Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 10.03.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 10. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Ólaf Guðstein Kristjánsson olafurgudsteinn@googlemail.com IHinn vestræni heimur er dags-daglega fremur tíðindalítill.Þegnar hans lifa allajafna hvorki í epísku né dramatísku and- rúmslofti stórra sögulegra atburða. Vandamálin eru velmegunarvanda- mál; við deyjum úr fitu fremur en hungri, geðkvillum frekar en stríði o.s.frv. Vandmál okkar snúast ekki um að halda sér á lífi heldur hvernig þreyja eigi dagana í allt að því trú- lausum heimi. Þetta mætti nefna Til- vistarvandann. Vissulega end- urspegla svo listaverk samtímans þennan vanda og fela í sér eins konar síð-tilvistarhyggju, að finna merk- ingu og tilgang í tilverunni. Það tekst þó sjaldnast. Slík verk eiga það og til að fjalla fyrst og fremst um sjálf sig; listina sem slíka, tilurð, til- gang og stöðu hennar fremur en að taka til umfjöllunar bága stöðu fisk- verkafólks á Vestfjörðum eða órétt- læti heimsins… Nú verður sögunni snögglega vik- ið til Þýskalands. Nánar tiltekið til Berlínar, sem er að mestu sögusvið nýjustu skáldsögu þýska rithöfund- arins Tobiasar Hülswitt, Der Kleine Herr Mister (Litli herra Mister). Ekki er líklegt að hann sé mörgum lesendum Lesbókarinnar kunnur og því ekki úr vegi að upplýsa að hann er fæddur 1973 í Hannover, lærður steinsmiður en nam einnig, samtímis íslensk-þýska rithöfundinum Kristof Magnússon (höfundi Zuhause), við Deutschen Literaturinstitut (Þýsku bókmenntastofnunina) í Leipzig. Hann samdi, auk Der Kleine Herr Mister, skáldsögurnar Ich kann dir eine Wunde schminken (Ég get farð- að á þig sár) árið 2004 og Saga árið 2000, gegnum forlagið Kipenheuer & Witsch í Köln og ljóðabókina So ist das Leben (Svona er lífið) 1997 hjá Ventil-forlaginu í Mainz. Verð- laun og styrkveitingar hefir hann þó nokkrar hlotið og gegndi hann einn- ig dósentstöðu árið 2003 við Uni- versität der Künste (UdK) í Berlín, sem er sami skóli og bauð myndlist- armanninum Ólafi Elíassyni prófess- orsstöðu ekki alls fyrir löngu. En hvernig tengist þetta svo sam- an? Tengingin er sú að bókin Der Kleine Herr Mister felur ekki síst í sér samþættingu lista og til- veruvandans. Í skáldsögunum á und- an glímir Tobias þó einkum við seinni hluta þessarar tvenndar. Sú fyrrnefnda gerist í heimi sjónvarps- grínsins og sú síðarnefnda tekur á vanda þess að vaxa úr grasi með til- heyrandi ástarflækjum, kynlífi, eit- urlyfjum og kynnum af dauðanum. Fyrst og fremst er þó tekið á hinum vestræna tilveruvanda; að leita að og reyna að finna einhverja ástæðu fyr- ir þessu öllu í hverfulum heimi þar sem tíminn snýst einkum um að eyða honum. Der Kleine Herr Mister er þó af aðeins öðru og fantasíukenndara sauðahúsi. Þar segir frá ónafn- greindum listmálara, sem unir nokk- uð glaður við sitt. Hann á góða kær- ustu, sem heitir Johanna, er hann hefir verið með til sjö ára, gengur ekki illa í starfi, er skapandi og til- tölulega ánægður með lífið og til- veruna. Þetta breytist einn góðan veðurdaginn er hann fær heimsókn frá Herr Mister (að vísu virðist heimsóknin eiga sér stað í draumi, en skilin eru þó óljós) sem er lítill blár, frekur og glottandi kall í bláum vinnuslopp. Herr Mister gerir hon- um tilboð sem felur í sér „hamingj- una“ (das Glück). Hamingjan sú er, að því er virðist, bankastarfsmaður og kona í bikiníi. Herr Mister er klárlega ígildi djöfulsins. Skilyrðið sem Herr Mister setur fyrir ham- ingjunni er einfaldlega að málarinn geri það sem hann vill. Þessu tilboði hafnar málarinn. Þrátt fyrir það breytist hlutskipti málarans til muna. Hann nýtur uppfrá heimsókn- inni mikillar velgengni; selur öll mál- verkin sín, er fast viðfangsefni slúð- urpressunnar og nýtur meiri kvenhylli en áður. Undarlegir at- burðir taka svo að gerast. Hann kynnist ungri og heillandi söngkonu, Marrisi að nafni, og á með henni ást- arsamband. Hún kynnir hann fyrir lyfinu „það Guð“ (á þýsku er það das Gott, en Guð á þýsku er eins og í ís- lensku karlkynsorð). Í kjölfar vel- gengni sinnar missir hann alla löng- un til listsköpunar og kærasta hans fjarlægist hann smátt og smátt uns hún hverfur á vit hugleiðslubúða í Brandenburg. Hann heldur á eftir henni og fleiri undarlegir atburðir eiga sér stað. Að auki lætur Herr Mister æ oftar á sér kræla og bregð- ur fyrir í margvíslegum hlutverkum og oftar en ekki verður svo raunin sú að duldar langanir málarans rætast. Þetta er í grófum dráttum sögu- þráður bókarinnar, en þrátt fyrir að hann kunni að virka sem efniviður í viðburða- og átakamikla skáldsögu er ekki slíku fyrir að fara. Raunar hafa margir þýskir fjölmiðlar gagn- rýnt söguna fyrir átakaleysi og það má til sanns vegar færa að tíðinda- og átakaleysi innan söguheimsins sé ráðandi. En málið er þó ekki alveg svo einfalt að afskrifa megi söguna í framhaldi af þeirri fullyrðingu… IIÞví hefir verið fleygt framað andóf þeirrar þýskukynslóðar rithöfunda sem Tobias tilheyrir sé að miklu leyti fólgið í andófs- og afstöðuleysi í póli- tík. Öndvert við kynslóðirnar á und- an þar sem krafa var, allt að því, um að taka til umfjöllunar pólitísk hita- mál samtíðarinnar. Nú til dags er það allt að því regla að bækur höf- unda fæddra um og eftir 1970 séu ópólitískar. Einnig er talað um að hlutirnir hafi verið ógagnsærri þá – að merkingu væri að finna milli lín- anna – og að nú séu þeir svo gott sem það sem þeir eru, þótt ekki sé gengið svo langt að taka undir með Baud- rillard er hann segir að listin hafi glatað „tálmyndarþránni í þágu fag- urfræðilegrar lágkúru“. Rithöf- undar eins og Judith Hermann (1970), Kristof Magnússon (1976) og sumar bækur Christians Krachts (1966), sem er að vísu frá Sviss, ásamt Tobiasi myndu falla innan þessarar skilgreiningar; höfundar sem einna helst eru með hugann við melankólískan vanda þess að vera til. Rithöfundar þessir skrifa sögur þar sem helstu hörmungarnar eru hugsanlega vöntun á þeim og al- mennur skortur á dramatískum við- burðum. Má til dæmis greina mikinn mun á þýskum innflytjendabók- menntum og hjá innfæddum. Höf- undar eins og hin króatíska Marica Bodroži (1973) og Sasa Stanisic (1978) frá Bosníu-Hersegóvínu skrifa á talsvert öðrum forsendum en þýskir starfsbræður þeirra. Lík- ast til litast það af upplifun þeirra af Júgóslavíustríðinu. Einnig eru áherslur rithöfunda frá fyrrum Austur-Þýskalandi ólíkar þeim frá fyrrum Vestur-Þýskalandi og svo mætti einnig nefna rússneska met- söluhöfundinn Wladimir Kaminer (1967), þótt hans bækur séu af frem- ur gamansömum toga. Er hörmungarleysið er eitt megin þemað í Der kleine Herr Mister. Á einum stað innan bókarinnar þar sem málarinn situr að snæðingi með föður galleríeigandans, Herr Ver- hagen, veltir málarinn til að mynda fyrir sér þessum þáttum og óskar sér þess að eitthvað hræðilegt komi til með að gerast. Að sjónvarpsturn- inn (der Fernsehturm í Berlín) verði sprengdur af Al kaída, að hann verði faðir og barnið deyi eða hann fang- elsaður saklaus og sleppt mörgum árum seinna sem örkumlamanni. Herr Verhagen hittir svo naglann á höfuðið er hann segir að málarinn hafi einfaldlega aldrei þurft að berj- ast fyrir neinu. Í umhverfi sem þessu er djöfullinn af öðrum toga og sker Der kleine Herr Mister sig klárlega frá öðrum bókum af svipuðum toga. Til að mynda frá Doktor Fástus (1947) Thomasar Manns þar sem tón- skáldið Adrian Leverkühn selur sál sína fyrir veraldlega velgengni; frægð og frama. Enda hafnar mál- arinn tilboði Herr Mister. Það skipt- ir þó litlu er til kastanna kemur. Herr Mister hefir allt í hendi sér, enda í essinu sínu í yfirborðsfullum heimi þar sem nóg er að vera á rétt- um stað á réttri stund. Hæfileikar eru ekki nauðsynlegir þar sem „Séð og heyrt“ og fólk eins og Paris Hil- ton og Pete Doherty eru mælikvarð- inn. Enda verður raunin sú þegar málaranum skýtur upp á yfirborðið að hann nýtur ekki hylli fyrir list sína heldur fyrir að bera keim af þekktum leikara af sömu kynslóð og hann. Eitthvað sem virðist alveg úr lausu lofti gripið. Einnig verður hann títt viðfangsefni slúðurpress- unnar fyrir eitthvað sem hann er ekki í raun og veru; kvennamaður. Frægð hans er því algerlega inn- antóm og tilbúin, enda skiptir litlu máli þótt hann hætti að stunda list- sköpun. Það hefir engin áhrif á frægð hans. Der kleine Herr Mister er því um margt listamannasaga (Künst- lerroman) með öfugum formerkjum. Það sem listamenn á borð við Adrian Leverkühn þurfa að semja um við djöfulinn er til staðar hjá mál- aranum. Ofan á þetta bætist svo sú sjálfhverfa tilhneiging listarinnar að fjalla um sjálfa sig. Hér er kannski ekki svo mikið fjallað beint um tilurð listaverka eða sköpunina sem slíka. Engu að síður felst í sögunni lýsing á umhverfi sem margir kannast við: Einhver verður frægur fyrir það eitt að vera frægur. Listaverk er lista- verk fyrir það eitt að skilgreina sig sem slíkt listaverk. Í þessari jöfnu hætta listverkin sem slík að skipta máli. IIIHér er því á ferð skáld-saga sem sver sig í ættvið margt sem skrifað hefir verið innan þeirra kynslóðar sem Tobias tilheyrir í Þýskalandi. Á Íslandi væri líklegast nærtækast að nefna það sem komið hefir út á veg- um Nýhil sem einskonar samnefnara fyrir þennan samtímaspegil og festuleysi, þótt auðvitað og bless- unarlega séu nálgunarleiðirnar af margvíslegum toga. Í bókinni er tek- ist á við vanda þess átakaleysis sem einkennir samtímann og á það til að skila sér í innihaldsleysi og tóm- hyggju, sem reynt er að fylla upp í með því sem á upp á pallborðið það og það skiptið. Mætti til að mynda horfa á lyfið „það Guð“ frá því sjón- arhorni, enda vísar það til þeirrar til- hneigingar að leita stöðugt nýjasta svarsins sem felur svo einvörðungu í sér, þegar til kastanna kemur, eitt- hvað tímabundið. Þetta er og saga sem spyr og veltir fyrir sér hvort við séum svo langt komin að við þurfum ekki lengur að gera samning við djöfulinn, þar sem við höfum allt það sem hann hefir að bjóða. Höfum við nú þegar það sem djöfullinn hefir að bjóða? Corbis/IPA Kölski „Þetta er og saga sem spyr og veltir fyrir sér hvort við séum svo langt komin að við þurfum ekki lengur að gera samning við djöfulinn, þar sem við höfum allt það sem hann hefir að bjóða.“ Hér er fjallað um nýjustu skáldsögu þýska rithöfundarins Tobiasar Hülswitt, Der kleine Herr Mister, sem er einhvers konar nútíma út- gáfa af Doktor Fástus eftir Thomas Mann og öðrum sögum sem byggj- ast á samningnum við djöfulinn. Tobias Hülswitt sver sig í ætt við mörg skáldsystkini sín af yngri kynslóðinni með tilvistarspurn- ingum sem endurspegla um margt tómhyggju og innihaldsleysi okkar allsnægtafullu og haldreipislausu tilveru þar sem helsta andófið er hugsanlega skortur á því… » Verhagen hittir nagl- ann á höfuðið er hann segir að málarinn hafi einfaldlega aldrei þurft að berjast fyrir neinu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.