Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 03.02.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 3. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Björn Þór Vilhjálmsson vilhjalmsson@wisc.edu Í grein sinni í Lesbók Morgunblaðsins (06.01.07) setur Sigurjón Baldur Haf- steinsson fram gagnrýnar at- hugasemdir um stöðu íslenskrar kvikmyndamenningar og full ástæða er til að fagna slíkum skrifum enda ljóst að ýmislegt mætti betur fara í þeim efnum. En um leið og hægt er að taka undir með ýms- um fullyrðingum Sigurjóns má staldra við aðrar og skoða hvaða forsendur höfundur gefur sér fyrir gagnrýni sinni. Sigurjón heldur því m.a. fram að innlend um- ræða um íslenskar kvikmyndir sé um of bundin við staðla og aðferðafræði annarrar listgreinar, en þar á hann einkum við bókmenntir, og segja má að þarna sé að finna skurðpunkt hinna ýmsu athugasemda höfundar. Sigurjón álítur að bók- menntasagan sé svo fyrirferðarmikil í umræðu um kvikmyndir að sjálf kvikmyndin eigi á hættu að týnast inn í eins konar afdölum óskyldrar listgreinar, og þaðan sé nauðsynlegt að bjarga henni. Færa hana með öðrum orðum inn í öðru- vísi og ómengaðan umræðuramma sem ein- skorðast við kvikmyndina sem slíka, kosti henn- ar og galla, en einkum sérkenni. "Kvikmyndalistamenn og fjölmiðlafólk setja myndirnar (...) í samhengi við íslenska bók- menntasögu eins og íslensk kvikmyndagerð sé hluti hennar", segir Sigurjón og vísar til viðtöku sakamálamyndanna Mýrin og Köld slóð, sem báðar komu út 2006. Þær voru samkvæmt Sig- urjóni vafningalaust settar í samhengi við hefð bókmenntanna, einkum Arnald Indriðason, í stað þess að nota nærtækari dæmi líkt og for- vera þessara mynda (í tegundarlegum skiln- ingi) innan miðilsins í umfjöllun um merkingu og hlutverk þeirra. Frekar en að fjalla um þessar myndir í sam- hengi bókmennta hefðu ummælendur sam- kvæmt Sigurjóni betur rætt "hvernig leik- stjórar, handritshöfundar, kvikmyndatökumenn og aðrir sjá sig í sam- hengi við Morðsögu (1977) í leikstjórn Reynis Oddssonar, Ryð (1990) í leikstjórn Lárusar Ým- is Óskarssonar og Foxtrot (1988) í leikstjórn Jóns Tryggvasonar“. Hér er bent á þá stað- reynd að ákveðin hefð hafi hugsanlega skapast á Íslandi varðandi gerð spennumynda og því sé sá möguleiki fyrir hendi að fjalla um hefðina þegar ný verk bætast í hópinn. Slík nálg- unarleið kann að bregða birtu á ákveðna þætti í íslenskri kvikmyndagerð, til dæmis að sam- kvæmt myndatali Sigurjóns hafa sextán ár liðið síðan viðlíka mynd var gerð. Reyndar mætti telja nýrri og að mörgu leyti skýrari dæmi um atlögu íslenskra kvikmyndagerðarmanna að glæpamyndaforminu, þar sem til dæmis má deila um hvort Morðsaga teljist yfirleitt til þessa forms, þrátt fyrir titilinn. Þar má nefna myndir á borð við A Little Trip to Heaven, Sporlaust, Nei er ekkert svar og Blossa. Þá er ekki úr vegi að benda á að kvikmynd Baltasars Kormáks, Mýrin, er byggð á skáldsögu Arnalds svo ekki getur það talist fjarstæðukennt að kvikmyndaverkið sé sett í samhengi við ís- lensku glæpasöguna og ekki síður þann áhuga sem hún hefur skapað á "krimmahefðinni" í víð- ara samhengi. Hins vegar er það að mörgu leyti rétt að ís- lenskar kvikmyndir eru oft og tíðum settar í samhengi við bókmenntahefðina en nær væri e.t.v. að spyrja hvers vegna svo sé en að for- dæma slíkt athæfi með öllu, en skrif Sigurjóns jaðra við hið síðarnefnda. Þegar litið er um öxl er ljóst að íslensk kvik- myndasaga stendur í nánum tengslum við bók- menntahefðina, jafnvel nánari en algengt er í öðrum þjóðarbíóum, en birtingarmynd þess er einkum sú að kvikmyndir sem byggja á bók- menntaverkum hafa fylgt íslenskri kvikmynda- sögu frá upphafi. Óþarfi er að telja fram dæmi, kvikmyndasagan talar sínu (mynd)máli, en það væri vissulega virðingarvert rannsóknarefni að skýra þessi tengsl nánar. En í ljósi þess að mál- um er svo háttað verður það að teljast eðlilegt að ummælendur sem fjalla um íslenska kvik- myndamenningu líti að einhverju, jafnvel um- talsverðu leyti, til bókmennta. Þess má geta að ein af þeim þremur myndum sem Sigurjón nefnir sem dæmi um sjálfstæða kvikmynda- hefð, Ryð, er byggð á þekktu og vinsælu leik- verki, Bílaverkstæði Badda, sem höfundur sjálfur, Ólafur Haukur Símonarson, lagar að hvíta tjaldinu. Tengsl listforma gera með öðrum orðum vart við sig víða. Heimfærð listform Ýmsum kann reyndar að finnast þau rök að kvikmyndin eigi undir högg að sækja frá bók- menntum nokkuð athyglisverð, ekki síst vegna þess að bókmenntafólk hefur haft áhyggjur af því á undanförum áratugum hver afdrif bók- menntanna verði andspænis sívaxandi framrás myndrænna fjölmiðla á borð við sjónvarp og kvikmyndir. Ekki er þó annað að sjá en að Sig- urjón sé nokkuð uggandi um framtíð kvikmynd- arinnar þar sem hún hírist, misskilin og óhreinkuð, í faðmi bókmenntaþjóðarinnar. Máli sínu til stuðnings reiðir Sigurjón fram nokkuð fjölbreytt dæmasafn, en þar má nefna nafn Eddu-verðlaunanna (tilvísun í bók), feril Þráins Bertelssonar (frá leikstjóra til rithöf- undar; en hér virðist Sigurjón gefa sér það að Þráinn eigi ekki eftir að leikstýra fleiri kvik- myndum), frímerkjaútgáfu Íslandspósts í tilefni af aldar afmæli kvikmyndasýninga hérlendis (en frímerki eru jú notuð til að auðvelda boð- skipti á formi ritaðs máls og koma kvikmyndum harla lítið við), og áherslu Kvikmyndamiðstöðv- arinnar á handritaskrif. „Það er auðvitað eitt- hvað skrítið við þessa mynd“, segir Sigurjón, „að heimfæra eitt listform yfir á annað í sífellu“. Í þessari síðastnefndu staðhæfingu Sigurjóns gefur að líta mikilvæga forsendu gagnrýni hans á íslenska kvikmyndamenningu en hún virðist vera sú að sérkenni kvikmyndarinnar sem list- forms glatist í umræðu og menningarlegum at- höfnum sem blanda saman ólíkum listformum. Þannig reynist ríkjandi umræðu líka fyr- irmunað að takast á við kvikmyndaformið á þann veg sem það verðskuldar. Enda þótt Sig- urjón leggi einkum áherslu á viðtökusvið ís- lenskra kvikmynda er vart hægt að skilja hann öðruvísi en svo að undir gagnrýni hans liggi það sjónarmið að kvikmyndin sé listform sem harla lítið eigi skylt við aðrar listgreinar, s.s. bók- menntir, og því sé nauðsynlegt að forðast hvers konar tegundarrugling þegar um hana er rætt. Þetta er ekki nýtt viðhorf en er að sama skapi varhugavert. Tilraunir til að skapa skýr landa- mæri milli listgreina eiga sér langa sögu en þótt þau hafi notið fylgis á ákveðnum tímabilum hef- ur það sýnt sig að þetta er ekki árangursrík nálgunarleið og leiðir jafnan til ýmissa röklegra vandamála. Þess ber að geta að á sama tíma og hugmyndinni um sérkenni listforma var haldið fram af hvað mestu krafti, en það var sennilega á árunum 1915-1935, voru andstæðar raddir þó áberandi. Rökunum um „sérkenni listforma“ þegar að kvikmyndum kom var gjarnan svarað með því að benda á að kvikmyndin, ólíkt öðrum listformum, þróaðist ekki yfir tíma heldur var tæknileg uppfinning og nýtti sér í raun eig- inleika og möguleika ólíkra listforma við að framkalla áhrif. Ef „óhreint“ listform er yf- irleitt til, þá er það einmitt kvikmyndin. Ef um- ræðan um kvikmyndir á að vera „kvikmynda- leg“ í einhverjum sértækum skilningi gefur auga leið að eitthvað sé til sem er „kvikmynda- legt“, en það er hægara sagt en gert að ein- angra þetta sérstaka fyrirbrigði. Sigurjón nefnir einnig til sögunnar önnur dæmi um að „mælistika bókmenntanna“ sé not- uð til að meta kvikmyndir, en þar vísar hann til þess að Kvikmyndamiðstöð Íslands mótar for- sendur fyrir styrkveitingum sínum að nokkru leyti á faglegu mati á innsendum handritum, eða skriflegum lýsingum á verkefnum. Sú stað- reynd að „íslenskir kvikmyndagerðarmenn þurfa að skila inn skriflegum lýsingum“ til Kvikmyndamiðstöðvar virðist því fara nokkuð fyrir brjóstið á höfundi sem sömuleiðis hnýtir í þá „gríðarlegu áherslu“ sem lögð er á námskeið „í handritsskrifum í opinberum styrkveit- ingum“ og telur þessar áherslu jafnvel vera á „kostnað annarra greina kvikmyndagerðar“. Fáir myndu halda því fram að mats- og styrkt- arkerfi Kvikmyndamiðstöðvarinnar, og þær forsendur sem liggja að baki ákvarðanna, sé með öllu gallalaust, en lesandi greinar Sig- urjóns hlýtur að vera algerlega gáttaður á þess- um málaflutningi enda er flestum ljóst að þótt vissar undantekningar séu til eru handritsskrif vanalega fyrsta skrefið í kvikmyndagerð og það er ekkert óvanalegt við að meta möguleika kvikmyndar útfrá drögum að handriti, eða full- búnu handriti, enda hefur sú aðferð verið notuð hvívetna síðan tekið var að búa til kvikmyndir í nútímalegum skilningi, og er þar enginn munur á kvikmyndaverkbóli í Hollywood fyrir fimmtíu árum eða Kvikmyndamiðstöðinni í dag (skiln- ingurinn á því hvað handrit nákvæmlega er hef- ur þó breyst með tímanum). Það er einnig ljóst að vöxtur hefur hlaupið í fræðilega umræðu um kvikmyndir hérlendis á undanförnum árum og á það ekki síst rætur að rekja til umsvifamikillar fræðiútgáfu en að baki hennar standa einstaklingar sem eiga það sam- eiginlegt að stunda rannsóknir og kennslu í hugvísindum við Háskóla Íslands. Hér er um að ræða útgáfur á greinasöfnum á borð við Heim- ur kvikmyndanna (1999), Áfangar í kvikmynda- fræðum (2003) og Kvikmyndagreinar (2006), auk þýðinga á bókum en þar mætti nefna bæði Sögu kvikmyndalistarinnar eftir David Park- inson og Ímynduðu táknmyndina eftir Christi- an Metz. Staða útgáfu á kvikmyndaritum berst í tal hjá Sigurjóni en hann nefnir að aðeins er til eitt yfirlitsrit um íslenska kvikmyndasögu en það er bæði smátt í sniðum og á ensku. Þarna skýtur vissulega skökku við og óhætt er að taka undir með Sigurjóni varðandi það að úrbóta er þörf á þessu sviði. Hér má þó ekki gleyma út- gáfu greinasafnsins Kúreki Norðursins þar sem leitast er við að kortleggja feril íslensks kvik- myndaleikstjóra, Friðriks Þórs Friðrikssonar. Stórt skref í eflingu kvikmyndafræðilegrar umræðu á Íslandi er stofnun kvikmyndafræði sem greinar innan Háskóla Íslands, en Sigurjón gerir lítið úr því sem og ofangreindri útgáfu- starfsemi er hann segir að kvikmyndafræði hafi verið kennd innan bókmenntafræðiskorar HÍ um árabil og orðræðan eigi sér því stað „með kenningum og tungumáli bókmenntafræð- anna“, án þess þó að taka skýr dæmi máli sínu til stuðnings. Þó svo að stofnun greinarinnar hafi átt sér stað í skrefum er kvikmyndafræðin sjálfstæð aukagrein innan stærri þverhugvís- indalegrar skorar sem nefnist Bókmennta- fræði- og málvísindaskor, en þar eru kenndar auk kvikmyndafræði greinar á borð við almenn málvísindi, táknmálsfræði, almenna bók- menntafræði, þýðingafræði, listfræði og menn- ingarfræði ýmist sem aðal- eða aukagreinar. Eftir því sem ég best veit veitir kvikmynda- fræðingur greininni forstöðu, og þar kennd kvikmyndafræði – ekki bókmenntafræði. Eins og áður segir er full ástæða til að taka samband íslenskra kvikmynda við bókmenntir og íslenska bókmenntahefð til umræðu, enda ljóst að tengslin eru djúpstæð og margflókin. Slík umræða myndi þó kalla á víðtækari grein- ingu en Sigurjón býður upp á í umfjöllun sinni, þar sem teknir yrðu inn í myndina þættir á borð við vægi bókmennta í menningarlandslaginu og fjárhagslegt umhverfi kvikmyndagerð- armanna, og hvernig þessir þættir tvinnast hugsanlega saman. Þá er forvitnilegt að Sig- urjón horfir algerlega framhjá fræðilegri og faglegri umræðu um kvikmyndir á Íslandi, eins og hún hefur verið að þróast undanfarin ár, en einblínir þess í stað á dæmi sem stundum eru óljós en á öðrum stundum sérkennilega sértæk. Mýrin „Ekki er þó úr vegi að benda á að kvikmynd Baltasars Kormáks, Mýrin, er byggð á skáldsögu Arnalds svo ekki getur það talist fjarstæðukennt að kvikmyndaverkið sé sett í samhengi við íslensku glæpasöguna og þá ekki síður þann áhuga sem hún hefur skapað á „krimmahefðinni“ í víðara samhengi,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson. Íslenskar kvikmyndir í klóm bókmennta? Höfundur er bókmenntafræðingur. Sigurjón Baldur Hafsteinsson hélt því fram í grein í Lesbók fyrir stuttu að umræða um ís- lenskar kvikmyndir miðist um of við sögu bókmenntanna. Í þessari grein eru gerðar at- hugasemdir við þetta viðhorf og fleira sem fram kom í grein Sigurjóns Baldurs en um- ræðunni jafnframt fagnað.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.