Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2007, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 17. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Ara Trausta Guðmundsson aritrausti@linuhonnun.is ! NÚ þegar framkvæmdir eru hafnar við tónlistar- og ráðstefnu- húsið (TRH) fara enn einu sinni fram umræður um hönnun og rekstur þessarar „þjóðarhallar“. Ólafur Hjálmarsson verkfræð- ingur, Egill Ólafsson tónlist- armaður og Stefán Hermannsson verkfræðingur og forsvarsmaður verkefn- isins hafa skipst á orðum í Lesbók, m.a. um ferli ákvarðana, hljómburð, rekstrarform og ólíkar greinar tónlistar sem þarna eiga sitt vígi. Enn fremur mun Björn Bjarnason ráðherra hafa tekið þátt í umræðum með skrifum á heimasíðu sinni. Um öll þessi orð fjalla ég ekki. Ekki heldur um hönnun byggingarinnar eða útlit. Ég kom lítillega að umræðunum nýverið. Stuttur pistill í Lesbók lýsti efasemdum um hagkvæmni byggingarinnar og samþættun tónlistarstarfsemi og ráðstefnuhalds. Ég sé ekki svör við efasemdunum í skrifum þeirra sem málið er skyldast enda er flest vænt- anlega of seint fram sett. Allt er klappað og klárt og byggingarframkvæmdir hafnar. Ég lét líka í ljós undrun, eins og ég held margir aðrir, á að tónlistarhús þjóðarinnar úthýsti í raun einum geira: Tónlist sem er samþætt sviðslist, þ.e. flutningi, ópera, óperetta, söngleikja og balletta. Á til- teknum tímapunkti var að vísu bætt við hljómsveitargryfju í aðalsal og grunnbún- aði sviðs. En þeir sem leggja áherslu á þetta listform munu ekki hafa fasta starfs- aðstöðu í húsinu. Aðeins verður unnt að efna til stopulla sýninga á slíkum verkum og þá trúlega með töluverðri fyrirhöfn vegna leikmynda og undirbúnings; jafnvel með takmörkunum vegna fyrirferðar og mikils kostnaðar. Eða með öðrum orðum: Ekki er gert ráð fyrir að tónlistarhús þjóð- arinnar hýsi alla vaxtarsprota tónlistar með öllu sem fylgir, þar með talinni samfelldri starfsemi. Er það vegna of mikils kostn- aðar? Ekki miðað við núverandi hönnun. Er það vegna ósamkomulags meirihluta tón- listarmanna/sviðslistarmanna úr ólíkum geirum tónlistar? Mér er það til efs. Er það vegna listrænna krafna? Það væri langsótt- asta skýring í heimi. Er það vegna vantrúar á framtíð tónlistar sem er samþætt sviðsl- ist? Ekki bendir framgangur óperu og list- dans til þess. Mér er enn fyrirmunað að skilja þetta ráðslag og gagnrýni það. Vel getur verið, á einhverjum tímapunkti í löngum aðdrag- anda þessa mikla húss, að forsvarsmenn t.d. óperuflutnings eða danslistar hafi sagst ekki vilja eiga heima á hafnarbakkanum. Ég held raunar að það eigi ekki við, síðustu árin að minnsta kosti. En gamalt „nei“ eða „ég veit ekki með vissu“ veitir ekki sjálf- krafa fjarvistarleyfi listgreina til langrar framtíðar í „þjóðarhöllinni“. Framsýni er mikilvæg í menningu og listum. Og ekki spillir að tónlist veltir þegar vel á annan tug milljarða króna, og stefnir upp á við. En gert er gert og horfið það sem étið er eins og einhver sagði einhvers staðar. Kópavogsbær mun líklega verða bakhjarl óperu- og söngleikjaflutnings og ég hef þakkað þann áhuga og víðsýni forsvars- manna bæjarins eins og margir. Um fram- tíðaraðstöðu ballett- og danssýninga veit ég ekki. Hitt er víst að það má heita ótrúlegt hve langt þessar listgreinar hafa náð í starfsumhverfinu sem þeim hefur verið bú- ið. Raunar á það jafnt við um ýmsar aðrar listgreinar. Það væri forvitnilegt, sem lokaframlag mitt til þessarar umræðu í bili, að spyrja þá sem svara vilja: Hvaða rök eru fyrir því að hanna ekki TRH sem starfsstöð allra tón- listargreina er krefjast mikils rýmis, mannafla og fjár, í jafn litlu samfélagi og því íslenska? Flókin spurning krefst einfaldra og skýrra svara. Eru ekki allir með í leiknum? UPPHRÓPUN Anna Kristín Jónsdóttir anna.kristin.jonsdottir@gmail.com S ígild spurning um hlutverk fjöl- miðla hefur enn vaknað eftir um- fjöllun síðustu vikna um Byrgið, Heyrnleysingjaskólann, refsi- lækkun Hæstaréttar og Breiða- víkurheimilið. Hver eru áhrif fjöl- miðlanna og þeirra frétta sem þeir birta? Eiga þeir að flytja hlutlausar frásagnir og láta les- endum, áheyrendum og áhorfendum eftir túlk- unina? Felst aðhaldshlutverk þeirra í því að þeir leiði og móti almenningsálit, sérstaklega í erf- iðum og viðkvæmum málum? Frásagnir af harðræði og ofbeldi sem ungir drengir máttu sæta í Breiðavík á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar hafa varla látið nokkurn ósnortinn. Flestir taka undir það að eitt meginhlutverk fjölmiðla sé að varpa ljósi á hluti sem miður fara í okkar samfélagi, og það sé mikils vert að draga fram mál sem legið hafa í þagnargildi. Umræðan nú hefur orðið til þess að málið var rætt á fundi ríkisstjórnar og ákveð- ið að bjóða þeim, sem eiga um sárt að binda eftir vonda vist í Breiðavík, aðstandendum og fyrr- verandi starfsfólki sálfræðiaðstoð. Sérstakri nefnd var falið að rannsaka starfsemi Breiða- víkur og annarra upptökuheimila ríkisins frá því á sjötta áratugnum fram til 1980. Þannig eru áhrif fjölmiðla sem vöktu þessa umræðu nú greinileg. En af hverju ætli frásagnir af hrottaskap og misþyrmingum í Breiðavík veki svo sterk við- brögð núna en lítil sem engin þegar frá þeim var greint í ævisögu sem kom út fyrir rúmum ald- arfjórðungi? Er það umfjöllunin og miðillinn sem kallar á viðbrögðin? Í umræðum á þingi var vísað til sjónvarpsins en ekki dagblaða, er þarna enn staðfest hve mikil tilfinningaleg áhrif sjón- varpið hefur? Eða er það tíðarandinn, var eng- inn tilbúinn að hlusta á það fyrir tuttugu, þrjátíu árum, þegar ógæfumenn sögðu frá því að þeim hefði verið misþyrmt sem börnum, þó þeir væru í umsjá yfirvalda? Er það bara umhverfið og það að þessar fréttir af Breiðavík koma nú í kjölfar frétta af Byrginu og Heyrnleysingja- skólanum sem hafa á okkur dunið undanfarnar vikur og mánuði? Ætli einhver blanda sé ekki líklegust. En um leið og fólk situr heima hjá sér nær lamað andspænis frásögnum af mannvonsku og fólskuverkum, þá heyrast raddir sem segja að gæta skuli hófs í umfjöllun um svo átakanleg mál. Það sé ekki fjölmiðlanna að dæma. Það verði að gæta varúðar þegar fólk sé kallað til vitnis um löngu liðna atburði og sakir bornar á nafngreinda menn án þess að þeir geti svarað fyrir sig. Miklar umræður spunnust í net- heimum um það hvort ætti að sýna grátandi fólk í viðtölum og sýndist sitt hverjum. Það er vissulega ekki algengt að sjá fólk gráta í frétt- um, helst, þegar við sjáum hamfarafréttir langt utan úr heimi þar sem fólk syrgir ástvini sína, Sjaldnar að viðmælendur í innlendu frétta- viðtali sjáist fella tár. Einmitt þess vegna er það líka mjög áhrifamikið, en enn og aftur vakna spurningar um hvenær sé komið nóg og hvenær tilfinningar fólks séu bornar á torg, án þess að þjóni nokkrum tilgangi. Umræður um hlutverk fjölmiðlanna og um- fjöllun þeirra um dómsmál, varð líka allhávær fyrir skömmu þegar Morgunblaðið birti myndir af dómurum á forsíðu sinni, eftir að dómur í kynferðisbrotamáli hafði verið mildaður í Hæstarétti. Sérstaka athygli vakti uppsetning fréttarinnar, myndunum var raðað þvert yfir forsíðuna og í fyrirsögninni var vísað beint til dómaranna, milduðu dóminn stóð þar, sögnin í fleirtölu og germynd. Í fréttum af dóms- uppkvaðningum er nú algengara að vísað sé til dómstólsins en mannanna sem hann skipa. Fólk skildi forsíðuna nokkuð misjafnlega við fyrstu sýn. Sumir sáu myndirnar og héldu að hér væri verið að segja frá skipsskaða, aðrir sáu þarna sakborninga. Þessi túlkun var öll byggð á tákn- um og uppsetningu frekar en texta fréttarinnar. En það var að minnsta kosti augljóst að þarna lýsti blaðið eða ritstjórar þess andúð á nið- urstöðu Hæstaréttar. Þessi uppsetning vakti hörð viðbrögð, sérstaklega í röðum lögmanna og dómara sem þótti ómaklega vegið að dóm- urunum. Morgunblaðið væri hér farið að feta út á veg gulrar pressu sem ekki sæmdi sómakæru blaði, það væri ekki þess hlutverk að stýra al- menningsálitinu. Aðrir fögnuðu því að tekin væri eindregin afstaða og það væri þakkarvert að senda skilaboð um að þyngja þyrfti refsingar við kynferðisbrotum, sérstaklega þegar brotið væri á börnum. Þar ættu fjölmiðlar ekki að sitja hjá heldur beina gagnrýni og gremju að dóm- stólunum og mönnunum sem þá skipa. Í þessum málum hafa fjölmiðlar hreyft við fólki og bent á misbresti sem þarf að laga. Þeg- ar umfjöllun þeirra sleppir, í málum á borð við Byrgið og Breiðavík, þurfa stjórnvöld að rann- saka þau af yfirvegun og ró. En mestu skiptir þó að þeir sem hlutu skaða og eru hjálparþurfi fái hana nú. FJÖLMIÐLAR » Fólk skildi forsíðuna nokk- uð misjafnlega við fyrstu sýn. Sumir sáu myndirnar og héldu að hér væri verið að segja frá skipsskaða, aðrir sáu þarna sakborninga. Þessi túlk- un var öll byggð á táknum og uppsetningu frekar en texta fréttarinnar. Lýsandi eða leiðandi, eiga fjöl- miðar að móta almenningsálit? I Mengun er orð sem sjaldan er notað í list-heimum. Þó hafa listheimar ekki farið var- hluta af þessum stóra velmegunarkvilla. Þetta er skoðun ónefnds manns, sem þoldi illa þá tilburði er rokkgoðið hans var klass- íserað upp, með því að útsetja tónlist þess fyrir sinfóníuhljómsveit. Ef hugmynd þessa manns um mengun í listum er skoðuð og reynt að útfæra hana, hefur þess konar mengun ýmsar birtingarmyndir. Auðgrein- anlegust þeirra er þegar listaverk er tekið úr samhengi sínu og kynnt á nýjan og öðruvísi máta, allt annan en þann sem skapari þess hefði getað rennt í grun að gæti orðið. II Sígilt myndverk er notað á umbúðir ut-an um mat, klassískt tónverk er notað til að auglýsa klósetthreinsi eða dömubindi, snúið er upp á Shakespeare í sjampóauglýs- ingu, og þar frameftir götunum. III Nú er það spurningin hvort þetta sé al-slæmt og hversu langt sæmdarréttur listamanns nær, hvort sem hann er lífs eða liðinn. Flestir hljóta að vera sammála um það að sæmdarrétt beri að virða takmarka- laust. En hvað er sæmd og hvað er ekki sæmd? Það efast enginn um að fagmenntað og hæfileikaríkt tónlistarfólk sinni sínum verkefnum eftir bestu getu og fagmennsku. Maðurinn fyrrnefndi er aðdáandi Johns Len- nons og gekk út af Lennon-tónleikum í haust, með þeim orðum að það væri mengun að nota sinfóníuhljómsveit í lögum hans. Hann hafði þó viljað gefa þessu sjens. Þetta viðhorf er alveg jafn gilt og viðhorf þeirra sem ekki þoldu það þegar Valdo de los Rios poppaði upp sígildar sinfóníur á árunum kringum 1970. Í þessu tilfelli er sæmdin sennilega ekki það eina sem máli skiptir, það gera líka hugtök á borð við virðingu og smekk. IV Annar maður þoldi illa bókmenntir ámjólkurfernum; kvaðst vilja ráða því sjálfur hvenær hann gripi í bók og kærði sig ekki um að hafa lýsingu á Agli Skallagríms- syni í morgunverð á hverjum degi, eða mis- góð ljóð. V En af því að Lennon-aðdáandinn kallaðiþetta mengun, má ósköp vel velta því hugtaki fyrir sér í samhengi listanna. Er listaverkið sjálft orðið að mengun, þegar það ratar til njótandans á þann hátt sem hann kærir sig ekki um að njóta þess? Getur verið að góð listaverk séu hreinlega „of oft kveðin“ og að maður þurfi frið fyrir þeim líka? Það nægir að líta til Monu Lisu, verst notuðu stúlku sögunnar þar sem hún birtist manni á servíettum, á flutningatrukki með jógúrtdós í hægri hönd á smákökuboxi og útsaumuð í púða. Langar mann nokkuð að sjá verkið sjálft lengur? NEÐANMÁLS Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.