Lesbók Morgunblaðsins - 31.03.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 31.03.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 31. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Portrett úr orðum eftir Stéphanie Cohen Limmósína nemur staðar. Bílstjórinn opnar fyrir mér dyrnar og tilkynnir mér: „Ég veit alveg hver þú ert.“ „Seiðkona í New York í leit að konu frá Íslandi, það vekur óhjákvæmilega athygli!“ hugsa ég með sjálfri mér. Við ökum út úr borginni. Við líðum áfram þar til við komum í mjög sérstaka götu. Fólkið hérna tilheyrir flökkuþjóð, Al Pacino, Bill Murray, Barischnikov… Það kærir sig ekki um að merkja húsin sín með númerum, sá íbúi sem leitað er að ferðast um á skýi. „Þvílík óheppni!“ hugsa ég. En bílstjórinn fullyrðir: „Ég veit alveg hvar Nah-Se-Uskuk býr.“ Það er ábyggilega dulnefnið henn- ar. Ég hef varla hringt bjöllunni þegar íslenska konan, alþakin hörðum trépinnum sem hefur verið smeygt undir húðina, býður mig velkomna með brosi. Ég segi við sjálfa mig: „Álfkona eða galdra- norn!“ Hún spyr mig hvort ég sé svöng. Þannig byrjar fólk af hennar þjóðerni á því að sýna kurteisi: sá sem er mettur gleymir því sem á bjátar. Nah-Se-Uskuk hefur útbúið rétt úr soðnu hundakjöti með hvítum eplum, næpum frá sléttunum miklu. Þetta er vináttuvottur… Hún horfir á mig meðan ég geri mér gott af matnum, og ég spyr hana hvers vegna hún fái sér ekkert sjálf. Hún afsakar sig hlæjandi: „Í þrjár vikur hef ég bara drukkið súpu og ég borða bara það sem er gult.“ Ég kafroðna! Hún vill greinilega „stara á sólina, þreyta próf hinna hugdjörfu“. Ég átti ekki von á öðru frá manneskju sem nýtur þess að gera tilraunir, skapa eitthvað úr sjálfri sér fyrir aðra til að horfa á, vera farvegur fyrir nýjungar! Hún býður mér að smeygja mér í föt sem eru í fljótandi formi og stinga mér í baðker sem er grafið í berg í fjallshlíð. Við komum úr kafi, hún klædd kampavíni og ég klædd kóka kóla, í miðri hjörð af hjartardýrum sem hún skiptist á nokkrum orðum við á framandi mállýsku. Skemmtiferðin um skógana er hafin. Íslenska konan kynnir mig fyrir vinum sínum: íkornum sem hafa heklað handa henni skartklæði og gefa fyrirskipanir með Blackberry-tæki, grænspætum sem pikka með gogginum á internetið þar til jarðvegur eins og á tunglinu verður til og láta bókstafi úr járni standa í ljósum log- um, og tugum páfugla sem sperra stélið á Macintoshtölvum og mynda dýrðlegan enduróm af ópunum sem Nah-Se-Uskuk rekur upp handan við skýjakljúfana. Frelsisstyttan hangir þarna, lárétt. Þetta er amerískur skógur. Meðan tambúrínurnar hljóma tryllingslega stappar Nah-Se-Uskuk fótunum taktfast í jörðina. Hún hlær, hún hlær. Og hún dansar, hún dansar, og sveiflar handleggjunum sem lengjast og verða að gríðarmiklum glampandi eldingum sem líkjast töfraþulum spákonu til dýrðar hinum sjö grundvallarþáttum sem allt byggist á. Áður fyrr söng hún til þess að tjá það sem henni lá á hjarta en í þetta skipti er hún að gera skyldu sína. Allt í einu kemur sú íslenska að mér, sópar burt veruleikanum með einni handasveiflu og segir við mig: „Við skulum drífa okkur til baka!“ Umfram allt veit ég að hún vill lifa lífinu eftir sínu eigin höfði, frjáls í landi forfeðra sinna, landinu sem er landið hennar. Og við erum skyndilega staddar báðar tvær á gríðarstórri svartri snekkju sem siglir venju- lega bara frá einni eyju til annarrar en villist og setur okkur fyrst úr í miðjum hitabeltisfrumskógi. Eftir för frá einum skógi til annars þá lendum við loksins á sama stað og við hófum ferðalagið, ís- lenskri jörð á bandarísku landsvæði. Djúpt snortin, og um leið staðráðin í því að geispa ekki svo að hugur minn hverfi ekki út í buskann fyrir fullt og allt, átta ég mig á því við hvern ég er að eiga. Nah-Se-Uskuk er töfravera, kröftugur stríðsmaður sem, ef hann syngur ekki stoltur hástöfum ást- aróð sinn til lífsins, hniprar sig saman skömmustulegur vegna sjálfs sín og þeirra spurninga sem hann gæti spurt mannkynið. Það er þá sem ég tek eftir dálitlu á Nah-Se-Uskuk sem ég hef ekki séð áður. Um háls hennar hangir hálsfesti úr jöxlum. Þetta hefði getað verið tilvalinn dagur til þess að deyja… Án þess að spyrja neinna spurninga hverf ég inn í limmósínuna sem bíður eftir mér. Og bílstjórinn fullyrðir við mig: „Ég veit alveg að Nah-Se-Uskuk þýðir Þrumufleygur sem þýtur í hringi á máli sioux indíána.“ Líkt og ég hafi fengið vitrun, svara ég honum: „Auðvitað, og ég heiti Björk.“ Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson Frönsk menningarhátíð, Pourquoi pas? Franskt vor á Íslandi. NAH-SE-USKUK, Þrumu- fleygur sem þýtur í hringi

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.