Lesbók Morgunblaðsins - 14.04.2007, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 14.04.2007, Blaðsíða 3
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. APRÍL 2007 3 veðrið mikla, en menn eru kannski löngu búnir að gleyma, og var líklega í kringum 1966–’70. Þá horfði ég á þak hússins Heklu lyftast í einu lagi og fara ofan á alla sparibíl- ana sem voru í portinu á bak við en þetta er nú önnur saga. Ég náttúrlega ólst upp við það að vera af- skaplega háð veðri. Ég ólst upp í Aðaldal þar sem menn litu gjarnan til veðurs á hverjum morgni og veltu fyrir sér hinu og þessu sem tengdist veðri, sérstaklega á sumrin. Þá var alltaf spurning um þurrk og annað, vegna þess að þarna heima í Gufu- dal er ekkert veðursælt, vegurinn er ekki kominn, hann kemur ekki fyrr en ’52 og allir aðdrættir voru á sjó, svo menn spáðu nú oft í það hvort það mundi nú fært til sjávar. Ég er fædd í moldarbæ sem var samt stór og góður, gamalt prestssetur á þeirra tíma vísu. Þeir hafa kannski verið að deyja úr leiðindum út af sjónvarpsleysi. Útvarpið var gríðarlega mikið hlustað á og ég man nú þá tíð að Jón Eyþórsson sagði veður- fregnir. En hann sagði þær ekki á stríðs- árum. Það var einfaldlega þannig að á stríðsárunum voru ekki fluttar veðurfréttir svo þá voru menn kannski meira að spá í ský. Pabbi heitinn, Bergsveinn Sveinsson, hann fór kannski út á morgnana og skók sig í herðunum þegar hann kom inn og sagði kannski sem svo: „Ja, hann er alveg örugglega að versna því ekki batnar það sko.“ Þetta er bara eitthvað sem maður man sem krakki og þá var ævinlega verið að tala um að veðrið væri að versna. Hins vegar held ég að mér sé minnisstæðast af öllu heima, á meðan ég var þar, veturinn 1949, þá er það þannig að mamma veikist og er flutt með flugi til Reykjavíkur. Það skipti nú miklu máli hvort það var fært þann daginn því hún var flutt afskaplega ein- kennilega, hún var flutt á sleða sem hestur dró út að ísskörinni. Við ísskörina lenti Jó- hannes Snorrason flugmaður svo á flugbát frá Ísafirði og tók þessa konu sem var í sjúkrakörfu og upp í vél fulla af farþegum. En Jón á Skálanesi, sem var á litlum ára- bát, mótorbát, flutti konuna einn um borð í vélina. Þann daginn var gott veður, það er engin spurning, annars hefði þetta ekki verið hægt. En 1949 skeður það að það er moldbylur í febrúar og mars nærri því á hverjum einasta degi. Það er svona það næsta sem ég hef komist því að vera þung- lynd því þá er ég bara ein með föður mínum og einum bróður mínum og ég er bara 13– 14 ára og er að reyna að elda. Ég lærði t.d. að baka brauð þarna og nota matreiðslu- bækur og annað, sem kemur nú ekki veðr- inu neitt við en þessi veðurhamur buldi á gluggum og þekju á gömlu baðstofunni. Það er mér svolítið minnisstætt að þá sagði pabbi: „Það er til fólk sem trúir því að þetta verði bara svona áfram og að svo komi ísöld.“ En það gerði það nú ekki því að 17. júní þetta sama ár varð okkur af- skaplega minnisstæður. Það var fyrsti þíðudagurinn það árið og þegar þiðnaði var ís um alla firði, það var snjór um allar hlíðar, engir vegir, ekki einu sinni hesta- troðningar, voru færir. Ég var send með Grána gamla með kerru aftan í út í Gróunes til að sækja lúðu sem flóabáturinn hafði skilið eftir þar. Þetta var venjan, vörurnar komu utan úr Flatey og voru skildar eftir þar og sóttar venjulega annaðhvort á sjó eða hestum. Nú þarna kom bara þokkaleg- asta sumar. Þó svo að veðrið hafi verið svona vont þá hafði gert það mikinn snjó að það hafði hlíft gróðrinum og vorið var þokkalegt þótt það byrjaði svona seint. Hitt er svo annað að í gegnum þessi ár öll sem liðin eru höfum við verið afskaplega mikið vestur á Fjörðum. Það má eiginlega segja að á hverju ári höfum við farið ein 50 ár aftur í tímann eða svo, því við erum með leigu Langabotn í Geirþjófsfirði og þar er enginn vegur kominn ennþá og kemur sennilega ekki, þar sést ekkert sjónvarp, við höfum nú orðið síma og höfum alltaf hlustað mikið á útvarp. En veðrið er samt sem áður það sem veldur okkur hvað mestu hugarangri. Á hverjum einasta morgni þegar við kíkjum út er það venju- lega, hvernig er veðrið. Og veðrið þar er al- veg óskaplega gott og hlýtt, þarna er bara gríðarlega gróður- og veðursælt. Ég hef verið þarna síðast í sumar í 27 stiga hita þar sem annars staðar en sjórinn aftur á móti er eins og vellandi grautarpottur. En þarna er oft það sem Arnfirðingar kalla innlogn. Þá er kannski sól og logn inni í dalnum en svo byrjar hann allt í einu að blása og blæs inn og það breytist sem sagt þannig að það verður ekkert fært á sjó. Svona getur hann verið dag eftir dag í marga daga og veldur okkur oft miklu hugarangri og svona til dæmis um það hvernig veður getur farið með fólk. Þá beið ég þarna eitt haustið eftir að full- orðna fólkið var farið og er þarna ein eftir með slatta af börnum, þar á meðal eitt barn sem var bara rétt um ársgamalt. Ég bíð út af því ég er sótt af bát en veðrið hagaði því þannig til að á hverjum degi sem ég fór á fætur þá blés hann og hann blés ansi rösk- lega bæði til lands og sjávar. Og það end- aði með því að ég varð olíulaus og varð að leggja til fjalls með börnin, ég gat ekki ver- ið áfram. Það varð mér til bjargar að þarna kom maður af fjalli, blessað barnið var sett í tösku og borið á bakinu af þessum full- orðna karlmanni sem kom þarna sem gest- ur og við klifruðum fjallið og rokið var svo mikið að við þurftum að skríða. Segðu svo að við séum ekki háð veðri. Hér er mesti rokrass landsins, hérna ger- ir veður sem er með þeim hætti að þú getur alveg sofnað í logni og góðu veðri og vakn- að upp við að hér sé komið rok sem er þannig að það blæs hérna frá fjöllunum. Það er ekki venjulegt rok, það stendur ekki steinn yfir steini. Það er dæmi um að menn hafi farið út, tekið með sér spotta og ætlað hérna upp í fjárhús en hangið í spottanum næsta klukkutímann og ekki komist aftur til baka inn. Þetta er alvara, þetta skeði í raun og veru, en þeir hafa nú komist með það í sjónvarpið í gríni. En málið er að mal- bikið fauk og syndin var sú að það var ný- lega búið að leggja malbikið og það bara rúllaðist upp hérna á veginum. Í raunveru- leikanum var það í svona roki þar sem möl- in fýkur, það bara bókstaflega skefur hérna. Það er ekki moldrok, það er bara möl sem fýkur hreinlega. Allir vindmælar eru nánast búnir að springa í þessum verstu hviðum enda náttúrlega ekkert skrítið, því að þetta eru í rauninni afleið- ingar af landfræðilegri legu þessa staðar. Veistu að ég held ekki að það sé kvíði í mér gagnvart veðri, en ég held að það brjótist út í því að ég hafi vissa áráttu um að þessi járnplata sé nógu vel negld, að það sé gengið nógu vel frá hlutunum, að það sé ekkert laust sem geti fokið eða valdið tjóni. En þó hefur það komið fyrir að ég hef verið óviðbúin svona veðri. Síðast í sumar, þá skall alveg fyrirvaralaust á svona veður, byrjaði á því að rífa niður girðingarnar hérna og einn smáfjalabútur sem var hérna á hlaðinu og virtist ekki vera neinum til skaða, hann skall á þvottahúsglugganum og braut hann. Ég held að í raun og veru sé kannski undir niðri einhver kvíði fyrir vetr- inum sjálfum en að hann sé minni en hann hafi verið vegna þess að nú höfum við fengið nokkra vetur sem hafa bara verið virkilega góðir. Við höfum náttúrlega ekk- ert bréf upp á það í dag að næsti vetur verði góður en við getum bara reynt að vona. Rebekka Bergsveinsdóttir Þetta er brot úr viðtali sem var tekið fyrir bók- ina Weather Reports You / Veðrið vitnar um þig fyrir Roni Horn (Útgefandi: Artangel/Steidl) og VATNASAFN / LIBRARY OF WATER. Veðr- ið vitnar um þig er safn veðurfrásagna frá Ís- landi. Vilt þú senda inn frásögn? Farðu á www.vatnasafn.is/vedur Eftir Gunnstein Ólafsson gl@ismennt.is Á þessu ári er þess minnst að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Jón- as skrifaði frægan ritdóm í Fjölni árið 1837 er hann stóð á þrítugu, þar sem hann er sagður hafa gengið af rímnakveðskap Íslend- inga dauðum. Í dómnum gerði hann lítið úr Rímum af Tristran og Indíönu eftir Sigurð Breiðfjörð, einn helsta meistara rímnakveð- skapar 19. aldar. Þar kallaði hann rímur kveðskap en ekki skáldskap og sagði að eins og þær væru kveðnar á Íslandi væri það til aðhláturs um alla veröldina. Hann fann sem sagt ekki aðeins að innihaldi rímna heldur einnig að því hvernig þær væru fluttar. Af þessu mætti ætla að Jónas hafi ekki verið gef- inn fyrir rímnasöng, allra síst fengist við hann sjálfur. Margt bendir þó til hins gagnstæða. Á 19. öld var rímnakveðskapur svo vinsæll á Íslandi, einkum á Norðurlandi, að með ólík- indum má teljast. Svo til hver maður átti sér uppáhaldskvæðalag sem hann greip til ef kveða þurfti vísu. Oft nægði að kunna eina stemmu því laga mátti hana að þeim brag- arhætti sem í notkun var hverju sinni. Til voru þeir sem höfðu lífsviðurværi sitt af því að ferðast á milli bæja og kveða fyrir heim- ilisfólk á kvöldvökum. Á 19. öld er vitað um afburða kvæðamenn á borð við Árna gersemi Árnason á Laxárdal fremri, Guðrúnu dilli- hnúðu Þorsteinsdóttur í Bárðardal og svo mætti lengi telja. Góðir kvæðamenn voru hvarvetna aufúsugestir. Þeir voru skemmti- kraftar síns tíma. Það var ungum drengjum kappsmál að kunna að kveða og stúlkum reyndar líka, þrátt fyrir að mörgum þætti það ekki við hæfi að kvenfólk kvæði rímur. Vísur urðu til um allar sveitir og kvæðalögin skiptu þúsundum. Benedikt á Auðnum skrifar í upp- hafi 20. aldar: „Manna á milli gengur svo mik- ill urmull af kvæðalögum með óteljandi til- breytingum, að manni liggur við að sundla í því flóði.“ Til þess að reyna að fá einhverja mynd af tónlistaruppeldi Jónasar er nauðsynlegt að skoða hvar hann ól manninn í æsku. Hann fæddist að Hrauni í Öxnadal árið 1807 en flyst ársgamall með fjölskyldu sinni að Steinsstöðum, skammt frá Hrauni. Þegar Jónas er níu ára drukknar faðir hans sem kunnugt er og drengnum er komið í fóstur til móðursystur sinnar í Hvassafelli, innst í Eyjafirði. Jónas er í Hvassafelli að því er virðist fram að fermingu en þá er hann aftur skráður til heimilis að Steinsstöðum hjá móð- ur sinni. Veturinn 1819-20 er honum komið í læri hjá Jóni Jónssyni „hinum lærða“ í Möðrufelli, skammt frá Hvassafelli, þar sem hann er einn vetur og síðan aðra tvo hjá tengdasyni Jóns, sr. Einari Thorlacius í Goð- dölum í Skagafirði. Þaðan heldur Jónas til náms að Bessastöðum. Jónasar er nokkrum sinnum getið í þjóð- lagasafni sr. Bjarna Þorsteinssonar frá 1906- 1909. Árið 1897 leitaði sr. Bjarni til Páls Mel- steð, fyrrum alþingismanns og sýslumanns, um gömul þjóðlög. Þeir Páll og Jónas voru um tíma saman í Bessastaðaskóla og varð vel til vina; segir Páll í ævisögu sinni að Jónas hafi verið mikill söngmaður. Því til stuðnings kvað hann kvæðalag Jónasar fyrir sr. Bjarna, svokallað Eyfirðingalag. Jónas hefur með öðr- um orðum átt sitt eigið kvæðalag líkt og svo margir aðrir. Á öðrum stað í þjóðlagasafninu er stemma frá Páli Hallgrímssyni í Möðrufelli í Eyjafirði, nóterað af sr. Bjarna árið 1898, Þessi penni þóknast mér. Lagið er kennt við Tómas Ásmundsson hreppstjóra á Steins- stöðum, mág Jónasar Hallgrímssonar og afa Páls í Möðrufelli. Einar Thorlacius lærifaðir Jónasar í Goðdölum hafði mikinn áhuga á fornminjum og skáldskap og því er ekki ólík- legt að hann hafi haft gaman af fornum þjóð- lögum. Í þjóðlagasafninu er líka eitt lag sem alnafni hans og barnabarn, sr. Einar Thorla- cius prestur á Hvalfjarðarströnd söng, Svo vil ég svefnfús. Lagið er að vísu austan af landi en ber engu að síður vitni um tónlistaráhuga í fjölskyldunni að Goðdölum. Á Bessastöðum var vitanlega gríðarlega mikið sungið. Í þjóð- lagasafninu tilgreinir Páll Melsteð 50 íslensk þjóðlög sem höfð voru um hönd á námsárum þeirra Jónasar á Bessastöðum, þar á meðal allmörg tvísöngslög. Greinilegt er að söngur hefur skipað veiga- mikinn sess í lífi Jónasar Hallgrímssonar. Honum stóð ekki á sama um hvernig að hon- um var staðið. (Sjá t.d. ljóð Jónasar um for- söngvarann Þorkel þunna). Hvar sem hann dvaldi í æsku var mikill áhugi á söng og kveð- skap, ekki síst á rímnasöng. Hann hefur drukkið vísurnar og kvæðalögin í sig og vit- anlega tekið virkan þátt eins og kvæðalag hans ber vitni um. Þegar skáldið kynnist nýrri tónlist og annars konar söng í Dan- mörku breytist afstaða hans til söngmáta Ís- lendinga, ekki síst til rímnasöngsins. Jónasi finnst betur sungið ytra en að vissu leyti fell- ur hann í þá gryfju að bera saman appelsínur og epli; að kveða er alls ekki það sama og að syngja. Í söng, skóluðum á evrópska vísu, er hrynjandin stöðug, tónarnir markvissir og lagið alltaf eins í hverju erindi. Í rímna- söngnum var hrynjandin hins vegar sí- breytileg, tónarnir flöktandi, oft með dilli eða skrauti, jafnvel fjórðungstónbilum og erindin aldrei alveg eins. Afstaða Jónasar til rímn- anna er merkileg vegna þess að hann hafði sjálfur stundað rímnasöng; tónlistin sem þjálfaði rödd skáldsins og slípaði tón- og brageyra þess er í ritdómi hans í Fjölni orðin „þjóðinni til minnkunar“, rímnasónninn í bað- stofunni heima á Steinsstöðum orðinn „til ævarandi spotts og aðhláturs um alla veröld- ina“. En þetta álit Jónasar stafaði ekki af hroka menntamannsins gagnvart menningu alþýðunnar; þetta var uppgjör kvæðamanns við fortíð sína og tónlistaruppeldi í æsku.  Bjarni Þorsteinsson: Íslensk þjóðlög Guðmundur Andri Thorsson: „Ónytsamlegu kveðlingar“. Silfurplötur Iðunnar Handrit sr. Bjarna Þorsteinssonar á Stofnun Árna Magn- ússonar Hannes Pétursson: Kvæðafylgsni Jónas Hallgrímsson: Ljóð og lausamál. Svart á hvítu, Reykjavík 1989 Páll Valsson: Jónas Hallgrímsson, Ævisaga Vefur Landbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um Jónas Hallgrímsson (http://www.jonashallgrimsson.is/ id/1015658) Kvæðalag Jónasar Hallgrímssonar Eyfirðingalag Kvæðalag Jónasar Hallgrímssonar . Handrit sr. Bjarna Þorsteinssonar, varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar. Mynd: JÓL. Höfundur er tónlistarmaður.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.