Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2007, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2007, Blaðsíða 5
sundur. En þá fór fyrst hinsvegar eitthvað að ganga hjá mér. Blm.: Já, hvað er það við sveitina sem kveikir svona í þér? JKS: Ég var í sveit öll sumur frá sex eða sjö ára aldri vel yfir ung- lingsár, og leið vel, rímaði einhvern veginn við stráin, regnið, fjöllin, dýr- in. Það átti við mig að vera eins og bakvið heiminn en samt í honum miðjum. Og síðan hef ég aldrei kunnað almennilega við mig á sumr- in hér í borginni, það er eins og ég sé að missa ef einhverju mikilvægu, jafnvel að svíkjast um. Ég hafði samt ekki hugsað mér að skrifa um þennan heim, taldi mig ekki geta það, Gyrðir og Sigfús Bjartmars voru þá tiltölulega nýbúnir að skrifa um sína sveit, og það svo vel að ég þorði tæpast inn á það svæði. En það er eins og svo oft með skáldskapinn; efniviðurinn velur þig, ekki öfugt. Til hvers að skrifa ef það hefur engin áhrif Blm.: En hvernig er þetta með skáldskapinn og lífið? Það má alveg segja að fyrsta bókin, Skurðir í rign- ingu, sé bók um strák í sveit en síðan verður sjónarhornið svolítið annað, kannski fjarlægara. Þessi skrif byrja þannig sem eins konar end- urminningar úr sveitinni þinni en breytast síðan í úrvinnslu á þessum endurminningum og reyndar því bókmenntaformi. JKS: Ja, ég hef aldrei fundið mig í hefðbundinni skáldsögu, kann ekki að skrifa þannig sögu, langar ekki til þess. Það er auðvitað ekkert nýtt að skáldsagnahöfundur þykist vera að skrifa endurminningar, Þórbergur gott dæmi þar um, Gunnar með Fjallkirkju sína, síðan Halldór Lax- ness á efri árum, þegar hann hafði áttað sig á því að hið hefðbundna skáldsagnform er dálítið þreytt skepna. Það gerist einhver fjárinn þegar þú tekur eigin minningar, sem eru vægast sagt misáreiðanlegar, og slærð þeim saman við hreinan skáld- skap, það er frelsi og það eru nýir möguleikar. Og endurnýjun, eins og maður sér svo vel á skáldsögum Javiar Mariasar. Skáldsagnahöfund- urinn þarf sífellt að leita nýrra leiða til að tjá sjálfan sig, samtíma sinn, tjá lífið og dauðann. Og maður á stöðugt að efast um að maður sé á réttri leið. Fullvissa drepur höfund- inn. Blm.: Já, sennilega er mikilvægt fyrir höfundinn að vera aldrei alveg viss. En maður hefur þó alltaf fundið vissu um líf og mikilvægi skáldskap- arins í skrifum þínum, bæði í skáld- sögunum og skrifum um bók- menntir. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það sé einhver síð- rómantískur þráður í þér. JKS: Maurice Blanchot segir ein- hverstaðar að sá rithöfundur sé lán- samur sem á ekki sínar dimmu ef- astundir um hlutverk og tilgang skáldskaparins. Ég er því miður ekki lánsamur í þessum skilningi. Orð virðast stundum svo mátt- laus, svo haldlítil, og skáldskapurinn tilgangslítill eftir því. En sem betur fer hefur maður náð að standa þetta af sér. Því til hvers að skrifa ef það hefur engin áhrif, bætir ekkert og bætir engu við heiminn? Ég trúi því, þrátt fyrir allt, að skáldskapur skipti máli, hafi tilgang, mikilvægan til- gang. Hann er eins og öll list – leitin að kjarnanum. Hann er leitin að betri heimi. Skáldskapur er gleðin, ljótleikinn, samviskubitið, hann er undrið. Hvaðan kemur birta orðanna, spyr pólska skáldið Adam Zagaj- ewski, og reynir svo sem ekki að svara því, vill sjálfsagt ekki vita svarið. Við lesum ljóð, smásögur, skáld- sögur og það er kannski fátt sem sit- ur eftir, fátt handfast, á ég við, en orðin fara í gegnum líf okkar og breyta stundum einhverju, og þá oft- ast án þess að við tökum eftir. Góður skáldskapur, sá besti, er eins og tónlist; skynjun og hughrif sitja eftir og gera margt bærilegra. En umræðan um skáldskapinn er stundum allt annar handleggur. Það þyrmir alltaf yfir mig í jólabókaflóð- inu, það getur verið svo skelfilegur tími. Óskiljanlegt metnaðarleysi hjá fjölmiðlum Blm.: Hvað þarf að gera til að breyta bókmenntaumfjölluninni? JKS: Úff, ef maður gæti svarað því! Legg þú á djúpið, segir dr. Godman Sýngmann við Umba í Kristnihaldinu, og við mættum sjálf- sagt hafa þau orð yfir þegar jóla- bókaflóðið nálgast. Bilið á milli um- ræðunnar annarsvegar og auglýsinga og fréttatilkynninga for- laganna hinsvegar er oft óþarflega lítið. Og kannski ekki skrýtið þegar flestar skáldsögur koma út í nóv- ember, og öll umræða um þær að baki sex vikum síðar. Það er erfitt að ná áttum í slíku moldviðri. Umræðan einkennist því mikið til af upphrópunum og snýst of mikið um fáeina titla, það er alltof mikið sem verður útundan. Sá sem hrópar hæst og spriklar mest fær athyglina. Þetta er svona partístemning, og í lagi sem slík, en það er afleitt ef öll umræðan fer fram í þessu partíi, allskonar upphrópanir í bland við dúndrandi dansmúsíkina. Strax í nóvember er byrjað að fullyrða um tíðindi ársins, skáldsögu ársins, álitsgjafar tromma fram, skrifa jafn- vel yfirlitsgreinar í tímaritin, og eru með yfirlýsingar um hvað standi uppúr án þess að hafa lesið nema svona 10 prósent af því sem er komið út. Og hvar er vitið og gleðin í því? Blm.: Þú ert eiginlega að biðja um meiri yfirvegun. Að menn staldri að- eins við. Lesi. Hugsi. Skrifi síðan. JKS: Já. Auðvitað er ekkert að því að hrópa, kasta einhverju fram, það er bara fínt, en hitt verður að vera líka, og það má ekki bara einblína á sölubækurnar. Við erum fámenn þjóð, eiginlega bara örþjóð og það sinnir okkur engin nema við sjálf. Menningarumræðan verður þess vegna að vera öflug og fjölbreytt, en það er hún því miður ekki núna. Dómar um listasýningar heyra til dæmis sögunni til, eða því sem næst, það er einhver frímerkjadómur í Mogganum, svo búið. Fólk leggur kannski allt sitt í þessar sýningar og uppsker bara fálæti, bara þögn. Þetta er vond þróun, stórvarasöm, og óskiljanlegt metnaðarleysi hjá fjölmiðlum. Dómar eiga að vera inn- legg í umræðu, þeir eiga að skapa umræðuhefð og þeir geta veitt lista- manninum aðhald, geta hvatt hann til dáða. Það verður mikil eyða ef þú tekur þá burt. Og hvar er líka metn- aður okkar sem þjóð? Ef við ætlum að halda lífi, halda sjálfstæði okkar og karakter, þá verður menningar- lífið að vera fjandi öflugt, helst helm- ingi öflugra en annarstaðar; við eig- um að bera okkur saman við það besta annarstaðar, og gera síðan helmingi betur. Það er eina leiðin fyrir smáþjóð til að lifa af. Sambland af rausi og karla- grobbi Blm.: Hvað segirðu um ljóðið núna? Egill Helgason segir að það nenni enginn að lesa það sem sé samið núna. JKS: Ég held að ljóðið liggi ekki andvaka yfir því sem Egill Helgason segir. Egill vitnar líka í Martin Amis sem hefur víst sagt eitthvað svipað. Svona yfirlýsingar eru marklitlar, einhverskonar sambland af rausi og karlagrobbi. Blm.: En Egill á að stýra bók- menntaþætti Ríkissjónvarpsins! Það hlýtur að skipta máli hvaða augum sá maður lítur ljóðlist í landinu! JKS: Jú, auðvitað, og dapurlegt að maðurinn hafi þessi viðhorf. Hann ætti auðvitað, í ljósi þess að hann er að fara að stýra þessum þætti, að út- skýra hvað hann eigi við. Hann slengdi þessu bara fram á bloggsíðu sinni, og maður veit ekki hvort það sé eitthvað á bakvið það, veit ekki hvort Egill sé nógu vel að sér til að standa undir svona yfirlýsingu. Þetta er vonandi ekki það sem koma skal í þáttunum; stórkarlalegar yf- irlýsingar og yfirborðsmennska. Ég neita að trúa því. Egill er fjandi góður sjónvarps- maður, en ég er ekki viss um að hann sé jafn slyngur bókmennta- maður, og hann þarf heldur ekki að vera það til þess að stýra góðum bókmenntaþætti. Þar gildir að kunna á miðilinn og fá rétta fólkið til að tala um hlutina, og ekki fara á taugum þótt einhver viðmælandi sé lengi að hugsa eða tala. Ég held að fólk horfi ekki á bókmennaþætti til að heyra glitrandi frasa sem síðan er hægt að nota í auglýsingar. Brengluð hugsun, brenglað mat Blm.: Líklega hafa aldrei selst jafn margar bækur og einmitt nú í heim- inum. Sennilega hafa bækur aldrei verið auglýstar meira. Sennilega hefur aldrei verið fjallað meira um bókmenntir í hverskyns fjölmiðlum. Á öll þessi athygli illa við bókmennt- irnar? JKS: Bókmenntirnar þola hvað sem er og þurfa ekki á neinum sjúkraskýlum eða sáraumbúðum að halda. En ég held að athygli bæði fjölmiðla og forlaga beinist þessi ár- in fyrst og síðast að sölubókum, og höfundum þeirra. Markaðshugsunin ræður för. Maður sér þetta skýrt víða erlendis. Þar er ritstjórum hjá forlögum sagt upp en markaðs- deildin aftur á móti stækkuð. Útgáfa á þýddum bókum dregst saman og verður einsleitari. Forlögin spyrja ekki fyrst um gæðin heldur sölu- möguleika. Auðvitað verður að selja bækur, og auglýsa þær, en þróunin er orðin ískyggileg ef salan er orðin höfuðatriði en ekki gæðin. Þetta er brengluð hugsun, brenglað mat. Maður vonar bara að það gangi yfir sem fyrst. Eina góða við þetta ástand er að það verður til rými fyrir lítil, metnaðarfull forlög sem hugsa fyrst og síðast um að gefa út góðar bækur, en horfa minna á metsölu- listann. Það er svipuð þróun í bóka- búðunum. Ýmsir hafa bent á að úr- valið í stóru bókabúðunum í London, til dæmis, verði sífellt einsleitara, og æ erfiðara að fá 2-3 ára gamlar bæk- ur sem hafa ekki ratað á sölulistana. Það er þó langt í frá fokið í öll skjól, ein besta bókabúð heimsins er í London, London Review Bookshop; það nálgast himnasælu að fá sér eina kollu á nálægum bar og stinga sér síðan inn í búðina. Þessi næstum hitasóttarkenndi áhugi á krimmanum Blm.: Sækirðu þér innblástur í bæk- ur? Eða trúirðu kannski ekki á inn- blástur? JKS: Ég sæki margt í bækur, til dæmis félagsskap, og góður fé- lagsskapur er aldrei ofmetinn í þessu lífi. Ég sæki líka huggun í bækur, afþreyingu og sjálfsagt hug- myndir, hughrif. Góðar bækur, góð- ur skáldskapur, hvetur mig áfram, brýnir mig. Maður les setningar í bókum höfunda eins og Brautigan, Hamsun, Thomas Mann, Saramago, Marias, Zagajewski og heimurinn verður einhvern veginn stærri, möguleikarnir fleiri, bæði í lífinu og skáldskapnum. Er annars eitthvað bil þar á milli? En innblástur; maður notar svona orð ekki svo glatt. Sum orð eru varasöm. Það er svo mikill farangur sem fylgir þeim. En það gerist vissulega stundum einhver fjárinn inni í manni, eitthvað sem opnar allt, gerir allt mögulegt. Blm.: Talandi um farangur. Sum- arið bakvið brekkuna byrjar á þess- um orðum: „Maður verður að beygja af þjóðveginum. Ekki æða áfram eft- ir malbikuðum leiðum, heldur beygja og leysa rykorminn úr læð- ingi malarvegarins.“ Það mætti skilja þetta sem fagurfræðilega yf- irlýsingu. Glíman við hefðina hefur verið miðlægt þema í íslenskri bók- menntaumræðu. Sú kynslóð höf- unda sem kom á undan þér var stundum kennd við endurkomu sög- unnar og tengd íslenskri sagnahefð. Þessi yfirlýsing gengur kannski þvert á hana. Og reyndar fær hefðin fyrir ferðina í Sumrinu bakvið brekkuna, skáldskapur Halldórs Laxness er notaður í auglýsingar, hundurinn á bænum heitir Þórberg- ur og atómljóðið er rekið upp til fjalla svo eitthvað sé nefnt. Ég held að þessi bókmenntasögulega vitund hafi verið einkennandi fyrir íslensk- an skáldskap á seinustu áratugum tuttugustu aldarinnar en ég er ekki viss um að hún sé jafn sterk núna. Geturðu tekið undir þetta? JKS: Já, ég get það, og það má al- veg skilja upphafið að Sumrinu sem fagurfræðilega yfirlýsingu, en líka almenna, um lífið. Sá sem þræðir breiðgötur alla sína tíð og fer bara þjóðvegi missir af miklu, hann deyr fátækari. Og við eigum líka alltaf að efast um hefðina, um meginstraum- ana, það er blátt áfram lífs- nauðsynlegt. En hin hefðbundna skáldsaga er vissulega sterk um þessar mundir, hér og í kringum okkur. Það á bæði við yngri og eldri höfunda. Ég veit ekki hvort þetta sé bara eðlileg þróun, eða hvort markaður- inn, markaðshugsunin, stýri ein- hverju, og þessi næstum hitasótt- arkenndi áhugi á krimmanum. Í nafni kærleikans eftir James Meek er ágætis dæmi. Mjög vönduð bók, vel smíðuð, höfundurinn greinilega mjög vel að sér í sögutímanum, en bókin er samt gömul, mér finnst þetta vera skemmtilitteratúr, vönd- uð afþreying, sem er fín sem slík og bráðnauðsynleg, en það er samt tal- að um svona bækur eins þær séu eitthvað annað. Formið er gamalt, nálgunin er gömul, úrvinnslan alltof kunnugleg. Ég get næstum sagt það sama um marga af ensku risunum, McEwan til dæmis, Ishiguro, Ku- reishi. Ég dáist vissulega að hand- bragðinu, vitinu, þekkingunni, en fyllist þó iðulega óþoli eftir því sem líður á bækur þeirra. Hvar er æv- intýrið? Hvenær ætla þeir að koma mér á óvart? Þetta eru höfundar sem leggja höfuðáhersluna á söguna sjálfa, framvinduna, og þá verður ekkert rúm fyrir ævintýrið, þeir opna ekki inn í nýja heima. Þeir boða ekki nýja tíma. Blm.: Ég gæti ekki verið meira sammála! Friðþæging eftir McEwan er til dæmis 19. aldar skáldsaga. En mikið djöfull gerir hann þetta vel. Nýjasta bókin hans, On Chessil Beach, er líka meistaralegt hand- verk. Og þarna byggir hann eins og aðrir breskir höfundar á mikilli hefð í skáldsagnagerð. Breskir höfundar búa yfir einhverri tæknilegri fágun sem er satt að segja mjög sjaldséð hjá íslenskum höfundum. Eða hvað finnst þér? JKS: Jú, það er þessi breski skóli, nostrað við smáatriðin, passað upp á að teið sé passlega heitt. Það eru auðvitað til undantekningar. Jean Rhys, til dæmis. Ég er alltaf að bíða eftir að einhver þýði hana, skrifaði flest verkin sín á fjórða áratug síð- ustu aldar, blúsuð verk, drykkja, sársauki, brostnir draumar. Hún var nánast gleymd þegar hún sló óvænt í gegn á gamals aldri. Nú, Zadie Smith í dag, það er einhver frum- kraftur í henni. Báðar þessar konur eru alveg lausar við þennan akadem- íska blæ sem einkennir breska höf- unda. Og það er líklega rétt hjá þér að þessi tæknilega fágun er sjaldséð hjá okkur, og ég held að það sé óþarfi að sýta það. Hún rímar ekki við okkur. Styrkur okkar liggur í öðru. Tæknileg fágun getur líka orð- ið að þráhyggju, eða að sjálfu mark- miðinu. Og þá er stutt í dauða. Söguefnið er einhverstaðar á milli himnaríkis og helvítis Blm.: „Hér rýf ég frásögnina og við- urkenni jafnframt vankunnáttu mína,“ segir sögumaður í Birtunni á fjöllunum og enn fremur: „Maður heldur að það sé auðvelt að setja saman frásagnir af atburðum, það sé bara að byrja og enda síðan ein- hversstaðar.“ En sögumaður kemst að því að þetta er ekki einfalt mál. Á tíunda áratugnum fjallaði skáld- skapurinn mikið um skáldskapinn og þetta virðist enn vera áleitið við- fangsefni höfunda. Auðvitað eru fleiri yrkisefni. Krimminn fjallar til dæmis um samfélagsmálin. Söguleg efni hafa líka verið til umfjöllunar en þó ekki eins mikið og á níunda og tí- unda áratugnum. Um hvað ert þú að skrifa núna? Það er að koma út ný bók eftir þig í haust. JKS: Jú, það var fjallað um skáld- skapinn í nokkrum skáldsögum síð- asta áratugar, en mér finnst allt of mikið horft á þá þætti í bókunum. Því þótt höfundur vitni talsvert í skáldskap annarra og velti fyrir sér hvað það er að segja sögu, þá er ekki þar með sagt að það sé meginatriði bókarinnar. Bókmenntafræðingar og aðrir sem fjalla um bókmenntir virðast stundum tapa dómgreindinni um leið og höfundur fer að velta fyr- ir sér eðli skáldskaparins í verki sínu, og gleyma, eða kjósa að horfa framhjá því, að þetta er bara einn af þráðunum, og jafnvel alls ekki sá mikilvægasti. En vissulega auðveld- ur þráður að toga í! Um hvað ég er að skrifa núna; ég er frekar lélegur í því að útlista eigin verk, og eiginlega handónýtur að tala um það sem ég er að ljúka við. En þetta er einhverskonar söguleg skáldsaga. Hugmynd sem ég hef gengið með í ein tólf ár en ekki kom- ið mér í fyrr en núna. Sumpart vegna þess að annað efni var frekara á athyglina, sumpart vegna þess að mig óaði við að glíma við hina sögu- legu skáldsögu, hún virðist af ein- hverjum ástæðum steypa flesta höf- unda í sama mót. Maður þarf að sprikla og berjast eins og óður til að glata ekki sjálfstæði sínu. Ég vona að mér hafi tekist það. Þetta verður auðvitað allt önnur bók en ég lagði upp með, upphafleg hugmyndin, þessi sem ég gekk með í allan þenn- an tíma, er nánast gufuð upp. Fjand- inn hafi það! En söguefnið er ein- hverstaðar á milli himnaríkis og helvítis. Ég stefni alltaf í ákveðna átt, en veit ekki hvað sú átt heitir Blm.: Er þetta lýsing á því hvernig bækurnar þínar verða til yfirleitt? Verða þær til í skrifunum? Eða ertu vanalega búinn að teikna söguna upp áður en þú byrjar? JKS: Ég er með einhverjar hug- myndir í kollinum, búinn að skrifa eitthvað niður en það virðist því mið- ur oftast gufa upp þegar á líður. Sagan verður að mestu til í átök- unum. Það má kannski lýsa því svo að ég sé að elta einhverja tilfinningu, einhvern grun, ég er að reyna að fanga lit eða tón, eitthvað sem er órætt. Ég stefni alltaf í ákveðna átt, en veit ekki hvað sú átt heitir og veit ekki hvert hún leiðir mig. Og lifum við ekki líka þannig? Blm.: Og þá erum við aftur farnir að tala um skáldskapinn og lífið. Þetta snýst auðvitað allt um tengslin þarna á milli. Eða hvað? JKS: Jú, því skáldskapurinn býr til lífið, og lífið skáldskapinn. samviskubitið, hann er undrið »Umræðan einkennist því mikið til af upphróp- unum og snýst of mikið um fáeina titla, það er alltof mikið sem verður útundan. Sá sem hrópar hæst og spriklar mest fær athyglina. Þetta er svona partístemning, og í lagi sem slík, en það er afleitt ef öll umræðan fer fram í þessu partíi, allskonar upp- hrópanir í bland við dúndrandi dansmúsíkina. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. JÚNÍ 2007 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.