Lesbók Morgunblaðsins - 11.08.2007, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 11.08.2007, Blaðsíða 12
12 LAUGARDAGUR 11. ÁGÚST 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Jónas Sen senjonas@gmail.com T ónlistarlífið í Hallgrímskirkju hefur alla tíð verið til mikillar fyrirmyndar, bæði hvað varðar verkefnaval og gæði tónlistar- flutnings. Mörg frábær verk hafa verið frumflutt í kirkjunni og ótal framúrskarandi organistar haldið þar tónleika. Barokksveitin frá Den Haag, sem leikur á forfeður nútímahljóðfæra, hefur nokkrum sinnum boðið íslenskum tónlistarunn- endum upp á vandaða túlkun eldri tónsmíða og þeir tónleikar hafa ávallt verið vel heppnaðir. Loks er Kirkjulistahátíð, sem hefur verið hald- in annað hvert ár frá vígslu Hallgrímskirkju, með glæsilegustu og merkustu menning- arhátíðum landsins. Mikið verður um dýrðir í listalífinu á næst- unni því í dag hefst Kirkjulistahátíð enn á ný og er þetta ellefta hátíðin frá upphafi. Einn viða- mesti viðburðurinn á hátíðinni er h-moll messa Bachs, óneitanlega veglegt verkefni fyrir Mót- ettukór kirkjunnar, sem á 25 ára afmæli um þessar mundir. Að snilldarverki Bachs ólöstuðu er þó önnur tónsmíð enn áhugaverðari, en það er óratórían Ísrael í Egyptalandi eftir sam- tímamann Bachs, Georg Friedrich Händel. Hún hefur aldrei verið flutt hér á landi áður, a.m.k. ekki í heild sinni. Fyrsta upptaka sögunnar Ísrael í Egyptalandi á sérstakan sess í tónlist- arsögunni fyrir að vera það verk sem var fyrst hljóðritað á tónleikum en þeir voru haldnir árið 1888 í Crystal Palace í London. Hljóðritunin var gerð á vaxhólka og hafa nokkrir þeirra varðveist. Heyra má upptökuna á Netinu á eft- irfarandi slóð: http://www.nps.gov/archive/edis/ edisonia/very_early.htm. Eins og nærri má geta eru hljómgæðin slæm, enda var tónlistinni þrykkt beint á vaxið án hjálpar rafmagns, nema til þess eins að snúa hólkunum á jöfnum hraða. Engu að síður er gaman að heyra upptökuna, hún minnir mann á að vera þakklátur fyrir að geta hlustað á hágæða tónlistarupptökur hvar og hvenær sem er. Í kvikmyndinni Glenn Gould Hereafter, sem sýnd var á RÚV nýlega, sagði Gould, er var ávallt umvafinn tónlist, að hann hefði verið mjög óhamingjusamur ef hann hefði verið uppi mikið fyrir tíma upptökutækninnar. Vissulega eru neikvæðar hliðar á þessari endalausu tónlist í umhverfinu. Ipod-væðingin og síbyljan í útvarpinu hefur valdið því að við lifum í eins konar tónlistarlegum móðurkviði; tónlist er orðin hluti af hversdeginum og krefst ekki lengur sérstakrar athygli eða aðstæðna eins og að fara á tónleika. Maður getur því ver- ið þakklátur fyrir að fá tækifæri til að upplifa stemninguna á tónleikum þegar annað eins stórvirki og óratóría Händels er flutt. Það er einfaldlega ekki það sama og að hlusta á órató- ríuna í bílnum á leiðinni í vinnuna. Hvað er óratóría? Ísrael í Egyptalandi verður frumflutt hér á landi í Skálholtskirkju þann 17. ágúst og verður flutningurinn endurtekinn á lokatónleikum há- tíðarinnar í Hallgrímskirkju tveimur dögum síðar. Þar munu koma fram einsöngvararnir Robin Blaze, Kirstín Erna Blöndal, Elfa Mar- grét Ingvadóttir, Þórunn Vala Valdimarsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Alex Ashworth, Hrólfur Sæmundsson og Benedikt Ingólfsson, ásamt kórnum Schola cantorum og Barokksveitinni í Den Haag undir stjórn Harðar Áskelssonar. Eins og sjá má af þessum langa einsöngv- aralista á óratóría ýmislegt sameiginlegt með óperu, enda byggjast bæði tónlistarformin á einsöngvurum, kórköflum og hljómsveitarleik. Það eru meira að segja aríur í óratóríum. Mun- urinn er sá að ópera er einnig leikrit en óratóría er ætluð til flutnings á tónleikum. Orðið óra- tóría kemur úr latnesku; orare þýðir að biðja og á Ítölsku þýðir oratorio bænahús. Óratóría er því trúarlegt tónverk þar sem helgitexti er tón- settur. Vissulega er frásögnin oft sett í leik- rænan búning líkt og í óperu, en í óratóríum eru kaflar þar sem áheyrandinn er líkt og tek- inn út fyrir frásögnina, atburðarrásin er stöðv- uð og hún hugleidd. Inn í hugleiðsluna eru svo fléttaðar bænir. Óratóría er því nokkurs konar helgiathöfn sem hjálpar kirkjugestum að skilja og meðtaka æðri merkingu Biblíutextans. Händel, sem einnig var geysivinsælt óp- erutónskáld, var um margt brautryðjandi á sviði óratóríugerðar. Í Messíasi, frægustu óratóríu sinni, tókst honum á einstakan hátt að sameina rithátt enskrar kórtónlistar, lagstíl ítölsku óperunnar og þýska passíutónlist. Fram kemur í Sögu vestrænnar tónlistar eftir Chri- stopher Headington að þegar Messías var fyrst fluttur í Dublin, birtist í einu dagblaðinu þar í borg eftirfarandi klausa: „Þeir sem höfðu vit á, töldu verkið vera fullkomið. Menn áttu ekki til orð að lýsa stórkostlegri áorkan þess á hrifinn áheyrendaskarann. Háfleyg, ægifögur og blíð- leg tónlist, í samspili við upphafin, tignarleg og hjartnæm orð, gagntók og hreif hjörtu og eyru hlustenda.“ Þetta bendir til að Händel hafi lært eitthvað á því að semja Ísrael í Egyptalandi nokkrum árum áður, en viðtökurnar þegar sú óratóría heyrðist fyrst, sem var árið 1739 í London, voru ekki nærri því eins góðar. Sumir kvörtuðu há- stöfum undan frjálslegri meðferð á Biblíutext- anum, auk þess sem mörgum þóttu kórkafl- arnir vera alltof fyrirferðarmiklir. Händel notaði líka óspart hljómsveitina og tvöfaldan kór til að skapa ógnarlegt drama en að sama skapi var hlutverk einsöngvaranna veigalítið. Þetta féll ekki í kramið hjá tónleikagestum, sem voru að stórum hluta óperuunnendur. Eftir þessar viðtökur gerði Händel nokkrar tilraunir til að lagfæra óratóríuna. Upphaflega var hún í þremur köflum sem lýsa ánauð Ísr- aellýðs í Egyptalandi og frelsun þeirra en eftir frumflutninginn stytti Händel verkið um heilan kafla. Fyrsti kaflinn, sem ber heitið Harma- grátur Ísraels vegna dauða Jósefs varð að víkja, en hinir kaflarnir, Exodus og Söngur Móse urðu að fyrri og síðari hluta nýrrar út- gáfu verksins. Händel bætti að auki við nokkr- um aríum. Allt kom þó fyrir ekki og var það ekki fyrr en mörgum áratugum eftir dauða hans að verkið var loks metið að verðleikum. Núna er það nánast jafnvinsælt og Messías. Risastórir grautarpottar? Á Kirkjulistahátíð mun Barokksveitin í Den Haag taka þátt í flutningnum eins og áður hef- ur komið fram. Það er engin venjuleg kamm- ersveit; liðsmenn hennar spila á upprunaleg hljóðfæri; þverflautur úr tré, pákur líkist helst risastórum grautarpottum, fornfáleg horn með engum tökkum, o.s.frv. Þrátt fyrir forn- eskjulegt yfirbragð eru raddir þessara hljóð- færa þó oft mun fínlegri og mildari en úr nú- tímagerðum þeirra. Það var verulega gaman að heyra sveitina flytja Jólaóratóríu Bachs í Hallgrímskirkju fyr- ir nokkru. Gömlu hljóðfærin hafa vissulega ekki sama kraftinn og nútímahljóðfæri (svo maður tali nú ekki um þau sem eru rafmögnuð) en í voldugri endurómun Hallgrímskirkju var Jólaóratórían mun áhrifaríkari á gömlu hljóð- færin. Þau nýju skapa gjarnan of mikið berg- mál í kirkjunni; hjá Barokksveitinni var heild- arhljómurinn hins vegar þéttari og samfelldari en einnig mildari en maður á að venjast. Sér- staklega heillandi var hinn unaðslega ljúfsári strengjatónn sem passaði fullkomlega í hljóm- burði kirkjunnar. Þar skapaði hóflegt berg- málið furðulega nostalgískt andrúmsloft, hvernig sem á því stóð. Ævaforn hefð Það er einmitt þessi stemning fyrri alda sem er svo mikilvæg á tónleikum Kirkjulistahátíðar. Ekki aðeins er verið að gefa áheyrendum kost á að upplifa tónlistina eins og líklegt er að hún hafi hljómað á tímum Händels, heldur er einnig verið að undirstrika þá ævafornu hefð sem Ísrael í eyðimörkinni ÓRATÓRÍAN Ísrael í Egyptalandi eftir Georg Friedrich Händel verður flutt á Kirkjulista- hátíð í Skálholtskirkju þann 17. ágúst og verð- ur flutningurinn endurtekinn á lokatónleikum hátíðarinnar í Hallgrímskirkju tveimur dögum síðar. Hún hefur aldrei verið flutt hér á landi áður, a.m.k. ekki í heild sinni. Allir meðlimir hljómsveitarinnar byrjuðu feril sinn í þekktum barokkhópum í Evr- ópu, svo sem Barokkhljómsveitinni í Amsterdam, La Petite Bande, Anima Ae- terna, Hljómsveit upplýsingaraldarinnar, Freiburger Barockorchester, Orquestre de Champs Elysees, Les Arts Florissants, og fleiri. Þeir hafa lært hjá tónlistarfólki á borð við Ku Ebbinge, Barthold Kuijken, Sigiswald Kuijken, Wieland Kuijken, Jac- ques Ogg, Ryo Terakado, Margaret Ur- quhart og fleirum. Það var semballeik- arinn Alessandro Santoro sem stofnaði sveitina en stjórnandi er fiðluleikarinn Luis Otavio Santos. Hljómsveitin er skip- uð 25 manns, þar af fimm íslenskum hljóð- færaleikurum. Þetta er í fimmta skiptið sem hún kemur til Íslands til að leika í Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Ás- kelssonar og verður hljómsveitin hér í 12 daga við æfingar og tónleikahald, bæði í stærstu verkefnunum en kemur einnig fram í smærri einingum í öðrum dag- skrárliðum hátíðarinnar. Þegar er sam- starfið við barokksveitina farið að hafa áhrif í íslensku tónlistarlífi og gætir þeirra á Sumartónleikum í Skálholti og í barokkhópnum Nordic Affects. Alþjóðlega barokksveitin í Den Haag í Hollandi Ísrael í eyðimörkinni „Ef flutningurinn á slíku verki tekst vel, þá er áheyrandinn ekki samur á eftir.“ Verkið verður frumflutt í Skálholtskirkju 17. ágúst.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.