Lesbók Morgunblaðsins - 30.06.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 30.06.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 30. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Önnu Jóa annajoa@simnet.is L jósmyndararnir sem sýna á „Automatos“ eru þrír, þeir Ragn- ar Axelsson (RAX), Páll Stefánsson og Þjóðverjinn Olaf Otto Becker. Sýningunni er ætlað að varpa á ljósi á strauma og stefnur í landslagsljósmyndun samtímans en myndirnar eru allar teknar hér á landi. Becker skírskotar í myndum sínum til rómantískrar náttúrusýnar og hagnýtingar – hvernig þetta tvinnast saman – og beinir linsunni að hinu manngerða í náttúrunni. Hið smáa í náttúrunni verður stórt í meðförum Páls Stefánssonar í myndum af samspili íss, vatns og steina. Verkin á sýningunni minna á afstraktmálverk: Hver mynd er sjálfstætt listaverk sem lýtur eigin fagurfræðilegum lögmálum en hleypir jafnframt ímyndunarafli áhorfenda á flug. Svarthvít verk Ragnars eru frásagnarkennd – þau eru úr myndaröð sem spannar 17 ára tímabil og fjallar um leitir í Landmannalaugum; um samband manns og náttúru. Í verkum þeirra allra er áberandi sú endursköpun á náttúrunni sem á sér stað með sýn ljósmyndarans og tækni. Myndir Ragnars munu birtast í fyrirhugaðri bók en hann hefur áður gefið út bókina Andlit norðursins. Hann er þekktur fréttaljósmyndari á Morgunblaðinu, og Páll starfar sem tímaritaljósmyndari fyrir Ice- land Review/Atlantica og hafa verið gefnar út margar bækur með mynd- um hans, einkum landslagsljós- myndum. Í samtali okkar gagnrýnir hann tilhneigingu fólks til að flokka þá sem landslagsljósmyndara. „Ég er bara ljósmyndari,“ segir hann ákveðið. Hann bendir á að í stóru verkefni sem hann vinnur að um þessar mundir, ljósmyndun fyrir heimsminjaskrá UNESCO, sé ekki um landslagsljósmyndun að ræða. Sama gildi um bók sem hann vinnur nú að með myndum teknum í Afr- íku. Ragnar tekur undir gagnrýni Páls. „Ég tek ekki landslagsmyndir sem slíkar. Í myndunum hér er ég fyrst og fremst að segja sögu um þetta svæði og fjalla um líf fólksins í landinu.“ Hann gagnrýnir yfirborðs- mennsku í samtímanum og telur að skrásetning mannlífsins einkennist helst af „myndum í blöðum og tíma- ritum af fólki á böllum og á fylleríi. Þetta er Fólk í fréttum eða Flugan eða eitthvað í þá veru. Myndir af „frægu fólki“, en enginn veit fyrir hvað það er frægt. Þetta er „Paris Hilton-syndrómið“ sem menn halda að selji.“ Páll ræðir mismunandi sýn ljós- myndaranna á sýningunni: „Mynd- irnar eru ólíkar, það er eiginlega enginn samhljómur milli þeirra.“ Hann telur sýninguna varpa ljósi á að þeim Ragnari hafi farið fram. „Maður er að fínslípa sína sýn.“ Ragnar segist vona að svo sé og bendir á að aðeins brot af viðfangs- efnum þeirra komi fyrir sjónir al- mennings og því sé erfitt að meta framfarir: „Það er ekki endilega verið að birta það sem maður er að gera helst með hjartanu, það sem mann langar mest til að gera.“ Það sé ekki auðvelt að fá það birt „sem maður reynir að skapa einn með sjálfum sér.“ Ívar Brynjólfsson ljósmyndari heldur því fram á einum stað að frjáls ljósmyndun sé ekki til hér á landi nú til dags, til þess sé öll ljós- myndun of markaðsvædd. Hvað finnst ykkur um slíka fullyrðingu? Páll bendir á að ljósmyndarar þurfi að geta haft viðurværi af starfi sínu. „Ég held að við báðir höfum haft þá gæfu að geta framfleytt okkur á því að taka nákvæmlega þær myndir sem okkur langar til að taka.“ Að þessu leyti er hann ekki alls kostar sammála Ragnari og algjörlega ósammála Ívari: „Ég held að þetta sé neikvætt og skakkt hugsað hjá Ívari. Ég hef fengið verkefni út á mína sýn – fólk kaupir raunverulega „mitt auga“ og Raxa. Ég hef t.d. fengið mikið af verkefnum erlendis og það er ekki af því að ég er „com- mercial“ heldur af því að fólk fílar mína sýn.“ Páll bendir á að þetta snúist ekki síst um skilgreiningu og mat á hugtakinu „frjáls ljósmynd- un“. Blaðamanni verður hugsað til frumherja í íslenskri ljósmyndun, Sigfúsar Eymundssonar, sem rak ljósmyndastofu í Reykjavík 1871- 1909, en í dag þykja verk hans hafa afar listrænt gildi. Sigfús var fyrsti ljósmyndarinn sem tókst að gera ljósmyndun að ævistarfi og var það ekki síst markaðshugsun að þakka. Hann tók m.a. markvisst myndir fyrir markað erlendra ferðamanna af þekktum ferðamannastöðum; Gullfossi, Geysi, Heklu og Þingvöll- um. Í landslagsverkum ykkar eruð þið hluti af hefð sem nær aftur á miðja 19. öld og lýsir sér í fallegum ljós- myndum af ferðamannastöðum – gjarnan yfirlitsmyndum í hefð- bundnum anda – sem birtar eru í bókum, tímaritum, á dagatölum, póstkortum og lengi vel á forsíðu Sunnudagsmoggans. Sú hefð hefur óneitanlega mótað íslenska þjóðar- sjálfsmynd og kannski viðhorf hér- lendis til landslagsljósmyndunar, jafnvel á kostnað miðilsins sem list- ræns forms. Eigið þið á einhvern hátt í samræðu við slíka hefð – eruð þið jafnvel í andstöðu við hana? Ragnar andmælir því: „Maður útilokar ekkert ákveðið myndefni en er heldur ekki að þóknast ein- hverjum. Það væri enginn vandi að gera það og þéna vel en þetta snýst ekki um það. Þetta er svona svipað og ef Bítlarnir hefðu alltaf verið að spila Lóu litlu á Brú en þeir vildu semja ný lög og voru flottir.“ Páll nefnir að það sé enn mjög al- gengt í íslenskri landslagsljósmynd- un að taka svona yfirlitsmyndir. Ragnar segir að það sé „svolítið ergilegt í raun og veru, þetta eru fjöll í sólbaði. Flestir nenna ekki út í rigningu, Palli hefur alltaf nennt því og myndir hans eru öðruvísi fyrir vikið.“ Ragnar, þú hefur skapað sér- stakan stíl í svarthvítum ljósmynd- um sem eru gjarnan dramatískar hvað varðar myndefni og mynd- byggingu, í þeim er veður og mikil hreyfing. Hvers vegna valdirðu svarthvíta formið? „Þegar Palli kom til landsins úr námi þá komu með honum nýir straumar inn í íslenska ljósmyndun, sem var fremur stöðnuð, það verður bara að segjast eins og er. Við urð- um vinir („það skil ég ekki,“ skýtur Páll inn – „nei, þetta er alveg óþol- andi,“ svarar Ragnar að bragði) og hófum að ferðast saman um þjóð- vegi landsins. Hann tók flottar lit- myndir og ég sá strax að ég átti eng- an séns í það og ákvað að mynda í svarthvítu. Ég er keppnismaður og vil bara spila „fair and square“, við erum báðir í fótboltaskóm, ég er á kantinum og hann er í vörninni og við spilum okkar stöðu. Ég ætla bara að halda mig við hana þar sem ég tel mig vera sterkan í svarthvítri ljósmyndun. Svarthvíta formið höfð- ar til mín þó að ég hrífist einnig af lit og skoði það jafnmikið.“ Ég las einhvers staðar, Páll, að þú hefðir verið undir áhrifum frá sviss- neska ljósmyndaranum Max Schmid í upphafi ferils þíns. „Nei, það held ég ekki, á engan hátt. Þeir ljósmyndarar sem móta mig eru þeir sem eru ekki endilega að taka myndir eins og ég er að gera, það er fólk sem ég ber virð- ingu fyrir eins og t.d. Mary Ellen Mark og Josef Koudelka. Þetta er sú ljósmyndun sem heillar mig og veitir mér innblástur. En mín sýn er allt öðruvísi en sú sem birtist í verk- um þessara ljósmyndara, sem vinna með svarthvítt heimildaform og sem ég fylgist með og ver tíma í að skoða og heillast af. Við Raxi fórum saman til Flórída fyrir 20 árum á námskeið hjá Mary Ellen. Hún tekur svart- hvítar ljósmyndir og hefur mest- megnis myndað fólk og hún hefur heillað mig því að hún er að gera einstæða hluti. Það er annars svolít- ið gaman að rifja það upp að þegar við keyrðum saman þarna niður eft- ir þá vorum við ekki með neitt kort, nema Raxi var svo helvíti heppinn að hann var í leðurjakka og fóðrið var kort af Ameríku. Við keyrðum bara eftir jakkanum.“ Ragnar bendir á að svarthvít ljós- myndun sé mjög hátt skrifuð úti í heimi. „Ég held að það sé að koma hérna, sem er jákvætt.“ Nýopnað sérhæft ljósmyndagallerí, Fótó- grafía, sé m.a. til marks um það. „Við erum farnir að selja myndir og fáum þokkalegt verð fyrir þær,“ segir Páll. Þykir svarthvít ljósmyndun á ein- hvern hátt listrænni? „Það er almennt borin meiri virð- ing fyrir ljósmyndun erlendis en hér, hér er eins og eitthvað ósýni- legt stjórni því að þetta telst ekki „alvöru“ en ég held að þetta sé meira alvöru en margt af því sem hér er verið að hampa upp úr öllu valdi,“ segir Ragnar ákveðinn. Páll áréttar þetta sjónarmið: „Ljósmyndin hefur bara aldrei verið metin að verðleikum hér á landi. Ég held að nú, í fyrsta skipti, árið 2007, sé fólk að fá áhuga.“ Ragnar bendir á að fyrir um aldarfjórðungi hafi ljósmyndasöfnun hafist úti í heimi, þessi þróun sé loks að gera vart við sig hér. „Nú eru fjárfestar að kaupa ljósmyndasöfn dýrum dómum og ljósmyndir eru að seljast á milljón- ir.“ Það er líka mikill uppgangur í ljósmyndun innan myndlistarinnar um þessar mundir. „Fyrir mér eru þau skil afskaplega óljós. Hvað er t.d. þetta sem ég er að gera hérna?“ spyr Páll og bendir á verk sín. Hefur ekki alltaf verið víxlverkun þarna á milli? „Það fer óskaplega í taugarnar á mér þegar myndlistarmenn kaupa einhverja ódýra myndavél, taka ofsalega tæknilega vonda mynd og stækka hana upp, svo er sagt að þetta sé fínt,“ segir Páll umbúða- laust. Sjónarmið Páls er skiljanlegt út frá faglegum forsendum ljós- myndarans en einnig í ljósi þess að listræn ljósmyndun nýtur ekki sam- bærilegrar virðingar – er e.t.v. ekki tekin jafnalvarlega, líkt og Ragnar benti á hér að framan. Páll og Ragn- ar eru sammála um að ljósmyndun geti vissulega snúist um hugmynda- fræði – að ljósmyndarinn vilji segja ákveðinn hlut – og í því sambandi bendir Ragnar á verk Olafs Ottos þar sem jafnframt sé þó hvergi slak- að á kröfum um fagurfræðilega og formræna uppbyggingu myndar- innar. Þetta á einnig við um margt sem gert er í myndlistinni á for- sendum hugmyndalistar. Það er hins vegar óneitanlega einkenni á samtímamyndlist að gengið er lengra í þágu hugmyndarinnar – á kostnað forms og tæknilegrar úr- vinnslu. Skilja má fyrrgreind um- mæli Páls um skilgreiningu á „frjálsri ljósmyndun“ á þá vegu að nú sé ljósmyndun, sem snýst um „konsept“ – og þar með sem „mynd- list“ – gert hærra undir höfði en ljósmyndun sem snýst fyrst og fremst um fagurfræðileg gildi. Í riti Ingu Láru Baldvinsdóttur um ljósmyndara á Íslandi kemur fram að landslagsljósmyndun átti lengi vel erfitt uppdráttar – það er fyrst með frumherjunum í málara- listinni sem augu þjóðarinnar opn- ast fyrir gildi landslagsins sem teng- ist m.a. þjóðerniskenndinni. Ljósmyndarar á borð við Sigfús Ey- mundsson og Magnús Ólafsson gerðu sér grein fyrir þessu en mættu skilningsleysi. Það var í raun og veru alveg sérstakt hér að ljós- myndin barst hingað á undan mál- ara- og höggmyndalistinni. Mál- ararnir fengu hins vegar strax ákveðna viðurkenningu er þeir komu fram. Ljósmyndarar fengu fyrst viðurkenningu erlendis frá, þegar þeir fóru að sýna í Danmörku og í Þýskalandi – og þá ekki síst fyr- ir landslagsmyndir. Sama má ef til vill segja um þá Ragnar og Pál, báð- ir eru margverðlaunaðir og birst hefur afar jákvæð gagnrýni um verk þeirra á erlendum vettvangi. „Þetta er Garðars Hólm-komplex- inn – einhver útlendingur segir að verkið sé fínt og þá er það fínt,“ seg- ir Páll í gamansömum tón. Hann bætir við: „Fólk áttar sig ekki á því að það eru óhemjumiklir fjármunir sem Ragnar Axelsson hefur eytt í ópal.“ Ragnar hlær og upplýsir að í hestamyndatökum hafi hann fengið hrossin til að „hlæja“, eða geifla sig, með því að gefa þeim ópal. „Ég hef mest látið átta hesta hlæja í einu,“ segir hann. „Segðu svo að ljósmynd- arar leyni ekki á sér,“ bætir Páll við sposkur á svip. Þeir félagar kveðja og halda á vit áframhaldandi kort- lagningar á heiminum, og þeir skapa sitt eigið kort eða innbyggðan leiðarvísi – þó ekki í formi jakkafóð- urs. Landslag, sýn, ljósmynd „Þetta er nú meiri endemis klauf- inn.“ Þessi orð féllu af vörum sýn- ingargests nokkurs þegar hann sá ljósmynd eftir Ragnar Axelsson á sýningunni „Automatos“ í Ljós- myndasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu. Á myndinni sést efri helmingur andlits en þann neðri „vantar“. Það er hins vegar sú stað- reynd (sem er auðvitað úthugsuð af ljósmyndaranum) sem á þátt í að gera myndina jafngóða og raun ber vitni. Ummæli sýningargestsins munu hafa verið viðhöfð í fullri al- vöru en þau lýsa afleiðingum vönt- unar á góðri undirstöðumenntun í sjónlistum í íslensku skólakerfi. Um leið eru þau dæmigerð fyrir skiln- ingsleysi í garð ljósmyndarinnar sem listræns miðils. Þetta bar m.a. á góma þegar blaðamaður hitti ljós- myndarana Ragnar Axelsson og Pál Stefánsson að máli. Ragnar og Páll Þeir eru sammála um að ljósmyndin hafi aldrei verið metin að verðleikum hér á landi, það sé fyrst nú, árið 2007, að fólk sé að fá áhuga. Höfundur er myndlistargagnrýnandi hjá Morgunblaðinu. »Ég hef fengið verkefni út á mína sýn – fólk kaupir raunverulega „mitt auga“ og Raxa. Ég hef t.d. fengið mikið af verkefnum erlendis og það er ekki af því að ég er „commercial“ heldur af því að fólk fílar mína sýn.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.