Lesbók Morgunblaðsins - 04.08.2007, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 04.08.2007, Blaðsíða 3
Morgunblaðið/ÞÖK Sólheimar í Grímsnesi „Það er engin vissa fyrir því að trúaðir menn séu betri en aðrir menn. Það er ekki einu sinni víst að trúaðir menn þoki góðum málum betur áleiðis en aðrir. En það eru líkindi fyrir því að trúaður maður búi yfir ákveðinni auðmýkt, því hún hlýtur að vera ein af forsendum sannrar trúar,“ segir Davíð Oddsson í ræðu sinni sem flutt var í Kirkjunni að Sólheimum. Á gætu kirkjugestir, heimamenn, gestir þeirra og aðrir. Okkur Ástríði þótti vænt um að fá boð um að sækja Sólheima heim þennan sunnudag. Við höf- um komið hér nokkrum sinnum áður á liðnum árum, en samt var það okkur tilhlökkun að mega koma nú. Það er vegna þess að staðurinn er svo ólíkur manni sjálfum, þegar maður er kominn á þennan aldur. Staðurinn tekur sífelldum fram- förum, þegar maður sjálfur gránar þá grænkar hann. Það væri vissulega ósanngjarnt að segja að næsta nágrenni Sólheima væri einhvers kon- ar eyðimörk, en samt er það svo, að það er eins og maður detti fagnandi inn í vin þegar stað- urinn opnast manni. Það blasir við hvert sem lit- ið er að hér er unnið af einurð, áhuga og alúð að fegrun, uppbyggingu og framförum í þágu þeirra sem hér hafa fest sínar rætur eða koma til starfa til lengri eða skemmri tíma. Þess vegna er ekkert skrýtið þótt það sé mönnum gleðiefni að fá boð um að koma hingað. Það fylgdi þó boðinu til okkar Ástríðar sams konar böggull og fylgir skammrifinu, sem sagt sá, sem nú er orðinn, að ég skyldi stíga í stól staðarkirkjunnar og flytja eins konar predikum á þessum kirkjudegi. Ég verð að viðurkenna að þetta verkefni hefur vafist fyrir mér. Til þess að koma mér af stað kíkti ég á ritningargrein dags- ins, sem er úr 5. kafla Lúkasar, „Jesú kennir fiskimönnunum“ og má segja að það sé heldur betur viðeigandi texti dagana sem menn eru að ákveða hinn mikla kvótaniðurskurð. Samkvæmt Lúkasi var fiskileysi mikið um þær mundir. Þó var ekki allt sem sýndist, því eftir að sjómenn- irnir, Símon Pétur og félagar hans, lutu leiðsögn Jesús mokfiskuðu þeir svo að net rifnuðu og báta annarra dreif að og gátu þeir einnig fyllt sig. En þessu fylgdi það sem á nútímamáli væru kallaðar öfugar mótvægisaðgerðir, því Pétri voru í framhaldi af þessari aflahrotu ætluð önn- ur mið, því Jesú sagði honum, „að nú skyldi hann framvegis menn veiða“. Ég svipaðist um eftir öðrum yfirskriftum úr hinni helgu bók til að styðja mig við hér í stóln- um. „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ stendur þar, en sé þeirri mælistiku brugðið á mig verður víst að stytta hana um svo sem einn sérhljóða: Af vöxtunum skuluð þér þekkja hann, því þeir og verðbólgan eru nú mitt daglega brauð. Ég vísaði í upphafi til þess hvílíkur unaðs- reitur Sólheimar eru og því er ekki úr vegi á þessum stað og úr þessum stóli að hugsa til sjálfs byrjunarreitsins, aldingarðsins Eden, þótt söguhetjur hans nytu unaðar garðsins nokkuð skemur en skyldi af ástæðum sem allir þekkja. Það er ekki örugg vissa fyrir því, hvar sá góði garður var á sinni tíð. Og raunar er staðsetning hans fullkomið aukaatriði hjá því sem þar hófst og þeirri miklu atburðarás sem orðin er síðan. En hitt er hins vegar skýrt og skráð, að þótt á ýmsu hafi gengið um aldir og árþúsundir hefur mannfólkinu fjölgað ört og nú byggja jörðina milljarðar manna við býsna misjöfn kjör. Óhætt er að segja að miðað við þá fátækt, eymd og von- leysi, sem víða er svo yfirþyrmandi er Ísland í augnablikinu eins konar aldingarðshorn, þar sem íbúarnir búa við betri skilyrði og kjör en meiri hluti annarra jarðarbúa. Við megum svo sannarlega vera þakklát og erum það vísast, en við skulum einnig minnast þess að myrkur og móðuharðindi, bæði af náttúru- og mannavöld- um, hafa ekki alltaf riðið hjá garði íslensku þjóð- arinnar. Þeir eru til, sem halda því fram, að það sé ekki endilega víst, að það hafi verið jörðinni til fram- dráttar að maðurinn varð svo fyrirferðarmikill þar og ekki er hægt að neita því, að engin önnur dýrategund er jafn frek til fjörsins og hann. Skepnurnar, sem svo eru kallaðar, málleysingj- arnir, hafa hvergi atkvæðisrétt, þær halda ekki ráðstefnur, ef hrafnaþingin eru undanskilin, og birta ekki skýrslur um sína hagi. En ef það væri gert er líklegt að niðurstaða þeirra yrði sú að með mikilli og óttablandinni virðingu fyrir mannskepnunni væri ekki hjá því komist að segja að ógnvænlegt væri að hún gengi laus á jörðinni. Og því yrði hugsanlega bætt við að auk þess væri hún svo sjálfumglöð og þóttafull að hún segðist ein hafa sál, vera vitiborin og með verksvit og hefði því sjálfskipaðan rétt til að setja öllu öðru lífi á jörðinni sínar leikreglur. Á nútímalegu stjórnsýslumáli heitir þetta að mað- urinn sé með fullkomna einokunaraðstöðu, búi ekki við neina raunverulega samkeppni og aðrir á markaðssvæðinu Jörðinni hafi ekki einu sinni andmæla- eða umsagnarrétt af neinu tagi. Allir þeir sem þekkja eitthvað til samkeppnislaga, samkeppnisreglna og tilskipana vita að þess háttar aðstaða gerir mjög miklar kröfur til þess sem hennar nýtur. Hafa verður glöggt auga með manninum og sjá til þess að hann sýni sanngirni, tillitssemi og hófsemi í umgengni við náunga sína á jörðinni. Með öðrum orðum fer ekki á milli mála að maðurinn þarf mikið aðhald. En fyrir utan nauðsynlegan sjálfsaga, sem einok- unaraðilar verða að sýna, hvaðan á þá annað að- hald að koma? Það er svo sem ekki augljóst. Þó er það svo að ýmsir telja sig eiga fullnægjandi og jafnvel algilt svar við þessu álitaefni. Í krafti margvíslegra framfara, sem allir viðurkenna að orðið hafa, og með vísun í tækniþróun, vís- indaiðkun og siðvæðingu og ekki síst þar sem al- mennri þekkingu hefur fleygt fram, þurfi mað- urinn ekki að leita annað en í eigin rann um aðhald, leiðbeiningar og svör við þeim gátum og álitaefnum, sem sífellt verða á vegi hans. Guð al- máttugur, himnafaðirinn hæstvirtur, hafi sjálf- sagt verið til gagns og þurftar á meðan fávísin og þekkingarleysið yfirskyggði allt og myrkvaði sálarþykknið og hindurvitnin voru þau einu sem hægt var að leiða fram til að skýra flóknustu fyr- irbærin. Það er ekki laust við að nú sé svo komið að það þyki ótvírætt gáfnamerki að afneita krist- inni trú með vísun til þess að hún verði ekki sönnuð með lágmarkskröfum vísindanna og gangi oftar en ekki gegn sjálfum grundvelli þeirra og ýmsum þekktum og sönnuðum lög- málum. Trúin byggist ekki síst á óskhyggju og von, sé friðþæging örvinglaðra sálna og þannig séð skaðlaus í besta falli, en handfestu á vísinda- legum þekkingargrundvelli sé ekki þar að fá. Enginn gengur að vísu svo langt að segja, að Kristur sé sjálfur uppdiktuð ímyndunarpersóna, því það þykir fullsannað, meira að segja vís- indalega, að hann var og hét, lifði, predikaði, var dæmdur og dó á krossi. Því er reyndar iðulega aukið við, að Kristur hafi vafalaust verið mikill merkismaður, en þó aðeins maður og hans guð- legu grillur hafi ekki átt neina stoð á neinn vit- rænan mælikvarða. Framangreind afstaða er bæði eðlileg og skiljanleg og hvorki efni né ástæða til að gera lítið úr henni og því síður fordæma hana. Og segjum nú svo að þetta sé niðurstaðan, þá hlýtur að teljast varlega talað að segja að Kristur hafi vafalítið verið hinn merkasti maður. Væri ekki óhætt að ganga dálítið lengra og fullyrða að líf hans og sögu megi a.m.k. flokka sem undur og stórmerki. Þessi trésmiðssonur, sjálfur lærling- ur í faginu, náði á sinni stuttu ævi að kalla fram slíkan átrúnað, sem raun ber vitni, löngum gegn andstöðu máttugra hervelda, sem einskis svif- ust, og kom saman kennisetningum sem taka öllum öðrum fram. Þau hafa heldur betur nýst honum árin í iðnnáminu, svo ekki sé meira sagt. Mannfólkinu er löngu orðið ljóst að mikilvægt sé að lágmarksleikreglur gildi um samskipti þess sín á milli. Sæmileg sátt þarf að ríkja um grundvallargildi. Iðulega hafa bestu menn verið fengnir til að setja saman leiðbeiningar í laga- formi eða í siðareglum og sáttmálum. Slík við- fangsefni hafa verið uppi á öllum tímum og um veröldina þvera og endilanga. Margir stórgáf- aðir og fjölmenntaðir menn úr bestu lærdóms- setrum hafa verið fengnir að slíkum verkum svo sem vonlegt er. Margt gott og mikil speki hefur þannig orðið til, öllum til gagns og hjálpar. En svo góðir sem þeir skrifarar hafa verið, hefur engum þeirra þó tekist að komast með tærnar þar sem trésmíðalærlingurinn ungi hafði hæl- ana. Fjallræðuna hans hefur enn enginn slegið út. Og þess utan er það svo, að þegar glöggt er skoðað, hafa flestar siðareglur eða önnur boð um mannlega breytni, sem hald er í, sótt sitt besta í þá ræðu eða í önnur orð sama höfundar. Ef tengsl þessa náunga frá Nazaret við þann Guð sem hann sagði sjálfur föður sinn voru ekki önnur en hugarórar og grillur hans sjálfs, þá er augljóslega mikil þörf á margvíslegum skýr- ingum. Og ef það er svo að það sé talið ótvírætt merki um að heimskan hafi heltekið menn ef þeir kjósa að fara að fyrirmælum fjallræðu- mannsins, fylgja honum og trúa þá er það ekki lítil huggun að heimskingjarnir eru í bærilegum félagsskap. Það hefur a.m.k. farið fram hjá mér ef þeir hafa farið illa út úr gáfnaprófinu, Ein- stein, Shakespeare eða Newton, svo ekki sé tal- að um þá Back og Beetoven. Eða svo litið sé nær, þeir Jón Sigurðsson forseti, Hannes Haf- stein, Davíð Stefánsson eða Tómas Guðmunds- son. Allir þessir afburðamenn eins og svo marg- ir aðrir slíkir áttu trúarvissu og sóttu þangað svör og frið og töldu að lífið og tilveran yrðu aldrei skýrð með útreikningum einum saman. Það er þekkt að þessir menn áttu líka sínar stundir með efanum, en segja má að efinn sé óhjákvæmilegur hluti af trúarþroska hvers manns. Það er engin vissa fyrir því að trúaðir menn séu betri en aðrir menn. Það er ekki einu sinni víst að trúaðir menn þoki góðum málum betur áleiðis en aðrir. En það eru líkindi fyrir því að trúaður maður búi yfir ákveðinni auðmýkt, því hún hlýtur að vera ein af forsendum sannrar trúar. Þá er minni hætta á að falla í þær gryfjur sem hinn hrokafulli fær ekki forðast. Frægur maður sagði eitt sinn: „Ég býst við að Guð sé til, en ég trúi ekki á hann.“ Það fylgir sögunni að viðkomandi hafi þótt þetta heldur hnyttilega orðað hjá sér. Og sjálfsagt hefur það verið meg- intilgangurinn. En með sama hugarfari mætti segja um kraftaverkin, að maður þurfi ekki nauðsynlega að trúa á þau til að njóta þeirra. Það sem hefur verið að gerast á þessum stað á undanförnum árum eru auðvitað ekki krafta- verk í trúarlegum skilningi, en hins vegar í flest- um öðrum skilningi. Og bæði þeir sem eru trú- aðir og eins hinir, sem eru fullir efasemda, þurfa á þessum stað ekki að trúa öðru en sínum eigin augum, til að fagna með heimamönnum og þakka þeim sem svo vel hafa staðið sig. Það hefur stundum verið á brattann að sækja og óþarflega mikið verið blásið á móti. Og ef- laust hafa mönnum orðið á mistök á þessum stað eins og annars staðar. En upp úr stendur, og það er fagnaðarefni, hve uppbyggingin hefur tekist vel og hve starfsemin er þróttmikil og við- felldin. Og þótt ég fullyrði að ég sé ekki að láta staðinn né stólinn stíga mér til höfuðs leyfi ég mér að biðja starfseminni Guðs blessunar í bráð og lengd. Sunnudagshugvekja á Sólheimum Ræða Davíðs Oddssonar í kirkjunni á Sólheimum sunnudaginn 8. júlí 2007 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 4. ÁGÚST 2007 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.