Lesbók Morgunblaðsins - 14.04.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 14.04.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 14. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók lúta ekki formúlu markaðstrúboðsins í Wash- ington. Þau eru þvert á móti valkostur við það módel. Og í alþjóðlegu samhengi eru vonir okkar jafnaðarmanna við það bundnar, að Evrópusambandið verði með tíð og tíma ekki aðeins friðarafl í okkar heimshluta (sem það er), heldur öflugt mótvægi við bandaríska heimsvaldastefnu, þegar á þarf að halda. Að því eigum við jafnaðarmenn að vinna saman – innan Evrópusambandsins. Það er engin tilviljun, að það eru breskir íhaldsmenn, sem eru hörðustu gagnrýnendur Evrópusambandsins innan frá. Það er heldur engin tilviljun, að Sjálfstæðisflokkurinn er eini hægri flokkurinn í Evrópu, sem lýsir harðri andstöðu við Evrópusambandsaðild og yf- irleitt á þeirri forsendu, að Evrópusambandið sé of sósíaldemókratískt. Vinstri-grænir reyna hins vegar að telja sér trú um, að Evr- ópusambandið sé partur af hinu ameríska frjálshyggjutrúboði. Hvort tveggja getur ekki verið rétt. En Evrópusambandið er hinn rétti vettvangur fyrir lýðræðisríki Evrópu til að bregðast við hnattvæðingunni, með kostum hennar og göll- um, með samstöðu um það, sem þjóðríkin ein og sér fá ekki við ráðið. Evrópusambandið er ótvírætt friðarafl í okkar heimshluta, sem get- ur orðið mótvægi við öfgar amerískrar heims- valdastefnu. Og hið félagslega þjóðfélags- módel Evrópuríkja er vissulega í grundvallaratriðum frábrugðið amerískum kapítalisma og í reynd valkostur við hann. Af þessum ástæðum er Evrópusambandið kjör- inn samstarfsvettvangur jafnaðarmanna. Þess vegna sætir það furðu, að fulltrúar Vinstri- grænna í Evrópustefnunefnd skrifa undir sameiginlega álitsgerð með íhaldinu undir for- ystu Björns Bjarnasonar. Hvað á svona nokk- uð að þýða? Þykjast þau sjá eitthvað róttækt við það? Sannleikurinn er sá, að gagnrýni Stein- gríms á Evrópusambandið samanstendur að- allega af sparðatíningi um aukaatriði – jafnvel nöldri – fremur en greiningu út frá pólitískum grundvallarsjónarmiðum og þjóðarhags- munum Íslendinga. Hræðsluáróðurinn um, að við aðild yrðu Íslendingar að afsala sér for- ræði yfir fiskimiðunum, hefur verið marg- hrakinn og nú seinast í vitnisburði fyrir Evr- ópustefnunefnd. Ég er þess fullviss – og tala af nokkurri reynslu af samningum við Evr- ópusambandið – að sjávarútvegsmálin verða okkur ekki sá Þrándur í Götu, sem LÍÚ-klíkan og kvótaeigendurnir vilja vera láta. Stóra spurningin um hugsanlega aðild Ís- lands að Evrópusambandinu er hápólitísk. Það er spurningin um það, hvar Íslendingar vilji skipa sér í sveit í samfélagi þjóðanna í framtíðinni. Svarið við þeirri spurningu bygg- ist á raunsæju mati á því, hvernig þjóðarhags- munum okkar verður best borgið út frá sjón- armiðum þjóðaröryggis, viðskiptahagsmuna og pólitískrar samstöðu. Grundvallarhags- munir Íslendinga sem herlausrar smáþjóðar lúta að því að tryggja, að lög og réttur ráði fremur en valdbeiting í samskiptum þjóða. Þar eigum við samstöðu með Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóðum og í vaxandi mæli með Evrópusambandinu sem friðarafli, sem byggir öll samskipti aðildarríkjanna á samningum á grundvelli laga og réttar. Gegn okursamfélaginu – með Evrópu Sú kenning, að slá beri skjaldborg um sjálf- stæða peningamálastefnu og íslensku krónuna sem tákn um ímyndað fullveldi ríkisins, er ekki til marks um róttæka hugsun í þágu al- mannahagsmuna. Öllum má ljóst vera, að krónan hefur ekki verið gjaldgengur gjald- miðill frá því að verðtryggingin var tekin upp. Krónan er ekki nothæf í lánsviðskiptum til lengri tíma. Hún er hvorki nothæf til vörslu verðmæta né sem reiknieining eða mælikvarði á verðmæti. Einmitt þess vegna urðum við að taka upp verðtrygginguna. Það gerðum við á sínum tíma af illri nauðsyn til þess að kveða niður verðbólguna og varðveita skyldusparn- að almennings í lífeyrissjóðum, sem ella hefði fuðrað upp í verðbólgunni. Þetta var harkaleg aðgerð á sínum tíma, en hún dugði til að bjarga lífeyrissjóðunum og þar með lágmarks- afkomuöryggi vinnandi fólks í framtíðinni. Lífeyrisréttindi, sem byggjast á sjóðasöfn- un og ávöxtun af fjárfestingu, eru einn helsti styrkleiki íslenska hagkerfisins í samanburði við önnur. Hins vegar eru ófyrirséðar og óæskilegar afleiðingar verðtryggingarinnar sífellt að koma betur í ljós. Verðtryggingin er farin að virka sem snuð, sem firrir rík- isstjórnir og fjármálavaldið (t.d. bankana) ábyrgð gerða sinna. Þegar hagstjórnarmistök leiða til verðbólgu og vaxtahækkana, er kostn- aðinum beint um farveg verðtryggingarinnar inn í höfuðstól skulda landsmanna. Þetta þýð- ir, að hin skuldugu heimili á Íslandi eru bund- in á skuldaklafa lánardrottna áratugi fram í tímann. Heimilin eru orðin veðsett okursam- félaginu. Ef engin væri verðtryggingin, hefðu vextir af lánum rokið upp úr öllu valdi, sem hefði fljótlega leitt til fjöldaatvinnuleysis og eignamissis almennings. Væntanlega myndu kjósendur henda út skussum, sem væru upp- vísir að slíkri óstjórn. Þegar ég segi, að verð- tryggingin sé orðin að dúsu, þá á ég við, að hún felur afleiðingar óstjórnar, en framlengir skuldafjötra almennings og skerðir lífskjör til langs tíma. Þetta er í reynd hið heimatilbúna séreinkenni íslenska okursamfélagsins. Fyrirtækin á Íslandi hafa að undanförnu unnvörpum flúið undan hagstjórnarmistökum stjórnvalda og meðfylgjandi óstöðugleika gjaldmiðilsins og leitað skjóls í evrunni. Al- menningur í landinu reynir að fara að fordæmi fyrirtækjanna eftir því sem kostur er. Ef krón- unni er réttilega lýst sem viðskiptahindrun, þá er verðtryggingarkrónan orðin að tákni um nýtt vistarband og skuldafjötra. Sá sem vill losa um þessa skuldafjötra, og gefa fólki og fyrirtækjum kost á að búa við stöðugleika og öryggi um afkomu sína, hlýtur að taka spurn- inguna um Evrópusambandsaðild alvarlega. Það er þess vegna ekkert róttækt við stefnu Steingríms og Ögmundar í Evrópumálum. Þvert á móti lýsir afstaða þeirra hefðbundnum heimóttarskap „innilokunarsinna“ í nafni mis- skilinnar þjóðernishyggju, sem endar fyrr en varir í lýðskrumi. Sá sem vill skera upp herör gegn okursamfélaginu, getur ekki afneitað Evrópu. Alþingiskosningar 2007: Hverra kosta er völ? Það er merkilegt, hversu skoðanakönnunum fyrir næstu kosningar vorið 2007 svipar til kosningaúrslitanna 1978. Þá eins og nú höfðu helmingaskiptaflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn, setið saman í rík- isstjórn – þá að vísu aðeins í fjögur ár, en nú í þrjú kjörtímabil, eða tólf ár. Þá töpuðu stjórnaflokkarnir báðir miklu fylgi, en Fram- sóknarflokkurinn galt afhroð. Þá fékk Alþýðu- flokkurinn svipað fylgi og Samfylkingin er lík- leg til að fá nú. Nú lítur út fyrir, að Vinstri-grænir fái ívið meira fylgi en Alþýðu- bandalagið fékk þá. Fari svo, verður það að teljast meiri háttar pólitískt afrek þeirra fóst- bræðra, Steingríms og Ögmundar, sem mæta þá sterkir til leiks í stjórnarmyndunarvið- ræðum. Hvorn kostinn velja þeir: Tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum (þjóð- lega íhaldsstjórn), sem mun í stórum dráttum viðhalda óbreyttu ástandi, eða þriggja flokka stjórn með Samfylkingu og þriðja aðila, næði hann máli? Hver gæti verið þriðji aðilinn: Framsókn, Frjálslyndi flokkurinn eða Íslands- hreyfing Ómars og Margrétar? Sagt er, að Steingrímur haldi báðum kostum opnum, en að Ögmundur fari með hið gamla boðorð þeirra feðga, Hermanns Jónassonar og Stein- gríms Hermannssonar, um að allt sé betra en íhaldið. Um þetta ber að spyrja frambjóð- endur Vinstri-grænna í þaula í kosningabar- áttunni. Eiga kjósendur ekki rétt á því að vita svörin, áður en þeir ganga að kjörborðinu? Verði kosningaúrslitin á þessa leið, stað- festir það, að tilraunin um sameiningu jafn- aðarmanna hefur enn einu sinni mistekist. Það væri þá eins og ekkert hefði gerst. Árið 1978 fengu A-flokkarnir samtals 28 þingmenn, vantaði fjóra í meirihluta. Niðurstaðan um stjórnarmyndun þá (árið 1978) varð sú, að með gagnkvæmri óvild útilokuðu A-flokkarnir stjórnarforystu hvors annars. Endataflið leiddi því til ríkisstjórnar undir forystu Fram- sóknarflokksins, þess flokks, sem goldið hafði mest afhroð í kosningunum. Þetta var reyndar ein versta ríkisstjórn lýðveldissögunnar og er þó af nógu að taka til samanburðar. Getur þessi saga endurtekið sig? Ef það er satt, að allt sé leyfilegt í ástum, fótbolta og pólitík, þá leyfist manni ekki að útiloka það. En það er a.m.k. einn munur á kosningunum 1978 og kosningunum í vor. Það eru fleiri framboð nú en þá. Það verður að teljast lík- legt, að stjórnarflokkana vanti herslumun í að halda meirihluta sínum. Það bendir líka allt til þess, að það vanti talsvert upp á til þess að Vinstri-græn og Samfylkingin geti myndað stjórn. Það þarf ekki að eyða orðum að fram- boði aldraðra. Það er andvana fætt. Frjáls- lyndi flokkurinn er á góðri leið með að dæma sig úr leik – og hefur kannski þegar gert það – með lýðskrumi gegn innflytjendum og með því að ala á ótta um atvinnuleysi og kjaraskerð- ingu í samkeppninni um atvinnuna. Þá stendur eftir hið pólitíska eignarhaldsfélag Fram- sóknar, sem hefur makað krókinn í makindum valdsins sl. tólf ár. Og Íslandshreyfing Ómars og Margrétar. Getur hún fengið nægilega mörg atkvæði frá stjórnarflokkunum báðum, frá þeim kjósendum, sem vilja mótmæla stór- iðjustefnu stjórnvalda og vanrækslu velferð- arþjónustunnar, til þess að Íslandshreyfingin geti ráðið úrslitum um myndun ríkisstjórnar vorið 2007? Eins og Hannibal gerði með Sam- tökum frjálslyndra og vinstrimanna 1971? Burt séð frá föstum liðum eins og venjulega í íslenskri pólitík, virðist þetta vera lykilspurn- ingin um stjórnarmyndunarkosti að loknum kosningum 2007. Höfundur var formaður Alþýðuflokksins 1984– 1996. Fyrir byrjendur og lengra komna Höfundur er ljóðskáld. Eftir Steinunni Sigurðardóttur Um syndina Að bendla synd við veikleika er kennisetning sem stenst ekki skoðun. Því sá sem ætlar að syndga þarf einmitt að vera sterkur á svellinu, sækja í sig veðrið. Hrista af sér veikleika og slen. Byrja snemma ef hann ætlar að ná langt í sinni sérstöku synd því einnig hér er það æfing sem skapar meistara. Á móti reynsluleysi unga syndarans kemur frumkrafturinn og öfundsvert úthaldið til að endurtaka syndina hratt og fólskulega. Bæta snarlega úr mistökum. – Gamall syndari, hins vegar, hefur síst efni á að gera mistök og reynslan hefur kennt honum að syndin verður ekki sæt nema hún sé nákvæmlega útfærð. En einmitt þessu lykilatriði er haldið leyndu mann fram af manni og kemur öllum jafnmikið í opna skjöldu þegar syndin er ný. (Uppeldisvanræksla sem er ígildi erfðasyndar). – Almestu nákvæmni í synd þarf virðuleg kona með bilaða mjöðm. Sú þarf að leggja niður fyrir sér hvert höktandi fet og berja sig jafnframt áfram með orðum Marquise de Deffand (um dýrlinginn sem hélt á afhöggnu höfði sínu meðan hann gekk) að vegalengdin skipti ekki máli, aðeins fyrsta skrefið. Hafi þessi hálffatlaða kona gert syndahlé, af leti eða illri nauðsyn, mun hún einmitt kenna á því að fyrsta skrefið er nánast óyfirstíganlegt og að þetta með vegalengdina er rétt. – Gamall syndari er yfirleitt léttur í lund (mun léttari en ungur starfsbróðir). Vegna þess að hann á stutt ófarið með sinn drösul. Vegna þess að það tekur því ekki fyrir hann að líta um öxl og reka út úr sér tunguna, hvað þá að hvísla í flaustri: Það var ekki ég!

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.