stað fór sjálft hrunið á austurblokkinni að fanga æ meiri athygli Ka- puscinski og segja má að frá þeirri stund hafi það tímabil hafist á ferli hans sem hélst allt til æviloka þar sem hann færðist nær og nær sín- um eigin slóðum og uppruna. Þegar Austur-Evrópuþjóðirnar hófu hver af annarri að losa sig undan tökum kommúnískra leppstjórna sinna fór Kapuscinski að verða þess æ betur áskynja að hann kynni að vera að upp- lifa jafnsögulega tíma í sínum heimshluta og hann upplifði í Afríku nokkrum áratugum áður þar sem leppríkin væru ekki bara að losa tökin heldur stæði heimsveldið sjálft líka á brauðfót- um. Hann ákvað frá og með 1989 að fara nokkra leiðangra til Sovétríkjanna sjálfra og fylgjast með hraðri hnignun báknsins mikla og við- brögðum almennings og ráðamanna við ástand- inu. Í upphafi var auðvitað engan veginn full- ljóst hvaða stefnu atburðarásin myndi taka en þegar sú niðurstaða var ljós að Sovétríkin yrðu leyst upp, nánast í frumeindir sínar, þá ákvað Kapuscinski að fylgja líka eftir fyrstu tveimur árunum eftir að Sovétríkin breyttust í lausbeisl- að bráðabirgðaástand sem fékk nafnið Samveldi sjálfstæðra ríkja. Niðurstaðan var bókin Heimsveldið (1993) sem ef til vill var persónulegasta bók Kapusc- inski til þess tíma. Sjónarhorn hans hafði breyst frá fyrri bókum. Hann fór frá því að vera áhorf- andi að miklum þjóðfélagsbreytingum í lífi fjar- lægra þjóða til þess að upplifa hnignun og fall þess stórveldis sem hann sjálfur hafði verið undir járnhælnum á sem þegn eins leppríkja Sovétvaldsins. Hann slær strax persónulega tóninn í upphafi frásagnarinnar þegar hann dregur upp mynd af ógninni skelfilegu úr austri sem ræðst inn í heimabæ hans þegar hann er sjö ára barn. Sovéskir herir fara þá um og skilja eftir sig sviðna jörð, drepa og hafa á brott fólk sem síðan sást aldrei aftur. Þetta ógnvænlega upphaf kallast síðan sterklega á við þá laslegu og hjákátlegu mynd af stórveldinu sem dregin er upp af síðustu dögum þess þegar ekkert stendur eftir nema sjálfsblekkingin ein um það að líkið andi enn. Aftur til upprunans Kapuscinski sendi reglulega frá sér efni á móð- urmáli sínu en nokkur bið hefur orðið á því á allra síðustu árum að verk eftir hann sé sett í al- þjóðlega dreifingu. Á síðustu misserum hefur hins vegar þýðing á fyrrnefndri bók hans, Á ferð með Heródótusi, komið út á sífellt fleiri tungumálum. Þar færist Kapuscinski enn nær sjálfum sér og uppruna sínum. Þættirnir í þess- ari síðustu þýddu bók hans tengjast flestir mót- un hans sem erlends fréttaritara og segja frá upphafi ferilsins, meðal annars Indlandsferð- inni sem greint var frá í upphafi þessarar grein- ar. Inn í frásögnina blandar hann svo sagna- þáttum af Heródótusi, forn-gríska sagnaritaranum sem Kapuscinski segir ekki einungis vera sinn helsta áhrifavald heldur einnig sinn dyggasta förunaut í áranna rás. Þótt Kapuscinski hafi verið kominn vel á átt- ræðisaldur var hann fjarri því hættur að skrifa. Raunar bentu nýleg viðtöl við hann til þess að enn hefði hann verið að færast nær eigin upp- runa því að hann sýndi örlögum Pinsk, gamla heimabæjarins síns, sífellt meiri áhuga og úti- lokaði ekki að sögur þaðan yrðu efni einhverra af hans næstu bókum. Aðdáendur Kapuscinski halda sjálfsagt í þá von að hann hafi skilið hand- rit slíkrar bókar eftir fullklárað þannig að hún megi koma út nú eftir dauða hans og marki þar með lokakaflann í hans höfundarverki. Það væri viðeigandi að þannig lokaðist hringur Ryszard Kapuscinski og það sannaðist enn einu sinni að hver vegur að heiman er að lokum vegurinn heim. Reuters Ryszard Kapuscinski „Áður en yfir lauk á áratugalöngum ferli hans hafði hann upplifað 27 valdarán og stjórnarbyltingar, óteljandi borgarastríð og horft upp á mikla grimmd og eymd en einnig upplifað fagrar og fjölbreyttar hliðar daglegs líf í Suðrinu sem sjaldan er sagt frá í vestrænum fjölmiðlum.“ Hægláti heimsborgarinn frá Pinsk Pólski rithöfundurinn Ryszard Kapuscinski lést fyrir rúmri viku en hann var einn af áhugaverðustu rithöfundum samtímans og sérhæfði sig í ritun bóka á mörkum skáld- skapar og blaðamennsku. Hér er tæpt á helstu verkum hans sem meðal annars fjalla um pólitískt ástand í Indlandi, Afríku og heimalandi höfundarins. »Hann fór frá því að vera áhorfandi að miklum þjóð- félagsbreytingum í lífi fjar- lægra þjóða til þess að upplifa hnignun og fall þess stórveldis sem hann sjálfur hafði verið undir járnhælnum á ... Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.