Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 09.06.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 9. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Einar Má Jónsson Á hátíðinni voru menn samt ekki í neinum vanda með að gera upp á milli myndanna, því norska kvikmyndin „Reprise“ eftir Joachim Trier sópaði til sín verðlaunum. Fyrir utan að- alverðlaunin fékk hún sem sé verðlaun áhorf- enda og auk þess sérstök verðlaun samtaka til stuðnings kvikmyndalist. Að þessum heiðri fannst mér hún allvel komin; auk annars benti hún til þess að Norðmönnum væri talsvert að fara fram í kvikmyndagerð. „Reprise“ – sem heitir þessu franska nafni, en það þýðir m.a. „endurtekning“ – fjallar um tvo unga menn sem ætla að verða rithöfundar. Í byrjun mynd- arinnar standa þeir við póstkassa með sín fyrstu handrit og búast til að senda þau útgef- endum, og síðan er rakin örlagasaga þeirra. Handrit annars þeirra er þegar í stað gefið út, og hann verður einhvers konar stjarna, en af ýmsum ástæðum fer hann yfir um og verður að dveljast um stund á geðveikrahæli. Eftir það vill hann ekki fást við bókmenntir, en vin- ur hans, sem hefur gengið miður vel í byrjun, þótt handrit hans sé einnig gefið út, reynir að telja honum hughvarf og hvetja hann til dáða. Inn í þetta blandast ýmis ástamál, og einnig tengsl ungu mannanna við aldraðan rithöfund, sem forðast sviðsljósið. Það kann að hafa höfðað til áhorfenda í Rúðuborg, að höfundur myndarinnar hefur greinilega tileinkað sér það besta úr „nýju bylgjunni“ frönsku forðum daga, og auk þess tengjast atburðirnir Frakklandi, því sagt er frá tveimur örlagaríkum Parísarferðum (kannski eru þær „endurtekningin“ sem nafn myndarinnar vísar til, og er þá Kierkegaard kominn í spilin, eins og annar tígulkóngur). En hvað sem því líður var myndin ákaflega vel tekin og vel saman sett, með haglegri klipp- ingu, eins og áhorfendur tóku sérlega eftir í umræðum að sýningu lokinni. Það flækti reyndar málin að hún gerðist ekki aðeins í nú- tíð, þátíð og núliðinni tíð, heldur líka í skilda- gatíð, og er það óvenjulegt. En fyrir bragðið er hún opin í ýmsar áttir og vekur áhorfendur til umhugsunar. Skyggnst inn í norskt helvíti Það var einnig norsk mynd, „Den brysomme mannen“ eða „Vandræðagemlingurinn“ eftir Joachim Trier, sem fékk þann helsta mola sem sem hrökk af borði „Reprise“, sem sé „verð- laun ungra evrópskra áhorfenda“. Hún var af allt öðru tagi, einhvers konar fantasía um mann sem kemur í áætlunarbíl í eyðimörk (það atriði var tekið upp á Sprengisandi), er þar boðinn velkominn og síðan fluttur í borg, þar sem honum er fengið allt upp í hendurnar, vinna, íbúð og slíkt, og konur þýðast hann greiðlega. En á þessum stað eru allir ástríðu- lausir og andlausir, menn tala ekki um annað en mublur og sófasett, og ástin er tilfinn- ingalaus og vélræn, það er varla nokkurt bragð að neinu. Hvergi sjást nein börn, og þegar maðurinn segist vilja heyra barnshlátur er því illa tekið. Í kjallaraíbúð hjá gömlum manni finnur hann sprungu á vegg, hann gref- ur þar inn og sér að lokum inn í gamaldags stofu sem er mannlaus en greinilega búið í. Þar heyrist í börnum að leik einhvers staðar í grenndinni og á borði stendur terta sem hann getur gripið stykki úr og skortir að því er virð- ist síður en svo bragð. En þá er hann gómaður, fluttur aftur upp á Sprengisand og honum kastað upp í farangursgeymslu áætlunarbíls þar sem hann hristist og skekst. Hvernig ber nú að skilja þetta? Ef þetta á að vera ádeila á neyslu- og velferðarþjóðfélag nú- tímans er gagnrýnin yfirborðsleg og gam- alkunn – ég sá sjónvarpsmynd af þessu tagi í Danmörku þegar árið 1963 – og auk þess dálít- ið út í hött á þessum síðustu og verstu tímum. Táknmálið er á köflum einfeldningslegt (sprungan í veggnum á að minna á konusköp). En í blaðaviðtali gaf höfundurinn nokkuð at- hyglisverðar upplýsingar: Að sögn hans var myndin gerð eftir útvarpsleikriti, og þar hefði komið fram að aðalpersóna myndarinnar væri látin og atburðirnir gerðust á öðru tilverustigi, í einhvers konar nútímahelvíti, en þessari skýringu hefði hins vegar verið sleppt í kvik- myndinni til að hún yrði „opnari“ og hægt að túlka hana á fleiri vegu. Þetta er vafalaust gott og blessað, þótt mér hefði þótt betra fyrir myndina að eitthvað hefði þó verið eftir af upp- haflegu hugmyndinni. En sá sem tók myndina til dreifingar í Frakklandi – hún var frumsýnd í venjulegum kvikmyndahúsum í París á með- an hátíðin í Rúðuborg stóð yfir – notfærði sér túlkunarfrelsið á sérstakan hátt, því hann nefndi myndina upp í blóra við höfundinn og kallaði hana, með heldur þunglamalegum orðaleik, „Norway of Life“, og undir því heiti fékk hún góðar viðtökur franskra gagnrýn- enda sem gáfu henni allt upp í þrjár stjörnur. Þetta var nokkuð rösklegur útúrsnúningur á hinni norsku vítissýn. Meðal annarra mynda í samkeppninni má nefna norsku myndina „Menntaskólakenn- arann Pedersen“ eftir Hans Petter Moland, sem gerð er eftir hinni frægu skáldsögu Dags Solstad. Sagan er mjög góð lýsing á maóism- anum í Noregi, og er þar sýnt hvernig mennt- aður maður, en nokkuð veikgeðja að því er virðist, ánetjast hugmyndum sem hann hefði átt að sjá að voru firra. Þar eru góðar lýsingar á þeim sem urðu maóistar af lífi og sál – svo mjög að lífinu lauk jafnvel með kenningunni – og loks er fjallað um það hvernig þessi hreyf- ing rann smám saman út í sandinn. Í ein- stökum atriðum var kvikmyndin allvel gerð, t.d. var brugðið upp svipmyndum af fjölda- hreyfingunni í austrinu rauða, og einstaka sinnum breyttust norsku ungmennin í upp- tendraða Kínverja með rauða kverið á lofti. En í heild var kvikmyndin þó ekki annað en mynd- skreyting, uppfull af atriðum sem voru merk- ingarlaus ef menn höfðu ekki lesið söguna og höfðu hana í fersku minni. Flest það sem var athyglisvert í sögunni var þar horfið. Þrjár af myndunum í samkeppninni voru frá Noregi, en minna var að þessu sinni af mynd- um frá öðrum löndum. Eini fulltrúi Svía í sam- keppninni var „Mun mot mun“ eftir Björn Runge, sem fjallaði um það hvernig fjölskylda sem þó er í rústum sameinast til að bjarga ungri stúlku úr klóm eiturlyfja. Eftir talsverð ofbeldisatriði kemur „happy ending“, nánast eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Þetta var vel gert, en gamalkunnugt. Danir höfðu líka einn fulltrúa, „Eftir brúð- kaupið“ eftir Susanne Bier. Þar var sögð flókin saga um Dana sem hefur í nokkurn tíma rekið munaðarleysingjahæli á Indlandi en kemur aftur til Kaupmannahafnar í stutta ferð og uppgötvar þá að hann á þar 18 ára gamla dótt- ur sem hann hafði ekkert vitað um. Af því spinnast óvæntir atburðir, eins og búast má við. Fulltrúi Finna í samkeppninni var myndin „Karlmannsverk“ sem fjallar um líf og starf leiguelskhuga þar í landi, en hana sá ég ekki og heldur ekki myndir frá Belgíu og Hollandi. Í moll-sjöund. En hvað er svo hægt að segja um þessa sam- keppni í heild? Á hátíðinni var einnig sýnd mynd sem nefndist „Ingmar Bergman: Inter- mezzo“. Hún var langt viðtal við hinn fræga kvikmyndahöfund, tekið fyrir fáum árum, þeg- ar hann var 83 ára að aldri, og var hann m.a. spurður um álit á ungum kvikmyndahöfund- um, sem hann virtist kunna góð skil á, enda sagðist hann horfa á kvikmyndir fimm sinnum í viku, kl. þrjú á hverjum degi. Hann bar þeim allvel söguna, sagði að þeir kynnu alveg sér- staklega vel til síns starfs og væru meistarar í allri tækni, en samt væri eins og þeir hefðu ekki sérlega mikið að segja. Þetta fannst mér að gæti verið dómur yfir samkeppninni að þessu sinni. Þær myndir sem ég sá voru jafnan vel gerðar, sumar þeirra, t.d. „Reprise“, tals- vert athyglisverðar, en samt var eins og eitt- hvað vantaði. Þetta virðist helst eiga að skrifa á kostnað handritanna, í þau vantar of oft dýptina. Að þessu sinni a.m.k. á þessi dómur ekki við um íslenskar kvikmyndir í Rúðuborg, né held- ur nokkur annar dómur af hvaða tagi sem hann væri, því það var alls engin íslensk mynd í samkeppninni að þessu sinni. Aðstandendur hátíðarinnar vantaði þó ekki viljann til að sýna myndir frá Íslandi, en eins og stundum áður kvörtuðu þeir sáran undan sambandsleysi við landið, þeim hefði gengið mjög illa að fá mynd- bönd til athugunar og sum myndbönd hefðu þeir alls ekki fengið. Þetta er heldur dap- urlegt, og má minna á að íslenskri kvikmynda- gerð hefur verið sýndur mikill sómi í Rúðu- borg. Þannig hafa þrjár íslenskar myndir fengið aðalverðlaunin, „Ingaló“ eftir Ásdísi Thoroddsen 1993 (Sólveig Arnarsdóttir fékk þar einnig verðlaun fyrir bestan leik í kven- hlutverki), „101 Reykjavík“ eftir Baltasar Kor- mák 2001 og „Nói albinói“ eftir Dag Kára 2003. Auk þess fengu „Börn náttúrunnar“ eftir Friðrik Þór Friðriksson verðlaun áhorfenda 1992, og fleira mætti telja. Íslendingar geta því vel við unað og ættu að sýna hátíðinni meiri ræktarsemi. Þess var að sjálfsögðu minnst að kvik- myndahátíðin var nú haldin í tuttugasta skipti. Í því tilefni var sérstök dagskrá þar sem m.a. voru sýndar kvikmyndir sem höfðu vakið mikla athygli gegnum árin og sett sinn svip á hátíðina, ef svo má segja. Í þeim flokki voru tvær af íslensku verðlaunamyndunum, „Börn náttúrunnar“ og „Nói albínói“, og einnig „Út- laginn“ eftir Ágúst Guðmundsson. Auk þess voru á þeirri dagskrá heimildamyndir um kvikmyndahöfunda, svo sem „Ingmar Berg- man: Intermezzo“ sem áður var nefnd, og gagnmerk mynd af því þegar Andrei Tar- kovskí var að gera kvikmyndina „Fórnina“ í Svíþjóð. Var þar sýnt starf hans með leikurum og hinum fræga kvikmyndatökumanni Sven Nykvist og einnig brot úr viðtölum við hann þar sem hann rakti ýmsar hugmyndir sínar um lífið, tilveruna og kvikmyndagerðina. Við að sjá þetta og heyra sá maður einnig kvik- myndagerð samtímans í öðru ljósi og breiðara samhengi. Ég hafði vænst þess að í tilefni þessara tímamóta yrðu kannski sýndar nokkrar mynd- ir frá gullöld þöglu myndanna, sem var sérlega glæsileg á Norðurlöndum. Svo var þó ekki og var að einhverju leyti um að kenna tækni- legum örðugleikum. En annað bættist við, eins og forstjóri hátíðarinnar, Jean-Michel Mongrédien, sagði mér einu sinni: Áhorfendur eru nú tregir til að koma og sjá þöglar myndir. Það finnst mér afskaplega illt til afspurnar, og vildi ég að einhver tæki að sér að koma vitinu fyrir kvikmyndahúsagesti. En nóg var svo sem að sjá í Rúðuborg að þessu sinni. Ein mynd fannst mér sérlega athyglisverð. Það var danska heimildamyndin „Between a Smile and a Tear“ eftir Niels Lan Doky. Þar sagði frá tónleikum til minningar um djass- staðinn „Montmartre“ í Kaupmannahöfn, sem var mjög frægur á sínum tíma en var lokað 1974. Ungur djassleikari, höfundur mynd- arinnar, fékk þá hugmynd þrjátíu árum síðar að safna saman nokkrum þeirra sem þar höfðu gert garðinn frægan, endurskapa salinn í sinni upphaflegu mynd (staðurinn er nú orðinn hár- greiðsluskóli) og halda tónleika. Myndin fjallaði svo um komu þessara manna, sem voru mjög við aldur, til Kaupmannahafnar, und- irbúning tónleikanna og svo tónleikana sjálfa, þar sem þeir léku með höfundi myndarinnar og ungri sænskri söngkonu. Allt þetta var harla lifandi. Einn djassleikarinn var farinn að heilsu, meðulin sem hann átti að fá með hrað- pósti komu ekki lengi vel, hann missti allan kjarkinn á æfingunum og sagðist ekki geta spilað, ekki einu sinni geta lesið nótnablöðin, en þegar á hólminn kom lék hann af mestu snilld, eins og ungur maður. Stíllinn var be- bop frá frægðarárum djassklúbbsins, og einn af gömlu djassleikurunum sagði að þessi djass væri staðsettur milli tára og bross, en bætti því svo við til skýringar og með undirleik hljóðfærisins að sá staður væri eiginlega moll- sjöund … Lokaathöfn hátíðarinnar fór fram með pomp og prakt og viðstaddir voru sendiherrar og aðrir fulltrúar Norðurlanda auk borg- arstjórans í Rúðuborg og ýmissa fleiri stór- menna. En frá Íslandi kom enginn fulltrúi. Norskar kvikmyndir sigursælar í Rúðuborg Verðlaunamynd Norska kvikmyndin Reprise eftir Joachim Trier sópaði til sín verðlaunum á norrænu kvikmyndahátíðinni í Rúðuborg. Fyrir utan aðalverðlaunin fékk hún sem sé verðlaun áhorfenda og auk þess sérstök verðlaun samtaka til stuðnings kvikmyndalist. Ef hægt er að dæma af þeim níu myndum sem voru í samkeppninni, þegar norræna kvik- myndahátíðin í Rúðuborg var haldin í tuttug- asta skipti dagana 21. mars til 1. apríl, eru engin stórtíðindi að gerast í kvikmyndagerð á norðurslóðum. Þær myndir sem ég sá voru allar snoturlega gerðar, og stundum með ágætum, en efnið var oft fremur veigalítið. Sem betur fer virðist ofbeldið fremur vera að minnka; er þó stundum nóg eftir. En ekkert skar sig úr. Höfundur er sagnfræðingur.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.