Lesbók Morgunblaðsins - 04.08.2007, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 04.08.2007, Blaðsíða 4
4 LAUGARDAGUR 4. ÁGÚST 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.is E l Otro segir frá 46 ára gömlum manni, Juan Desouza, sem kemst að því í upphafsatriði myndarinnar að kona hans á von á þeirra fyrsta barni. Skömmu síðar fer hann í stutta viðskiptaferð út á land, og þegar sessunautur hans í rútunni deyr skyndilega í svefni, ákveður Desouza að þykjast vera hann. Þannig hljóðar hin almenna kynning á El Otro og gef- ur helst til kynna feluleiki, flótta og lygavef. M.ö.o. spennumynd. En öðru nær fjallar mynd- in alls ekki um Desouza sem hinn dauða, heldur er hún rannsókn á innri efasemdum manns sem kemst að því að lífið sem hann valdi sér er ekki endilega hið eina mögulega. Hann fram- lengir dvölina í þorpinu og í löngum, oft orð- lausum senum, er fylgst með honum hugsa, ganga, anda, ráfa, mæta í (eigin) útför og smám saman rannsaka eðlisávísun sína gagnvart ein- semd, náttúrunni, konum, dauðanum, lífinu. Það er nefnilega þannig – eins og bent hefur verið á – að með því að þykjast vera einhver annar verður maðurinn margfalt meira hann sjálfur. Áhorfandinn er leikstjóri Þegar ég hitti Rotter í Berlinale-höllinni er sól- arhringur liðinn frá frumsýningu El Otro og engin leið að vita að hann muni undir lokin labba út með tvo Silfurbirni. Hins vegar er komið í ljós að ekki alveg allir hafa þolinmæði gagnvart myndinni, einhverjir blaðamenn hafa afpantað viðtöl, en Rotter virðist því helst feg- inn, ef eitthvað er. Viðtalið fer fram á einkabar, sem umboðsfyr- irtæki hans hefur útvegað, við sitjum í leð- urstólum. Rotter er ljúfmannlegur í viðmóti, býðst til að kenna blaðamanni að reykja og sýn- ir fljótaskriftinni í glósubókinni sérstakan áhuga. Svo hallar hann sér aftur í stólnum og dæsir feginsamlega yfir því að þetta sé ekki sjónvarpsviðtal. Aha, einn af þeim sem þykir best að fela sig bakvið vélina. Hræddur við myndavélar? „Ekki hræddur, kannski, það er bara þægi- legt að geta slappaðaf,“ segir hann brosandi og sníkir eld hjá túlkinum. Hann skilur ensku vel, talar hana reyndar ágætlega, en kýs samt að beita móðurmálinu, spænsku, til þess að svörin verði almennileg. Hvernig líst þér á viðtökurnar sem El Otro hefur fengið hér, hefurðu eitthvað hlerað? „Mér finnst henni vera vel tekið. Ég fór á seinnipartssýninguna í gær og hlustaði á þögn- ina í salnum. Það var góð þögn. Ef áhorfandinn er tilbúinn að hugsa, hugsa innávið, þá er þetta þannig mynd. Leikstjórarnir eru í raun jafn- margir áhorfendum. Hver og einn ræður hvaða lag hann skynjar, hvaða innri músík hann heyr- ir.“ Evrópskir áhorfendur, þar með taldir ís- lenskir, geta varla talist þaulkunnugir argent- ínskri kvikmyndagerð. Gætirðu lýst landslag- inu þar í stuttu máli? „Argentínskt bíó er að mínu mati við góða heilsu. Fram er komin kynslóð sem hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að gera myndir með afar persónulegri nálgun. Leikstjórarnir eru hins vegar ólíkir innbyrðis og það gerir argent- íska kvikmyndagerð mjög góða og auðuga. Á undanförnum misserum hafa argentískar myndir víða verið valdar á alþjóðlegar kvik- myndahátíðir og ég held að þær geri mikið gagn þar, hafi fólk áhuga á að kynna sér nýjar frásagnaraðferðir í kvikmyndum og í raun nýtt bíó.“ Svik við upprunann Nú er talað um að suður-amerískar kvikmyndir séu í uppsveiflu. Steven Soderbergh sagði hér á blaðamannafundi að tíðindi ársins að sínu mati væru „Mexíkanarnir þrír“, Alejandro González Iñárritu (Babel), Guillermo Del Toro (El La- berinto del Fauno), og Alfonso Cuarón (Child- ren of Men), allir með nokkrar Óskarstilnefn- ingar. Tengir þú að einhverju leyti við, eða telurðu að þú græðir á, þessu kastljósi sem Bandaríkjamenn beina nú suðureftir – eða er það alhæfing að setja alla latnesku Ameríku undir einn hatt? „Það er nú einu sinni þannig að það er nauð- synlegt fyrir okkur að hólfa allt niður – það er mjög manneskjuleg þörf. Við gerum það til þess að reyna að skilja hlutina. Á sama tíma er slíkt mjög fjarri okkur leikstjórum, því í okkar augum er kvikmyndagerð mjög einstaklings- bundin listgrein. Jafnvel þótt kvikmynd sé allt- af gerð af stórum hópi fólks byggist hún í rík- um mæli á persónulegu sjónarhorni höfundarins. Þess vegna er mjög erfitt að al- hæfa á þennan hátt – ekki síst um heila heims- álfu,“ segir Rotter og hugsar sig um. „En auð- vitað tilheyra bæði Argentína og Mexíkó Suður-Ameríku. Og tilheyra þannig svæði sem hefur verið undirlagt af átökum um sjálfræði, svæði þar sem peningar vaxa ekki á trjánum, og fleira mætti tína til sem er sameiginlegt. Og af því að það er fjárhagslega erfitt að gera kvikmynd í Suður-Ameríku, verða myndir sem þaðan koma mjög persónulegar. Ef þú hefur ekki fullkomna ást á verkefninu þá klárarðu einfaldlega aldrei mynd í Suður-Ameríku.“ Og enn hugsar hann sig um, undir rólegu yf- irbragðinu er eitthvað sem kraumar. „Um leið er það skylda okkar að vita hvað við erum að gera, hverjum við erum að þjóna. Er viðmiðið listrænt, eða er það markaðstengt, eða er það kannski að gera mynd fyrir ákveðinn smekk sem heitir kannski „S-Ameríka fyrir Bandarík- in“? Við verðum að vera með þetta á hreinu. Getur verið að árangur Mexíkananna í Holly- wood sé til kominn af því þeir hafa fjarlægst uppruna sinn, sitt eigið ídentítet?“ Finnst þér það? Hik. „Mér finnst það í tveimur þriðju af þess- um myndum sem þú nefndir áðan.“ Ertu fáanlegur til að tilgreina þær? Rotter lítur upp. „Mér finnst Guillermo Del Toro hafa tekist að gera mjög, mjög flotta mynd.“ Túlkurinn er farinn úr jakkanum, hann hvísl- ar yfir borðið: „Þú heyrðir að hann nefndi ekki hinar tvær myndirnar… Ég náði því, takk. Þú segir að það sé fjár- hagslega alveg sérstaklega erfitt að gera myndir í Argentínu. Hvað varstu lengi að gera El Otro? „Það tók þrjú ár að gera myndina, fjármagna hana og filma hana, en til viðbótar var ég hátt í tvö ár að skrifa handritið. Og hún var gerð að mestu fyrir styrki, handritið vann ýmsar sam- keppnir þannig að segja má að myndin hafi sjálf aflað fjárins. Þegar verðlaunaféð var kom- ið í hús, m.a. frá Frakklandi og Hollandi, þá fórum við loksins að fá pening í framleiðsluna. Þetta var sérstaklega erfitt því myndin er hreint ekki „kommersíel“ að upplagi, það var ljóst frá upphafi.“ Pessoa í henglum Þú talar um að argentínskar myndir séu per- sónulegar. Nú höfum við ekki séð stuttmynd- irnar þínar, og heldur ekki Sólo por hoy, þann- ig að við verðum að hafa þín orð fyrir eftirfarandi: Hver er þinn stíll? „Stíllinn, já. Mín nálgun er sú að ég byggi á því sem ég held að ég viti. Sérhver manneskja er með ákveðið sett af spurningum og efasemd- um sem hún rogast með allt lífið. Í raun er hægt að segja að sérhver leikstjóri sé alltaf að gera sömu myndina, því hann er alltaf að fást við þessar spurningar sínar. En það er allt í lagi, því drög að svörum eru mismunandi eftir því hvar við erum stödd á lífsleiðinni. Svo kallar hver mynd líka á sitt eigið form og þess vegna verða myndirnar á endanum ólíkar – þótt þær séu alltaf sama myndin. Sjálfur reyni ég að slíta ekki innra flæði sögunnar, ég reyni að setja stílinn, myndatökuna, ytra formið, skil- yrðislaust undir söguna. Og það held ég að hafi tekist í þessari mynd.“ Á fundi eftir frumsýningu varstu spurður um áhrifavalda og skyndilega voru allir – þú og blaðamennirnir – farnir að tala um ljóðskáld. Er það mjög argentínskt að rása áreynslulaust milli listgreina, að kvikmyndagerðarmenn vísi í ljóðskáld, að söngvarar vísi í málara…? „Allt sem við lesum og sjáum, býr okkur til. Og allt sem gerist í lífi okkar á sama tíma og við lesum, mótar okkur líka. Mín tilfinning er til dæmis að El Otro sé undir áhrifum frá Erik Sa- tie, af því hann hefur haft áhrif á mig. Fyrir þá sem ekki þekkja Satie, er hann franskt tón- skáld, snillingur með fjörutíu fingur. Og [Fern- ando] Pessoa, eins og ég sagði í gær, ég hef ver- ið með ljóðabók eftir Pessoa á náttborðinu mínu í fimmtán ár, hún er öll í henglum nátt- úrlega eftir þessa notkun, en oft vakna ég um miðja nótt, teygi mig í bókina, les eitt ljóð og líð svo aftur inn í svefninn. Og ást okkar á for- eldrum okkar, kossar frá kærustum okkar, allt hefur þetta áhrif á okkur á einhvern hátt.“ Aksjón, en samt ekki Senurnar þar sem höfuðpersónan baðar föð- urinn eru áhrifaríkar, bæði kómískar og hlýjar, og það þakkar Rotter ekki síst því að leikarinn Chaves hefur persónulega reynslu af því að sjá um hruman föður. Og raunar Rotter sjálfur, en hann var að eigin sögn of ungur til þess að axla ábyrgðina sem skyldi og glímir enn við sekt- arkennd af þeim sökum. Í bland við annað hefur einmitt verið sagt um El Otro að hún fjalli um tímann, sér í lagi þau áhrif sem tíminn hefur á mannslíkamann. „Ég held að þessi mynd hafi áhrif á okkur öll sem höfum horfst í augu við líkamlega hnignun for- eldra okkar,“ segir Rotter og bætir við: „Þetta er annars mjög karlmiðuð mynd, ég reyni að sýna hvað gerist innra með karlmanni sem fær fallegustu fréttir sem nokkur maður getur fengið – að hann eigi von á barni. Það kviknar hjá honum ótti, hann sér fyrir sér upphafið að endinum á eigin lífi. Líf ber alltaf í sér dauða, og það er sárt að gera sér grein fyrir því“. „Hinn“ er þá ekki endilega líkið í rútunni. Það getur verið ófædda barnið, hin konan, jafn- vel faðirinn…? Líf ber alltaf í sér El Otro „Þetta er annars mjög karlmiðuð mynd, ég reyni að sýna hvað gerist innra með karl- manni sem fær fallegustu fréttir sem nokkur maður getur fengið – að hann eigi von á barni.“ Julio Chaves leikur aðalhlutverkið í myndinni. Ariel Rotter er hæglátur, hálffertugur kvik- myndaleikstjóri frá Argentínu, sem laum- aðist fram í sviðsljósið á Berlinale, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín. Mynd hans, El Otro (Hinn) hlaut Grand Prix verðlaun dóm- nefndar, sem felast í Silfurbirni, og enn- fremur hlaut aðalleikarinn, Julio Chaves, Silfurbjörn sem besti karlleikari – en sagan er að öllu leyti sögð í gegnum persónulegar upplifanir hans. » ...ég reyni að sýna hvað gerist innra með karl- manni sem fær fallegustu fréttir sem nokkur maður getur fengið – að hann eigi von á barni. Það kviknar hjá honum ótti, hann sér fyrir sér upphaf- ið að endinum á eigin lífi. Líf ber alltaf í sér dauða, og það er sárt að gera sér grein fyrir því.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.