Lesbók Morgunblaðsins - 03.03.2007, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 03.03.2007, Blaðsíða 3
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. MARS 2007 3 Eftir Hermann Stefánsson hermannstefansson@yahoo.com K annski hefur enginn 20. aldar rithöfundur haft meiri áhrif á bókmenntir samtímans en argentínski rithöfundurinn Jorge Luis Borges. Og senni- lega hefur enginn gert meira til að koma höfundarverki hans á framfæri en ekkja hans, bókmenntafræðingurinn María Ko- dama. María Kodama er geðþekk og glæsileg. Hún hefur nýlokið við að borða morgunverð á ónefndu hóteli í Reykjavík þegar ég fæ mér sæti og dreg blöð upp úr pússi mínu og hún spyr hlæjandi hvort ég ætli að leggja fyrir sig próf. Kodama er stödd á Íslandi í tilefni af opnun Cervantes-setursins, stofnunar um spænsku og spænsk fræði sem valinn hefur verið staður á Íslandi. Spænska ríkið heiðrar af þessu tilefni Álfrúnu Gunnlaugsdóttur og Guðberg Bergs- son fyrir kennslustörf og þýðingar og Kodama hélt fyrirlestur um Borges í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Þar var einnig lesið úr minningum Matthíasar Johannessen um heimsóknir Bor- gesar til Íslands og Sigrún Á. Eiríksdóttir fjallaði um þýðingar á verkum hans á íslensku, en Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur gefur í haust út bókina Lærdómsleitandinn: Ljóðasaga Jorge Luis Borges sem inniheldur allar þýð- ingar á ljóðum eftir Borges sem birst hafa í ís- lenskum tímaritum. Hólmfríður Garðarsdóttir ritstýrir. Af smásögum Borgesar, sem hann er hvað þekktastur fyrir, eru til tvö söfn: Suðrið í þýðingu Guðbergs Bergssonar og Blekspegill- inn í þýðingu Sigfúsar Bjartmarssonar. Teng- ing argentínska skáldsins við Ísland er meira en lítil og í ræðu sinni í Hátíðarsalnum tekur Ko- dama svo sterkt til orða að líkja áhrifum Íslands og íslenskra bókmennta á verk Borgesar við fljót sem alla tíð hafi runnið neðanjarðar í vit- und hans. Prófraunir Einhvern veginn falla undirbúnar spurningar um sjálfar sig þegar próf berst í tal enda stend- ur ekki til að leggja munnlegt próf fyrir ekkj- una. „Þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem þér komið til Íslands?“ verður spyrjanda að orði og lætur prófblöðin lönd og leið. „Nei,“ svarar hún. „Ég kom þrisvar eða fjórum sinnum með Bor- gesi,“ segir hún. „Og svo kom ég einu sinni eftir að hann dó.“ Borges lést árið 1986. „Frá því ég kom í fyrsta sinn man ég eftir sterkri lykt og hvalveiðistöð,“ segir Kodama. „Þegar ég kom síðast ein tók ég eftir að Ísland var miklu grænna en þegar ég kom fyrst, við Borges líkt- um landinu við Patagóníu okkar á milli, það var varla neitt grænt að sjá.“ Frá græna litnum leiðist talið yfir að ís- lenskunámi. „Það var mjög falleg lífsreynsla að læra íslensku með Borgesi en við notuðum orðabækur mikið og lærðum ekki nútímamál heldur forníslensku. Ég vildi aldrei birta neitt með Borgesi en þýðing okkar á Gylfaginningu var annað, hún var próf. Við skiptumst á hug- myndum og flettum upp í orðabók og skemmt- um okkur konunglega, þetta var látlaust samtal og lærdómur um leið. Borges var barn að aldri þegar hann heillaðist af Íslendingasögunum og þær höfðu gríðarleg áhrif á skrif hans, hann heillaðist af sparsemi þeirra og stílbrögðum. Ég man eftir samtali um fræga senu í Njáls sögu þar sem Hallgerður synjar Gunnari um hárið og ég skildi ekki hvers vegna hann var svo hrifinn af svo illyrmislegri persónusköpun. En Borges sagði: Sjáðu hvað þetta er fallegt, það er engu ofaukið, senan er fullkomin, samtalið óaðfinn- anlegt.“ Kodama lýsir Borgesi sem húmorista, gríð- arlega skemmtilegum í daglegri umgengni, írónískum og fyndnum. Hún segir þetta ganga þvert á þá mynd sem gjarnan er dregin upp af honum, hinum þungbúna Borgesi, hryggum Borgesi sem er fastur í völundarhúsi sínu, mað- ur í fílabeinsturni. „Hann var allt annað í mínum huga, hafði svo margar hliðar og var svo skemmtilegur. En kannski býr hver og einn sér alltaf til þá mynd af öðrum sem best á við hann sjálfan,“ segir hún hæversk. „Borges hafði mjög gaman af Bítlunum, Roll- ing Stones og Pink Floyd. Einu sinni á afmæl- inu hans spiluðum við The Wall með Pink Floyd í staðinn fyrir afmælissönginn,“ segir Kodama og kemur á óvart því Borges hefur verið við ald- ur The Wall kom út. „Hann var gríðarlega hrif- inn af Bítlunum og Rolling Stones,“ heldur hún áfram. „Einu sinni vorum við stödd í anddyri hótels í Madríd þegar maður kemur aðvífandi á móti okkur, krýpur á kné og segir: „Meistari, ég dáist að verkum yðar!“ og hann talar um hvað það sé frábært að hitta Borges, hann sé gríð- arlegur aðdáandi og hafi lesið allt sem hann hafi skrifað. Borges þakkaði kærlega fyrir og spurði: „Hvað heitið þér?“ Maðurinn kynnir sig þá og segist heita Mick Jagger. „Mick Jagger? Í Rolling Stones?“ hrópar Borges þá og á ekki orð til að lýsa ánægju sinni með að söngvarinn í Rolling Stones skuli lesa bækurnar hans. Bor- ges var ótrúlega skemmtilegur.“ Sýnir hins blinda Áður en þau tóku saman var Kodama ritari Borgesar og aðstoðarkona á ferðalögum en Borges var blindur síðari hluta ævinnar. „Blind- an var arfgeng og hann var mjög nærsýnn frá unga aldri. Hann vissi að hann yrði blindur og tók því að þróa með sér minnið. Hann greindi mun á ljósi og skugga og sá til á göngu allt til dauðadags en gat ekki lesið. Við ákváðum að fara í pílagrímsferð á söguslóðir Íslend- ingasagnanna og þótt ég sæi fyrir hann horfði hann ekki síður fyrir mig því hann var svo vel að sér og hafði ótrúlegt minni,“ segir Kodama. „Ég komst fljótt að því að hann var mjög vel að sér í myndlist og mundi málverk mjög vel. Ég lýsti því sem fyrir augu bar á ókunnum slóðum með vísunum í myndlist. Það var eins og að skafa of- an af handriti til að finna undirtextann. En Bor- ges var hrifnastur af Genf þar sem hann var í námi því Genf hafði breyst svo lítið og hann rat- aði um hana.“ Kodama tekur aðspurð undir orð Matthíasar Johannessen sem í viðtali við Borges sagði ljóð- rænu vera sterkasta einkennið á prósa hans. Það er ekki viðtekin skoðun, síst í heimalandi höfundarins. „Í mínum huga var Borges meira ljóðskáld en prósahöfundur. Síðustu árin skrif- aði hann fyrst og fremst ljóð, hann lagði þau á minnið og lét malla í undirvitundinni dögum saman því það er auðveldara að leggja ljóð á minnið en smásögur.“ Hann var einnig ljóð- rænn í lausamálstextum að mati Kodama: „Hann hafði festu og takt eins og er í tónlist, ná- kvæman rytma sem ég sakna hjá svo mörgum prósahöfundum og hann hugsaði um hljóm orðanna.“ Stundum er Kodama sökuð um að birta fremur ljóðskáldið og húmoristann Borges en hugsuðinn en hún neitar ekki analýtískri hugsuninni í neðanjarðarfljótum Borgesar. „Hann var forspár höfundur og í bókasafninu hans voru vísindarit í meira mæli en skáldsög- ur. Fyrir nokkrum árum héldum við ráðstefnu með vísindamönnum um verk Borgesar og það var mjög athyglisvert því vísindamenn á ólíkum sviðum lýstu hver af öðrum Borgesi eins og Ju- les Verne, að hann hefði í bókum sínum séð fyrir tækniframfarir og uppfinningar sem komu fram eftir að hann hafði skrifað um þær.“ Ko- dama samsinnir því að hugvísindi dagsins í dag eigi einnig ýmislegt inni hjá Borgesi. Völundarhús í þremur löndum Kodama veitir forstöðu Alþjóðlegu Borges- arstofnuninni sem kemur að ýmsum verk- efnum, ráðstefnum og þingum um Borges og bókmenntir og er einnig mjög virk á sviði myndlistar, tónlistar og þýðinga. Ekkja Borges- ar lýsir samkeppni í smíði á japönskum hækum sem Borgesarstofnunin hafi haldið í skólum í Argentínu, fyrst bara hún og nokkrir vinir en síðan spurðist þetta út og á endanum tóku 170 skólar um allt landið þátt í samkeppninni án þess að hún hefði verið auglýst, kennarar komu úr sveitunum til borgarinnar að kynna sér hæk- ur svo þeir gætu látið börnin yrkja. Stofnunin hefur einnig meðal annars sinnt smíði völund- arhúsa til minningar um Borges. „Já, þetta er mjög fallegt verkefni. Það hófst á því að Borges kynntist enskum arkitekt og þekktum völundarhúsahönnuði í Buenos Aires á sjötta áratugnum. Bækur Borgesar eru upp- fullar af völundarhúsum og þegar hann dó gaf hönnuðurinn, Randoll Coate, Borgesar- stofnuninni völundarhús sitt í minningu hans, þetta er ákaflega falleg hugmynd sem er inn- blásin af sögunni „Garður gangstíga sem grein- ast“ þar sem völundarhúsið reynist sami hlut- urinn og bókin sjálf. Völundarhús Randolls Coates myndar opna bók og gangarnir inni í því eru myndaðir úr nafni Borgesar; inni geta blindir lesið hluta úr sögunni á blindraletri og ratað þannig um völundarhúsið. Völundarhúsið var gjöf Randolls Coates til Borgesar- stofnunarinnar og hún mátti reisa það þar sem hún vildi hafa það,“ segir Kodama. „Ég hugsaði mér því að reisa völundarhús á aðalstöðunum í lífi Borgesar, á stöðunum sem hann elskaði mest. Ekki í Genf því þar hvílir hann heldur í Buenos Aires, Feneyjum og á Íslandi.“ Þetta eru tíðindi en Kodama reynist hafa unnið mikið í verkefninu. „Í Buenos Aires liðu tólf ár áður en verkefninu var hrint í fram- kvæmd og að lokum var völundarhúsið reist í Mendoza, héraðinu þar sem Borges fékk fyrstu heiðursdoktorsnafnbótina. Susana Bombal vin- kona hans átti sumarhús þar og þangað fór Bor- ges mjög oft með móður sinni. Og nú í október verður svo hafist handa við að reisa völund- arhúsið í Feneyjum og þar er allt frágengið og samþykkt og ég er alsæl með þetta. Konsúll Ís- lands í Argentínu hefur haft samband við aðila hér á Íslandi um þetta mál og ég á fund á föstu- daginn um það. Á síðasta ári voru 20 ár frá and- láti Borgesar og ég var mjög upptekin við ferða- lög og hafði ekki tíma til að sinna málinu en nú get ég sinnt því.“ En Borges fékk aldrei Nóbelinn…? „Nei, það var þjóðarsorg í Argentínu þegar Borges fékk ekki Nóbelsverðlaunin. Það var mjög fyndið því Borges hafði ekki sérstakan áhuga á verðlaunum, það sem skipti hann máli var að skrifa skáldskap. Þegar við vorum úti að ganga í Buenos Aires vék fólk sér að okkur og einn sagði: Meistari, ég samhryggist! Ég ætla að biðja til Guðs að þér fáið Nóbelsverðlaunin næst! Borges svaraði: Nei, Guð forði okkur frá því. Ef ég fæ Nóbelsverðlaunin verð ég bara nafn á löngum lista en nú er ég goðsögn, mað- urinn sem ár eftir ár fær ekki Nóbels- verðlaunin… Hann tók öllu með húmor og tal- aði um langa norræna hefð fyrir að veita sér ekki Nóbelsverðlaunin. Honum hlotnaðist ekki alþjóðleg frægð fyrr en árið 1961 þegar hann deildi Formentor-verðlaununum með Samuel Beckett. En á árum áður var hann ekki einu sinni þekktur í heimalandi sínu. Einu sinni vék sér að honum samstarfsmaður á bókasafninu í Buenos Aires þar sem hann vann og sagði hon- um að fyrir einhverja fáránlega tilviljun væri maður í alfræðiorðabókinni sem héti nákvæm- lega sama nafni og Borges. Utan bókasafnsins vissi enginn hvað hann hét. Verk hans urðu ekki útbreidd fyrr en á síðari hluta ævi hans.“ Við það má bæta að ef til vill urðu verk Bor- gesar enn útbreiddari eftir andlát hans og þá ekki síst fyrir tilstilli Maríu Kodama sem starf- að hefur þrotlaust eins og stórfljót að því að breiða út orðstír stóru ástarinnar í lífi sínu. Neðanjarðarfljót Borgesar Argentínska skáldið Jorge Luis Borges tók ungur ástfóstri við Íslendingasögurnar og Ís- land. Ekkja hans, María Kodama, er nú stödd hér á landi í tilefni af opnun Cervantes- setursins, stofnunar um spænsku og spænsk fræði, en draumur hennar er að hér rísi eitt þriggja völundarhúsa sem reist verða í minn- ingu skáldsins á þeim stöðum sem honum voru hjartfólgnastir. Morgunblaðið/Árni Sæberg Ekkjan María Kodama lýsir Borgesi sem húmorista, gríðarlega skemmtilegum í daglegri umgengni, írónískum og fyndnum. » Ef ég fæ Nóbelsverðlaun- in verð ég bara nafn á löngum lista en nú er ég goð- sögn, maðurinn sem ár eftir ár fær ekki Nóbelsverðlaun- in… Hann tók öllu með húm- or og talaði um langa nor- ræna hefð fyrir að veita sér ekki Nóbelsverðlaunin.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.