Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2007, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2007, Blaðsíða 5
óbrigðult að við leit að einu staðnæm- ast augun við annað og ég byrja að lesa. Hætti ekki fyrr en sá kafli er bú- inn og ákveð þá sennilega að leita uppi aðra ritgerð sem útfyllir þá sem ég var að ljúka. Sennilega kemst ég ekki þangað sem ég ætlaði vegna þess að enn rek ég augun í eitthvað sem ég verð að lesa og vafrið hefst að nýju. Auðvitað eru þetta ekki nein vinnu- brögð, en þetta er Þorsteini að kenna: Mannskrattinn skrifar einfaldlega þannig að maður getur ekki hætt, jafn- vel þótt augun kræki ekki í nema setn- ingarbrot. Stílkunnátta og stílbrögð eru auðvitað hluti af skýringunni, en þó ekkert síður sú staðreynd sem svo aug- ljóslega skín í gegn: Þorsteinn nýtur þess að fást við viðfangsefni sín og hrífur aðra svo auðveldlega með sér. Þorsteinn átti alloft í ritdeilum í blöðum og tímaritum aðallega um ýmis andleg málefni. Við deildum tvívegis opinberlega í riti, en kurteislega. Í Sál og máli er að finna brot úr a.m.k. tveimur slíkum ritdeilum og greinar Þorsteins sem urðu tilefni slíkra deilna. Hér eru ádeilur Þorsteins á sálar- og uppeldisfræði. Þar urðu ýmsir til and- svara og eitthvað af svörum Þorsteins er hér að finna sem og erindi hans, “Ætti sálarfræði að vera til?“ sem var tilefni deilnanna. Einnig eru þarna ádeilugreinar hans á notkun sannleiks- hugtaksins í guðfræði og bókmennta- fræði—þar sem hann deilir meðal ann- arra á skoðanir Vilhjálms Árnasonar, heimspekiprófessors, og séra Sig- urbjarnar Einarssonar, fyrrum bisk- ups. Það hefði verið akkur í því að fá mótbárurnar og öll svör Þorsteins við þeim saman. En sennilega er þessi bók ekki þannig hugsuð að slíkt efni eigi allt þar heima. Þorsteinn fer kannski mest á kostum þegar hann gagnrýnir. Þetta á jafnt við um skarpa, málefnalega gagnrýni í heimspeki og fræðum, og um ritdeilur þar sem ekki var alltaf skeytt um ströng málefnalegheit. Um þetta má sjá mýmörg dæmi í Sál og máli, flest þó fremur af fyrra taginu. Ef til vill er ég ekki fyllilega hlutlægur dómari á óvægna gagnrýnisspretti Þorsteins í deilum við menn, því að í flestum öðr- um deilum en þeim sem ég átti við hann sjálfur, laðast ég að þeim málstað sem Þorsteinn vildi verja og gat alveg unnt honum þess að skjóta svolítið undir beltisstað. Eftirminnilegar eru til dæmis deilur Þorsteins og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar uppúr 1980, þar sem Þorsteinn hafði að mínum dómi ótvíræðan sigur. En ekkert af þessu fær að fljóta hér með enda efnið af öðrum toga. Í Sál og máli eru greinar sem tengj- ast einstökum vísindagreinum og vís- indaheimspeki almennt. Í slíkum efn- um var Þorsteinn jafnan skarpskyggn og fundvís á veikleika. Og kann að orða aðfinnslur sínar þannig allir skilji og er oftar en ekki með afbrigðum hnyttinn í þessu. Í einni bestu greininni í Sál og máli, sem heitir “Líf og sál“ ræðir Þor- steinn um ýmis afbrigði efnishyggju. Í þessari grein koma fram flestir bestu kostir hans sem gagnrýnanda. Hann tekur upp eina algenga skilgreiningu á efnishyggju, sem er sú að til sé tæm- andi efnisleg skýring á hverju sem ger- ist, hugarstarf þar með talið. Hann færir ýmis athyglisverð rök fyrir að efnishyggju í þessum skilningi verðum við að hafna. Jafnframt setur hann fram tilgátu: einu endanlegu skýring- arnar sem völ er á eru efnislegar skýr- ingar. En hann bætir því við að ef við köllum þessa tilgátu efnishyggju og hún reynist rétt, þá sé búið “að draga úr efnishyggju flestar tennurnar“ (s. 243). II Síðustu fimmtán árin eða svo var Þor- steinn gagntekinn af efni, sem honum hafði raunar verið hugleikið alla tíð, og tók að skrifa um það af kappi: lík- ingum, merkingarhvörfum og ekki síst því sem hann kallaði fjölkynngi máls. Hvörf eru það sem einnig er nefnt “yf- irfærð merking“, fyrirbæri á borð við það að við tölum um þræði ekki aðeins í saumaskap heldur líka til dæmis í frá- sögnum eða bókum eins og ég gerði áð- an. Með “fjölkynngi“ á Þorsteinn við þann eiginleika mannlegs máls að æ má nota orð í nýrri yfirfærðri merk- ingu, bókstaflega endalaust. Þorsteinn gerði margar atlögur að þessu við- fangsefni. Margar þeirra getur að líta í ritgerðasafninu Að hugsa á íslensku (Háskólaforlag máls og menningar, Reykjavík 1996). Hann hélt áfram að fást við þetta fram á síðustu stund. Í Sál og máli, er talsvert fjallað um það, einkum í enska bókaraukanum, en líka í “Lífi og sál“, sem áður er getið um. Hugmyndir Þorsteins um þessi efni, sem ganga að mörgu leyti í berhögg við ríkjandi meginviðhorf í málspeki og hugfræðum, eru að mínum dómi frum- legasta og merkasta framlag hans til heimspekinnar. Meginhugmyndin er sú að möguleikinn á hvörfum og líkingum, á því að nota orð öðruvísi en áður hefur verið gert, sýni að hugmyndin um regl- ur um merkingu sé andvana fædd. Lík- ingar sýna veruleikann í nýju ljósi og þær eru ófyrirsegjanlegar (í þessu fel- ast tengslin við sköpunargáfu). Í “Lífi og sál“ notar hann þessa hugmynd til að gagnrýna hugfræði á okkar dögum sem gera ráð fyrir að í mannshuganum sé endanlegur fjöldi reglna um merk- ingu orða. Samkvæmt Þorsteini er allt- af möguleiki á nýrri, skiljanlegri notk- un orðs sem engin “skráð regla“ tekur til. Að svo miklu leyti sem hugfræðin gera ráð fyrir merkingarreglum dæmir Þorsteinn þau norður og niður. Ég fæ ekki betur séð en hann hafi að minnsta kosti svo mikið fyrir sér að hugfræð- ingar ættu að hugsa vel sinn gang. Þrátt fyrir allan sinn lærdóm og vald á ólíklegustu hliðum heimspekinnar, var Þorsteinn Gylfason á vissan hátt andheimspekingur, a.m.k. að svo miklu leyti sem heimspekin verður lögð að jöfnu við kerfissmíð. Þótt hann dáðist að hinu eina í hinu marga, held ég það hafi aldrei hvarflað að honum að ein- hver ein eða tvær meginhugmyndir gætu verið lykillinn að öllu. Með góða heilbrigða skynsemi, skarpskyggni og næmi fyrir hinu óvænta og sérstaka í vopnabúri sínu var hann fjölhyggju- maður sem mat hvert mál, hverja gátu, eins og hún kom fyrir og sá á henni einhverja hlið sem honum þótti athygl- isverð. Það var lítt fyrirsegjanlegt hver dómur Þorsteins myndi vera, en hann var eiginlega alltaf frumlegur og benti í áttir sem viðmælandi hans eða lesandi hafði ekki séð fyrir eða hugsað út í. Sál og mál sýnir þessa eiginleika hans eins vel og nokkurt fyrra verk hans. steins Gylfasonar »Mannskrattinn skrifar einfaldlega þannig að maður getur ekki hætt, jafnvel þótt augun kræki ekki í nema setningarbrot. Stílkunnátta og stílbrögð eru auðvitað hluti af skýringunni, en þó ekkert síður sú staðreynd sem svo augljóslega skín í gegn: Þorsteinn nýtur þess að fást við viðfangs- efni sín og hrífur aðra svo auðveldlega með sér. Höfundur er prófessor í fornaldarheimspeki við Óslóarháskóla. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. MARS 2007 5 Eftir Kristján Árnason kristjar@simnet.is V art verður annað sagt en að Þor- steinn Gylfason hafi á ævitíma sínum markað spor víða í ís- lensku menntalífi, hvort heldur það var á ritvellinum eða í kennslustarfi og fyrirlestrahaldi eða þá með vinnu við ritstjórn og útgáfu sí- gildra lærdómsrita erlendra. Allt þetta hefur miðað að því að víkka sjóndeildarhring sam- landa hans og brjóta þeim leið til framandi fræðabrunna og hvetja þá jafnframt til dáða í þeirri góðu íþrótt á „að hugsa á íslensku“ um flest ef ekki allt milli himins og jarðar. Sjálfur hefur hann gengið á undan með góðu fordæmi allt frá því að hann haslaði sér völl sem heim- spekingur ungur að aldri með bókinni Tilraun um manninn árið 1970 þar til nú er út kemur að honum látnum safn ritgerða frá síðustu árum undir heitinu Sál & mál sem einhvers konar endahnútur þessa ritferils. En rit af þessu tagi ættu að eiga fullt erindi í landi þar sem heim- spekileg hugsun hefur löngum verið hornreka og orðið „heimspekingur“ gjarna tengt gæfu- leysi af alþýðu manna eða jafnvel einhverju þaðan af verra. En á síðari árum má þó segja að heimspek- inni hafi vaxið fiskur um hrygg hér á landi og hún náð aukinni útbreiðslu, ekki síst fyrir til- verknað fræðara eins og Þorsteins. Hinu verð- ur þó ekki neitað að hún hefur sem slík og al- mennt séð frekar skroppið saman eða lækkað seglin á síðari tímum og gert minna tilkall en stundum áður til að vera sögð drottning ann- arra greina og undirstaða þeirra allra. Í stað þess hefur hún orðið að sæta því að vera skil- greind af sínu fólki sem „gagnrýnin hugsun“ og sjá hlutverk sitt þá einkum í því fólgið að veita öðrum fræðigreinum aðhald og halda þeim innan vissra marka fremur en að snúast um sjálfa sig og vera í sviðsljósi. Slíkt aðhalds- hlutverk tekur Þorsteinn Gylfason einmitt að sér í bókinni Sál & mál, og gengur þar einkum hart gegn greinum eins og sálarfræði, guð- fræði og félagsfræði, og það svo mjög að til- veruréttur þeirra virðist hanga á bláþræði, enda beitir hann óspart sannleiksmynstri sem segja mætti að væri í þrengra lagi („Snjórinn er hvítur“) og lýsir allt tal um öðruvísi sannleika, svo sem trúarlegan eða skáldlegan, merking- arlaust og, það sem verra er, merki um tvö- feldni þeirra sem það leyfa sér. Og þar kemur að böndin berast einnig að skáldskaparfræðinni og upphafsmanni hennar, Aristótelesi, og spjótum beint að þeirri kenn- ingu hans að skáldskapurinn sé heimspeki- legur í eðli sínu í krafti þess að hann fjalli frem- ur um hið almenna en hið einstaka og lýsi þá fremur manngerðum en sögulegum ein- staklingum. Við þetta hefur Þorsteinn sitthvað að athuga sem ekki verður þó rakið hér, en hann getur hallað sér að Platoni og öðrum sem líta fremur á skáldskapinn sem blekkingu og tóman uppspuna og virðist raunar harla ánægður með þá niðurstöðu, líkt og hún færi honum frelsi undan strangri sannleikskvöð heimspekinnar og sé honum tilefni til að gefa sér lausan tauminn sem „söngfugl að sunnan“. Því ólíkt Platoni, sem að sögn hætti að yrkja og brenndi kvæði sín er hann komst í tæri við heimspekina, þá hefur Þorsteinn á ævitíma sín- um æ meir leitað á fund listgyðjanna og það kannski fleiri en einnar með allgóðum árangri. Ávöxtur þeirra stefnumóta kemur ekki síst fram í þýðingum ljóðtexta, einkum þeim sem voru ætlaðir til söngs og krefjast tónnæmis þýðanda, og það eftir ýmis góðskáld erlend, gömul og ný, svo sem Burns, Rilke, Brecht, Yeats og Auden. Mörg kvæðanna birtust í bók- inni Sprek af reka árið 1993 og bera öll vitni um smekk og bókmenntalega yfirsýn þýðand- ans og víða einnig um vald hans yfir ljóðrænni tjáningu og framandi háttum, svo sem þýðingin á vorkvæðinu eftir Ásmund Vinje hinn norska þar sem hann nær sér sannarlega á flug. En listræn tök birtast einnig skýrt í ritgerðum Þorsteins þar sem ekki er um þurrt stagl að ræða heldur persónulega orðræðu, kryddaða gamansemi og háði þar sem það á við og vís- unum í allar áttir, ekki síst í skáldskap og bók- menntir, að ógleymdum glannalegum fullyrð- ingum sem eru fallnar til að hrista upp í lesandanum, og fyrir vikið eiga þær það fylli- lega skilið að á þær verði minnst næst þegar mönnum dettur í hug að setja saman íslenska bókmenntasögu. Söngfugl að sunnan Þorsteinn Gylfason og skáldskaparlistin Höfundur er bókmenntafræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.