Lesbók Morgunblaðsins - 14.04.2007, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 14.04.2007, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. APRÍL 2007 13 Eftir Torfa H. Tulinius tht@hi.is E inn af merkari viðburðum yf- irstandandi franskrar menn- ingarhátíðar Pourquoi pas? verður án efa koma rithöfund- arins og kvikmyndagerð- armannsins Alain Robbe- Grillet til Íslands 18. til 22. apríl nk. Robbe- Grillet, sem verður 85 ára á þessu ári, hefur fyrir löngu öðlast varanlegan sess í bók- menntasögunni sem einn af forvígismönnum „nouveau roman“ eða nýju skáldsögunnar, stundum einfaldlega kölluð „nýsagan“ á ís- lensku. Meðal höfunda sem auk hans eru kenndir við nýsöguna má nefna Claude Simon, Nóbelsverðlaunahafi 1984, Nathalie Sarraute, Michel Butor, Marguerite Duras og Samuel Beckett. Sömuleiðis hefur Robbe-Grillet markað spor í kvikmyndasöguna. Mynd hans Fyrir ári síð- an í Marienbad sem hann gerði með Alain Resnais, fékk Gullljónið í Feneyjum 1961 og heldur áfram að heilla áhorfendur næstum hálfri öld eftir að hún var gerð með óræðum persónum sínum og seiðandi stemmingu. Robbe-Grillet hefur gert tíu kvikmyndir upp á eigin spýtur. Verður sú nýjasta Gradiva kallar forsýnd í Regnboganum laugardaginn 21. apríl kl. 20.30. Þá mun áhorfendum gefast kostur á að ræða við höfundinn um myndina auk þess sem hann mun halda fyrirlestur í boði Stofn- unar Vigdísar Finnbogadóttur í Háskóla Ís- lands föstudaginn 20. apríl kl. 16. Robbe-Grillet er eindreginn fylgismaður til- rauna í listum. Ef listamaðurinn vill rísa undir nafni ber honum að skapa ný form sem víkka út skynjun okkar á veruleikanum og skilning okkar á sjálfum okkur. Fyrir þessari skoðun sinni færir hann heimspekileg rök sem kenna mætti við Husserl og Heidegger og sem lýsa mætti á eftirfarandi hátt: Heimurinn er í sjálf- um sér merkingarlaus en vitundarveran gefur honum merkingu með því að smíða sér mynd af honum í huganum. Úr því hugarstarfsemi mannsins er ýmsum takmörkum háð en heim- urinn aftur á móti óendanlega stór, marg- breytilegur og flókinn, er vonlaust að mynd mannsins af heiminum og sjálfum sér í honum nálgist það nokkurn tímann að verða nákvæm. Saga mannsandans er að miklu leyti saga þeirra breytinga sem orðið hafa á mynd mannsins af heiminum. Þess vegna eru formtilraunir listamanna svo mikilvægar því þær eru ekki bara tilraunir með það hvernig orðum eða tónum er raðað á blað, litum á myndflöt eða hreyfanlegum myndum skeytt saman í frásögn, heldur fyrst og fremst tilraun með það hvernig við skynj- um, skoðum og skiljum heiminn. Ný form breyta mynd okkar af honum og okkur sjálfum og geta hugsanlega þokað okkur eitthvað nær betri skilningi á hvoru tveggja. Það ber því að hafna hinni viðteknu skoðun að auðvelt og æskilegt sé að greina að form og innihald, að það sem gefur listinni gildi sé inni- haldið en formið hafi ekki meiri þýðingu en lögun flöskunnar hefur fyrir bragð eðalvínsins sem hún geymir. Þvert á móti er það einmitt sérstaða listaverka að þau sameina form og innihald. Form þeirra er óaðskiljanlegur hluti þess sem þær hafa að segja um heiminn og nýtt form gerir okkur kleift annaðhvort að skynja heiminn á nýjan hátt eða koma reynslu til skila sem enn hefur ekki verið orðuð. Hugarheimur morðingjans Alain Robbe-Grillet hefur verið sérstaklega öt- ull við að skapa ný form í verkum sínum. Ein af fyrstu skáldsögum hans Le Voyeur frá 1955 er glöggt dæmi um það. Hún segir frá Mat- hiasi farandsala sem kemur til eyjar til að selja úr. Það er að minnsta kosti yfirlýstur tilgangur hans en í raun fremur hann þar morð á ungri smalastúlku eftir að hafa pyntað hana og nauðgað henni. Sagan er hræðileg en að þessu leyti því miður ekkert óvenjuleg. Það sem er merkilegt er hvernig sagan er sögð: hún flytur okkur inn í hugarheim geð- sjúks morðingja, fær okkur til að lifa okkur inn í hugsanir hans og tilfinningar. Reyndar er okkur hlíft við sjálfum glæpnum, en aðdrag- andanum er lýst, þegar ofbeldisfullir órar ná tökum á huga hans, og eins eftirleiknum, þeg- ar hann er að bæla niður minninguna um verknaðinn í eigin huga. Form sögunnar neyð- ir okkur til að viðurkenna að hinn morðóði Mathias er maður eins og við. Á dularfullan hátt vekur hún hjá okkur samúð með þessum sjúka manni, raunverulega samúð, því við höf- um deilt hugarheimi hans. Formið og innri veruleikinn Hvernig er þessu nýstárlega formi best lýst? Byrjum á því að skoða titil sögunnar en hann gefur okkur vísbendingu um formið. „Voyeur“ þýðir gluggagægir en það getur líka þýtt ein- faldlega sá sem sér. Þótt Mathias sé ekki gluggagægir í þeim skilningi að hann leggist á glugga hjá fólki til að fylgjast með því, er sagt frá því snemma í sögunni að fyrr um daginn hafi hann átt leið framhjá húsi og séð inn um glugga karlmann reiða höndina til höggs. Auk þess heyrði hann rödd, hugsanlega kven- mannsrödd, gefa frá sér lágt óp. Þessi sýn er reyndar mjög óraunveruleg, m.a. vegna þess að hún er eins og frosin, ekkert gerist, en Mathias flýtir sér fram hjá því hann þarf að ná ferjunni sem flytur hann út í eyjuna þar sem atburðir sögunnar eiga sér stað. Fljótlega vaknar spurningin hjá lesandanum hvort glugginn, ópið og karlmannshöndin hafi nokk- uð verið þarna, þ.e. í einhverjum veruleika sem aðrir en Mathias gátu numið. Þarna komum við að hinni merkingu orðsins „voyeur“ á frönsku. „Voyeur“ er sá sem sér. Mathias sér og skynjar, eins og við öll, en það er eitthvað sem hefur áhrif á það hvernig hann skynjar, eitthvað sem truflar hann í að skapa sér raunsanna mynd af veruleikanum í kring- um hann, eitthvað sem rís upp úr sálardjúpi hans, kaffærir veruleikaskynið, og það sem verra er, stjórnar gerðum hans. Snilld Robbe-Grillet felst í því að í stað þess að lýsa þessari skynjun utan frá, lætur hann frásögnina mótast af því hvernig Mathias skynjar veruleikann. Lesandinn upplifir milli- liðalaust skynjanir og hugsanir hans, líkt og inni í vitund hans. Robbe-Grillet beitir ýmsum brögðum til þess að endurskapa hugarferli persónu sinnar. Einna athyglisverðast er að hann velur að segja söguna í þriðju persónu, sem venjulega er notuð fyrir hlutlausar frá- sagnir, þrátt fyrir að veruleikaskyn Mathiasar sé allt annað en hlutlaust. Ef frásögnin væri í fyrstu persónu, þá væri Mathias að lýsa því fyrir einhverjum hvernig vitund hans starfar en um það er hann ófær, eins og við erum reyndar flest. Þriðju persónu frásögnin gerir höfundi kleift að leyfa lesendum að gægjast inn í vitundarlíf Mathiasar án þess að hann viti af því og þarna erum við komin að enn einni merkingu titilsins. Lesandinn er líka „voyeur“. Ein afleiðing þess að þriðju persónu frá- sögnin er notuð á þennan hátt er sú að les- endur eiga oft bágt með að átta sig á sögunni sem samræmist ekki hefðbundnu frásagn- arformi skáldsögunnar. Þeir þurfa fyrst að skilja þetta nýstárlega form áður en þeir geta notið þess sem sagan hefur að segja þeim. Órar og listsköpun Einnig verða þeir að sætta sig við að það sem vakir fyrir Robbe-Grillet er ekki að fordæma hinn ömurlega glæp sem Mathias drýgir, held- ur að skilja hann innan frá. Ekki er hægt að horfa framhjá því að bæði bækur Robbe- Grillet og kvikmyndir vinna mikið með fremur ofbeldisfullar hliðar á kynhvötinni, og hefur honum stundum verið legið á hálsi fyrir það, ekki síst af femínistum. Hann mótmælir þessu og segist hafa samúð með hvers kyns frels- isbaráttu og ekki síður baráttu kvenna. Þetta komi fram í verkum hans því þótt þau lýsi oft körlum sem eru afar uppteknir af kvenholdinu og sem dreymir stundum um að ná valdi á kon- um og jafnvel að kvelja þær, þá séu kven- persónurnar oftar en ekki frjálsir og greindir einstaklingar sem hafi í fullu tré við karlana, komi þeim úr jafnvægi og fletti ofan af því sem býr undir vilja þeirra til að taka konur með valdi: ótta þeirra við þær. Auk þess eru sögurnar sem hann segir í bókum sínum og myndum síður en svo raun- sæjar. Hann er ekki að reyna að draga upp sanna mynd af veruleika heldur er hann skap- andi listamaður sem notar algenga óra úr menningunni sem efnivið í listaverk sín. Þótt hann viðurkenni að slíkir órar sæki að honum sjálfum, þá bendir hann á það að þeir eru mjög áleitnir í menningu okkar, allt frá frásögnum af píslarvættisdauða ungra meyja á dögum frumkristni til Hollywoodmynda um kynferð- isbrenglaða morðingja sem ganga vikum eða mánuðum saman í kvikmyndahúsunum. Það er því mikilvægt að leyfa slíku að koma fram í bókmenntum og listum, að það gerir okkur kleift að kynnast þessari hlið á okkur sjálfum: morðingjunum og vitfirringunum sem blunda í flestum okkar. Þá minnka líkur á því að þeir nái tökum á okkur einn góðan veð- urdag og við verðum fyrir því að meiða náung- ann. Gradiva kallar Ég hef ekki séð nýjustu kvikmynd Robbe- Grillet, en fyrir nokkrum árum gaf hann út lýsingu á myndinni í bókarformi. Þar tekur hann raunar fram að hún gefi aðeins vísbend- ingu um hvernig myndin verði að lokum, en hugmyndir hans eru sífellt í vinnslu allan tím- ann sem sköpunarferlið gengur yfir, bæði á tökustað og í klippiherberginu. Eins og allar myndir hans skeytir hún lítið um hefðbundnar frásagnaraðferðir, heldur er honum meira í mun að skapa „hugrænan veruleika“ eins og hann kallar það. Gjarnan byggir hann á verk- um annarra, eða fær lánaðar persónur úr raunveruleikanum og notar þær sem kveikju að verkinu. Í þessu tilfelli heitir aðalpersónan John Locke, eins og skoski heimspekingurinn frá 17. öld sem skilgreindi einmitt sjálfið fyrst og fremst sem sjálfsvitund með bólfestu í lík- ama í Tilraun um mannlegan skilning. Í kvikmyndinni er Locke þó listfræðingur í nútímanum sem er að rannsaka þá mynd sem listamenn 19. aldar drógu upp af Arabaheim- inum, einkum kvenfólkinu. Myndræn kveikja að verki Robbe-Grillet eru því kvennabúrs- myndir sem grasseruðu í vestrænni list á árum áður, einkum og sérílagi teikningar Delacroix sem ferðaðist til Marókkó og Alsír á fyrri hluta 19. aldar. Locke heillast af einni slíkri teikn- ingu, líkt og aðalpersónan í Gradívu Wilhelm Jensens, sem Sigmund Freud skrifaði um í frægri ritgerð um samband listar og dýpri hvata í sálarlífinu, en hún virðist þriðja kveikj- an að myndinni. Allt í einu er eins og löngu dá- in persóna úr fornu listaverki sé farin að þræða öngstræti Marrakech og Locke er við að týna sjálfum sér. Mér segir svo hugur að þetta nýjasta verk hins aldna meistara sé eins og þau sem hann var að semja fyrir meira en hálfri öld: síungt og sífellt að stugga við okkur, eins og listin á að vera. CORBIS Alain Robbe-Grillet Hann er eindreginn fylgismaður tilrauna í listum. Ef listamaðurinn vill rísa undir nafni ber honum að skapa ný form sem víkka út skynjun okkar á veruleikanum og skilning okkar á sjálfum okkur, segir Torfi H. Tulinius í grein sinni. Ný form skapa nýja heima Alain Robbe-Grillet er einn áhrifamesti rit- höfundur tuttugustu aldar en hann var einn af forvígismönnum nýju skáldsögunnar svo- kölluðu á sjötta áratugnum. Hann hefur sömuleiðis markað spor í kvimyndasöguna en hann er einmitt væntanlegur hingað til lands í næstu viku, meðal annars til að vera við- staddur sýningu nýjustu myndar sinnar, Gra- diva kallar. » Auk þess eru sögurnar sem hann segir í bókum sínum og myndum síður en svo raun- sæjar. Hann er ekki að reyna að draga upp sanna mynd af veruleika heldur er hann skap- andi listamaður sem notar al- genga óra úr menningunni sem efnivið í listaverk sín. Höfundur er prófessor í frönsku og miðaldafræðum við Háskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.