Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.2007, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.2007, Blaðsíða 10
10 LAUGARDAGUR 21. JÚLÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Inga F. Vilhjálmsson starfsemi@gmail.com S íðar muntu finna, grafinn í jörðu undir kókospálmanum, eldhúshnífinn sem ég faldi af ótta við að þú dræpir mig … sagði chileska nóbelskáldið Pablo Neruda í ljóð- inu Tangó ekkilsins, sem hann orti í nóv- ember árið 1928, og birti í bókinni Resi- dencia en la Tierra sjö árum síðar. Hinn 24 ára gamli Neruda, sem hafði verið konsúll í Búrma í rúmt ár á þessum tíma, orti ljóðið á þilfari skips sem sigldi með hann frá borginni Rangún í Búrma áleiðis til Kalkútta á Indlandi. Þaðan fór skáld- ið til eyjunnar Seylon (Srí Lanka). Neruda sagði að rétt hefði verið búið að leysa landfestar skipsins þegar hann byrjaði að yrkja – hann fann hafgoluna leika um andlitið á sér við skrifin og hefur kannski horft í átt til borgarinnar meðan hann fjarlægðist hana. Ljóðið var óður til búrmönsku konunnar sem hann var að flýja frá; hann hafði átt í sjö mánaða ástarsam- bandi við hana en óttaðist að hún myndi reyna að drepa hann. Neruda hélt því leyndu í rúm þrjátíu ár hvaða kona þetta var sem hann hafði ort ljóðið til og hann gaf aldrei upp hvert raunverulegt nafn hennar var. Hann lét lokaljóðið í í Residencia heita nafni hennar og vís- aði til hennar á fleiri stöðum í bókinni, sem og í öðrum yngri ljóðum. Við vitum að þessi kona gekk undir nafninu Josie Bliss meðal Breta og annarra útlendinga í Rangún á þessum tíma? Búrma var hluti af Breska heimsveldinu þegar Neruda bjó þar. Þetta ástarsamband átti eftir vera Neruda hugleikið til dauðadags því af einhverjum ástæðum gat hann aldrei gleymt þessari konu. Josie Bliss og Pablo Neruda Josie var dökk á brún og brá og afar fríð samkvæmt þeim fáu heimildum sem eru til um hana. Hún starfaði á skrifstofu í Rangún og var ritari Nerudas um tíma. Einn ævisagnaritari skáldsins, Adam Feinstein, segir að Josie Bliss hafi hjálpað Neruda að öðlast kynferð- islegan þroska því hún hafi verið ástríðufullur elsk- hugi. Vegna þess að að Neruda átti í ástarsambandi við innfædda konu mismunuðu bresk yfirvöld í Búrma honum. Hann fékk til að mynda ekki inngöngu í ensku klúbbana í Rangún. En skáldinu var sama: hann fyr- irleit Englendingana í Búrma, fannst þeir snobbaðir og laðaðist líklega að Josie vegna þess að hún var and- stæða þeirra; hún varð aldrei vestræn í háttum þrátt fyrir nafnið og evrópsku fötin sem hún klæddist á al- mannafæri – þegar hún var heima við með Neruda notaði Bliss sitt búrmanska nafn og klæddi sig að sið innfæddra. Neruda óttaðist um líf sitt En ýmis vandamál fylgdu sambandi Nerudas og Josie Bliss. Konan var kenjótt og skapbráð; hún neitaði að sofa í rúmi Nerudas eftir að þau höfðu notið ásta og lá frekar á gólfinu í svefnherberginu, við hliðina á rúmi skáldsins. Það versta var að Josie var sjúklega afbrýðisöm. Skáldið segir í æviminningum sínum að Josie hafi brjálast þegar hann fékk bréf frá útlöndum og að hún hafi falið skeytin sem voru send til hans. Neruda var alla tíð mikill nautna- og kvennamaður og lét sér sjaldnast nægja þær konur sem hann átti í sambandi við hverju sinni. Meðal annars hélt hann framhjá síð- ustu konu sinni, Matthildi Urrutia, með náfrænku hennar sem var næstum því helmingi yngri en hann. En við vitum ekki hvort Neruda var ótrúr Josie Bliss meðan hún var ástkona hans, þó að vitað sé að hann hafi stundað hóruhúsin í borginni áður en hann kynnt- ist henni. Afbrýðisemi Josie komst hins vegar á það stig að Neruda sagðist stundum hafa vaknað við það á nótt- unni að einhver hefði verið hinum megin við flugnanet- ið sem hékk yfir rúminu hans: þar var Bliss, klædd í hvítt, sem brýndi stóran hníf og velti því fyrir sér hvort hún ætti að drepa skáldið. Einn daginn á hún að hafa sagt við hann: ,,Þegar þú deyrð þarf ég ekki að hræðast neitt lengur.“ Neruda sagði frá því að þegar þetta hefði gerst hefði Josie stundað alls kyns galdra daginn eftir til að tryggja að hann væri henni trúr. Í ljóðinu notar Neruda orðið „maligna“ til að lýsa Josie, en það var sama orð og hann notaði síðar til að bölva flækingshundum – í ströngum skilningi þýðir maligna einhver sem er illur eða vondur. Auk þess segir hann í ljóðinu að í hjarta hennar búi ,,bestía“ og hann kallaði hana ,,búrmanska hlébarðann“. Skáldinu fannst því án efa að Bliss væri dýrsleg kona, kannski líkari einhvers konar skepnu. Að lokum gat Neruda ekki afborið afbrýðisemi hennar lengur. Í æviminningum sínum sagði hann að hún hefði drepið hann einn daginn ef hann hefði búið með henni áfram. Þegar ríkisstjórnin í Chile útnefndi Neruda konsúl á eyjunni Seylon fór hann frá Búrma án þess að láta Jo- sie vita. Neruda sárnaði að þurfa að yfirgefa ástkonu sína og sagði í æviminningum sínum að ef hún hefði ekki verið svona afbrýðisöm hefði hann hugsanlega verið með henni út ævina því að hann hefði „elskað fætur hennar og hvítu blómin sem hún bar í svörtu hárinu og lýstu það upp“. Skáldið lét því skynsemina ráða í þetta sinn frekar en hjarta sitt. En hann átti þó eftir að fá eitt tækifæri í viðbót til að gera endanlega upp hug sinn. Eftirför og ofbeldi Josie Bliss elti Neruda frá Búrma til Seylon. Einn daginn stóð hún fyrir framan húsið hans með poka af hrísgrjónum – skáldið sagði að hún hefði tekið þau með sér vegna þess að hún stóð í þeirri trú að hrís- grjón væru aðeins til í Búrma, teppi og plötur með bandaríska söngvaranum Paul Robeson, sem hún og Neruda höfðu hlustað svo mikið á saman í Rangún. Josie reyndi að fanga athygli Nerudas svo dögum skipti. Hún angraði og móðgaði þá sem komu í heim- sókn til hans. Meðal annars hótaði hún að kveikja í húsinu hans og réðst með hnífi á ,,vingjarnlega stúlku“ sem heimsótti Neruda, eins og hann orðaði það sjálfur. Breska lögreglan í borginni sagði skáldinu að ann- aðhvort myndi hann hýsa konuna eða hún yrði rekin úr landi. Neruda var á báðum áttum hvað hann ætti að gera því á sama tíma og honum þótti vænt um Jo- sie var hann hræddur um að hún myndi reyna að drepa hann eins og hann hafði haldið í Rangún: ,,Ég gat ekki leyft henni að koma inn í húsið mitt. Hún var ástarskæruliði, henni hefði verið trúandi til að gera hvað sem var, sagði skáldið um hana. Á endanum leyfði nágranni Nerudas Josie að gista hjá sér í nokkra daga og hann náði að tala hana inn á að fara aftur heim til Búrma. Ör á hjarta Nerudas Josie Bliss sættist á að fara frá Ceylon með einu skil- yrði: Neruda þurfti að fylgja henni til skips í höfninni. Skáldið jánkaði því. Þegar skipið var við það að sigla úr höfn hljóp Josie frá borði og til Nerudas sem skrif- aði lýsingu á kveðjustundinni í æviminningum sínum: … hún kyssti mig frávita af sársauka og ást; vætti andlit mitt með tárum sínum. Líkt og um helgiat- höfn væri að ræða kyssti hún handleggi mína, jakkafötin, og beygði sig niður að skónum mínum án þess að hugsa sig tvisvar um; ég gat ekki stöðvað hana. Þegar hún reisti sig við var andlit hennar út- atað í krítaráburðinum sem hafði verið á hvítu skón- um mínum. Ég gat ekki beðið hana um að hætta við ferðina og fara frá borði af bátnum – sem myndi flytja hana í burtu að eilífu – til að vera með mér. Skynsemi mín leyfði mér það ekki. En á hjarta mínu myndaðist ör sem enn þann dag í dag hefur ekki gróið. Þessi hamslausa sorg, þessi hræðilegu tár sem runnu í stríðum straumum niður andlit hennar sem var útatað í hvítum skóáburði, eru mér enn í fersku minni.“ Minningin um Josie Fjórum árum eftir að hann horfði á eftir Josie stíga um borð í skipið í höfninni í Seylon, þegar Neruda var staddur til Buenos Aires í Argentínu, orti hann um grátinn sem hann hafði heyrt á bryggjunni; Josie kall- aði á hann ,,milli ekkasoga“. Hann sagði vini sínum sinn að Josie hefði kramið hjarta hans og endað á að kæfa hann með eldheitum tilfinningum sínum og af- brýðisemi. Josie var Neruda svo minnisstæð að hann leitaði hennar þegar hann fór til Rangún ásamt Matthildi Ur- rutia árið 1957, tæpum þrjátíu árum eftir að hann sá Josie síðast. Neruda fékk engar upplýsingar um þessa fyrrum ástkonu sína, ekki einu sinni hvort hún væri lífs eða liðin. Og hverfið þar sem þau höfðu búið sam- an var ekki lengur til. Skáldið sá Josie ekki aftur eftir kveðjustundina á Seylon og við vitum ekki hvað varð um hana. En til- finningunum og minningunum um Josie gleymdi hann ekki og sótti þær aftur og aftur í sarp sinn út lífið og mótaði úr þeim tilfinningaþrungnar ljóðlínur sem les- endur þeirra munu sennilega ekki gleyma svo glatt.  Adam Feinstein. Pablo Neruda: A Passion for life. Bloomsbury, New York, 2004. Pablo Neruda. Confieso que he vivido. 3. útgáfa. Debolsillo, Barcelona, 2004. Pablo Neruda. Residencia en la tierra. Ritstjóri Hernán Loyola. 7. út- gáfa. Catdedra, Madríd, 2003. Ég vil þakka Jóni Halli Stefánssyni fyrir gagnlegar ábendingar sem hann gaf mér við skrif textans og þýðingu ljóðsins. Ástkonan sem Neruda gat ekki gleymt Ástin Konan var kenjótt og skapbráð; hún neitaði að sofa í rúmi Nerudas eftir að þau höfðu notið ásta og lá frekar á gólfinu í svefnherberginu, við hliðina á rúmi skáldsins. Ó naðran þín, nú hefurðu án efa fundið bréfið, grátið af bræði og svívirt minningu móður minnar: kallað hana spillta skækju og tík, nú hefur þú drukkið eftirmiðdagsteið einsömul og einmana, horft á gömlu skóna mína sem verða tómir að eilífu, og nú minnistu ekki veikinda minna, drauma minna, málsverða minna án þess að bölva mér upphátt , eins og ég væri þarna enn vælandi yfir loftslaginu í hitabeltinu, indversku kúlíunum, sótthitunum sem unnu mér svo mikið mein og þessum hræðilegu Englendingum sem ég hata enn. Naðran þín, í sannleika sagt: hversu mikil er þessi nótt, hversu ein er þessi jörð! Ég hreiðra nú aftur um mig í einmanalegum herbergjum, borða á lélegum veitingastöðum í hádeginu, og fleygi buxunum og skyrtunum aftur á gólfið, það eru engin herðatré í herberginu mínu, né myndir af neinum á veggjunum. Hversu mikið af skugganum úr sálu minni gæfi ég ekki til að þú yrðir aftur mín, og hversu ógnandi mér finnast nöfn mánaðanna, og orðið vetur ber með sér svo nöturlegan trumbuóm. Síðar muntu finna, grafinn í jörðu undir kókospálmanum, eldhúshnífinn sem ég faldi af ótta við að þú dræpir mig, og nú samstundis langar mig að finna lyktina af stáli hans sem er vant þunga handar þinnar og geislum fótar þíns: í rakanum í moldinni, á milli dauðra rótanna, af öllum tungumálum mannanna veit greyið aðeins nafn þitt, og hin þétta jörð skilur ekki nafn þitt sem er gert úr órofa guðdómlegum efnum. Þó að það hryggi mig að hugsa um heiðríkju fótleggja þinna, endilanga eins og lygnar og tærar sólarlindir, og um svöluna sem sofandi og fljúgandi lifir í augun þínum, og um trylltu bestíuna sem þú leynir í hjartanu, sé ég einnig allan dauðann sem aðskilur okkur frá því nú, og ég anda að mér öskunni og eyðileggingunni í loftinu, hinu mikla, einmanalega tómi sem mun hverfast um mig að eilífu. Ég myndi skipta á þessum vindi frá hafinu mikla fyrir hrjúfan andardrátt þinn sem ég heyrði á löngum nóttum og get ekki gleymt, sem rann saman við andrúmsloftið eins og svipan við húð hestsins. Og fyrir að heyra þig pissa, í myrkrinu, innst í húsinu, eins og þú værir að hella niður hunangi sem var þunnt, titrandi, silfrað, þrjóskt, hversu oft mundi ekki afsala mér þessum skuggakór sem býr í mér, og glamrinu frá deigum sverðum sem heyrist í sálu minni, og blóðdúfunni sem er einmana á enni mínu og kallar á hluti sem eru horfnir, á verur sem eru horfnar, efni sem eru einkennilega óaðskiljanleg og glötuð. Tangó ekkilsins

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.