Lesbók Morgunblaðsins - 14.04.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 14.04.2007, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 14. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.is ! Spurningakeppni fjölmiðlanna er með skemmtilegri dag- skrárliðum páskanna. Hún fer fram á Rás tvö yfir bæna- og helgidaga undir stjórn hins hik- lausa Ævars Arnar Jósepssonar – sem vonandi er æviráðinn. Í þetta sinn bar lið Ríkisút- varpsins sigur úr býtum, þeir tveir eru væntanlega komnir upp á Snæfellsjökul, í því fólust verðlaunin meðal annars og þeir voru hressir og klárir. En mitt í öllum skemmtilegheitunum rak ég mig á eitt. Fjölmiðlafólkið vaska, sem kom jafnt af frétta- og sérdeildum prent- og ljós- vakamiðla, mundi naumast einn einasta titil íslenskra skáldverka sem út komu fyrir jólin. Í nær öllum viðureignum keppninnar – að frátöldum undanúrslitum – spurði Ævar Örn hvað nýjustu bækur tiltekinna höfunda hétu og það var eins og við manninn mælt; keppendur stóðu ger- samlega á gati. Hvað heitir nýjasta bók Auðar Jóns- dóttur? Hik. Humm. Tja. Ég man hvað hin bókin hét, en… Svarið er Tryggðarp- antur. Hvaða bók sendi Fríða Á. Sigurð- ardóttir frá sér fyrir jólin? Bíddu, ég las hana nú örugglega…. Rangt svar. Hún heitir Í húsi Júlíu. Þannig gekk þetta nán- ast keppnina á enda. Fólk mundi ekki Sér grefur gröf eftir Yrsu Sigurðardóttur, það kannaðist ekki við bók Guðbergs Bergs- sonar (Ein og hálf bók – Hryllileg saga), það gat ekki nefnt Hið stórfenglega leynd- armál Heimsins eftir Steinar Braga, það mundi ekki titil Kristínar Steinsdóttur, Á eigin vegum, það flaskaði á titli Eiríks Guðmundssonar (Undir himninum) og Ei- ríks Arnar Norðdahl (Eitur fyrir byrj- endur) – í svipinn man ég bara eftir því að Farþeginn eftir Árna Þórarinsson og Pál Kristin Pálsson hafi aflað liði stigs. Ekki vildi betur til þegar taldar voru upp fjórar bækur sem tilnefndar voru til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna og spurt um þá fimmtu – Fyrir kvölddyrum, ljóðabók Hannesar Péturssonar. Þvínæst voru taldar upp fjórar tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis – en svar- endur gátu heldur ekki sagt spyrli að fimmta bókin hefði verið Óvinir ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson. Þá tók ekki minna japl og jamm við þeg- ar veslings spyrillinn – sem sjálfur hefur sent frá sér bækur, eflaust feginn að hafa þær ekki með – skipti yfir í ljóðagírinn og spurði: Hver sendi frá sér ljóðabókina Borg í þoku fyrir jólin? Það var Hermann Stefánsson, en nei, enginn var með það. Næsta spurning: Hver orti um Frostfiðr- ildin, í samnefndri bók? Enginn heldur, það var Linda Vilhjálmsdóttir. „Það kem- ur svo mikið út af þessum ljóðabókum, það er ekki nokkur leið að fylgjast með þessu,“ sagði rödd eins keppanda, eflaust til að kaupa tíma, eða til að djóka smá; fleiri skemmtilegar skýringar voru látnar flakka („Sú bók fór nú ekki hátt,“ o.s.frv.). Rétt var þó svarað um áfangastað Sendiherrans í samnefndri bók Braga Ólafssonar, nafngjafa persónu í Skipinu Stefáns Mána og bíltegund Óla Gunn og Einars Kárasonar – svo fyllsta sannmælis sé hér gætt. Ég ítreka að spurningakeppnin var hin skemmtilegasta, svör bárust um pólitík, fugla, fréttir, íþróttir og músík, og þótt vakin sé athygli á meintri gloppu bók- mennta er hér engri rýrð kastað á neinn. Það er engin skylda að leggja á minnið bókatitla frekar en bílnúmer. Jafnvel þótt fólk starfi við fjölmiðlun. Eftir sem áður er þetta ákveðið umhugsunarefni, fyrir út- gefendur, höfunda, kápuhönnuði, bók- sala… Er jólabókaflóðið svona auð- gleymt? Eru lesendur svona fáir? Eða þurfa höfundarnir bara að smíða eft- irminnilegri titla? Það er spurning. Það er spurning Eftir Guðna Elísson gudnieli@mbl.is U ndanfarna daga hefur nokk- uð verið rætt um þá breyt- ingu sem orðið hefur á fjöl- miðlaumfjölluninni með tilkomu bloggsins. Umræð- an varpar ljósi á vandann sem stafar af fréttabloggi og vekur upp spurningar um ábyrgð bloggara á skrifum sínum. Að sama skapi má spyrja hvort fréttamiðlarnir beri ábyrgð á því bloggi sem þeir hýsa með beinum eða óbeinum hætti, hvort sem þeir bjóða lesendum sínum að blogga um ákveðnar fréttir eða að birta skoðanir sínar á vefsvæði fréttamiðilsins. Í fréttinni „Vilja betri bloggsiði“ sem birt- ist í Morgunblaðinu 10. apríl kemur fram að í Bandaríkjunum reyni menn nú að móta siðareglur svo hafa megi hemil á „þeim ruddaskap sem margir virðast telja sjálf- sagðan á miðlinum“. Vonast er til að blogg- arar taki sig „saman um að banna fólki að skrifa nafnlausar athugasemdir á gestasíður og bloggarar geti eytt færslum gesta af bloggi sínu án þess að vera sakaðir um rit- skoðun“. Með þessu á þó ekki algjörlega að loka fyrir möguleikann á nafnlausum skoð- anaskiptum. Fremur á að gera bloggurum kleift að skilgreina síður sínar með þeim hætti að augljóst sé hvers konar skoð- anaskipti þeir viðurkenni. Þannig geta sumir sætt sig við nafnlausar athugasemdir, á meðan aðrir hafna þeim, auk þess sem bloggarar geti sett fram kröfur um trúverð- ugleika þess sem haldið er fram. Siðaregl- urnar eru ekki síst settar fram vegna þess að þekktum bandarískum bloggara, Kathy Sierra, hefur verið hótað lífláti vegna deilna um það hvort umsjónarmenn bloggsíðna megi eyða dónalegum athugasemdum gesta. Í sama blaði biður prófessor í stjórnmála- hagfræði við Princeton-háskóla íslensku þjóðina afsökunar á háðsádeilu sem hann skrifaði á vefrit tengt skólanum þar sem hann færði rök fyrir því að Ísland væri mun fýsilegra skotmark í bandarísku árásarstríði en Íran. Reinhardt segist hafa fengið milli 50 og 80 svarbréf við greininni og að ein- hverjir Íslendinganna hafi „bölsótast út í hann og orðalag sumra bréfanna hafi verið mjög dónalegt, allt að því ógnandi“. Einn Ís- lendinganna gekk svo langt að senda skeyti með fyrirsögninni „Ég drep þig“. Sama dag birtist á vefsíðu Vísis (visir.is) frétt þess efnis að stjórnvöld í Bretlandi höfði nú til siðferðis þeirra einstaklinga sem hýsa myndbandsbrot af ýmsu tagi á vefsíð- um sínum, en farið er fram á að þeir fjar- lægi „þau myndbönd sem þykja niðurlægja kennara eða nemendur og krakkar hafa tek- ið á farsíma sína“. Samkvæmt fréttinni hafa um 17% kennara í Bretlandi lent í „einelti og hefur þá verið notast við tölvupóst, smá- skilaboð (sms) eða vefsíður til þess að gera lítið úr þeim“. Í fjórðu fréttinni (9. apríl) ræðir Egill Helgason vankanta bloggsins og vísar í grein Olivers Kamm („A Parody of Democ- racy“) sem birtist í breska blaðinu Guardian í vikunni. Kamm einblínir á pólitískt blogg og segir það aðeins eitra umræðuna: „Blogg- ið er svosem nógu lýðræðislegt […] en það er einatt slappt og klasturslegt, keppir alls ekki við alvöru dagblöð þar sem eru í gildi reglur um framsetningu og efnistök. Maður þarf ekki að vita neitt eða kunna neitt til að blogga. […] Og svo er það skítkastið. Allur óhróðurinn sem er settur fram um stjórn- málamenn og opinberar persónur.“ Auðvitað má ekki flokka alla bloggara með þessum hætti. Bloggið lýtur sömu reglum og önnur mannanna verk, það er eins vandað og bloggararnir hafa metnað og getu til. Eitt einkenni á miðlinum er þó furðulegt hömluleysi, en bloggarar láta stundum ýmislegt fjúka á bloggsíðum sínum um sjálfa sig og aðra sem þeir hefðu betur látið ósagt, og líklega aldrei sagt ef miðillinn væri annar. Skýringarinnar er hugsanlega að leita í því að miðillinn er enn í mótun. Jafnframt á bloggsíðan upptök sín í einka- rýminu en er þó í almenningi eins þversagn- arkennt og það kann að hljóma. Stundum er eins og bloggarar missi sjónar á þessu með því að skrifa eitthvað sem ætlað er vel völd- um lesendahópi en birta það svo með þeim hætti að það ratar til allra. Fréttirnar sem ég vitnaði til hér að fram- an sýna glögglega áhrif þessa nýja frétta- og samskiptamiðils. Á Íslandi, rétt eins og ann- ars staðar, hafa hefðbundnir fréttamiðlar ýtt undir vægi hans með því að bjóða lesendum að blogga um fréttir, eða ræða þær undir sjálfri fréttinni eins og er t.d. hægt að gera á heimasíðu Vísis. Þó virðast hvorki Morg- unblaðið né 365 miðlar hafa mótað með sér sérstakar vinnureglur um efnið sem berst þeim með þessum hætti. Af og til sést þó glögglega vandinn við það nýfengna vald sem fréttamiðlarnir hafa fært í hendur landsmanna. Gott dæmi er umræð- an sem spratt upp í síðasta mánuði í kjölfar lýsingar Guðbjargar Hildar Kolbeins kenn- ara í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands á fyrirsætu sem prýddi forsíðu ferming- arbæklings Smáralindar. Guðbjörg taldi myndina af fyrirsætunni klámfengna og lýsti henni með nokkrum vel völdum orðum sem þættu ekki prenthæf í virðulegum fjöl- miðlum á borð við Morgunblaðið. Lýsingar Guðbjargar eru ekki síst forvitnilegar (í fræðilegum skilningi orðsins) vegna þess að færa má rök fyrir því að miðillinn hafi borið hana ofurliði, að Guðbjörg hafi sagt það sem hún sagði vegna þess að hún var að blogga og að á sama tíma hafi hún misst sjónar á því að orð hennar mátti túlka sem opinbera árás á virðingu ungrar stúlku. (Hvort sem menn eru sammála eða ósammála greiningu Guðbjargar á myndinni má gagnrýna orða- val hennar.) Að sama skapi var bloggið um Smáralind- arklámið stórfrétt fyrir aðra bloggara, svo ekki sé minnst á þá nafnlausu álitsgjafa sem ala líf sitt á fréttavef Vísis. Þangað var um- ræðunni ítrekað beint af blaðamanni Frétta- blaðsins og þar týndist hún í andstyggilegu einelti, þar sem tugir nafnlausra ein- staklinga veittust að Guðbjörgu, svívirtu hana og niðurlægðu í nafni réttlætiskenndar sinnar. Sumir gengu jafnvel svo langt að segja hana réttdræpa fyrir orð sín. Blaða- maðurinn gaf út skotleyfið þótt hann tæki ekki sjálfur í gikkinn og enginn þeirra sem opinberlega var spurður út í málið treysti sér til að snúa umræðunni á betri veg, eða gagnrýna umræðuplanið. Ef íslenskir fjölmiðlar ætla að gefa les- endum sínum kost á að blogga um þær fréttir sem þar eru birtar eða lýsa skoð- unum sínum á þeim verða þeir að sama skapi að bera ritstjórnarlega ábyrgð á því sem þar er skrifað, í siðferðilegum skilningi orðsins, ef ekki lagalegum. Íslenskir frétta- vefir eiga að setja strangari reglur en al- mennt viðgangast í bloggheimum. Þeir eiga ekki að sætta sig við nafnlausar at- hugasemdir og jafnframt eiga þeir að rit- stýra því efni sem þeir birta á vefsvæðum sínum, á sama hátt og aðsendar greinar á síðum dagblaðanna eru lesnar yfir. Ekki á að líða krækjur í svívirðingar af neinu tagi og því síður að leggjast svo lágt að skjóta skjólshúsi yfir slíkan ófögnuð eins og Fréttablaðið gerir. Einfaldasta leiðin til að hafa hemil á lág- kúru þeirri sem þrífst í skjóli nafnleyndar er að setja þær einföldu reglur að allir þeir sem taka þátt í þjóðmálaumræðunni í sam- vinnu við íslenska fjölmiðla geri slíkt undir fullu nafni. Athugasemdir? „Íslenskir fréttavefir eiga að setja strangari reglur en almennt viðgangast í bloggheimum. Þeir eiga ekki að sætta sig við nafnlausar athugasemdir,“ segir Guðni. FJÖLMIÐLAR »Ekki á að líða krækjur í svívirðingar af neinu tagi og því síður að leggjast svo lágt að skjóta skjóls- húsi yfir slíkan ófögnuð eins og Fréttablaðið gerir. „Það ætti að skera af þér hausinn“ Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.