Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 24.03.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 24. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók „Portrett úr orðum“ eftir Stéphanie Cohen Stór fólksbíll beið eftir mér. Að minnsta kosti sex manns voru fyrir inni í honum. Kona með húfu og fingravettlinga spurði mig „Ert þú frönsk kona, komin til Íslands?“ „Já, sagði ég,“ til þess að geta farið mínu fram óáreitt. Fyrir galdranorn, eða seiðkonu eins og sagt var í gamla daga, borgar það sig að gefa ekkert upp um það hver maður er. Konan tók ekki ofan húf- una en sagði við mig „Klifraðu inn.“ Klukkan var fjögur um eftirmiðdag. Ég hafði hvorki hugmynd um hvað beið mín né að þessi bifreið myndi ekki skila mér aftur fyrr en eftir um það bil tíu klukkutíma. Á tíu klukkutímum getur ýmislegt gerst. Ég var allt í einu stödd einhvers staðar úti á víðavangi í brekku, þar sem maður greindi smám saman ljósahaf borgarinnar eftir því sem dagsbirtan þvarr. Þennan tiltekna dag varði dagurinn til klukkan átján, þetta var tími milli tveggja tímabila, annars vegar þess tímabils þegar það kemur enginn dagur, nótt tekur við af nótt sem tekur við af nótt og hins vegar þess tímabils þegar dagurinn tekur við af deginum sem kemur á eftir deginum, tími í biðstöðu gæti maður sagt, og hún stóð kyrr þessi stund meðan ég hlustaði á snarkið í logunum sem hituðu stóra svarta hraunhnullunga þar til þeir urðu rauðir, og eftir að búið var að reikna út hver væri talan mín samkvæmt stjörnunum var klesst á mig gulum gleraugum og hreytt í mig þessari speki: „Ekki vera gamaldags, gleymdu fortíðinni og snúðu þér að framtíðinni.“ Svo í þessu undarlega landi sem er mér framandi en mér finnst ég samt verða æ nánari með hverjum degi, var komið að fyrsta hluta reynslu sem veit- ist manni hvergi annars staðar. Þegar ég spurði Björk hvort hún hefði einhvern tímann farið í svitahof sagði hún mér að hún þekkti gamla indíánann sem væri maðurinn á bak við þetta, móðir hennar hefði fengið hann til að koma til Íslands. Ég hef bara séð hann á ljósmynd, tveir karlmenn, par, höfðu tekið við kyndlinum. Kling var maður á miðjum aldri en Klang yngri maður. Kling sá um útreikningana, útskýrði, las framtíðina úr logunum. Klang var meira í því líkamlega, saltið á snjónum, steinarnir í eldstæðinu, fimleikakúnstir á dansgólfinu, það var hans deild. Norðurljósin komu mér ekki til bjarg- ar svo ég byrjaði að masa. Það var útskýrt fyrir mér að þessi reynsla yrði einstök og því erfiðari sem hún yrði, þeim mun hollari yrði hún fyrir mig. Ég mætti ekki fara, ég mætti ekki stinga af. Því meir sem maður nálgaðist dauðann, því betra. Maður ætti að syngja með hinum jafnvel þótt maður skildi ekki neitt í neinu, umfram allt ekki flýja af hólmi, umfram allt vera áfram. Við fórum upp í húsið, allir höfðu fataskipti. Kling setti höfuðklút yfir hárið á sér, hann var í bermúda-buxum, tveimur stuttermabolum og sokkum. Klang var horfinn. Við komum inn í stórt ílangt herbergi sem var algjörlega ein- angrað frá heiminum fyrir utan, hvarvetna á veggjunum og í loftinu gat að líta skraut, hommatímarit, tuskubangsa og mál- verk eftir Klang, mjög impressjónísk mitt í pastellitunum sem þöktu allt pláss á veggjum og í loftinu sem myndi blasa við ef allt hitt yrði fjarlægt. Kling kveikti á hjartalaga lampa sem blikkaði og Klang, sem var kominn aftur, setti diskókúluna í samband. Ógreinileg sönglög bárust frá útvarpsvekjara og þarna slepptum við fram af okkur beislinu. Öll með bakið að veggnum hófum við leikinn með því að sveifla handleggjunum, við hoppuðum, við skókum höfuðið, Kling lokaði augunum og lék á tambúrínurnar sínar. Við drukkum vatn. Síðan beint í sundföt, sumir tóku púðana sína, aðrir handklæðin sín, ekki mátti gleyma sandölunum. Og svo, til allrar hamingju, þegar komið var aftur út í kuldann gaf snjórinn þessu öllu róm- antískt yfirbragð. Því næst þurfti maður að smeygja sér inn í tjald sem svartir ruslapokar höfðu verið breiddir yfir, skríða í kringum eldstæðið frá vinstri til hægri og koma sér síðan fyrir milli tveggja ókunnugra líkama og bjóða velkomna alla steinana sem komu inn á eftir. Þegar Kling og Klang lokuðu tjaldinu í upphafi fyrstu lotu - þær yrðu víst sjö - vissi ég ekki hverju ég gæti átt von á. Klang hafði dreift svampbútum sem maður átti að setja á kollinn á sér til þess að geta þraukað. Hann hafði útdeilt ilmolíu úr lófa sínum og hann kastaði ilmjurtum á eldinn, hann var líka reiðubúinn til þess að hýða okk- ur dálítið ef einhver þyrfti að hreinsa sérstaklega ákveðna staði. Eftir fyrstu lotuna var ég spurð hvort ekki hefði gengið vel hjá mér. „Aldeilis ekki“ sagði ég. Og það var satt, þetta hafði verið hryllilegt. Til allrar hamingju sagði Kling mér að staðreyndin væri sú að hver lota hreinsaði tiltekinn „hluta“ af manni sjálfum eða hinum. Sú fyrsta hefði verið helguð lík- amanum. Það þýddi að því meir sem ég hefði þjáðst því meiri möguleika ætti ég á því að hreinsa út vondar bylgjur sem hefðu safnast fyrir innan í mér. Það er rétt að það komi fram að ég var með stóra galdranornarbólu við munninn sem hafði kannski vakið hjá honum þessar vangaveltur. Þegar loksins kom að síðustu lotunni og við fengum að vita að hún væri helg- uð vísundum, skildi ég ekki hvað þessi horfnu dýr væru að gera þarna í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar og ofan á allt annað í landi sem var umlukið sjó. Á eftir gerði ég allt sem til var ætlast: mín beið bað utan dyra í plastkeri fullu af heitu vatni og síðar köldu, indíánakvöldverður inni í húsinu með eftirrétti úr poppkorni og svo leikur með teninga. Þegar þeir létu mig lausa, fann ég ekki hjá mér löngun til eins né neins og þess vegna ímyndaði ég mér sjálfa mig langt í burtu í líkama gagnteknum af ást einhvers staðar í Frakklandi, bara til þess að finna að nýju þann unað sem girndin veitir: „Ég sakna þín. Ó, hvað ég elska þig heitt og hvað það er sársaukafullt að elska þig af því að það er ekki til neins, ég skipti þig engu, skipti engu máli í lífi þínu og þú leggur undir þig allar hugsanir mínar. Því lengra í burtu sem þú ert, því ákafar ásækirðu mig, því lengur sem þú ert í burtu, með því meiri óþreyju bíð ég þín. Gráminn í París vekur ljúfsárar minningar um ást- arleiki okkar. Hvernig er hægt að skipa sárþjökuðu hjarta mínu að gefa sig ekki viðkvæmninni á vald við það að minningar um þig rifjast upp? Ég veit það ekki. Ég veit það ekki. Mér dettur engin lausn í hug því ég verð meyr við það eitt að nafn þitt kemur upp í hugann.“ Og svo í stað þess að skrifa undir „Ho-Wa-He“, sem þýðir „Ekkert“ á máli Cheynne-indíána, hef ég valið nafn konu sem myndi hafa yndi af því að rifja upp löngu liðna æsku sína, þessi gamla kona heitir víst Stéphanie. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson HO-WA-HE, Ekkert

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.