Lesbók Morgunblaðsins - 08.09.2007, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 08.09.2007, Blaðsíða 16
16 LAUGARDAGUR 8. SEPTEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók| bókmenntahátíð í Reykjavík Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is H vað verður um bókmennt- irnar þegar yfirgangur at- burðanna er svo mikill sem raun ber vitni? Tvær stærstu bókaútgáf- ur landsins sameinast og sú þriðja stærsta (nú reyndar önnur stærst) býður milljón í verðlaun fyrir handrit að söluvænlegum krimma. Heyra bókmenntirnar kannski bara sög- unni til? Eða eru þær raunverulegur atburð- ur? Er bókmenntaverk atburður sem hefur áhrif á líf okkar? Er það afrek, árangur, framkvæmd, einhvers konar sameining á kröftum eða sjóðum? Er með öðrum orðum hægt að taka bók- menntaverkið alvarlega þegar atburðarásin inniheldur sameiningar og milljónatilboð, hvað þá ofhitnun í hagkerfinu, ofhitnun í vistkerfinu, stigvaxandi fellibylji, stigvaxandi ofbeldi, stigvaxandi hatur og hraða þrátt fyrir daglegar tafir í umferðinni og tíðari skilnaði og tíðari ótímabærar verðhækkanir, hækkun hveitis um 17% og bensíns um tvær krónur, lækkun krónunnar og hækkun geng- isvísitölunnar? Hvert er eiginlega gengi bókmenntanna í þessum heimi? Úr sannleikanum í plastið Er von að maður spyrji? Aristóteles taldi að bókmenntir flyttu altækan sannleika um lífið og heiminn og kenndu dygðum prýddum mönnum að lifa jafnvel enn göfugra lífi. Af þessum sökum áttu þær heima í ríkinu það- an sem Plató hafði viljað úthýsa þeim. Ágústínus lagði einnig áherslu á sannleikann í bókmenntunum og nýplatónistar töldu skáldið miðla djúpri þekkingu og fegurð sem speglaði hið fagra samhengi alheimsins. Snorri Sturluson leit augljóslega á skáld- skapinn sem verkfæri til þess að koma skoð- unum sínum á framfæri, jafnvel styrkja völd sín, og það lærðu íslenskir sagnaritarar af honum. Hvað hefði Ísland annars verið án sagnaritaranna á fyrstu öldum byggðar? Ei- lítið síðar taldi Dante að skáldskapur væri leið til þekkingar og upp frá því fóru skáldin að slá meira um sig, þau gerðust fyrirferð- armeiri, vildu meiri athygli og völd. Bók- menntirnar skiptu máli, þær urðu að að- alvopninu í baráttu upplýsingarinnar fyrir betri heimi og fólk gein yfir öllu sem skáldin sögðu. Til að svara eftirspurn jusu þau úr sálarkirnum sínum, báru tilfinningar sínar á torg, breiddu úr sér, og ekki nóg með það heldur lofuðu þau og löstuðu eins og sá sem valdið hefur. Bókmenntirnar voru staður hins fagra og háleita, þær voru staður þekk- ingar og visku, þær voru staður innblásturs og snilldar, þær voru staður skoðana og hugmyndafræði. Þetta var í lok nítjándu ald- ar. Síðan hafa reiðinnar býsn verið skrifuð um bókmenntir – eðli þeirra, merkingu, hlut- verk – en á sama tíma virðast þær sjálfar hafa tapað gildi sínu í samfélaginu smám- saman. Og sem stendur virðast þær varla tilheyra mannlegu samfélagi heldur ein- hverju allt öðru tilverustigi. Þær eru varla raunverulegur atburður í lífi okkar. Þær eru einhvers konar hjáheimur, eða smáheimur sérkennilegra tákna sem engir skilja nema innvígðir. Þær virðast ekki koma mörgum við nema sem vara á markaði, þessa stuttu stund sem glitrar á þær í kastljósinu, inn- pakkaðar í plast. Listin er ekki sú sem hún var Eða hvað? Er sannleikurinn virkilega ekki lengur í bókmenntunum? Hegel lýsti því yfir fyrir meira en 150 ár- um að listin væri liðin undir lok, að hún til- heyrði sögunni. Síðan hefur þessi hugsun bergmálað í skrifum manna um víðan heim. Eins og Hegel hafa síðari tíma menn haldið þessu fram þrátt fyrir að sjá mikil verk í burðarliðnum. Hegel fylgdist með rómantík- inni ná hámarki og Goethe senda frá sér hvert stórvirkið á fætur öðru! Og auðvitað vissi hann eins og þeir sem á eftir komu að listaverk myndu halda áfram að verða til. En hann hafði á tilfinningunni að eitthvað vantaði og hið sama á við um okkur. Hegel sagði að listin væri ekki lengur frumþörf mannsandans. Það væri alveg sama hvað okkur þætti listaverk fallegt, við værum hætt að lúta höfði í lotningu. Að mati Hegels var list nútímans hreinlega ekki eins góð og list fornaldarinnar og þess vegna myndi hún aldrei hafa sama gildi fyrir mannsandann. Klemman sem Hegel setur okkur í er sú að nú þegar listin hefur glatað gildi sínu fyr- ir þróun mannsandans þá getur hún ann- aðhvort flutt okkur mikilvæg skilaboð eða verið okkur til skemmtunar. Listin verður hins vegar aldrei ómissandi sem skilaboða- skjóða eða skemmtun. Við getum nefnilega fengið skilaboðin með öðrum hætti – í heim- speki, vísindum og trú – og skemmt okkur með öðrum hætti. Nútímamanninum ferst það hins vegar vel úr hendi, að mati Hegels, að fjalla um list, fílósófera um hana. List á sífellt á hættu að vera smættuð ofan í ann- ars flokks heimspeki, sagði hann. Það er erfitt að andmæla hugmyndum He- gels. Sumir myndu sjálfsagt segja að listin sé ekki liðin undir lok heldur breytt, en það er einmitt boðskapur Hegels, listin er ekki sú sem hún var þegar við kiknuðum í hnján- um frammi fyrir fegurðinni. Tálmynd um stöðu listarinnar? Og tuttugasta öldin staðfesti það. Þá fóru listaverk í síauknum mæli að snúast um sjálf sig, að fjalla um listina. Listin varð sjálf- hverf. Innhverf. Hún þótti erfið, á köflum hrikalega flókin og fjarlægðist svokallaðan listunnandann. Bandaríski listheimspeking- urinn Arthur C. Danto sá ástæðu til að lýsa aftur yfir endalokum listarinnar á sjöunda áratugnum vegna þess að hún væri orðin að heimspeki um list. Um svipað leyti sagði franski bókmenntafræðingurinn Maurice Blanchot að bókmenntirnar væru horfnar inn í sjálfar sig. Og það hafi kostað ákveðið gengisfall á bókmenntunum í samfélaginu, menn sjái ekki hvaða hlutverki þær geti gengt í hinni tæknivæddu veröld og þeim breytingum sem eru að verða á hinni valda- miklu siðmenningu Vesturlanda. En þótt bókmenntirnar virðist ekki spila mikla rullu í gangvirki háþróaðra samfélaga þá hafa stofnanirnar í kringum bókmenntir jafnt sem aðrar listir vaxið og dafnað, út- gáfufélögin hafa orðið stærri, listasöfnin glæsilegri, hátíðirnar fleiri og stærri, verkin miklu fleiri og jafnvel umfangsmeiri en nokkru sinni, listamennirnir og rithöfund- arnir hafa heldur aldrei notið meiri vin- sælda, þeir hafa aldrei staðið styrkari fótum á markaði, þeir hafa aldrei verið ríkari að veraldlegum gæðum. Þetta virðist undarlega þversagnarkennt og villir ef til vill sýn á raunverulegt mik- ilvægi bókmennta og lista – gæti þessi yf- irborðsmynd verið eins konar tálmynd um stöðu listarinnar? Póstrómantík Ég fer í fótspor margra þegar ég rek þessa sögu. Þeir sem ritað hafa menningarsögu síðustu alda og áratuga hafa oft verið ansi súrir, svartsýnir, gagnrýnir og auðvitað írón- ískir um stöðu listarinnar. Þráður róm- antískrar upphafningar á bókmenntunum hefur þó aldrei slitnað: Trúin á að þær geymi samræmi lífsins í djúpum sínum, trú- in á tilgang þeirra, merkingu þeirra og mik- ilvægi fyrir mannsandann. Trúin á að þær geti lýst upp heiminn. Trúin á að þær komi á tengslum við samtímann sem öll önnur þekking, tæknileg sem vísindaleg, byggist á. Þennan þráð má meðal annars finna í skrif- um Blanchot. Og hann hefur einnig gengið í gegnum íslensk bókmenntaskrif – meðal annars í hugmyndum um mikilvægi bók- menntaarfsins – en sjaldan verið jafn áber- andi og síðustu ár. Það mætti tala um póst- rómantíska bylgju sem birtist í viðhorfum jafn ólíkra höfunda og Jóns Kalmans Stef- ánssonar, Eiríks Guðmundssonar og Matt- híasar Johannessen, sem allir hafa fjallað um að skáldskapurinn sem slíkur, óháð hversdagsumræðu eða pólitík, hafi mikið er- indi í samtímanum, en einnig í starfi Nýhil- hópsins svokallaða sem birti eins konar ekki- stefnuyfirlýsingu í vorhefti Skírnis á síðasta ári þar sem hópurinn er kallaður „fæðing- ardeild hins nýja í íslenskum bókmenntum“ og varla hægt að hugsa sér rómantískara upplegg. Nýhilhópurinn lét það ekki trufla þetta rómantíska æði að skömmu áður en greinin birtist hafði hann gert samning við Landsbankann um kaup á ljóðabókaseríunni Norrænar bókmenntir. Frumleikinn er ekki lengur í stórhættu þó að fjármagnið daðri við hann en sú var tíð að þetta þótti eitruð blanda. Nýhilingar tala reyndar um að listin hafi „afpólitíserast“ sem er einnig afar róm- antísk hugmynd, listin er óháð, hafin yfir hagsmuni. Þetta viðhorf hefur einnig mátt sjá í afstöðu svokallaðrar krúttkynslóðar sem einkum hefur verið nefnd í tengslum við tónlist og myndlist. Hún hefur staðið í sinni list af djúpri einlægni og þvílíku skeyting- arleysi um bæði pólitískt og efnahagslegt umhverfi sitt að nálgast hroka. Fyrir vikið hefur hún öðlast ekki aðeins listrænt heldur líka pólitískt (og sumir hverjir að minnsta kosti efnahagslegt) sjálfstæði og mikilvægi. Svarið við þeirri spurningu sem varpað var fram í byrjun greinar um það hvort bók- menntirnar mættu sín einhvers nú þegar yf- irgangur atburðanna er svo mikill sem raun ber vitni er því tvímælalaust þetta: Bók- menntirnar segja sína sögu hvað sem öllum atburðum líður. Tíu íslenskir höfundar taka þátt í Bókmenntahátíðinni að þessu sinni með eftirfarandi hætti. Steinunn Sigurðardóttir les upp á sunnudag. Linda Vilhjálmsdóttir og Bragi Ólafsson lesa á mánudag. Einar Már Guðmundsson les á þriðjudag. Andri Snær Magnason og Guð- bergur Bergsson lesa upp á miðvikudag. Þórdís Björnsdóttir og Jón Kalman Stefánsson lesa upp á fimmtudag. Guðrún Helgadóttir og Arnaldur Indriðason lesa upp á föstudag. Allir upplestrarnir eru í Iðnó og hefjast kl. 20. Yngst þessara höfunda og minnst þekkt er Þórdís Björnsdóttir (f. 1978) en hún er höf- undur þriggja ljóðabóka og sendir í haust frá sér bókina Saga af bláu sumri, sem er henn- ar fyrsta skáldsaga. Ljóð Þórdísar einkennast af gotnesku og ævintýralegu myndmáli þótt stíllinn sé einfaldur. Fyrsta bók Þórdísar, Ást og appelsínur (2004), er samfelld myndræn lýsing kvenkyns ljóðmælanda á ofbeldisfullum og gróteskum ástaratlotum við aðra persónu. Nýjasta ljóðabók Þórdísar, Í felum bakvið gluggatjöldin (2007), er safn af dökkum og draumkenndum ljóðum. Bókmenntirnar segja sína sögu Hvert er eiginlega gengi bókmenntanna í þessum heimi? Skipta þær máli? Eða eru bók- menntirnar horfnar inn í sjálfar sig? Týndar í goðsagnakenndri þoku tuttugustu ald- arinnar? Svarið liggur ekki í augum uppi en kynni að vera falið í afturhvarfi til róm- antíkur nítjándu aldarinnar. Linda Vilhjálmsdóttir Þórdís Björnsdóttir Guðrún HelgadóttirBragi Ólafsson Arnald Indriðason Jón Kalman Stefánsson Tíu íslenskir höfundar

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.