Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2007, Page 10

Lesbók Morgunblaðsins - 17.02.2007, Page 10
10 LAUGARDAGUR 17. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Gísla Sigurðsson napoleo@simnet.is Í bókaflóðinu síðast á liðnu ári kann það að hafa farið framhjá einhverjum að út komu tvær bækur til viðbótar við aðrar sex, sem áður voru út komnar og allar fjalla þær um friðaðar, ís- lenzkar kirkjur. Ritröðin heitir Kirkjur Íslands og að henni standa fjórar traustar stofnanir, Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd ríkisins og Biskupsstofa. Ritstjórn skipa Margrét Hall- grímsdóttir þjóðminjavörður, Þorsteinn Gunn- arsson, formaður Húsafriðunarnefndar ríkisins, og Karl Sigurbjörnsson biskup. Af þessu má ráða að hér hefur verið staðið að verki á svo vandaðan hátt sem verða má. Um kirkjurnar rita; Þór Magnússon, Guð- mundur L. Hafsteinsson, Jón Jónsson Guðrún Harðardóttir, Þór Hjaltalín, Unnar Ingvarsson, Kristmundur Bjarnason, Gunnar Bollason, Þór- ir Stephensen og Hörður Ágústsson. Hér er komið það grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi, sem vantað hefur til þessa. Fjallað er um kirkjurnar frá sjónarhóli bygg- ingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Minn- ugir þess að myndir segja oft meira en orð, hafa aðstandendur bókaflokksins látið ljósmynda kirkjurnar eins og með þurfti, einnig einstaka gripi. Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari á heiðurinn af því. Auk þess eru birtar samræmd- ar teikningar af kirkjunum. Þetta verk hófst snemma árs 1996 með því að forráðamenn í Húsfriðunarnefnd og á Þjóð- minjasafni komu saman og var þá stefnt að því að fyrsta bókin kæmi út á þúsund ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Það stóðst næstum því; fyrsta bókin um þrjár friðaðar kirkjur í Ár- nesprófastsdæmi kom út 2001. Síðan komu út tvær bækur árið 2002, einnig um kirkjur í Ár- nesprófastsdæmi og ári síðar kom sú þriðja með kirkjum á Suðurlandi. Næst voru teknar fyrir kirkjur úr Skaga- fjarðarprófastsdæmi og komu út tvær bækur um þær á árinu 2005 og nú síðast tvær bækur um húnvetnskar kirkjur. Mér telst svo til að þarna sé búið að fjalla um 55 kirkjur og það er allnokkurt verk. Kirkjurnar eru allar eldri en frá 1918 Aðeins er fjallað um friðaðar kirkjur, en þær eru allar eldri en frá árinu 1918. Þeir sem lítið hafa velt fyrir sér hvaða almennt gildi gamlar kirkjur hafi, gætu ef til vill spurt sem svo: Hvað er eiginlega hægt að segja um fáeinar gamlar kirkjur og fylla með því átta bækur? Þeim hinum sömu skal þá sagt að þarna er af miklu menningarlegu efni að taka, sem hér er afar skipulega fram sett, til dæmis er í fyrsta lagi fjallað um sjálfan kirkjustaðinn og þekkta presta sem þar hafa þjónað. Í annan stað er rak- in byggingarsaga viðkomandi kirkju og bæði grunn- og útlitsteikningar eru birtar með. Kirkjunum er lýst, bæði að innri og ytri gerð og síðast en ekki sízt er yfirlit yfir kirkjubúnað og gripi kirknanna, þar á meðal vitaskuld alt- aristöflur. Engin þessara 55 kirkna er svo aum að hún eigi ekki altaristöflu og nokkrar eiga stórmerk listaverk Of oft komið að læstum dyrum Á ferðum um landið reyna áhugamenn um kirkjur oft að leggja smá lykkju á leið sína og skoða merkar kirkjur. En þá gerist það æði oft að komið er að læstum dyrum. Fari menn heim á bæinn í leit að lykli, eða fá einhvern til að ljúka upp kirkjunni, hefur það að minnsta kosti æði oft komið fyrir mig að enginn er heima. Tímarn- ir hafa breytzt og nú er ekki hægt að ganga að því sem vísu að bóndinn sé heima við og hús- freyjan á sínum stað í íbúðarhúsinu. Ugglaust er kirkjum læst af ótta við að óboðnir gestir komi og kunni að gera einhvern óskunda eða jafnvel að þeir taki ófrjálsri hendi merka gripi. Líklega er sú hætta afar lítil og þeir sem fara um í ránshug búast tæplega við neinu í gömlum kirkjum, sem hægt væri að koma í verð. Þeir sem standa að friðuðum kirkjum þyrftu að gera með sér samkomulag og auglýsa að þessar kirkjur verði opnar ákveðinn tíma á degi hverjum yfir hásumarið. Þá væri hægt að skipu- leggja ferðir og heimsækja nokkrar kirkjur í hvert skipti. Efni þessara bóka er lýsing á menningararfi okkar, og margháttuðum afrekum einstaklinga. Það sem kom mér mest á óvart er hvað sumar litlar kirkjur á afskekktum stöðum eiga gull- fallega gripi og þó að þar sé engum arkitekt til að dreifa, heldur hafi kirkjusmiðurinn sjálfur hannað um leið og hann byggði, þá lofa sumar þessara kirkna meistara sína. Á frægum höfuðbólum býst gesturinn jafnan við heldur meiri íburði, en raunin er alls ekki alltaf sú. Flestir vita að Hóladómkirkja sæmir vel hinu forna biskupssetri og að hin fræga Hólabrík, sem er stærsti og veglegasti gripur kirkjunnar, gæti verið einnar messu virði og minnsta kosti vel þess virði að taka á sig krók- inn heima að Hólum. Byggt fyrir aldir Á öðru norðlenzku höfuðbóli, Þingeyrum, hefur verið byggt fyrir næstkomandi aldir svo sómi er að. Þingeyrakirkja blasir við frá þjóðveginum þegar ekið er norður – eða suður. Þangað er að- eins smá útúrkrókur, en þessi kirkja er glæsi- legt minnismerki um stórhug Ásgeirs Ein- arssonar, bónda og alþingismanns. Hún er í rómönskum stíl, steinhlaðin af Sverri Runólfs- syni, sem fyrstur manna lærði fagið erlendis, og grjótið í hana var dregið á ísum úr Ásbjarn- arbjörgum, vestan við Hóp. Á frægu sunnlenzku höfuðbóli, Bræðratungu, gæti gesturinn búizt við stærri kirkju. Hún er lítil en snotur og eitt af verkum brautryðjand- ans Rögnvaldar Ólafssonar. Ekki eru heldur stórar og íburðarmiklar kirkjur á sunnlenzku sögustöðunum, Haukadal, Mosfelli og Þingvöll- um og margar kirkjur búa betur af merkum gripum en hin auðuga Strandarkirkja. Aðrar koma á óvart eins og Tungufellskirkja í Hrunamannahreppi. Fljótt á litið er undarlegt að kirkjustaður skuli vera á innsta bæ í hreppn- um, í næsta nágrenni við Gullfoss. Sjálf er kirkj- an af turnlausu gerð hinni eldri og lítil. En hún á stórmerkilega gripi; til dæmis altari sem Ófeig- ur Jónsson, bóndi og listasmiður, hefur smíðað og málað. Ennfremur er þar altaristafla eftir Brynjólf Þórðarson málara frá 1915 og ramm- inn utan um hana er svo veglegur að dóm- kirkjur gætu vel við unað að eiga slíkt verk. Lausn sem lengi dugar Timburkirkjur áttu yfirleitt ekki langa lífdaga fyrir höndum á meðan engin tækni var til að verja viðinn. Sagan sýnir að eftir 80 ár voru slík- ar kirkjur komnar að fótum fram af fúa; þar var þá varla messufært lengur. Bárujárnið, sem kemur til skjalanna síðast á 19. öld, er í sjálfu sér bylting, sem varð til þess að hús héldu vatni og það gerði gæfumuninn. Enn má að vísu sjá nokkrar svartbikaðar timb- urkirkjur, sem standa föstum fótum, enda fást nú miklu betri fúavarnarefni. Þannig eru til dæmis kirkjurnar á Mosfelli og Búrfelli í Gríms- nesi. Samtímis bárujárninu gerðist svo það að við eignuðumst ótrúlega góða brautryðjendur í húsagerðarlist og má segja að kirkjur Rögn- valdar Ólafssonar húsameistara séu sérstakur kapítuli. Framan af ferli sínum teiknaði Rögn- valdur margar frábærar timburkirkjur og gefur að líta nokkrar þeirra í bókinni, svo sem Kot- strandarkirkju í Ölfusi, en kirkjusmiður þar var Samúel Jónsson, faðir Guðjóns húsameistara. Perlur meðal friðaðra timburkirkna Það kemur á óvart þegar bókunum er flett hve margar timburkirkjur frá síðustu árum 19. ald- ar og fyrstu árum síðustu aldar eru frábærlega vel hannaðar. Tvær þeirra finnst mér bera af fyrir sakir listfengi. Annars vegar er það Stóra- núpskirkja í Gnúpverjahreppi frá 1911, sem Rögnvaldur Ólafsson húsameistari teiknaði, en annar landskunnur listamaður, Ásgrímur Jóns- son, lagði honum lið og réð litavali og málaði auk þess afar eftirminnilega altaristöflu, sem er meðal þeirra fegurstu í íslenzkum kirkjum. Ég hef áður minnst á það og ítreka það enn, að Rögnvaldi er lítill heiður gerður með svo stórum og aðgangshörðum trjágróðri að varla er hægt að ná góðri ljósmynd af kirkjunni. Í annan stað vil ég nefna Auðkúlukirkju í Húnaþingi, sem reist var 1894. Hugmyndin er frá Stefáni M. Jónssyni, presti á Auðkúlu, og hún var svo frumleg að varla hefur verið lengra gengið síðan. Megineinkenni kirkjunnar er að hún er áttstrend, en turninn stendur upp úr miðju þaki, en turnspíran efst stendur á átta súlum og auk þess standa átta háir stólpar með kúlu og krossmarki upp af hverju horni. Silfrastaðakirkja, sem reis fjórum árum síð- ar, er einnig áttstrend, en turn hennar er út- byggður úr kirkjunni og inngangurinn er gegn- um hann. Þessum tveim kirkjum svipar saman en Silfrastaðakirkja mun vera þekktari vegna nálægðar við þjóðveginn. Lítt þekktar en fagrar kirkjur Kirkjuferð um Skagafjörð væri til lítils ef ekki væri litið á Víðimýrarkirkju, sem er verk Jóns Samsonarsonar forsmiðs; þar höfum við úrvals dæmi um íslenzka torfkirkju og raunar er önnur skammt undan, Grafarkirkja á Höfðaströnd, sem skartar útskornu altari eftir snillinginn Guðmund Guðmundsson frá Bjarnastaðahlíð. Á Hofstöðum í Hofstaðabyggð er afar fögur, aldargömul kirkja og sérstaka athygli vekur Undirfellskirkja í Vatnsdal, byggð 1913, enda kemur í ljós að Rögnvaldur Ólafsson er höf- undur hennar. Hún er raunar steinsteypt, en að Undirfelli brann nýleg kirkja eftir þekktasta kirkjusmið Norðlendinga, Þorstein Sigurðsson á Sauðárkróki, sem til var kvaddur þegar þurfti að smíða kirkju á Auðkúlu, sem áður var lýst. Þorsteinn á einnig heiðurinn af útlitinu á kirkjunni að Reykjum í Tungusveit, sem er veg- legt, og einnig hannaði hann og smíðaði Holta- staðakirkju í Langadal og gömlu kirkjuna á Blönduósi. Merkisgripir eru víða Í Undirfellskirkju er altaristafla eftir Ásgrím Jónsson málara og í Silfrastaðakirkju er alt- aristafla eftir Þorstein Guðmundsson frá Hlíð í Gnúpverjahreppi, sem fóru ungur utan til mennta og ílentist þar. Í lítilli, turnlausri kirkju að Vesturhópshólum í Vesturhópi er mikil ger- semi, predikunarstóll með útskornu verki í bar- okkstíl eftir Guðmund frá Bjarnastaðahlíð. Í Víðidalstungukirkju í Víðidal er Kristsmynd eftir Ásgrím Jónsson og í Ketukirkju, sem mun vera minnst þekkt af öllum þessum kirkjum, er eftirtektarverð altaristafla eftir Jóhann Briem: Kristur og kanverska konan. Sama á við um sunnlenzkar kirkjur. Í Úlf- ljótsvatnskirkju er altaristafla eftir Einar Jóns- son frá Fossi og annað verk er að finna eftir Þorstein Guðmundsson í Búrfellskirkju í Grímsnesi. Þá er enn að telja altaristöflu í Hrepphólakirkju, sem Ásgrímur Jónsson mál- aði. Eins og áður var sagt er engin þessara 55 kirkna svo aum að hún eigi ekki altaristöflu, en stærstur hluti þeirra er eftir danska málara. Friðaðar kirkjur á Íslandi Morgunblaðið/Sigurður Ægisson Auðkúlukirkja við Svínavatn „Hugmyndin er frá Stefáni M. Jónssyni, presti á Auðkúlu, og hún var svo frumleg að varla hefur verið lengra gengið síðan.“ Kirkjan var reist árið 1894. Átta bækur um 55 friðaðar kirkjur á Íslandi hafa komið út á undanförnum árum í rit- röðinni Kirkjur Íslands. Útgáfan er samstarfs- verkefni Þjóðminjasafns Íslands, Húsafrið- unarnefndar, Fornleifaverndar ríkisins og Biskupsstofu, en ritstjórn skipa Margrét Hall- grímsdóttir þjóðminjavörður, Þorsteinn Gunnarsson, formaður Húsafriðunarnefndar ríkisins, og Karl Sigurbjörnsson biskup. Ljós- myndari bókaflokksins er Guðmundur Ing- ólfsson, en allar eru kirkjurnar byggðar fyrir árið 1918. Höfundur er blaðamaður. » Það kemur á óvart þegar bókunum er flett hve marg- ar timburkirkjur frá síðustu árum 19. aldar og fyrstu árum síðustu aldar eru frábærlega vel hannaðar

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.