Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2007, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2007, Blaðsíða 13
bílasölu? Svona á maður aldrei að haga sér í Garðabæ. Maður á alltaf að láta sem mikil efn- isleg gæði séu sjálfsögð. Enda eiga þau að vera sjálfsögð – ekki bara fyrir viðskiptajöfra. Stjörnubærinn Framlög til íþróttamála eru almennt vel liðin í Garðabæ enda eru íþróttir helsta kennimark þessa samfélags þegar efnislegum gæðum sleppir og sjálfsagt hangir þetta tvennt saman. Vel gæti ég trúað að landsmenn heyri helst minnst á Garðabæ í samsetningunni „Stjarnan í Garðabæ“ og í seinni tíð fylgir æ oftar með að Stjarnan hafi sigrað þetta eða hitt liðið en sögn- in að sigra á auðvitað sérlega vel við í þessu bæjarfélagi. Æ sjaldnar sést nú fyrirsögnin „Stjörnuhrap í Garðabæ“ enda er hún ekki til marks um rismikla blaðamennsku. Það er athyglisvert hversu vel bæjaryfirvöld hafa staðið að uppbyggingu íþróttamannvirkja undanfarin ár og hversu vel þau hafa stutt við bakið á íþróttafélögunum og reyndar íþrótta- iðkendum líka með svokölluðum hvatapening- um. Og þetta skilar sér. Nýlega mátti t.d. lesa í Víkurfréttum: „Titlunum rignir inn í Garðabæ þetta árið og bæjarfélagið gerir harða atlögu að Reykjanesbæ og Hafnarfirði sem eitt mesta íþróttabæjarfélag landsins.“ Að baki þessari miklu áherslu á íþróttalífið hlýtur að búa það gildismat að íþróttir séu góðar fyrir Garðbæ- inga, sér í lagi unga Garðbæinga. Mest áhersla hefur verið lögð á hópíþróttir sem kemur kannski sumum á óvart í þessu helsta vígi Sjálfstæðisflokksins og einkafram- taksins. Boltaíþróttir eru sósíalískar í aðra röndina; liðið kemst hvorki lönd né strönd án samhjálpar. En eins og samfélagið sjálft bjóða þær jafnframt upp á mannrækt og eru því smækkuð mynd af lífsbaráttunni sem kann að vera helsta ástæðan fyrir vinsældum þeirra og helsta réttlætingin fyrir ástundun þeirra. Þær hafa jú forvarnagildi, segir fólk. Hitt er svo annað að stundum finnst manni eins og íþróttir eigi að leysa allan vanda í Garðabæ. Það er auðvitað eitthvað spartanskt við sam- félög sem leggja mikla áherslu á íþróttir. Þau vilja fá heilbrigt yfirbragð og kannski blundar einhvers staðar sú hugsun að gott íþróttastarf vegi að einhverju leyti upp mikla fjarveru for- eldranna frá börnum sínum (þó skal tekið fram að foreldrastarf er iðulega í miklum blóma í tengslum við íþróttir í Garðabæ). Hins vegar er orðræða íþróttanna ennþá afar hrá og að vissu leyti frumstæð enda eru íþróttir í rauninni til- brigði við bardagalist. Keppnisíþróttir skapa víglínur og íþróttamenn í baráttuham minna stundum meira á górillur en siðmenntaðar ver- ur. Íþróttakappleikir kalla oft fram afar heift- úðugar tilfinningar í keppendum, þjálfurum, foreldrum og öðrum áhorfendum og þar tíðkast að hlakka yfir óförum mótherjans, jafnvel þeg- ar meiðsl verða. Þarna lendir íþróttahreyfingin í mótsögn við yfirlýst mannræktarmarkmið og þess vegna má spyrja sig hvort ekki mætti leggja jafn mikla rækt við greinar eins og listir, skátastarf og mannúðarmál. Þó að íþróttir fái vissulega ýmsu góðu áork- að, hvarflar stundum að mér að öll fjárfestingin í íþróttum sé að töluverðu leyti pabbastjórn- mál; pabbarnir séu að fá útrás fyrir spennufíkn og löngun til þess að tilheyra sigursælu liði. Og eins og áður sagði hafa Garðbæingar svo sann- arlega fengið að upplifa sigurtilfinningu í vetur og það er fullkomlega við hæfi, því allir eru jú stjörnur í Garðabæ. Íþróttaandinn smitast svo út í atvinnulífið þar sem menn knýja útrásina með sigurvegarafasi. Þetta er eins konar íþróttavæðing og hún er í sjálfu sér ágætt svar við sjúkdómsvæðingu. Annars segir það margt um áherslurnar í Garðabæ að íþróttamiðstöðin Ásgarður er hin eiginlega miðja bæjarins. Enda er Latibær framleiddur í Garðabæ. Listar(stols)bærinn Margir líta á listir sem andstæðu íþrótta, en tvíhyggja af því tagi er þó óþörf vegna þess að góður íþróttamaður er listrænn í nálgun sinni. Margir íþróttamenn hafa líka orðið listamenn. En það er jafn eftirtektarvert og öll framlögin til íþróttamála hversu lítið er lagt í listir í Garðabæ. Þær eru ekki áberandi í ásýnd þessa samfélags sem stendur og það birtist m.a. í lít- illi umfjöllun um þær í bæjarblöðunum. Sjálf- sagt er hérna fullt af listelsku fólki, en listir virðast fremur vera álitnar einkamál hvers og eins og því eru framlög til þeirra ekki áberandi af hálfu bæjaryfirvalda. Garðabær er samt ekki með öllu afhuga list- inni því á nokkrum stöðum í bænum má sjá ágæt útilistaverk og sumar stofnanir bæjarins eru prýddar mjög frambærilegum listaverkum. Bæjarlistamaður hefur líka verið útnefndur ár- lega og honum fenginn svolítill vasapeningur. Eiginleg lista- og menningarmiðstöð er þó eng- in í bænum, en hann á hins vegar metn- aðarfullan tónlistarskóla og ágætt bókasafn. Bókasafnið er talsvert sótt en þó sýnist mér mun fleiri leggja leið sína í Ríkið sem er við hliðina á því; kannski það sé helsta menningar- miðstöðin. Garðabær hefur aftur á móti skuldbundið sig til þess að hýsa Hönnunarsafn Íslands og ein- hvern veginn finnst manni safn af því tagi ríma vel við áherslur þessa samfélags. Hönn- unarsafn liggur mun nær praktískum hlutum en aðrar listgreinar þó að ekki sé allt sem sýn- ist þegar kemur að sambandi listarinnar við efnisheiminn eins og prófessor Ágúst Einars- son hefur komist að raun um í rannsóknum sín- um á framlegð listageirans. Hið fábreytilega lista- og menningarlíf í Garðabæ gerir að verkum að breiddin í mann- lífinu mætti vera meiri. Í bænum er vissulega mikið af framsæknu fólki sem hefur náð langt á sínu sviði, en á slæmum dögum læðist sá grun- ur að manni að þar drottni lífsgæðakapphlaupið í sinni ýktustu mynd og fulllítið rými eða orka verði afgangs til að íhuga það sem best hefur verið hugsað á öðrum sviðum. Auðvitað ættu álnirnar sem margir bæjarbúar hafa komist í að gera þeim kleift að huga betur að mennsk- unni, og vissulega er það svo í sumum tilvikum, en oft virðist auðurinn vera harður húsbóndi og heimta sína þjónustu. Og þá spyr ég mig stund- um: Hvernig væri Ísland ef allir hugsuðu eins og dæmigerður Garðbæingur? Sigurvegarabærinn Á þeim árum sem ég hef búið í Garðabæ hefur ríkt klassísk sjálfstæðisstefna í bænum; einka- framtak í bland við hóflegar félagslegar áherslur. Útsvarsprósentan hefur verið lág, þjónustugjöld stundum eitthvað hærri en ann- ars staðar. En það hefur samt ekki verið neinn grundvallarmunur á áherslum í Garðabæ og al- mennt á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefur ekki verið rekin öfgafull frjálshyggja. Ég hef ekki þurft mikið á yfirvaldinu í Garða- bæ að halda og líklega er það af hinu góða. Ég hef ekki heldur orðið var við pólitískan þjösna- skap hér eins og ég varð stundum var við á mín- um æskuslóðum vestur á fjörðum. En ef til vill fer þjösnaskapurinn framhjá mér vegna þess að í bænum ríki samkomulag um að opinbera hann ekki. Og satt að segja virðist mér sem samkomulag af því tagi sé við lýði, ég finn mjög sterkt fyrir því – og fyrir því fann ég við samn- ingu þessa greinarkorns – að það telst ekki góður siður í Garðabæ að kvarta. Þar eiga menn að vera yfir það hafnir, sennilega vegna þess að þar á að vera svo gott að búa og þar búa því einungis sigurvegarar sem speglast í því að þar er bara einn flokkur við völd, og hefur alltaf verið, sigurvegaraflokkurinn. Þetta er jú fyr- irmyndarríki hans. Að þessu leyti minnir þetta svolítið á andrúmsloftið sem manni finnst ríkja í viðskiptaheiminum: Menn bera sig ætíð vel, eru hressir og jákvæðir. Þessi afstaða end- urspeglast mjög vel í bæjarblaðinu þar sem yf- irleitt er ekki að finna neina gagnrýni á ráðslag í Garðabæ heldur nánast fréttatilkynningar frá ráðandi meirihluta. Þar er líka fjallað mikið um íþróttir enda eru þær óumdeilt viðfangsefni og bjóða upp á líflegt myndefni. En svo það fari nú ekki á milli mála, og svo fólk haldi ekki að ég sé að kvarta, þá hef ég átt prýðileg samskipti við bæjaryfirvöld þau 13 ár sem ég hef búið í bænum. Þau hafa t.d. nýverið veitt mér verðlaun. Fulltrúar bæjaryfirvalda eru yfirleitt viðræðugóðir og velviljaðir, litaðir af góðri og gildri íslenskri framfarahyggju. En það fer þó aldrei svo að maður þurfi ekki einhvern tíma að eiga samskipti við yfirvöld. Í vetur sendi ég t.d. Gunnari Einarssyni bæjar- stjóra tölvuskeyti vegna slysahættu í grennd við heimili mitt en sendiferðabílar höfðu þá ítrekað runnið frá Hagkaupum og inn í garð þar sem börn eru iðulega á ferli. Gunnar svar- aði um hæl og sagðist mundu láta athuga hvað hægt væri að gera til að koma í veg fyrir að svona atburðir endurtækju sig. Nokkrum vik- um síðar las ég í blöðunum að hann hygðist láta rífa Hagkaupshúsið. Það verður að segjast eins og er að þau viðbrögð voru langt umfram vænt- ingar. Til bráðabirgða hafa auk þess verið sett- ir upp steinstöplar og vegrið. Grasabærinn Þegar horft er upp í Garðabæ frá Hafnarfjarð- arveginum heillast maður ekki beinlínis af ásýnd byggðarinnar; við blasa breiður af lát- lausum húsum og inni á milli eru meira að segja miður heppnaðar byggingar eins og Hagkaups- húsið og Vídalínskirkja. Þekktasta hverfi bæjarins, Arnarnesið, er eins konar varða í þroskasögu Íslands eftir stríð. Hverfið var lengi ímynd velsældarinnar á landsvísu, þar þótti sérstaklega fínt að búa. Þegar maður ekur um það núna sér maður að mikið vatn hefur runnið til sjávar. Hverfið er vitnisburður um fyrstu kynslóð Íslendinga sem sóttist eftir mikilleik í kjölfar aldalangrar fá- tæktar. Nýju hverfin, eins og Ásahverfið, vekja ef til vill svipaðar hugrenningar með manni eftir 30 ár. Þar er komin miklu meiri tilraunastarfsemi í arkitektúrinn og reynir hver að toppa annan í frumleikanum. Bryggjuhverfið með dönsku götunöfnunum hans Hallgríms Helga setur svolítinn svip á annars sviplítinn bæ. Spurning hvort menn vilja svo í framhaldinu búa til eitt- hvert líf á Arnarnesvoginum sem er einn falleg- asti pollurinn á höfuðborgarsvæðinu. Arn- arneshálsinn er að taka á sig mynd en enn sem komið er virðast húsin þar afar einsleit, eins og þau séu sett saman úr steyptum gámum. Fleiri hverfi eru í bígerð og eitt þeirra mun auka um- ferð við Garðaskóla og Ásgarð, auk þess sem til stendur að bæta við bensínstöð þar rétt hjá. Ákvarðanir af þessu tagi fá mann til að velta fyrir sér hvort ekki væri hollt fyrir bæinn að skipta um meirihluta öðru hvoru. Langstærsti kosturinn við Garðabæ hefur þó minnst með skipulag einstakra hverfa að gera, heldur felst hann í nálægðinni við Vífils- staðavatn og Heiðmörk. Það eru ómetanleg lífsgæði að geta á fimm mínútum skotist út í fal- lega og lítt spjallaða náttúru. Við hjónin höfum átt margar góðar stundir við Vífilsstaðavatn, höfum farið ótal hringi í kringum það, gangandi eða skokkandi. Sumir halda kannski að út úr því komi hringavitleysa en mér er næst að halda að þessar ferðir okkar umhverfis vatnið hafi verið besta hjónabandsráðgjöf sem við gætum fengið; þar eru málin rædd í þaula eða hlaupið af sér þvargið. Krían hefur reyndar stundum sett strik í reikninginn og í fyrra var hún óvenju skæð, beit bæði og skeit, en lóan bætti það upp. Heiðmörk er síðan handan við hæðina og þaðan er stutt að Búrfellsgjá, Helga- felli, Grindaskörðum og fleiri undrum og þar höfum við líka átt mikla dýrðardaga. Svo ég svari spurningunni í upphafi, þá hefur mér dvalist í Garðbæ eftir margra ára flandur vegna þess að þar hef ég aðgang að mörgu af því besta sem höfuðborgarsvæðið býður upp á: Þar er ég þrátt fyrir allt nálægt menningar- miðjunni, án þess að hún gleypi mig, en um leið við skör þess ómanngerða. Þar er vel hugsað um þarfir barnanna minna, þar hef ég kynnst góðu fólki og á bókasafninu fæ ég fyrirtaks- þjónustu. Og svo er það þetta með efniviðinn sem ég á eftir að gera betri skil… Garðabæ? Morgunblaðið/Kristinn Höfundur er rithöfundur og var bæjarlistamaður í Garðabæ 2006. MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. JÚNÍ 2007 13

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.