Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.2007, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.2007, Blaðsíða 2
sín sex börn og afi og amma voru þarna líka og dóttir þeirra og tengdasonur. Pabbi var ekki heima og ég man eftir að á meðan á þessu stóð þurfti mamma að fara út og þessi ungi maður sem átti heima í hinum endanum fór með þeim til aðstoðar, þau hjálpuðust að við að halda húsinu. Þetta fór svo í mig, ég gleymi því aldrei. Á meðan brotnar rúða í glugga í húsinu okkar megin. Þá þurfti ég, níu ára krakki, að fara með sæng og troða upp í rúðugatið til þess að halda við þangað til þau komu og gátu neglt fyrir þetta. Síðan hef ég alltaf verið rokhrædd. Pabbi kom úr Stykkishólmi ásamt tveimur öðrum sem áttu heima þarna út frá og kom þarna að mannlausu húsinu, enginn heima. Það var farið með okkur á næsta bæ, á Fagurhól sem kallað var, það var styst að fara þangað og þá var allt á kafi í snjó og þetta þurftum við að labba. Þá var líka einhvern tímann þegar pabbi heitinn var á sjónum – ég var krakki, ég var náttúrlega orðin eldri þá, ég held ég hafi verið 11–12 ára – að þá var saknað báts sem hann var á. Í tvo sólarhringa fréttist ekkert af þeim. Maður vissi ekkert hvernig þeim hafði reitt af og svo komu þeir. Þetta var í Grundarfirði. Þeir urðu bara að liggja veðrið af sér sem sagt, fóru í var og gátu ekkert látið vita af sér, þá voru ekki tal- stöðvar komnar eða neitt svoleiðis. Ekki get ég sagt að veðrið hafi einhvern tímann breytt lífi mínu. Nei, ekki svoleiðis, ja, einn bróðir minn drukknaði nú einu sinni, það eru nú ekki mörg ár síðan. Báts- ins var saknað sem hann var á. Ingibjörg Árnadóttir Þetta er brot úr viðtali sem var tekið fyrir bókina Weather Reports You / Veðrið vitnar um þig fyrir Roni Horn (Útgefandi: Artangel/ Steidl) og VATNASAFN / LIBRARY OF WA- TER. Veðrið vitnar um þig er safn veðurfrá- sagna frá Íslandi. Vilt þú senda inn frásögn? Farðu á www. vatnasafn.is/vedur 2 LAUGARDAGUR 21. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Gunnar Hersvein gunnars@hi.is ! Nýlega kom ég á heimili og dvaldi þar kvöldstund. Daginn eftir heimsóknina áttaði ég mig á því að eitthvað var bogið við íbúðina. Hugurinn leitaði logandi ljósi í húsinu og nam staðar við hillur heimilisins. Þær voru án bóka. Fátt jafnast á við gott lesefni. Það er reynsla að lesa góða bók, lifa sig inn í hugarheim sögupersóna og læra af kynnum sínum við þær. Margskonar bækur hafa mótað líf mitt og afstöðu. Sumar hverjar hafa jafnvel breytt mér. Meðal þeirra er Síðustu dagar Sókrat- esar sem geymir þrjú rit eftir Platón: Málsvörn Sókratesar, Krítón og Faídón. Ég las hana fyrst í þýðingu Sigurðar Nordals í lærdómsritaútgáfu Hins ís- lenzka bókmenntafélags. Önnur er Sið- fræði Níkomakkosar eftir Aristóteles sem einnig er lærdómsrit HÍB. Þar má m.a. læra um dyggðir og hamingju. Lærdóma má ekki aðeins draga af fræðibókum heldur einnig af skáldsög- um. Milan Kundera gerir í bók sinni Tjöldin skýra grein fyrir því að skáldsag- an geymi mikla þekkingu á mannlegu eðli og atferli. Aðferð skáldsagnarhöfundar er fullgild nálgun þótt ekki fylgi heim- ildaskrá. Skáldsagan er ferðalag um ald- ir, heimsálfur og segir sögu einstaklinga og hópa. Hún er form þekkingarleitar þar sem höfundurinn leitar svara með skörpum huga og stundum með húm- orinn að vopni. Bækur tendra skilningsljósið og næra ímyndunaraflið. Það var t.a.m. opinberun að lesa Karamazov-bræðurna eftir Do- stojevskí. Verkið veitir djúpa innsýn í mannlegar sálir og bresti. Bókin Yosoy – af líkamslistum og hugarvíli í hryllings- húsinu við Álafoss eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur er ekki aðeins skáld- skapur heldur einnig alvarleg rannsókn á sársauka og þoli mannveru. Hið sama má segja um bókina Blinda eftir José Sara- mago sem nemur burt eitt af skynfærum mannsins og rannsakar hvað gerist í mannlegu samfélagi þegar skipulagið fer úr skorðum. Ég hafði nýlokið við Blindu þegar flóðbylgja sökkti New Orleans í Bandaríkjunum og samfélagið fór úr skorðum. Sambærileg atvik eiga sér stað í bókinni og urðu í borginni. Gildi skáldsögunnar er oft vanmetið, því hún er í raun rannsóknaraðferð til að nálgast mannlegan veruleika. Íslend- ingasögurnar veita t.a.m. mikla innsýn í mannlegt samfélag. Söguhetjur sem eru búnar raunverulegum kostum og göllum. Gunnar á Hlíðarenda er seinþreyttur til vandræða en gagnvart þrálátri ógn bregst hann ókvæða við. Hann er fyr- irmynd og af honum má m.a. læra hug- rekki. Njáll hefur annað hlutverk, hann er ráðgjafi og ætti að vera fyrirmynd nú- tímaráðgjafa. Hallgerður er einnig fyr- irmynd því hún lætur ekki kúga sig. Góðar skáldsögur geta oft gefið les- endum sínum meiri þekkingu en strang- vísindalegar rannsóknir og skoðanakann- anir. Þær veita sýn í þætti sem oft er vandkvæðum bundið að lýsa með öðrum hætti. Í þeim er ímyndunarafli manna og sköpunargáfu gert hátt undir höfði eins og vera ber. Rit Platóns eru bæði bók- menntaverk og fræði, þau vitna um að það er ekki form bókarinnar sem vegur þyngst heldur spurningarnar sem vakna í huga lesandans. Höfundar geta valið að- ferð skáldsögunnar eða aðferð fræðanna eða blandað þeim saman í ævarandi leit sinni að svörum. Bókin getur ekki liðið undir lok því hún er ekki aðeins form heldur einnig aðferð sem menn hafa þróað í þúsund ár til að rannsaka lífið og til að gefa öðrum ríku- legar gjafir. Heimilið á að vera sneisafullt af bókum af öllum stærðum og gerðum. Gleðilegar bókavikur! Lærdómar af bókum UPPHRÓPUN Eftir Birnu Önnu Björnsdóttur bab@mbl.is A fsakið fröken, en hefurðu ein- hvern tímann unnið í Las Ve- gas?“ Ég lít til hliðar og sé lágvax- inn mann góna á mig spurn- araugum þar sem ég stend við afgreiðsluborðið í bakaríinu í götunni minni á Manhattan. Maðurinn virðist kominn vel yfir áttrætt og við fyrstu sýn virkar hann meira stríðinn en skrýtinn. Þess vegna dettur mér í hug að spyrja hann hvers vegna hann spyrji, um leið og ég segi honum að ég hafi ekki einu sinni komið til Las Vegas. „Vegna þess að þú lítur út fyrir að geta unnið þar,“ segir hann hátt og snjallt. Ég stenst ekki mátið og segist ekki alveg átta mig á því hvort þetta sé hrós. „Ef þú vilt vera metin að verðleikum fyrir heilann í þér, þá er þetta móðgun. En ef þú vilt vera metin að verðleikum fyrir fótleggina á þér, þá er þetta hrós.“ Nú er fólkið í kring farið að hlæja og ég brosi sjálf kurteislega til mannsins í kveðjuskyni, en hann eltir mig út á stétt. Ég tel best að reyna að ljúka þessu á léttu nótunum og geri þar með þau mistök að láta eftirfarandi út úr mér: „Það er þá sem- sagt bara annaðhvort eða?“ Karlinn horfir á mig hvass og hækkar róminn. „Konur nú til dags! Þið eruð veruleikafirrtar. Þið haldið að þið getið fengið hvort tveggja. En þið munuð aldrei fá hvort tveggja. Aldrei!“ Ég býð hon- um góðan dag en hann heldur áfram að kalla og ég heyri hrópin í honum lengi vel á leiðinni niður götuna. „Þið fáið aldrei hvort tveggja! Heyrirðu það! Aldrei!“ Þessi orð hans ómuðu aftur í hausnum á mér nokkrum dögum seinna þegar ég sá for- síðuumfjöllun dagblaðsins The New York Times undir fyrirsögninni „For Girls, It’s Be Yourself, and Be Perfect Too“. Þar segir frá því álagi sem fjöldi bandarískra unglings- stúlkna er undir og að kröfurnar sem gerðar eru til þeirra verða sífellt meiri og ekki síst margþættari. Nú dugar ekki lengur að vera „bara“ framúrskarandi námsmaður eða „bara“ frábær í íþróttum eða „bara“ góð á hljóðfæri eða „bara“ félagsmálatröll, heldur verða stúlkurnar að vera allt þetta samanlagt og ofan á það verða þær að vera færar fé- lagslega, vinsælar, vel liðnar og svo fram- vegis. Og já, sætar og mjóar líka, auðvitað. Í umfjöllun NYT er rætt við nokkrar stelpur sem allar eru á lokaári í high-school og bíða eftir svörum frá háskólunum þar sem þær sóttu um inngöngu. Þessar 17 ára stelpur eiga það sameiginlegt að hafa alla sína skólagöngu verið í góðum skólum þar sem þær hafa feng- ið tækifæri til að rækta hæfileika sína á hin- um fjölbreytilegustu sviðum. Þær eiga það einnig sameiginlegt að skara fram úr í flestu því sem þær taka sér fyrir hendur, eru dúxar í bekkjum sínum auk þess að vera formenn nemendafélaga, leika aðalhlutverk í skóla- leikritum og spila með vinningsíþróttaliðum skóla sinna. Þær eru líka vinsælar og já, sæt- ar og mjóar. Að sögn blaðamannsins sem skrifar greinina skín greindin úr augum þeirra þegar þær rekja fyrir hana fag- urfræðikenningar Kierkegaards (þær eru í aukatímum í heimspeki) og hver og ein er bú- in að útbúa langan afrekalista með það að markmiði að komast inn í draumaháskólann sinn. Samt eru þær hræddar um að þeim tak- ist það ekki. Ein hefur til dæmis áhyggjur af því hvað hún er slök í íþróttum: „Ég hleyp al- veg, en ekki mjög hratt,“ segir hún, „og ég verð alltaf mjög móð. Þetta er eitt af því sem ég er óöruggust með. Þeir spyrja mann alltaf þegar maður er að skoða háskóla: Hvaða íþrótt æfirðu?“ Blaðamaður NYT segir að þau mótsagna- kenndu skilaboð sem þessar stelpur fá – bæði frá foreldrum sínum og samfélaginu almennt – séu þrenns konar. Í fyrsta lagi að þær eigi að fá toppeinkunnir, skara fram úr í aukafög- um og komast inn í góðan háskóla. Í öðru lagi að þær eigi að vera þær sjálfar og hafa gaman af hlutunum. Í þriðja lagi að það sé ekki nóg að vera bara klár, það verði líka að vera sæt og mjó. Ein stelpan orðar það sem svo: „Mað- ur verður að ná árangri, en maður vill líka að fólki líki við mann.“ „Þótt það þyki hræðilegt að viðurkenna það,“ segir önnur, „þá er mik- ilvægara að vera flott en klár. En þú verður að vera áreynslulaust flott.“ Þetta tvennt, það að vilja láta líka vel við sig og útlitskröfurnar, er kjarninn í því auka- álagi sem hvílir á unglingsstúlkum umfram strákana jafnaldra þeirra. Og þetta getur valdið þessum stúlkum mikilli truflun. Í ann- arri grein sem birtist í NYT núna í vikunni er greint frá því að óánægja ungra kvenna með líkamsvöxt sinn færist svo hratt í aukana að það þyki orðið norm að vera í nær sífelldu að- haldi. Samkvæmt rannsókn sem vísað er í finnst 90% stelpna á high-school-aldri (14–18 ára) þær vera of þungar, en árið 1995 voru að- eins 34% stelpna á þeirri skoðun. Þannig að þrátt fyrir allan framgang stúlkna á menntasviðinu virðist sem út- litskröfurnar og áhrif þeirra færist í aukana. Og stelpur sem vilja fullkomnun í öllu því sem þær taka sér fyrir hendur hafna þessum kröf- um ekki svo glatt. Það er auðvitað mikið átak að vera stelpa sem vill „hvort tveggja“ og þarf að leggja viðeigandi mikið á sig til að reyna að fá hvort tveggja. Og í mörgum tilfellum er þetta hreinlega óvinnandi vegur – samanber hróp gamla karlsins. En áfram halda þær nú samt, og reyna og reyna og reyna. Og vilji maður smíða feminískar samsæriskenningar má velta því fyrir sér hvort það sé ekki karla- veldinu gamalgróna til góðs að konur beini vænum hluta af orku sinni á þessar brautir: þær þvælast allavega ekki eins svakalega mikið fyrir í samkeppninni á meðan. REUTERS Flott eða greind „Ef þú vilt vera metin að verðleikum fyrir heilann í þér, þá er þetta móðgun. En ef þú vilt vera metin að verðleikum fyrir fótleggina á þér, þá er þetta hrós.“ FJÖLMIÐLAR » Þetta tvennt, það að vilja láta líka vel við sig og út- litskröfurnar, er kjarninn í því aukaálagi sem hvílir á ung- lingsstúlkum umfram strákana jafnaldra þeirra. Og þetta get- ur valdið þessum stúlkum mik- illi truflun. Sæt og klár, að vilja hvort tveggja Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.