Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 23.06.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 23. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók UPPLIFÐU NÁTTÚRUNA Einstakar bækur sem allir áhugamenn um íslenska náttúru ættu að lesa. NÝ! Eftir Geir Svansson geirsv@internet.is T ilvistarstefnan er mannhyggja eftir franska heimspek- inginn, rithöfundinn og baráttumanninn Jean-Paul Sartre er kominn út á íslensku, vonum seinna, en textinn hefur verið not- aður í kennslu við Háskóla Íslands í þýðingu Páls Skúlasonar í þrjátíu ár. Nú er þessi mikilvægi og fjör- legi texti, sem Sartre flutti sem fyrirlestur árið 1945, kominn út í Lærdómsritaröð Bókmennta- félagsins og, eins og jafnan í þeirri ritröð, hefur verið lögð mikil vinna í texta og yfirlestur á þýðingunni. Vilhjálmur Árnason heimspek- ingur skrifar góðan almennan inn- gang um Sartre og tilvistarstefnu hans. Að auki birtast í bókinni um- ræður sem áttu sér stað að loknum fyrirlestrinum. Egill Arnarson heimspekingur þýðir. Einnig er í ritinu að finna eftirmála Arlette Elkaïm-Sartre, í þýðingu Björns Þorsteinssonar heimspekings, sem jafnframt ritar stuttan eftirmála. Einvalalið sérfræðinga og fræði- fólks las textann yfir og bar saman við frumtexta. Tilveran er upphaflegri en eðlið Sartre flutti fyrirlestur sinn, Til- vistarstefnan er mannhyggja, til varnar heimspeki sinni, existen- síalismanum eða tilvistarstefnunni svokölluðu en textinn kom út á bók 1946. Sartre hélt því fram, sem frægt er, að maðurinn væri stadd- ur í guðlausum og þar með fárán- legum heimi og dæmdur til að vera frjáls í umkomuleysi sínum. Hann þyrfti á hverri stundu að velja sig með því að varpa sér fram í tíðina og bæri, að Guði gengnum, einn ábyrgð á vali sínu. Maðurinn skap- ar sjálfan sig á hverri stundu því „tilveran er upphaflegri en eðlið,“ sagði Sartre; maðurinn velur sér siðgæði. Þegar hér var komið, að nýlok- inni heimstyrjöld, var existensíal- ismi orðinn tískufyrirbæri unga fólksins í París og breiddist skjótt út, meðal annars yfir Atlantsála, til New York. Menn og konur tóku tilvistarangistina upp á arma sína, klæddust svörtum rúllukragapeys- um og eyddu kvöldum sínum í djasskjöllurum dántán, eða svo segir tuggan. Fyrirbrigðið og grundvallarstef tilvistarstefnunnar þótti hin mesta ósvinna og andleg óhollusta. Gagn- rýnin kom úr nánast öllum áttum: hefðbundnir heimspekingar, kirkj- unnar menn (ekki síst kaþólikkar) og kommúnistar höfðu ímugust á hugmyndum Sartres, allir út frá mismunandi forsendum. Tilvistar- stefnan þótti mótsagnakennt svartagallsraus, afstæðishyggja, gott ef ekki afvegaleiðandi tóm- hyggja og sjálfshygð og þaðan af verra, dragbítur á uppbyggingar- starf eftirstríðsáranna. Dæmdur til frelsis Það er í þessu andrúmslofti sem Sartre boðar til fundar til að skýra stöðu sína, firra sig tísku-tilvistar- sinnum, og benda á að kenning sín sé umfram allt mótuð af bjartsýni; hvað er bjartara en að losa mann- inn undan „eðlinu“ og guði og gefa honum þannig möguleika á því að breyta heiminum en einkum sjálf- um sér. Maðurinn er uppfrá því frjáls, dæmdur til að vera frjáls, til að velja, til að taka ábyrgð á sjálf- um sér – og öðrum. Sennilega kom það Sartre jafn mikið á óvart og öðrum að fyrir- lestrarsalurinn var troðfullur og mikil eftirvænting í loftinu. Les- andi getur gert sér í hugarlund þá spennu sem ríkti í salnum, ekki síst þegar umræðurnar sem fóru fram að honum loknum eru skoðaðar. Þótt sól Sartre hafi farið lækk- andi allt frá sjöunda áratug síðustu aldar og hann sé nú afskrifaður af mörgum verður því ekki neitað að hann var gríðarlega áhrifamikill menningarviti sem hafði veruleg áhrif, ekki bara á menningarmál heldur einnig samfélags- og stjórn- mál í Frakklandi og jafnvel víðar um áratugaskeið en einkum á eft- irstríðsárunum. Framlag Sartre til bókmennta er mikilvægt en þar að auki höfðu kenningar hans mikil áhrif á menningu og listir. Þannig má til dæmis segja að fáránleika- leikhúsið sé listræn sviðsetning á existensíalisma. Vilhjálmur Árnason stiklar í ágætum inngangi sínum á lífs- hlaupi Sartre, minnist á viðtökur við skrifum hans og heimspeki sem oft var býsna óvægin, og leitast við að skýra og setja í samhengi fyr- irlesturinn Tilvistarstefnan er mannhyggja og tilvistarstefnuna sem „afhjúpar í senn heiminn í merkingarleysi sínu og vitundina sem uppsprettu merkingar og gilda.“ (s. 28). Tillaga um yfirstigningu Tilvistarstefnan er mannhyggja er að öllu leyti til fyrirmyndar og út- koma bókarinnar ætti að gleðja alla áhugamenn um heimspeki (og andheimspeki). Eina athugasemd er þó freistandi að gera en hún varðar hugtak eða öllu heldur ís- lenska þýðingu orðsins/hugtaksins „transcendance“ – handanvera. Þessi þýðing er almennt notuð meðal heimspekinga á Íslandi. Hjá Sartre er „handanvera“ annað tveggja hugtaka í pari; hitt er „staðvera“ eða facticité upp á frönsku. Vilhjálmur skýrir hugtakaparið í inngangi sínum með eftirfarandi hætti: Maðurinn er ávallt og hverju sinni bundinn við ákveðnar aðstæður en þessar aðstæður, seg- ir Vilhjálmur, „eru ofnar úr tveim- ur þáttum sem Sartre kallaði stað- veru (facticité) og handanveru (transcendance). Staðveran er heild þeirra staðreynda sem ein- kenna hlutskipti mitt, sá efniviður sem ég get smíðað líf mitt úr ef svo má segja. […] Handanveran er aft- ur á móti það hvernig ég vinn úr þessum efnivið, hvað ég geri úr mér á grundvelli þessara stað- reynda.“ (23) Báðar þessar þýðingar orka tví- mælis en „staðvera“ er þó skárri. „Handanvera“ er hins vegar ótæk þýðing á hugtakinu transcendance, a.m.k. þegar hún á við heimspeki Sartre. Hún á augljóslega betur við þegar um guðfræði er að ræða eða kannski heimspeki Kants. Orð- ið minnir á tilveru handan hins mannlega heims. En hjá Sartre er hvorki til staður sem heitir Hand- anvera né Himnaríki. Þar að auki felur orðið transcendance í sér hreyfingu; viðskeytið -ance eða -ence getur reyndar vísað til ástands en þó aðallega til hreyf- ingar eða ferlis. Í raun er transcendance reynsl- an af því að yfirstíga eða komast fram úr takmörkunum. Trans- cendance, eins og Sartre notar hugtakið merkir fráleitt stöðugt ástand eða einhvers konar „hand- anveru“. Þetta kemur reyndar skýrt fram hjá Vilhjálmi: „Þar með losar vitundin okkur stöðugt úr viðjum þess sem er (facticité), yfir- stígur [feitletrun mín] það með því að áforma sig á sviði hins mögu- lega.“ Það gengur einfaldlega ekki upp að nota „handanveru“ í samhengi tilvistarstefnunnar þar sem hún leiðir beinlínis til árekstra í text- anum: „Það er ekki til annar heim- ur en sá mannlegi, heimur mann- legrar sjálfshygðar,“ segir Sartre undir lok fyrirlesturs síns. Og áfram: „Þessi tengsl milli handan- verunnar [feitletrun mín] sem grundvallarþáttar í manninum – ekki í sama skilningi og Guð er handan veruleikans heldur í þeim skilningi að maðurinn sæki út fyrir sjálfan sig – og sjálfshygðarinnar, í þeirri merkingu að maðurinn lokist ekki utan um sjálfan sig heldur að hann sé ætíð staddur í mannlegum heimi, þessi tengsl eru það sem við nefnum mannhyggju tilvistarstefn- unnar.“ (s.88) Maðurinn er sem sagt ætíð staddur í mannlegum heimi en sækir út og reynir í sífellu að yfir- stíga aðstæður sínar. Til að forðast augljósan árekstur sem verður í þýðingunni á texta Sartre hér að ofan liggur því beinast við að nota orðið „yfirstigning“ í stað „hand- anveru“ (Ég notaði þá þýðingu í grein, um eða fyrir síðustu alda- mót). „Yfirstigning“ (sem alls eng- in uppstigning) felur í sér nægi- lega hreyfingu; maðurinn yfir- stígur eða reynir að yfirstíga aðstæður sínar, gerir það í sífellu en kemst aldrei endanlega yfir þær hvað þá handan þeirra – sá sem það gæti væri sannkallað Ofur- menni (eða Guð). Tilvera „hand- anveru“ mundi í raun grafa undan grundvelli tilvistarstefnunnar og firra manninn endanlegri ábyrgð. Það er kominn tími til að yfirstíga vanann og leggja „handanveruna“ á hilluna, að minnsta kosti þegar Sartre á í hlut. Úr fjötrum vanans Tilvistarstefnan er mannhyggja eftir Jean-Paul Sartre er komin út í þýðingu Páls Skúlasonar í flokki Lærdómsrita Bókmenntafélagsins. Þótt sól Sartre hafi farið lækkandi allt frá sjöunda áratug síðustu ald- ar og hann sé nú afskrifaður af mörgum verður því ekki neitað að hann var gríðarlega áhrifamikill menningarviti og útkoma þessa fyrirlestrar hans löngu tímabær. Jean-Paul Sartre „Framlag Sartre til bókmennta er mikilvægt en þar að auki höfðu kenningar hans mikil áhrif á menningu og listir.“ Páll Skúlason Texti Sartre Tilvistarhyggja er mann- hyggja hefur verið notaður í kennslu við Háskóla Ís- lands í þýðingu Páls Skúlasonar í þrjátíu ár. Höfundur er bókmenntafræðingur. » Fyrirbrigðið og grundvallarstef tilvistarstefnunnar þótti hin mesta ósvinna og andleg óhollusta. Gagnrýnin kom úr nánast öllum áttum: hefðbundnir heimspekingar, kirkjunnar menn (ekki síst kaþólikkar) og kommúnistar höfðu ímugust á hugmyndum Sartres, allir út frá mismunandi forsendum. Tilvistarstefnan þótti mótsagnakennt svartagallsraus, afstæðishyggja, gott ef ekki afvegaleiðandi tómhyggja og sjálfshygð og þaðan af verra, dragbítur á uppbyggingarstarf eftirstríðsáranna.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.